Mæðrastyrksnefnd í febrúar-maí.

Þegar diskurinn "Birta - styðjum hvert annað" var gefinn út fyrir jólin og ég átti samtöl við fólk út af honum, hafði ég á orði að hann væri kannski ekki endilega hugsaður sem jólaflyrirbæri, - það myndi verða meiri þðrf fyrir stuðning og uppörvun í anda þessa disks flyrir mæðrastyrksnefnd á útmánuðum og í vor.

Því miður stefnir í að þetta verði svona og að dýfa kreppunniar muni vaxa að minnsta kosti til sumars. Heimskreppan á fjórða tug aldarinnar óx fyrstu þrjú árin eftir hrunið í nóvember 1929 og önnur dýfa kom á árunum 1937-39. Menn tala um að tækni og þekkning 21. aldarinnar geti gert þetta skárra nú en reynsla fyrstu mánaða kreppunnar nú, að ekki sé minnst á aðdraganda hennar, sýnir hvað menn eiga erfitt með að sjá hlutina fyrir.

Roosevelt Bandaríkjaforseti kallaði aðgerðir sínar "New Deal", eða Nýja uppstokkun þar sem griipið yrði til róttækra aðgerða umbóta og samhjálpar til að lágmarka tjónið af kreppunni. Ekkert bólar á uppstökkun hér og heldur ekki á markvissum aðgerðum, enda liggur hvorki fyrir niðustaða um umfang skuldanna og helstu stærðir málsins né bitastæð hugmynd um leið út úr vandanum.

Sem dæmi um þetta má nefna að á borgarafundi á mánudag talaði Ágúst Ólafur Ágústsson um að skilanefndir bankanna væru að störfum. Engar upplýsingar hafa enn fengist um störf þeirra 100 dögum eftir hrun og gagnsæi þeirra aðgerða er orðin tóm.

Þvert á ráðleggingar Görans Persons á í samstarfinu við AGS að velta meginvandanum yfir á 2010 í stað þess að skilgreina vandann til hlítar sem fyrst og ráðast að honum strax á þessu ári til fulls. Næstu fjórir mánuðir munu skera úr um það hvort hér verður meira og jafnvel algert hrun og upplausn.

Ekki örlar á vilja stjórnvalda til uppstokkunar. Það er enginn "New Deal" í sjónmáli. Sama taplið 14:2-stjórnmálanna á að vera inni á vellinum, engum skipt út af.

P.S. Diskurinn "Birta - styðjum hvert annað með níu lögum um land og þjóð, æðruleysi, kjark og samhjálp fæst hjá Skífunni, Smekkleysu, Olís og í Bónus og hver einasta króna, 1299 af hverjum diski, rennur beint til Mæðrastyrksnefndar.


mbl.is Gengi hlutabréfa lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar marktækt vitni að íkveikjunni sjálfri ?

Þetta mál er dæmi um aðstöðuleysi og þar með máttleysi löggæslunnar. Maður hótar í votta viðurvist að brenna fólk inni og hellir eldsneyti á fyrirhugaðan brunastað en samt er víst ekkert hægt að gera.

Stundum hefur verið sagt að ekki sé hægt að sanna íkveikju nema að koma að hinum grunaða með logandi eldspýtuna og sjá hann kveikja í. Það sé yfirleitt ekki hægt eftir á. Vantar vitni að verknaðinum.

Í þessu tilfelli var maðurinn búinn að gefa yfirlýsingu um að hann ætlaði að kveikja í en samt var það sennilega of dýrt eða ekki mannskapur til þess að vakta staðinn og sjá hann koma með eldinn og leggja hann að eldsmatnum.

Kannski verður Spaugstofan með þá Grana og Geir á laugardaginn þegar Grani segir:" Förum í burtu svo að maðurinn fái frið til að kveikja í því það er ekki hægt að handtaka hann nema en við höfum sönnunargögn um að hann hafi gert það."

