20.1.2009 | 19:13
I can get no satisfaction.
Ofangreint er nafn á stöku í tilefni af aðgerðum, sem ráðgerðar voru á Suðurland vegna fjárnáms 370 manna:
Óttinn vex nú út af margri skuldinni
og menn gráta í kór
því lítinn kall í lúðrasveitarbúningi
langar að verða stór.
P.S. Þriðja hendingin í þessari stöku eru fengin að láni úr orðasarpi Sigurjóns Jónssonar hagyrðings fyrir austan og vona ég að hann sé sáttur við það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.1.2009 | 11:05
Sumir eru jafnari en aðrir.
Í hreinustu útgáfum kommúnisans og kapítalismans, blóðrauðum annars vegar og heiðbláum hins vegar, er grunntónninn: Allir skulu vera jafnir.
Í kommúnismanum kom fljótlega í ljós að "alræði öreiganna" fólst í alræði nýrrar yfirstéttar flokkseigendanna og alræði eins manns á endanum. Þessi nómenklatúra fitnaði á forréttindum sínum á sama tíma og milljónum mannslífa var fórnað og þjóðin lifði við kúgun.
Þeir sem voru jafnari en aðrir brunuðu á sérsmíðuðum limmum eftir sérstökum akreinum og lifðu í vellystingum í stórum sumarhúsum. Þeir gátu höndlað með verðmæti þjóðarinnar að vild sinni.
Í hinum helbláa kapítalisma heitir það að allir hafi jöfn tækifæri til að láta ameríska drauminn rætast. Allt á að fara best þegar hver einstaklingur tekur áhættuna af gerðum sínum og stendur eða fellur með ákvörðunum sínum.
En sumir hafa reynst jafnari en aðrir. Nú kemur í ljós að sumir þurftu ekki að taka neina áhættu og þegar hætta steðjaði að gátu þeir fundið út úr því leið sem færði þeim aukin auðæfi. Þeir gátu spilað þannig úr spilum sínum að annað hvort stórgræddu þeir eða veltu öllu tapinu yfir á aðra.
Vilhjálmur Bjarnason kallaði þetta "bankarán innan frá" í Kastljósi í gærkvöldi.
Flugstjórinn á Airbus þotunni sem nauðlenti á Hudson-ánni fór síðastur frá borði. Í hans sporum hefðu hinir ósnertanlegu íslensku fjármálasnillingar skotið sér strax út í fallhlíf og látið hina um borð um að taka á sig skellinn.
![]() |
Milljarðalán án áhættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.1.2009 | 19:31
Arfur frá frummanninum.
Það að ríkir menn seiði til sín konur og heilli þær er eitt elsta fyrirbrigðið í mannlegu eðli og á rætur að rekja allt aftur til frummanna, apa og dýra samkvæmt rannsókn fyrir 20 árum, sem leiddi í ljós að ástæða þess að hermenn heilla konur er sú að í eðli konunnar sé tilhneiging til að halla sér að karlmönnum með vald til að verja þær og börnin.
Aldur skipti minna máli. Byssa og hermannabúningur sé tákn um vald. Svipað gildir þá væntanlega um ríka menn og fræga.
Auk þess sé þetta ráðstöfun náttúrunnar til að tryggja að þeir, sem skari fram úr, auki frekar kyn sitt en aðrir.
Enn ein rannsóknin hefur leitt í svipað í ljós, sem sé að karlar sem njóta velgengni séu ákafari í ástamálum og kynlífi en aðrir.
Svo aftur sé vikið að fyrstnefndu rannsókninn,i sem var aðalgrein Time hér um árið, útskýrði hún "gráa fiðringinn" hjá karlmönnum. Karlmaðurin sækist nefnilega eftir konu sem er ung og hraust og því líklegri til að ala af sér hraust börn og annast þau en eldri konur.
![]() |
Ríkir menn betri í rúminu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
19.1.2009 | 19:13
Ekkert nýtt í umhverfismálum.
Nýkjörinn formaður Framsókinarflokksins virðist ekki hafa neitt nýtt að boða í umhverfismálum annað en gömlu frasana um að "virkja í sátt við náttúruna", en það er nákvæmlega það sem flokkurinn hefur talið sig vera að gera undanfarinn áratug, - Kárahnjúkavirkjun meðtalin.
Sigmundur Davíð lagði meira að segja áherslu á að vinna vegna áætlana um nýs verksmiðjurekstrar gengi of hægt. Nefndi að vísu dæmi um verksmiðjurekstur, sem hefði verið mun skárri en álver en að öðru leyti gerði hann ekki undantekningar, til dæmis varðandi óánægju flokksfólks hans á norðausturlandi vegna mats á umhverfisáhrifum virkjana vegna álvers á Bakka.
Sigmundur sagði að Framsóknarflokkuriknn legði áherslu á landgræðslu og skógrækt en hvergi örlar á nýrri sýn varðandi beit á afréttum landsins, sem sumir hafa ekki verið beitarhæfir.
Þegar Steingrímur Hermannsson varð landbúnaðarráðherra fyrir þrjátíu árum lagði hann til að beit afrétta yrði löguð eftir ástandi þeirra og bændum hjálpað til þess. Hann segir í ævisðögu sinni að bændasamtökin og landsbyggðarþingmenn hafi strax beitt öllu afli sínu til að kæfa þessar skynsamlegu hugmyndir í fæðingu.
Ekki er hægt að sjá annað en að Framsóiknarflokkurinn verði áfram flokkur kvóta og ósjálfbærrar orkunýtingar með tilheyrandi náttúruspjöllum.
Hugsanlega verður til lítils að skipta í andlit í forystunni ef hinir nýju forystumenn verða fangar gömlu hagsmunanna sem ráða ferðinni í flokknum.
P. S. Nú sé ég og heyri í Kastljósi að Sigmundur Davíð er eindreginn fylgjandi risaálverunum í Helguvík og á Bakka og segir þau hafa lítil umhverfisáhrif. Mikið vildi ég óska að hann kynnti sér eðli virkjananna, umfang og spjöll af þeirra völdum jafn vel og hann hefur kynnt sér húsafriðunarmál.
![]() |
Vill færa flokkinn frá hægri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.1.2009 | 14:24
Nei,hvað segið þið, "eitthvað annað" ?
Eitt höfuðeinkenni þenslutímans, sem hófst með Kárahnjúkavirkjun, var alltof hátt gengi krónunnar sem viðhélt þenslu og framkvæmdum og eyðilagði fyrir öðrum möguleikum til atvinnusköpunar, - ruddi öllu öðru frá.
Stóriðju-, virkjana- og þenslufíklarnir, sem réðu þessari feigðarför, hrópuðu háðslega að þeim sem andmæltu græðgisstefnunni: "Það þýðir ekkert fyrir ykkur að benda á "eitthvað annað !"
Þeir sem réðu ferðinni í spilavíti íslensks efnahagslífs gáfu sjálfum sér nær óvinnandi forskot með því að raða háspilum hágengis krónunnar og dæmalausrar skuldasöfnunar á eigin hendi og hæddust síðan að þeim sem þeir ýttu í burtu og beittu í raun rangindum.
Um þetta gilti eins og í ljóði Steins Steinars: "Það er nefnilega vitlaust gefið."
En nú er spilavítið hrunið og nýtt landslag og möguleikar að birtast til byggingar annars konar starfsemi á rjúkandi rústunum.
Í kreppunni miklu á fjórða áratugnum kom Roosevelt fram með stefnuna "New Deal", nýja uppstokkun spilanna. Það þarf að gerast nú á öllum sviðum.
![]() |
Ísland eitt það heitasta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
19.1.2009 | 14:13
Deilan sem ekki vinnst með stríði.
Hvorugur deiluaðilinn, Ísraelsmenn eða Palestínumenn, geta unnið sigur í deilu sinni með hervaldi.
Þótt Ísraelsmenn hafi margfalda hernaðarlega yfirburði eins og sést á mannfallinu, 100 á móti 1, geta þeir ekki sigrað með hervaldi nema að ganga enn harðar að Palestínumönnum en þeir hafa gert hingað til og beita aðferðum í ætt við þær sem nasistar beittu gegn Gyðingum á sinni tíð.
Með hverri hernaðaraðgerð á borð við þá sem þeir hafa beitt undanfarnar vikur, auka þeir hatur Palestínumanna og minnka þannig líkur á að þeir gefist upp eða semji. Þvert á móti harðna Hamas-menn og íbúar á Gasa í andstöðunni eftir því sem Ísraelsmenn ganga harðar fram.
Palestínumenn geta ekki unnið sigur á ofureflinu með hervaldi. Eina leiðin til friðar er í gegnum samninga sem þó fást ekki fram nema að Bandaríkin og umheimurinn setji þau skilyrði sem duga til að knýja fram lausn og leggi fram mannafla og aðstoð til að viðhalda friðnum og hefja uppbyggingarstarf.
![]() |
Hóta að vopna Hamas að nýju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2009 | 00:16
Bjarga karlarnir ?
Er hægt að leita skýringa á því að það eru ungir karlar sem ætla að bjarga Framsóknarflokknum ? Hvers vegna rýrnar hlutur kvenna í forystu flokksins þegar viðleitni er til að hressa hann upp ?
Gæti skýringin verið sú að þær tvær konur, sem hafa verið í forystunni og ráðherraliðinu hafa verið "þægar" ?
Siv Friðleifsdóttir var "þæg" þegar hún úrskurðaði um Kárahnjúkavirkjun til að vera í náðinni.
Valgerður Sverrisdóttir var stórkarlalegri í stóriðjuæðinu en nokkur karl hefði getað orðið.
Engar konur virðast í sjónmáli í flokknum sem geta komið í staðinn fyrir Siv og Valgerði hvað völd snertir en gætu jafnframt haft meiri áhrif til breytingar á stefnunni en þær stöllur.
Þetta verður vandi flokksins. Nú rís upp fjöldi kvenna sem lætur að sér kveða vegna nauðsynjar á endurreisn og umbyltingunni sem hið nýja Ísland krefst. Þær konur eru ekki við stjórnvölinn í Framsókn og það eitt dregur úr aðdráttarafli flokksins, hvernig sem stefnan verður.
![]() |
Birkir Jón Jónsson nýr varaformaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
18.1.2009 | 16:00
"Staggering lack of information..."
Þetta voru orðin sem höfundar skýrslunnar um hættuna á bankahruni í apríl 2008 viðhöfðu í Silfri Egils um ástandið hér nú, - "hrikalegur skortur á upplýsingum."
Í stað þess að ráða strax vaska sveit erlendra sérfræðinga til að fara ofan í saumana á málinu hafa Geir og vinir hans þvælst um brunarústir hins hrunda húss og þyrlað upp ryki sem enginn sér í gegnum, svo að notuð sé sama samlíking og Geir notar sjálfur í Morgublaðsviðtalinu í dag.
Að láta Íslendinga rannsaka sjálfa orsakir brunans er á skjön við reynslu fyrri tíma.
Máttlausum og fumkenndum starfsaðferðum stjórnvalda er hægt að líkja við það að vanmegna slökkvilið feli sjálfu sér og brennuvörgunum, sem sumir eru innan þeirra eigin vébanda, að komast að hinu sanna um hrunið og grípa til viðeigandi aðgerða.
P.S. Það var athyglisvert að heyra skýrsluhöfunda segja frá því bankarnir hefðu tekið ábendingum, meðal annars um tafarlausa ósk eftir aðstoð IMF, af áhuga en stjórnvöld ekki. Stjórnvöld kenna bönkunum um hrunið en það er ekki hægt að sjá annað en að stjórnvöld beri enn meiri ábyrgð á því.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.1.2009 | 15:36
Vonarneisti um breytingar.
Ég segi: Til hamingju, minn gamli samstarfsmaður á fréttastofu Sjónvarpsins sem svo gaman var að vinna með.
Þú ert fyrsti vonarneistinn sem kviknar hjá mér um það að hægt verði að koma flokknum þínum í meðferð og inn á rétta braut.
En þín bíður gríðarlega erfitt verkefni, næstum ofurmannlegt, svo rotnir voru innviðir flokksins orðnir og svo flæktir voru flokkmenn í kerfi og stefnu flokksins sem ásamt Sjállfstæðisflokki og Samfylkingu ber mesta ábyrgð á eyðileggingunni sem orðið hefur á svo mörgum sviðum undanfarin ár.
í húsafriðunarmálum erum við samherjar. Ég hef ekki séð ennþá stefnu flokksins í umhverfis- stóriðju- og virkjanamálum og veit því ekki hvort flokkurinn er enn hóti skárri á þeim sviðum en fyrr.
Draugar fortíðarinnar verða ekki allir kveðnir niður með kosningu eins manns. Vonandi tekst þér vel til.
P. S. Nú er ljóst að þeir sem mest voru flæktir í fortíð flokksins guldu þess á flokksþinginu og er það vel. Hugsanlega verður Siv Friðleifsdóttir eina persóna okkar samtíðar sem verður á spjöldum sögunnar eftir þúsund ár, vegna þess að hún tók það á sig fyrir formann sinn að taka ein ábyrgð á því hervirkii sem blasa mun við um aldir og árþúsund okkur til skammar. Hún hefur vafalaust haldið að með þessu hefði hún tryggt sess sinn innan flokksins og verða umbunað fyrir en nú hefur annað komið í ljós sem betur fer.
![]() |
Sigmundur kjörinn formaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.1.2009 | 15:25
Flæktur í fortíð flokksins.
Það kann vel að vera að Páll Magnússon hafi viljað umbreyta Framsóknarflokknum og haft langmesta pólitíska reynslu af frambjóðendum og kunnugur innviðum Framsóknarflokksins. En á hinn bóginn er hann mest flæktur af frambjóðendunum í fortíð flokksins.
Hann hefur verið innsti koppur í búri hjá ráðamönnunum sem komu flokknum þangað sem hann er kominn nú samanber starf hans sem aðstoðarmaður ráðherra. Um stóriðju- og virkjanastefnu hans þurfti ekki að efast sem fólst í því að hleypa hér af stað þenslunni í bland við ábyrgðarlausa lýðskrumsstefnu í húsnæðislánum.
Af þessum sökum var Páll greinilega síst líklegur til þess af frambjóðendum að standa fyrir þeirri uppstokkun hjá Framsóknarflokknum sem fulltrúar á flokksþinginu vildu.
Niðurstaðan kemur raunar á óvart miðað við blinda þjónkun Framsóknarmanna hingað til við hið gamla flokkseigendavald en kannski ekki svo mikið á óvart miðað við straumana í þjóðfélaginu.
![]() |
Páll: Niðurstaðan kom á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)