Hraðinn drepur !

Ofangreind orð hefur mátt sjá á skiltum við íslenska þjóðvegi og þau hafa átt vel við um hina hröðu atburðarás síðustu vikna. Ef tekist hefði í tæka tíð að koma útibúi Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag hefði deila Breta og Íslendinga aldrei orðið að veruleika því þá hefði dótturfélagið fallið undir tryggingarnar í breska fjálmálakerfinu.

Með öðrum orðum: Bretar hefðu sjálfir orðið að bæta breskum sparifjáreigendum skaðann og því farið jafnvel verr út úr þessu máli fjárhagslega en á þann hátt sem fór svona svakalega í skapið á Darling. Skapvonska hans virðist vera út af því að hann gefur sér það að Íslendingar hafi ætlað að plata hann í september til að koma því svo fyrir að skaðinn af falli Landsbankann félli á Breta.

Það er eiginlega helst á færi sálfræðinga að fást við viðbrögð Darlings. Hann leggur annan skiling en Íslendingar í gang mála á fundinum fræga í september og í viðtalinu við Árna.

Menn féllu á tíma við að koma þessum málum í bærilegra horf og sjálfur virðist Darling ekki hafa talið upp að tíu, jafnvel ekki upp að tveimur, áður en hann og félagi hans Brown brugðust við á þann ofsafengna hátt sem nú fyrst virðist vera að renna upp fyrir löndum þeirra að verður þeim til minnkunar og skaðaði alla aðila.  


mbl.is Fullyrðingar Darlings dregnar í efa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vargöld.

Nú ríkir vargöld í fjármálalífinu. Aðferðum og hugsunarhætti að baki hryðjuverkalaga misbeitt í Bretlandi og mestallan tímann hefur enginn Íslendingur getað vitað fyrirfram hvernig hann sem einstaklingur eða hans fjölskylda fer út úr þessum hremmingum.

Á vargöld safnast upp reiði þeirra sem órétti telja sig beitta eða að vera refsað saklausum. Reiði yfir því að vera á sökkvandi skipi á strandstað með þeim sem með andvaraleysi, fyrirhyggjuleysi eða röngum ákvörðunum eiga sök á standinu. Sú reiði verður að fá útrás þannig en þó þannaig að hún verði ekki til að gera illt verra.

Réttlæti og endurmat á grundvelli greiningar á orsökum vandans og úrræðum til að fást við hann verður að ná fram að ganga sem og breytt gildismat þeirra sem létu glepjast af græðgisvæðingunni.

Auk þess verðum við að stappa stálinu hvert í annað og sýna kjark og æðruleysi. Þegar áföll dynja á í lífinu, hvort sem það eru áföll þessara daga eða önnur áföll, þurfum við á gagnkvæmri hughreystingu að halda.

Sem almennt orðaðri hugvekju um það efni læt ég fylgja hér texta, sem ég söng í útvarp í gær og ber nú heitið:

 "LÁTTU EKKI MÓTLÆTIÐ BUGA ÞIG."

 

Láttu´ekki mótlætið buga þig heldur brýna.

Birtuna má aldrei vanta í sálu þína.

Ef hart ertu leikinn, svo þú átt í vök að verjast,

vertu´ekki dapur, njóttu þess heldur að berjast.

 

Ef við höfum hvort annað

í ást og trú.

Ef við höfum hvort annað

er von mín sú

að við náum að landi

eftir háskaför.

Þótt við lendum í strandi 

aftur ýtum við úr vör.

 

Ef við styðjum hvert annað

við erum sterk.

Ef við styðjum hvert annað

við okkar verk, -

erum glöð yfir því sem

er okkur næst.

Ef við styðjum hvert annað

geta fagrir draumar ræst.

 

Látum ei mótlætið buga´okkur heldur brýna.

Brosum og elskum og látum ljós okkar skína.

Því lífið er dásamleg gjöf, sérhvert ár, sérhver dagur.

Ef sýnum við staðfestu vænkast mun okkar hagur.  