Raunar veit ég ekki betur en að lögreglan fjarlægi ölvaða menn og setji í steininn og sömuleiðis varðar það við lög að hafa í hótunum við fólk.

En nú verður væntanlega betra að eiga við málið eftir að maðurinn kveikti í. Og þó, samanber það sem vitnað var í hér að ofan að það verður bókstaflega að koma að brennuvarginum með eldspýturnar eða sígarettuna í höndunum og standa hann að íkveikjunni til þess að hægt sé að sanna á hann verknaðinn.

P.S. Í athugasemd við þetta blogg er bent á að stúlka hafi orðið vitni að íkveikjunni. Ef svo er vaknar samt spurningin um hvort hún sé marktækt vitni. Ljóst er að þeir sem áttu heima þarna eða þekktu til höfðu andúð á manninum og skal svo sem engan undra.

Vonandi verður hægt að halda honum í gæsluvarðhaldi uns hægt verður að ákæra hann því að maður spyr sig að því hvort maður sem gefur yfirlýsingar um að vilja brenna fólk inni eigi að fá að ganga laus, jafnvel þótt enginn skuli teljast sekur fyrrr en sök hann sannast.

En þótt við höfum slökkvilið hefði kannski verið betra að kostað hefði verið til eftirlits með húsinu.


mbl.is Kveikti í húsi eiginkonunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannleg hegðun.

Hegðun dýra og manna og jafnvel trúarbrögð og þjóðfélagskerfi manna mótast af aðstæðum. Nú hafa með hruninu verið skapaðar aðstæður til þess að loksins sé ekki lengur mesti viðskiptahalli í heimi á Íslandi.

Fólk hegðar sér eftir aðstæðum. Trúarbrögð og stefnur sem fara á skjön við aðstæður og mannlegt eðli leiða til ófarnaðar.

Ég átti skemmtilegt viðtal á dögunum um mannlega hegðun við Konráð Olavsson, fyrrum atvinnumann og landsliðsmann í handbolta. Konráð er mágur dóttur minnar og við vorum í afmælisveislu dóttursonar míns.

Ég var að rifja það upp hvernig handboltinn var í gamla daga þegar viðurlög við brotum voru mun minni en nú og til dæmis ekki dæmdar leiktafir.

Niðurstaða okkar var sú að reglur sem byggðust á bláeygu trausti á því að allir leikmenn og keppnislið sýndu ávallt prúðan, drengilegan og sanngjarnan leik stæðust ekki heldur leiddu þvert á móti til ruddalegri og ósiðlegri leiks sem skaðaði íþróttina og það gagn og gleði sem af henni mætti hafa.

Það er lögmál í íþróttum að leikmenn ganga oftast eins langt og reglurnar og dómarinn leyfa. Án reglna og góðra dómara eyðileggst leikurinn. Þess vegna hafa reglurnar af fenginni reynslu verið hertar í tímans rás og þeim fylgt fastar eftir.

Íslenskir ráðamenn virtust halda að annað gilti í keppni í íþróttum heldur en í fjármálum og þjóðmálum.

En nú er á enda tímabil sem erlendis verður kennt við Thatcher og Reagan. Afleiðingarnar eru hörmulegar af hinni blindu trú þeirra og fylgismanna þeirra á skefjalaust frelsi.

Þau gleymdu tvennu: Óheft frelsi eins getur skert frelsi annarra og það er ekki hægt að ganga fram hjá mannlegu eðli, hvorki í kommúnisma, kapítalisma né neinum öðrum trúar- eða stjórnmálastefnum.

Stundum sýna dýr skynsamlegri hegðuni en menn. Í yfirlæti okkar köllum við það reyndar eðlisávísun hjá þeim en ekki skynsemi. Dæmi um slíkt hafa verið sýnd í fræðslumyndum, svo sem þegar tvö dýr gera upp sakir með því að takast á.

Hjá mörgum dýrategundum er aðdáunarvert að horfa á hvernig "skynlausar skepnur" gæta þess að ganga ekki of langt í slíkum uppgjörum. Bara að menn hefðu nú alltaf vit á slíku.


mbl.is Metafgangur af vöruskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnugt fyrirbæri.

Það er ekki nýtt fyrir mér að vinir aðvari "óþæga" við afleiðingum þess ef þeir tali of opinskátt um hlutina. Sjálfur upplifði ég það fyrir 5-6 árum að vinir mínir heyrðu af því að brugguð væru launráð gegn mér sem myndu koma mér illa nema ég héldi mig á mottunni. Í þjóðfélagi þöggunar og ótta svínvirkar þessi aðferð sem ég lýsi betur í bloggi hér á undan.

Ingibjörg Sólrún er maður að meiri að staðfesta orð Sigurbjargar og ef ég á um tvo kosti að velja vil ég frekar taka þær útskýringar hennar gildar að hún hafi frekar meint þetta sem heilræði en hótun.


mbl.is Ingibjörg Sólrún kom boðum til Sigurbjargar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Heilræði" Ingibjargar Sólrúnar.

Nú hefur hulunni verið svipt af "slúðrinu" á borgarafundinum í gærkvöldi sem Jónas Kristjánsson kallaði svo fyrr í dag. Það var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem sendi Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur "heilræði" sem fólust í því, að því er Ingibjörg segir, um að Sigurbjörg skyldi tala varlega á fundinum, - það væri best fyrir hana sjálfa.

ingbjörg segist hafa gefið Sigurbjörgu þessi heilræði af velvilja en alls ekki sem hótun. En það er stutt á milli velviljaðra heilræða og hótunar á borð við það að halda sig á mottunni, - annars hefði viðkomandi verra af.

Berið saman þessar tvær setningar: "Farðu varlega, það er þér sjálfri fyrir bestu" og "haltu þig á mottunni, annars hefurðu verra af."

Ingibjörg Sólrún er hér í hlutverki sem ég kannast við af ferli mínum, þar sem góðir vinir mínur lentu í þeirri aðstöðu að aðvara mig vegna þess að þeir hefðu fengið vitneskju um að mér væru brugguð launráð sem myndu fara illa með mig ef ég færi ekki "varlega."

Vinir mínir gerðu þetta í góðri trú um að þeir væru að ráða mér heilt af velvilja.

En í þjóðfélagi þöggunar og ótta svínvirkar svona aðferð og hún virkar allra best þegar allir eru orðnir meðvitaðir um það að "fara varlega" og "vera þægir" eins og ég lýsi í öðru bloggi frá því fyrr í dag.

2003 lá fyrir að Davíð Oddsson hafði refsað eða hótað Sverri Hermannssyni, Erni Bárði Jónssyni, umboðsmanni Alþingis og Þjóðhagsstofnun þannig að ekki þurfti annað en "slúður" og kviksögur eftir það til að hræða fólk frá því að tjá sig eða gera eithvað sem það héldi að væri ekki hæstráðandanum þóknanlegt.

Ég veit um dæmi þess að þegar einhver sýndist ætla að verða "óþægur" fóru að berast honum til eyrna sögur um það hvernig til dæmis hæstráðandinn sendi menn út af örkinni með orðunum: "farðu og finndu eitthvað á hann."

Allir voru orðnir svo meðvitaðir um þetta að ákveðin samhjálp var komin í gang til að forðast refsingu hæstráðandans.


"Vertu þægur". "Sjálfum þér fyrir bestu."

Reglan í blaðamennsku er sú að forðast sé að vitna í einkasamtöl, einkum þau sem beðið er um trúnað í. Ef báðir aðilar að einkasamtalinu samþykkja birtingu er málið auðleyst. Stundum er eðli máls sant slíkt, svo sem eins og í þjóðfélagi þöggunar og ótta að ekki er hægt að una við þrýsting eða hótanir. Slíkt á erindi við alla þjóðina.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir upplýsti um slíkt í borgarafundi í gærkvöldi. Það var rétt hjá henni að nafngreina ekki ráðherrann en eftir situr að einhver hinna ellefu hafi beitt hana þrýstingi.

Þeim ráðherrum, sem ekki áttu hlut að máli, það kann að þykja slæmt að sitja undir slíku en ég tel vega þyngra að Sigurbjörg hafi upplýst um það hvernig hún fékk skilaboð um að "tala varlega, það væri henni fyrir bestu." Það er ekkert einkamál ráðamanna að stunda slíka pólitík.

Í þessum skilaboðum, ef rétt er eftir haft, fólst hótun um það að Sigurbjörg skyldi annars hafa verra af.

Sjálfur fékk ég slík skilaboð frá einum af ráðherrunum meðan ég var fréttamaður hjá Sjónvarpinu. Eftir sjónvarpsviðtal við ráðherrann tjáði hann mér einslega frá óánægju vegna meintrar hlutdrægni minnar í starfi og misnotkun á aðstöðu minni.

Ég fræddi ráðherrann um að sérstök rannsókn hefði leitt í ljós að þessar ásakanir hefðu ekki átt við rök að styðjast.

"Allt í lagi," sagði ráðherrann. "Það vissi ég ekki. Ef svo er skulum við láta þetta liggja milli hluta í bili, en mundu það, Ómar minn að vera þægur."

Ég greindi frá þessu í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" sem dæmi um þann þrýsting og dulbúnu hótanir sem beitt væri í þjóðfélagi þöggunar og ótta.

Bæði ég og kona mín fengum skilaboð þess efnis að ég skyldi "vera þægur, það væri okkur báðum fyrir bestu. Ég fékk þau margsinnis."

Orðalagið sem Sigurbjörg greindi frá er kunnuglegt. Fyrir fimm árum greindi ég opinberlega frá þöggun þess tíma en fólki virtist láta sér það í léttu rúmi liggja og una við þetta ástand ótta og þvingunar.

Nú stígur fram fólk sem loksins er nóg boðið. Það stóð upp úr í mínum huga eftir borgarafundinn í gærkvöldi.


mbl.is Guðlaugur kemur af fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmur útsendingartími.

Franklin Delano Roosevelt Bandaríkjaforseti 1933-45 hefur verið í miklum metum hjá mér alla tíð enda einstakur maður og meðal fremstu forseta sem Bandaríkin hafa átt.

Eitt af því sem frægt varð á tíð hans var staðurinn sem hann hélt til þegar hann dró sig frá Washington, Warm Springs, og útvarpsræðurnar frægu "Fireside chats".

Það eru helst dellukarlar eins og ég sem vita hvað Warm Springs þýðir en engu að síður bætti það miklu við um vitneskju mína og skilning á Roosevelt og Elanor konu hans að sjá mjög góða heimildarmynd um feril Roosevelts frá því að hann fékk lömunarsjúkdóm og þangað til hann sneri aftur á fullu í stjórnmálin, fatlaður maðurinn.

Það liggur við að það hefði átt að vera skylduefni að sjá svona mynd því að hún hafði svo almennt gildi auk þess sem hún stækkaði afrek Roosevelts án þess að draga úr persónulegum göllum hans eða vandamálum.

En þetta er ekki í fyrsta sinn sem báðar sjónvarpsstöðvarnar sýna jafn gott efni á jafn slæmum tíma, efni sem höfðar til allra aldurshópa og dýpka skilning okkar á mannlegum vandamálum.

Fyrir venjulega Íslendinga þýddi nafn myndarinnar, "Warm Springs" ekki neitt og enga útskýringu var að finna í blöðunum á því um hvað myndin fjallaði.

Sýningu myndarinnar lauk um hálf tvö leytið. Fékk Stöð tvö þessa mynd svona ódýrt að það var ekki þess virði að setja hana á betri útsendingartíma og kynna hana eins og vert væri ?

Mér finnst þetta sýna lélegt mat á góðri söluvöru ef maður lítur á þá hlið mála. Perlum var ekki einu sinni kastað fyrir svín því að það eru ekki einu sinni nein svín (ég og aðrir hugsanlegir áhorfendur) á þessum tíma sólarhrings til að njóta þessa.

Það var alger tilviljun að ég datt inn á að horfa á þessa mynd sem ég hefði ekki fyrir nokkurn mun vilja missa af.


Akureyrarvígið fallið.

Ég þurfti að fara með 27 ára bíldruslu, sem þó er í góðu standi, í skoðun á Akureyri á föstudag. Ég hef notað þennan gjaldalausa fornbíll til að gripa í þegar ég er á ferð fyrir norðan í kvikmyndatökuferðum til að spara mér bílaleigukostnað.

Ég hafði talið þessum gamla bíl best borgið þar vegna þess að salt skemmdi ekki bíla eins fyrir norðan og hér fyrir sunnan.

En nú er þetta saltlausa vígi fallið og enda þótt reynt sé að halda saltaustrinum í hófi skilst mér að sjá megi á hemlabúnaði og öðrum hlutum bíla á Akureyri að saltið dreifist og hafi áhrif.

Sagt er að með notkun saltsins megi minnka svifryksmengun með því að nota ekki sand. Ég dreg þetta í efa og held að þetta sé enn eitt dæmið um það hve tregir menn eru til að viðurkenna hvað naglarnir valda mikilli svifryksmengun og slíta götunum að auki.

Auk þess er besta leiðin til að minnka svifryksmengunina að fjarlægja rykið.

Nú segja menn kannski: Hvað koma innabæjarmál Akureyringa Reykvíkingnum við ?

Því er til að svara að í mínum huga skipar Akureyri sama sess og Reykjavík. Um Akureyri gildir hið sama hjá mér og um Mosfellsbæ, Akranes, Hafnarfjörð, Breiðholt eða 101 Reykjavík, - þetta eru nú orðið hverfi á sama þéttbýlissvæðinu og minna en klukkustundar ferð á milli þeirra.

Þess vegna kemur Reykjavíkurflugvöllur Akureyringum við og söltun gatna á Akureyri mér við.


Fólkið sprettur upp og brillerar.

Það var mikill kraftur í troðfullu Háskólabíói í kvöld og svipað gerðist og hefur gerst í vetur, að nýtt fólk kom fram sem hingað til hefur ekki látið að sér kveða og flutti mergjaðar ræður með merkilegum upplýsingum í bland.

Við eigum mikinn mannauð og kannski verður kreppan til þess að stíflurnar rofni og krafturinn og hæfileikarnir spretti fram.

Nú sér maður og heyrir fólk rísa gegn þeirri þöggun og ótta sem ofríkisráðamenn þjóðarinnar komu á fyrir áratug og olli því að nær engir vísindamenn eða kunnáttumenn þorðu að koma fram með upplýsingar eða skoðanir sem ekki féllu í kramið.

Þessu kynntist ég vel í starfi mínu og fannst það umhugsunarefni að ástandið hér á landi væri svipað og það var í Austur-Þýskalandi að þessu leyti en bara miklu betur dulbúið.

Hefði betur gerst fyrr það sem nú er að gerast og það er dapurlegt að þyrfti slíkar og þvílíkar hamfarir í þjóðmálum til að rjúfa þöggunina.


Bara ef það hefði verið hægt að hvítskúra fleira.

Það hefði nú verið munur ef hægt hefði verið að hvítskúra allt sem gert hefur verið í þessu húsi undanfarin ár. Það hefði verið gott að geta skipt á þeirri hvítskúringu og þessari. En því miður er hætt við að enn eigi eftir að koma fram margt gerir hvítskúringu á stjórnleysi ráðamanna enn vonlausari en fyrr.
mbl.is Hvítskúrað stjórnarráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband