11.11.2009 | 23:39
Burt með ósið. Óþörf hækkun ?
Víða í Bandarikjunum liggur 130 þúsund króna sekt við því að henda sígarettustubbi eða rusli á götur eða víðavang og gildir einu hvort hent er úr bíl á ferð eða ekki.
Ástandi í þessu hefur ömurlegt hér á landi og löngu tímabært að gera eitthvað í málinu.
Ég skil hins vegar ekki hækkun einkanúmergjaldsins. Einkanúmer geta bæði verið upplýsandi og skemmtileg og gjaldið fyrir þau fer í góðar þarfir.

Sjálfur sagði ég einhvern tíma aðspurður í fjölskylduboði að ég vildi ekki vera með einkanúmer nema góður boðskapur fælist í því.
Þetta heyrðu börnin mín og gáfu mér einkanúmerið sem ég hef nú á bílnum mínum, ódýrasta bíl landsins, "EDRÚ". Og á minnsta og ódýrasta brúðarbíl landsins er númer með góðan boðskap: "ÁST".
Ég spái því að ágóðinn af tvöföldun gjaldins verði enginn vegna þess að vegna svona mikillar hækkunar muni það margir hætta við að fá sér svona númer að ekkert meira fáist í kassann samanlegt.

Þess ber að geta að raunverulegt gjald núna fyrir einkanúmer er ekki 25.000 krónur heldur 32.500, því að 7.500 krónur bætast við vegna gerð númeraplatnanna.
Gjaldið á því í raun að hækka í 57.500 krónur.
![]() |
Leyft að reiða á reiðhjóli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.11.2009 | 20:37
Fráhvarfseinkennin og sökudólgurinn.
Þegar erlendar þjóðir líta á ástandið á Íslandi sjá þeir okkur sem eina heild, líkt og þjóð okkar sé einstaklingur.
Það er rétt að tugþúsundir Íslendinga tóku engan þátt í efnahagsfyllerínu, sem setti okkur á hausinn, annað hvort vildu ekki taka þátt í því eða gátu það ekki.
En í augum umheimsins fór þjóðin sem heild yfirum í einhverju mesta efnahaglega fíkniefnapartíi sem nokkur þjóð hefur steypt sér í.
"Sjáið þið ekki veisluna?" spurði þáverandi fjármálaráðherra gagnrýnendur svallsins vorið 2008.
Jafnskjótt og hrunið hafði dunið yfir var ljóst að framhaldið gæti ekki orðið nema á einn veg: Þjóðin myndi þurfa að glíma við hrikaleg fráhvarfseinkenni og taka sér ærlegt tak, fara í nokkurs konar meðferð eða afvötnum á þessu sviði.
Gilti einu hvort hrunið var að kenna kreppunni erlendis, 30 útrásarvíkingum, stjórnvöldum og eftirlitsaðilum, eða kannski þeim stóra hluta þjóðarinnar sem fjórfaldaði skuldir heimilanna og fyrirtækjanna á örfáum árum.
Jafn ljóst var að hvaða ríkisstjórn sem væri yrði að taka einhverjar óvinsælustu ákvarðanir í sögu þjóðarinnar og það yrði allt vitlaust út af því.
Einnig mátti sjá fyrir að rétt eins og alkinn getur ekki sætt sig við fráhvarfseinkennin, heldur kennir ölum öðrum um nema sjálfum sér, er öllum þeim sem koma nálægt því að þurfa að fást við hinn óhjákvæmilega vanda kennt um allt sem við göngum nú í gegnum.
Í upphafi var þáverandi ríkisstjórn formælt og varð að fara frá, en nú er það gleymt á metttíma og ríkisstjórninni sem stendur að því að reyna að ná endum saman er nú formælt hressilega.
Ef fíkill ætlar í meðferð verður hann að gangast undir það að fá svonefndan stuðningsaðila eða sponsor, og það er maður sem hefur úrslitavald um að halda fíklinum frá því að detta í það aftur meðan hann er að vinna sig út úr vandanum.
Einn tónlistarmaður sem ég þekki fór í meðferð og "stuðningsmaðurinn" yfirheyrði hann í hvert skipti áður en hann fór til dæmis á mannamót, í afmæli o. s. frv. og bannaði honum oftlega að fara í slík partí ef ljóst var að þar yrðu of margir sem væru enn í neyslunni.
Stundum kemur það fyrir að fíkillinn er ósáttur við stuðningsmanninn, enda er stuðningsmaðurinn bara mannlegur og ekki óskeikull og á kannski sjálfur mislita fortíð.
Segja má að utanaðkomandi "sponsor" íslendinga núna sé Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og nú bæta menn honum við sem sökudólgi og best væri að kenna honum um allt.
Þegar farið er yfir það sem kemur frá AGS sést ef grannt er skoðað að flestar ráðstafanirnar, sem um ræðir, hefðu verið óhjákvæmilegar hvort eð var.
En það er afar þægilegt að kenna AGS um allt sem gert er og að sjálfsögðu ríkisstjórninni.
Það er þeim að kenna að það verður að draga saman útgjöld ríkising og hækka skatta.
Það er mótmælt daglega á öllum sviðum þjóðlífsins hvað þetta varðar því að fráhvarfseinkennin eru grimm.
Fíkillinn sættir sig ekki við það að hafa ekki jafn mikið af fíkniefninu, peningum, og í partíinu.
Það má ekki vera minna af peningum í ríkisrekstrinum og heldur ekki taka peninga í ríkisreksturinn frá neinum.
Fíklinum líður afar illa og í vanlíðaninni snýst allt í raun jafn mikið um peninga og var í algleymi partísins.
Þegar við lítum á fréttirnar sjáum við að það er í raun sama magnið núna af peningafréttum vegna kreppunnar og var á sínum tíma af peningafréttum vegna "gróðærisins."
Munurinn er að mestu leyti sá að nú er talað um tapaða peninga og samdrátt, hver eigi að borga hvað og hverjum sé að kenna, en í "gróðærinu snerist allt um að grædda peninga og þenslu.
![]() |
Verðlagið upp um 1% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.11.2009 | 08:55
Forsmekkur af því sem koma skal.
Fyrir nokkrum árum barst það mér til eyrna að hús og mannvirki í Sjálandshverfinu í Garðabæ féllu ekki undir fullar viðlagatryggingar vegna þess hve lágt þetta hverfi stæði við sjóinn.
Vitað er að nesin tvö, Seltjarnanes og Álftanes, síga hægt í sjó á sama tíma og spáð er hækkun sjávar vegna loftslagsbreytinga.
Hverjir tíu sentimetrar sem sjávarborðið hækkar skipta miklu meira máli en virðist í fljótu bragði, hvað þá þegar hækkunin nálgast heilan metra eða fer fram yfir það.
Kvosin í Reykjavík er gott dæmi um þetta. Það er ekki auðleyst dæmi sem verður til við það að sjór flæði inn í Reykjavíkurtjörn og í kjallara í kvosinni.
Frábær grein Michael Gorbasjofs í Morgunblaðinu í gær ætti að verða skyldulesning allra, líka þeirra sem vilja skella skollaeyrum við öllum viðvörunum með þeim orðum að "skrattinn sé leiðinlegt veggskraut" - og "flaðra upp um þá sem eiga hagsmuna að gæta" eins og Gorbasjof orðar það.
![]() |
Hlaða sjóvarnargarð við golfvöllinn á Nesinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
10.11.2009 | 23:49
Seint í rassinn gripið.
Þjóðhetja Rússlands, Kalashnikov, segist sofa rólegur á nóttunni því að hríðskotariffill hans sé hannaður til að verja föðurlandið. Mér sýnist það svolítið seint í rassinn gripið.
Heiti riffilsins, AK-47 er dregið af því að hann var tilbúinn frá hendi höfundarins árið 1947.
Og í nafni hans felst hve fráleitt það er að hann hafi komið að þeim notum sem til var ætlast.
Mér er ekki kunnugt um að þurft hafi þennan riffil til að "verja föðurlandið" síðan 1947.
Nema það hafi verið kallað að "verja föðurlandið" að salla niður Ungverja í Ungverjalandi 1956, Afgani í Afganistan og Georgíumenn í síðasta stríði Rússlands.
Kalashnikov segir að kveikjan að því að hanna riffilinn fræga hafi verið innrás Þjóðverja í Sovétríkin 1941 og það að hann særðist illa í því stríði og átti lengi í því.
Hann segir að í raun sé það Þjóðverjum að kenna en ekki honum að Kalashnikov-riffillinn hafi orðið til, annars hefði hann hannað landbúnaðarvélar.
Gallinn á þessari réttlætingu er bara sá að "Föðurlandsstríðinu mikla" var lokið tveimur árum áður en riffillinn heimsfrægi kom fram.
Ég minnist þess enn hvað mér fannst notkun hríðskotariffla óhugnanleg þegar ég sá fyrstu stríðsmyndina sem faðir leyfði mér að sjá með sér, en hún fjallaði um hershöfðingjann Rommel.
Þetta birtist vel í atriðinu þegar hríðskotabyssum var beitt í blóðbaðinu í innrás bandamanna í Marokkó og Túnis, einkum í orrustunni um Kasserine-skarðið, síðustu orrustunni í Afríkustríðinu þar sem Þjóðverjar gerðu bandamönnum skráfveifu og stöðvuðu framrás þeirra í nokkra daga.
Munurinn á venjulegum rifflum og hríðskotarifflum eða á byssum og vélbyssum er sláandi því að með síðarnefndu vopnunum getur einn maður stráfellt marga menn á augabragði.
Þessar byssur eru fjöldadrápstæki sem hafa kostað milljónir manna lífið um allan heim og í flestum tilfellum hefur það ekkert haft með það að gera að "verja föðurlandið".
Baráttan gegn nasistum í Síðari heimsstyrjöldinni var gegn ólýsanlegri villimennsku og kannski hefði hún gengið eitthvað betur á austurvígstöðvunum ef Kalashnikov-hríðskotarifflarnir hefðu þá verið komnir til sögunnar líkt og T-34 skriðdrekarnir og Katusha-eldflaugarnar.
Hönnuðir kjarnorkusprengjunnar sögðust ekki sofa rólegir yfir því hvernir hægt væri að eyða lífi og valda þjáningumm með þessari uppfinningu þeirra og fengu sumir þeirra bágt fyrir að segja það. Fól þessi uppfinning þó öðrum þræði í sér mikla möguleika til friðsamlegra nota.
Svipað má segja um ýmsar uppfinningar sem urðu fyrst og fremst til vegna gildis þeirra í hernaði, svo sem þotuhreyflana og fjórhjóladrifsbílana. Not þessara uppfinninga urðu mikil í friðsamlegum tilgangi.
Hins vegar er erfitt að sjá að Kalashnikov-rifflarnir hafi reynst notadrjúgir í friðsamlegum tilgangi. Nema að menn noti Orwellskan hugsunarhátt og segi að drápstól séu varnartæki.
Í sporum Kalashnikov gæti ég ekki sofið rólegur vitandi það að ekki einn einasti AK-47 riffill hafi verið notaður til að "verja rússneska föðurlandið" - og jafnvel ekki heldur sofið rólegur þótt hann hefði komið að gagni við það eða ætti eftir að gera það.
![]() |
Kalashnikov Hetja Rússlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.11.2009 | 13:16
Heilög stóriðja ?
Listinn yfir fríðindi, undanþágur, afslætti og forréttindi stóriðjunnar á Íslandi er ótrúlega langur.
Í löndunum umhverfis okkur eru lagðir í auknum mæli skattar og gjöld á þá sem nota orkuna.
Það er kreppa á Íslandi og það lendir á öllum. Nei! er hrópað. Það má ekkert lenda á stóriðjunni !
Þá er það klárt. Hún á að vera heilög og ósnertanleg.
![]() |
Stóriðjuskattur óhjákvæmilegur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.11.2009 | 00:38
Hugrakkur unglingur segir sannleikann.
Mesta örlagastund í lífi mínu var í frumsýningarpartíi eftir vel heppnaða Herranótt, sem var sú fyrsta sem ég lék í.
Þegar dálítið var liðið á partíið fékk ég á tilfinninguna að ég væri utangátta vegna þess að vín var haft um hönd en ég hafði fram að því aldrei bragðað vín. Allir voru svo skemmtilegir en ég fann mig ekki.
"Ætlarðu ekki að vera með og fá þér einn?" spurði einhver. Í rælni tók ég við glasi, fullu af víni og hélt því fyrir framan mig. Mér leið ekki vel. Ég skynjaði þrýstinginn á að ég yrði að verða maður með mönnum í samkvææminu og fá mér sopa.
Satt að segja ætlaði ég þarna að fá mér fyrsta sopann og vera ekki svona einn og utangátta.
Bara í þetta eina sinn og standa mig síðan betur gegn þessu næst.
Ég skil ekki enn í dag af hverju ég hætti við þegar ég hafði lyft glasinu að vörum mér og gerði mér upp erindi fram á salerni.
En þetta var mesta örlagastundin í lífi mínu. Ef ég hefði byrjað þarna hefðu verið meiri líkur en minni til þess að ég hefði ekki lifað það að komast á þrítugsaldur.
Ég var svo sem nógu villtur án áfengis á þessum árum og ég hafði gert mér grein fyrir því vegna áfengisvandamála á heimili foreldra minna að yfirgnæfandi líkur væru á því að ég myndi ekki ráða við Bakkus.
Í sjónvarpsfréttum í kvöld heyrði ég kjarkmikinn ungling segja svipaða sögu og fannst ákaflega vænt um það. Hann tók með því áhættuna af óþægilegum viðbrögðum skólafélaga sinna sem væru ekki ánægðir með frásögn hans, sem þó var aðeins staðfesting á ótal líkum sögum kynslóð fram af kynslóð.
Þegar glasið var á braut kom smám saman í ljós að ég gat alveg orðið jafn kátur án áfengis og öll hin og þetta var byrjunin á því að eiga auðvelt með að falla með trukki inn í glaðra og góðra vina hóp
Ég get ekki stært mig af því að hafa staðist freistinguna í partíinu forðum daga því að ég ætlaði að taka sopann en það var eins og einhver ósýnileg hönd bægði glasinu frá mér. Það var verndarhönd.
Ef ég hefði tekið fyrsta sopann fyrir 52 árum hefði sá unglingur sem kom fram í fréttinni í kvöld aldrei orðið til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.11.2009 | 16:48
Vafasöm nýjung.
Vafasama nýjung má sjá í Staksteinum Morgunblaðsins í dag. Þeir fjalla í miklu háði um Ólaf Arnarson og menn tengda honum og eru þeir í háðungarskyni kallaðir "ódauðlegir snillingar" í fyrirsögn Staksteinanna og það endurtekið og því fylgt eftir af miklu kappi í pistlinum.
Efni pistilsins sýnir hins vegar að höfundur hans meinar auðvitað að þeir séu eins fjarri því að vera snillingar og hægt sé að hugsa sér, þ. e. örgustu asnar, og hefur Staksteinahöfundurinn að sjálfsögðu fullt frelsi til að hafa þá skoðun.
En þetta virðist ekki hafa nægt honum, því að þegar hann birtir mynd af Ólafi með nafni hans undir, eins og alsiða er, getur hann ekki stillt sig um að bæta við ádeilu sína á Ólaf og láta myndartextann vera svona: "Ólafur Arnarson snillingur." Les: Ólafur Arnarson asni.
Í þau rúmlega 60 ár sem ég hef lesið blöð og tímarit hef ég aldrei séð hliðstæðu þessa í nafnbirtingu undir mynd, hvorki hér á landi né erlendis, ekki einu sinni þegar Kalda stríðið stóð sem hæst og menn kölluðu hverjir aðra landráðamenn og leppa erlendra stórvelda.
Með nýjum ritstjórum Morgunblaðsins hafa borist ný efnistök í blaðinu og er skemmst að minnast frábærlega vel skrifaðs leiðara um villiféð á Vestfjörðum þar sem mér sýndist ég sjá öll bestu stílbrögð rithöfundarins Davíðs Oddsonar og þakkaði honum fyrir hér á bloggsíðu minni.
En þá nýjung að uppnefna fólk í nafnatextum undir myndum í háðungar- og niðurlægingarskyni tel ég vægast sagt vafasama og ekki gott til þess að vita ef þetta fer að verða alsiða í Morgunblaðinu eða í öðrum dagblöðum og tímaritum þar sem mikils virðist stundum þurfa við til að vega mann og annan.
Ég vona að þetta hafi verið undantekning en ekki upphaf á reglu í þessu efni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (45)
9.11.2009 | 13:46
Fyrirgefningin.
Í dag eru tuttugu ár frá falli Berlínarmúrsins. Undanfari falls hans voru einhverjir stærstu fjöldafundir sögunnar í Leipzig þar sem fólkið hrópaði: "Við erum þjóðin!"
Viðbrögð Erics Honeckers leiðtoga alræðisvaldsins í landinu voru þau að svara og segja: "Þið eruð ekki þjóðin".
Með því komst hann í sögubækur sem dæmi um fyrir firringu þess sem hefur fjarlægst þjóð sína.
Ég minnist þess enn hvað mér brá þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lét svipuð ummæli falla á fundi í Háskólabíói þar sem húsið var fullt út úr dyrum, bæði salur og anddyri.
Mér varð ljóst að henni höfðu orðið á mikil mistök og að fjarvera hennar vegna veikinda hina örlagaríku haustmánuði í fyrra höfðu komið sér illa fyrir hana.
Þetta var slysalegt fyrir konu sem hefur verið í allra fremstu röð stjórnmálamanna landsins síðustu 15 ár og verður minnst fyrir það að hafa rutt því braut að kona yrði í fyrsta sinn forsætisráðherra Íslands þótt hún yrði það ekki sjálf.
Nú hefur hún haft tíma til að fara yfir þetta allt og gerir vel með því að játa að henni hafi orðið á mistök.
Fyrir sérkennilega tilviljun gerist það á tuttugu ára afmæli falls Berlínarmúrsins.
Nýlega var ég beðinn um að skrifa pistil í bók sem Skálholtsútgáfan gefur út nú fyrir jólin um fyrirgefninguna.
Ég ákvað að senda inn stuttan sálm um hana þar sem ljóðlínan "Fyrirgefning og iðrun mér frið munu veita" er ein af lykilsetningunum.
Ingbjörg Sólrún fjallar um reiðina sem hefur ríkt í þjóðfélaginu og hennar er líka getið í sálmi mínum.
Þjóðfélag okkar þarf á næstu árum að ganga í gegnum erfitt og þjáningafullt ferli sem vonandi gerir okkur öll og þjóðfélag okkar betra en það var áður.
FYRIRGEFNINGIN.
(Með sínu lagi)
Án fyrirgefningar friðlaus verður hver maður, /
fær ekki lifað lífinu sáttur og glaður. /
Batnandi manni er best að lifa og deyja, /
bæta fyrir sín afbrot, - sig auðmjúkur beygja.
Breyskleikinn leikur mann illa á ýmsa vegu, /
ágirnd og sjálfselska, systurnar hættulegu, /
syndirnar lúmsku, losti, græðgi og hroki /
líf okkar eitra, oft verða að þrúgandi oki.
Misgjörðir og mistök á vegum hálum /
meinvörp og sár geta skapað í viðkvæmum sálum. /
Allir menn eiga einhverjum skuld að gjalda. /
Öll þurfum við á fyrirgefningu´að halda.
Vont er að vera fullur af hefndarhuga. /
Heiftúð og gremja oft skynsemi´og hugarró buga. /
Enginn er bættari náungann auri að ata /
því oftast fer hatrið verst með þá sem að hata. /
Þú, sem ég braut gegn, þér á ég skuld að gjalda. /
Þungbær er sökin og erfitt er henni að valda. /
Ef framvegis gegn syndinni verð ég á verði /
viltu fyrirgefa mér það sem ég gerði ?
Fyrirgefning og iðrun mér frið munu veita. /
Fyrirgefningar Drottins verð ég að leita /
en víkja þó ekki frá verknaðinum hálfum, -
ég verð að geta fyrirgefið mér sjálfum.
Er endirinn nálgast áfram ég trúi og vona /
og ósk mín til þeirra, sem braut ég á móti, er svona: /
Þótt sakbitinn muni ég síðustu rimmuna heyja /
að sáttur við Guð og menn ég fái að deyja.
![]() |
Ásakar sjálfa sig fyrir að hafa valdið reiði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2009 | 17:20
Skökk forgangsröðun, gerbreytt staða.
Það er hægt að taka undir öll meginatriði þeirra krafna sem Suðurnesjamenn gera um ráðstafanir til að rétta úr kútnum eftir hrunið, raunar öll nema eitt.
Það er dágóður listi sem þeir birta en eitt atriði hans á ekki heima efst á listanum heldur neðst í besta falli.
Í útvarpsviðtali fyrir skömmu sagði Þórir Hilmarsson, forstöðumaður Fjárfestingastofu, að öll hin mörgu útlendu fyrirtæki sem sæktust eftir að kaupa íslenska orku hrykkju frá þegar þau gerðu sér grein fyrir því að einn risastór aðili, álverið í Helguvík, væri fyrir á fleti.
Forráðamenn þessara fyrirtækja kunna að reikna og láta ekki blekkja sig með óskhyggjukenndum loforðum.
Þetta hefði ekki verið vandamál þegar fyrsta álverið í Straumsvík var reist. Þá var vitað nákvæmlega hve mikil orka væri fyrir hendi við Búrfell og að afgangur yrði af henni, vegna þess að hún var vatnsaflsvirkjun.
Nú eru aðstæðar þveröfugar og þeir Ólafur Flóvenz og Guðni Axelsson lýstu því vel í Morgunblaðsgrein.
Þar kom fram að engin leið er að vita með vissu hve mikla orku er hægt að fá á hverju svæði jarðvarmavirkjana fyrr en eftir vinnslu í einhver x ár. Ef þá kemur í ljós að of miklu sé pumpað upp, sé vinnslan bara minnkuð eftir þörfum svo að hún geti talist endurnýjanleg.
Það sem vantaði á þessa lýsingu var ekki var minnst á þarfir risakaupandans, sem ekki getur búið við það að vinnslan sé minnkuð. Munurinn síðan 1960 er sá að enginn veit með vissu hve mikil orka fæst á hverjum stað og sérfróðir menn geta rifist um það endanlaust gagnstætt því sem er um vatnsaflsvirkjanir.
Guðni Jóhannesson orkumálastjóri hefur sagt að af þessum sökum sé það kolröng stefna að selja fyrst einum risakaupandi svo mikla orku að enginn geti vitað um það fyrirfram hvernig það dæmi muni enda eða hvort og þá hve mikið verði eftir hana öðrum kaupendum.
Réttara sé að fara hægar í virkjanasakirnar, virkja yfirvegað og örugglega og bæta við smærri kaupendum eftir því sem málum vindur fram.
Af þessu leiðir að álver í Helguvík ekki aðeins öfugu megin á listanum, sem göngumenn setja upp í kröfugerð sinni, heldur væri það glapræði gagnvart framtíðinni að hafa hana yfirleitt á listanum.
Ég hef grun um að forráðamenn erlendu fyrirtækjanna, sem álver í Helguvík hrekur í burtu, viti meira um eðli þessa máls en þeir sem draga upp óraunsæja og óábyrga glansmynd af eðli þessa máls.
Þess vegna
![]() |
Vilja samstöðu með Suðurnesjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
8.11.2009 | 13:13
Kennedy og Johnson samanlagðir.
John F. Kennedy kom með glæsileik og ferskleika inn í bandarísk stjórnmál 1960. Þetta gerðist ekki aftur í sama mæli fyrr en 2008 með tilkomu Baracks Obama.
Kennedy tókst ekki, þrátt fyrir glæsileika sinn að koma miklu í verk. Það er helst geimferðaáætlun hans sem menn minnast og það hvernig honum tókst með skynsemi og lagni að koma í veg fyrir heimsstyrjöld í Kúbudeilunni 1963.
Það kom í hlut stjórnmálarefsins Lyndon B. Johnsons að fylgja stefnu Kennedys í mannréttindamálum eftir og hrinda meiri umbótum í réttindamálum minnihlutahópa og fleiri félagslegum atriðum en nokkrum öðrum forseta hafði tekist.
Johnson þurfti hins vegar að sæta því að hans er mest minnst fyrir hið misheppnaða Vietnamstríð og klækjastjórnmála.
Síðustu vikur hafa menn í vaxandi mæli verið að bollaleggja um það að þrátt fyrir glæsilega og ferska framgöngu yrði hlutskipti Obama svipað og Kennedys, að koma litlu sem engu í verk af því sem hann hefur sett fram sem stefnu sína.
Það munaði að vísu litlu að heilbrigðiskerfisfrumvarp hans yrði fellt en það komst þó í gegn.
Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir Obama því að fyrirrennurum hans sem reyndu umbætur á þessu kerfi mistókst öllum.
Nú hefur aftur kviknað von um að Obama verði jafn mikilvirkur forseti og þeir Kennedy og Johnson voru samanlagt þótt margt sé honum mótdrægt á ymsum sviðum.
![]() |
Sigur fyrir Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)