 

Ef við höfum hvort annað...o. s. frv....   


mbl.is Bretar selja eignir Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mismunun eftir þjóðernum.

Loksins var birt opinberlega í Kastljósi viðtal Árna Mathiesens við Darling, fjármálaráðherra Breta 7. október. Greinilega kom fram í viðtalinu að Darling skildi orð Árna sem svo að búið væri að tryggja allar inneignir sparifjár í Landsbanka Íslands og útibúum hans á Íslandi en ekki í Bretlandi. Með öðrum orðum: Sparifjáreigendum í útibúum bankans væri mismunað eftir löndum og þar með eftir þjóðerni.

Þessi gjörð sem mismunaði fólki, átti vafalaust að róa fólk hér heima, þ. e. kjósendur Árna, en hann var í símtalinu að tala við stjórnmálamann sem þurfti að svara spurningum sams konar hóps kjósenda sinna í Bretlandi. 

Auðheyrt var á viðtalinu hvernig Darling reiddist smám saman, talaði um fyrri blekkingar Íslendinga og greip frammí fyrir Árna.

Harkaleg, ofbeldisfull og fordæmanleg viðbrögð Breta við þessu voru því greinilega í reiðikasti yfir þessari mismunun og ekki bætti málstað Íslendinga yfirlýsing seðlabankastjórans í Kastljósi sama kvöld í svipuðum dúr, sem margspilað var í sjónvarpsfréttatímum um hálfan hnöttinn.  

Nú ríkir stríðsástand milli þjóðanna á þessum vettvangi, bankastríðið hefur bæst við þorskastríðin. Ég velti fyrir mér hvort þetta hefði farið á annan veg ef íslensk stjórnvöld hefðu látið það sama gilda um eigendur sparfjárins í útibúunum hér á landi eins og í útibúunum í Bretlandi. 

Þá hefði væntanlega allt orðið vitlaust hér heima en á móti hefði komið að Bretar hefðu ekki haft sömu mismununarástæðu til að stjórna gerðum sínum og raunin varð með stórkostlegum afleiðingum, sem enginn sér enn fyrir endann á.  

 


mbl.is Viðræðum við Breta lokið í bili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lærdómurinn af Landsnefndinni 1771.

1771 sáu umbótasinnaðir Danir að eitthvað var meira en lítið að á Íslandi. Þar fækkaði fólki þótt fólki fjölgaði í Noregi og öðrum Norðulöndum. Konungur setti þá á stofn svonefnda Landsnefnd til að gera tillögur um úrbætur og voru nokkrir liðir tilgreindir sérstaklega, svo sem betri skipakostur og útgerðaraðstaða, sem hefði ýtt undir myndun þéttbýlis við sjávarsíðuna.

Formaður nefndarinnar var Norðmaður til að auka á líkur þess að hagsmunatengsl hefðu ekki áhrif. Landsmönnum var gefinn kostur á að senda inn ábendingar og bárust nefndinni á annað þúsund slíkar.

Þá áttu 10% bænda 90% jarða á Íslandi og þeir, ásamt embættismönnum íslenskum réðu öllu sem þeir vildu. Hvergi í ríki einveldis í Evrópu réði einvaldskonungurinn minna en hér á landi. Í Landsnefndinni voru fulltrúar þessara aðila í meirihluta og niðurstaðan var sú að nánast engar tillögur um úrbætur hlutu brautargengi.

Það átti sinn stóra þátt í að seinka framförum hér á landi í meira en heila öld. Það var ekki nóg að Norðmaður væri formaður nefndarinnar, - hún hefði að minnsta kosti að meirihluta til þuft að vera skipuð útlendingum.

Af þessu eigum við að læra nú.  


mbl.is Vill óháða erlenda úttekt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsið og eldsmaturinn.

Alþjóðlega fjármálakerfinum má líkja við mörg samliggjandi hús, mjög mismunandi stór, þar sem fer fram starfsemi sem getur verið góður eldsmatur, því að í þeim þarf að kynda miklar kamínur. Íslandi má líkja við lítið hús sambyggt við skýjakljúfa Bandaríkjanna og næstu stórþjóða.

Íslendingar ákváðu að hafa flugeldaverksmiðju og tengda starfsemi í sínu litla húsi og kynda þar mikinn eld í risastórri kamínu og fylla húsið hlutfallslega af miklu meiri eldsmat og eldsneyti en gert var í stóru húsunum, - kynda eldinn í kamínunni sem ákafast.

Forsenda fyrir því að allt gengi vel var að hvergi færi neitt úrskeiðis, eins og Murhphyslögmálið segir þó að sé óhjákvæmilegt fyrr eða síðar, ef það geti gerst.

Nokkrir kunnáttumenn bentu á að í litla Íslandshúsinu væri allt of mikill eldsmatur miðað við stærð hússins og fátækleg slökkvitækin, sem stæðiust engar eðlilegar kröfur.

Auk þess væri búið að efna til svallveislu í húsinu þar sem menn höguðu sér óskynsamlega og yllu hættu. Á þessi varnaðarorð var ekki hlustað því að allir voru svo uppteknir við að njóta gróðans og veislunnar og hrópa "Húrra! Húrra! Húrra!, meira að segja slökkviliðsstjórinn sem áður hafði verið byggingarmeistari og hannað húsið og starfsemina í því. 

En svo gerðist það sem ekki mátti gerast, að óvitar og ábyrgðarlausir gróðapungar misstu eldinn úr höndum sér í bandaríska skjýjakljúfnum og mikill flótti brast á þegar eldurinn læstist í nærliggjandi byggingar. Fljótastur var hann að læsast um minnsta húsið sem var þar að auki fyllst allra húsanna af eldsmat. 

Svo notuð sé önnur líking, þá tróðustu hinir minnstu fyrst undir á flóttanum undan eldinum í fjármálakerfi heims. Það vorum við Íslendingar.

Tvær staðreyndir blasa við:

1. Íslendingar stefndu einir og óstuddir í það ástand að allt myndi um síðir fuðra upp hjá þeim þótt áfallalítið gengi hjá öðrum. Þetta á eftir að skýrast betur. 

2. Það var þó eldurinn í bandaríska skýjakljúfnum sem olli því að allt fór í bál og brand.

Eftir situr spurningin um það hve viturlegt það var að treysta á endalausa velgengni og heppni í stóra skýjakljúfnum og litla sambyggða húsinu sem stóðst engar kröfur um brunavarnir. Og spurningin um ábyrgð beggja húseigendanna, hins bandaríska og hins íslenska.  

 

 


mbl.is Sendinefnd bandaríska fjármálaráðuneytisins væntanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðvaranirnar áttu rétt á sér.

Þegar alda lagasetninga og ráðstafana gegn hryðjuverkum reis í vestrænum löndum eftir 11. september 2001 vöruðu margir við þeirri hættu að of langt yrði gengið í setningu slíkra laga því að það fæli í sér hættuna á mistbeitingu, kúgun, ófrelsi og ótta, sem væri einmitt tilgangur hryðjuverkamanna að innleiða í þessi lönd lýðræðis, öryggis og frelsis.

Ofbeldisaðgerðir Breta sýna að þessi varnaðarorð áttu rétt á sér. Á sínum tíma ákváðu tveir Íslendingar í óþökk mikils meirihluta þjóðar sinnar að standa fast að baki breskum og bandarískum stjórnvöldum í löglausri innrás í Írak í nafni aðgerða gegn miðstöð hryðjuverkamanna og gereyðingarvopnum þeirra.

Hvorugt fannst en það er kaldhæðni örlaganna að nú misnota þessi sömu bresku stjórnvöld aðgerðir gegn hryðjuverkamönnum gegn þjóðinni sem einstaklingarnir tveir gerðu Bretum þann greiða að skilgreina sem viljugan stríðsaðila í herför þeirra.  


mbl.is Gott dæmi um misnotkun laga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynlegar spurningar.

Það er vandi að vera spyrill í viðtali eins og Sigmar Guðmundsson tók við Geir H. Haarde í Kastljósinu. Það verður að forgangsraða spurningum og þær verða að vera þær bestu sem völ er á. Mér fannst Sigmar koma mjög vel frá þessu, - kannski var þetta hans besta viðtal á ferlinum. Hann var ekki æstur heldur líkari Joe Cortes, einum virtasta hnefaleikadómara heims sem starfar undir kjörorðinu "I´m firm, but I´m fair." Ég er ákveðinn en ég er sanngjarn."

Hann leyfði Geir að svara eftir því sem hann gat það. Einhverjir kunna að segja að Sigmar hafi gengið nærri Geir en það finnst mér ekki. Hann spurði spurninga sem varð að spyrja og fá svör við og það eina sem vantaði upp á var svolítið meiri tími til að geta haldið áfram umræðunni um hugsanleg mannaskipti í og stjórn landsins og þeirra stofnana sem tengjast hruninu nú.

 


mbl.is Við munum ekki láta kúga okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klúðrið að koma sér í svona stöðu.

Ég hef áður sagt frá þeim viðbrögðum erlendis sem orð seðlabankastjóra höfðu á viðkvæmasta stigi þess klúðurs sem við erum komin í. Viðbrögðin voru reiði hundruð milljóna manna sem sáu þennan viðtalsbút í sjónvarpsfréttum yfir því að mismuna ætti sparifjáreigendum eftir þjóðerni hvað varðaði uppgjör í þeim efnum. Í fyrsta skipti á ævinni varð ég fyrir lítilsvirðingu á erlendri grund fyrir þjóðerni mitt.

Á grundvelli þessa, símtalsins fræga við fjármálaráðherra Breta (sem ætti að birta) og hugsanlegra fleiri atriða skapaðist tylliástæða fyrir fráleitlega hörðum viðbrögðum Breta. Enn liggur heiður þjóðarinnar í svaðinu víða um lönd eftir þá árás og Ásta Möller hefur lýst því vel hve erfitt er að upplýsa um það fyrir jafnvel þingmönnum erlendis.

Ef haldið hefði verið öðruvísi á málum, fengnir strax fulltrúar Breta til landsins eða haldnir fundir erlendis án skaðlegra yfirlýsinga í fjölmiðlum fyrir fram, hefði miklu fremur fengist skaplegri lausn en sú sem nú virðist ætla að dynja á okkur í skjóli þrýstings utan frá eftir að erlendir ráðamenn hafa gengið of langt í bræði sinni og eiga erfiðara með að bakka eða fallast á sanngjarna lausn.

Þar með blasir við hættan á "Versalasamningum" þar sem óframkvæmaleg lausn leiðir meiri vandræði af sér en átti að leysa.  

Hvað snertir ummæli Valgerðar Sverrisdóttur finnst mér vandséð hvernig Framsókn ætlar að komast frá kosningum þar sem hennar þáttur síðasta áratug í græðginni á kostnað afkomendanna mun blasa við. 

En ljóst er að uppgjör verður að fara fram, - nýir tímar með nýjum gildum hafa haldið innreið sína.   


mbl.is Stjórnmálin biðu hnekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Véfrétt sem getur þýtt margt.

Einhver ástæða hlýtur að vera fyrir sérstakri yfirlýsingu Century Aluminium um að verið sé að "yfirfara áætlanir um álverið í Helguvík". Athygli vekur að gengi hlutabréfa fyrirtækisins hefur rýrnað um meira en 80% síðan í maí. Heimsmarkaðsverð á áli stefnir enn niður á við. Og þá er að fara að giska á hvað liggi að baki.

Kannski það sama og hefur gerst ítrekað áður, bæði á Reyðarfirði, Bakka og í Straumsvík: Því miður kemur í ljós í næstu yfirlýsingu fyrirtækisins að álverið verði ekki hagkvæmt nema það verði tvöfalt stærra en nú er áætlað. Les: Virkja í Kerlingafjöllum og/eða á Torfajökulssvæðinu.

Eða: Nú eru erfiðir tímar og þið verðið að liðka fyrir okkur á alla lund og betur en áður var inni í myndinni. Eða: Ef þetta heldur svona áfram niðurávið hjá okkur verðum við að fresta framkvæmdum og sjá til hvort rofi til.

Og þá er spurt á móti: En varla ætla þeir að fresta neinu úr því þeir tiltaka sérstaklega hvað álverið verði gott og einnig hvað það sé nauðsynlegt að reisa það í þágu gjaldþrota þjóðar?

En svarið við þeirri spurningu gæti verið að með þessu séu þeir aðeins að rökstyðja enn frekar að við eigum enga aðra völ en að ganga að hvaða afarkostum sem okkur eru settir, - annars verður ekki reist álver í Helguvík.

Það er sama aðferð eins og notuð var vegna áforma um stækkun álversins í Straumsvík fyrir einu og hálfu ári. Þá var gefið í skyn, að ef ekki yrði samþykkt að fara með álverið upp í 460 þúsund tonn á ári myndi það einfaldlega verða lagt niður.

Þá rétt tókst að stöðva það ferli en nú er mótstaðan minni þegar "hnípin þjóð í vanda" á í hlut.


mbl.is Fer yfir áform um Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnisvarðarnir misvel á sig komnir.

Allmargir risastórir minnisvarðar sem núlifandi Íslendingar hafa verið að reisa um sig sjálfa síðustu ár munu standa misvel á sig komnir þeirri spilaborg til háðungar sem nú er að hrynja. Ég játa það að ég gat aldrei skilið hvernig allar þessar risaverslanir gátu þotið upp á skömmum tíma.

Ég skoðaði Tónlistarhúsið í Þrándheimi tvívegis og hef einnig litið á tónlistarhúsið í Kaupmannahöfn. Tók myndir á eigin kostnað og ætlaði að fjalla um þetta í fréttum en það fórst fyrir. Get kannski gert það síðar.

Ólafshöllin í Þrándheimi kostaði brot af því sem tónlistarhöllin í Reykjavík á að kosta og samt ber íslenskum tónlistarmönnum, söngvurum og leikstjórum saman um að bestu skilyrði til flutnings hvers kyns tónlistar, líka óperuverka, sé að finna þar. Sambyggt hótel og verslun er þar en það þarf að leita að höllinni, - hún er ekki minnismerki í samkeppni við óperuhúsið í Sydney.

Þrándheimur og Þrændalög eru það byggðarlag í heiminum sem er líkast höfuðborgarsvæðinu að hnattstöðu, menningu, veðurfari og lífskjörum.

Ólafshöllin er það sem Hrafn Gunnlaugsson sagði að útvarpshúsið ætti að vera, verksmiðjuhús þar sem framleidd væri menning en ekki risavaxið minnismerki eins og til dæmis útvarpshúsið er. Samt fallegt og smekklegt hús sem ber arkitektunum fagurt vitni.

Ólafshölin tekur 1200 manns í sæti og í kjallaranum er salur sem tekur rúmlega 200 manns. Hvorugtveggja er þéttskipað fólki um hverja helgi. Í kjallara íslenska tónlistarhússins er 500 manna salur, sem þarf að keppa við nokkra aðra sali af svipaðri stærð. Margir hafa þegar efast um að þessi salur nýtist. 150 manns í litla salnum í Ólafshöllinni virkar þéttskipaðu og með þéttri stemningu,, það hef ég sjálfur reynt.

150 manns í 500 manna sal æpa á mann sem hálftómt hús með enga stemningu.

Tónlistarhöllin í Reykjavík á að keppa við tvær glæsilegar nýjar tónlistarhallir í Kaupmannahöfn og Osló. Hvernig verður sú samkeppnisstaða hér út við ysta haf?

Það má að vísu ekki gerast úr því sem komið er að tónlistarhúsið í Reykjavík standi árum saman ófullgert og óupphitað eins og Þjóðleikhúsið á sínum tíma. Þá myndi það stórskemmast eins og ÞJóðleikhúsið.


mbl.is Flestum starfsmönnum Bauhaus sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband