Fráhvarfseinkennin og sökudólgurinn.

Þegar erlendar þjóðir líta á ástandið á Íslandi sjá þeir okkur sem eina heild, líkt og þjóð okkar sé einstaklingur. 

Það er rétt að tugþúsundir Íslendinga tóku engan þátt í efnahagsfyllerínu, sem setti okkur á hausinn, annað hvort vildu ekki taka þátt í því eða gátu það ekki.

En í augum umheimsins fór þjóðin sem heild yfirum í einhverju mesta efnahaglega fíkniefnapartíi sem nokkur þjóð hefur steypt sér í.

"Sjáið þið ekki veisluna?" spurði þáverandi fjármálaráðherra gagnrýnendur svallsins vorið 2008.

Jafnskjótt og hrunið hafði dunið yfir var ljóst að framhaldið gæti ekki orðið nema á einn veg: Þjóðin myndi þurfa að glíma við hrikaleg fráhvarfseinkenni og taka sér ærlegt tak, fara í nokkurs konar meðferð eða afvötnum á þessu sviði.

Gilti einu hvort hrunið var að kenna kreppunni erlendis, 30 útrásarvíkingum, stjórnvöldum og eftirlitsaðilum, eða kannski þeim stóra hluta þjóðarinnar sem fjórfaldaði skuldir heimilanna og fyrirtækjanna á örfáum árum.  

Jafn ljóst var að hvaða ríkisstjórn sem væri yrði að taka einhverjar óvinsælustu ákvarðanir í sögu þjóðarinnar og það yrði allt vitlaust út af því.

Einnig mátti sjá fyrir að rétt eins og alkinn getur ekki sætt sig við fráhvarfseinkennin, heldur kennir ölum öðrum um nema sjálfum sér, er öllum þeim sem koma nálægt því að þurfa að fást við hinn óhjákvæmilega vanda kennt um allt sem við göngum nú í gegnum.

Í upphafi var þáverandi ríkisstjórn formælt og varð að fara frá, en nú er það gleymt á metttíma og ríkisstjórninni sem stendur að því að reyna að ná endum saman er nú formælt hressilega.

Ef fíkill ætlar í meðferð verður hann að gangast undir það að fá svonefndan stuðningsaðila eða sponsor, og það er maður sem hefur úrslitavald um að halda fíklinum frá því að detta í það aftur meðan hann er að vinna sig út úr vandanum.

Einn tónlistarmaður sem ég þekki fór í meðferð og "stuðningsmaðurinn" yfirheyrði hann í hvert skipti áður en hann fór til dæmis á mannamót, í afmæli o. s. frv. og bannaði honum oftlega að fara í slík partí ef ljóst var að þar yrðu of margir sem væru enn í neyslunni.

Stundum kemur það fyrir að fíkillinn er ósáttur við stuðningsmanninn, enda er stuðningsmaðurinn bara mannlegur og ekki óskeikull og á kannski sjálfur mislita fortíð.  

Segja má að utanaðkomandi "sponsor" íslendinga núna sé Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og nú bæta menn honum við sem sökudólgi og best væri að kenna honum um allt.

Þegar farið er yfir það sem kemur frá AGS sést ef grannt er skoðað að flestar ráðstafanirnar, sem um ræðir, hefðu verið óhjákvæmilegar hvort eð var.

En það er afar þægilegt að kenna AGS um allt sem gert er og að sjálfsögðu ríkisstjórninni.

Það er þeim að kenna að það verður að draga saman útgjöld ríkising og hækka skatta.

Það er mótmælt daglega á öllum sviðum þjóðlífsins hvað þetta varðar því að fráhvarfseinkennin eru grimm.

Fíkillinn sættir sig ekki við það að hafa ekki jafn mikið af fíkniefninu, peningum, og í partíinu.

Það má ekki vera minna af peningum í ríkisrekstrinum og heldur ekki taka peninga í ríkisreksturinn frá neinum. 

Fíklinum líður afar illa og í vanlíðaninni snýst allt í raun jafn mikið um peninga og var í algleymi partísins.

Þegar við lítum á fréttirnar sjáum við að það er í raun sama magnið núna af peningafréttum vegna kreppunnar og var á sínum tíma af peningafréttum vegna "gróðærisins."

Munurinn er að mestu leyti sá að nú er talað um tapaða peninga og samdrátt, hver eigi að borga hvað og hverjum sé að kenna, en í "gróðærinu snerist allt um að grædda peninga og þenslu.  

 


mbl.is Verðlagið upp um 1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Niðurskurður og skattahækkanir, eru hvort-tveggja, sennilega óhjákvæmilegar. En, ég hef áhyggjur af vaxtastefnunni, og kaupi ekki þá skýringu að núverandi vaxtastig, styðji við krónuna, né kaupi ég skýringu Seðló um nettó-vaxtastig, og þar með þá túlkun þeirra, að vaxtastigið sé einfaldlega eðlilegt.

Það þarf að lækka vexti, og það verulega. Því, þ.e. raunverulega satt, að bæði niðurskurður og skattahækkanir, séu samdráttaraukandi.

Höfum ekki efni á, að hafa í ofanálag, háa vexti - sem hafa einnig samdráttaraukandi áhrif.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 11.11.2009 kl. 21:49

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Til eru þeir sem segja að vextirnir eigi að vera sem næst verðbólgustiginu en ég held að það sé mikið til í því hjá þér, frændi, að ef menn hafa á aðra borð trú á því að með staðfestu sé hægt að minnka verðbólguna, (það verður að takast) þá eigi menn ekki vera hræddir við að láta vextina fara niður á undan verðbólgunni.

Ómar Ragnarsson, 11.11.2009 kl. 22:21

3 Smámynd: Sturla Snorrason

Mér finnst alveg fráleitt að líkja þjóðinni við fíkil, nær væri að líka henni við fjölskyldu fíkils sem hefur rústað fjárhag heimilisins og kallað yfir hana handrukkara og lögfræðinga í tíma og ótíma.

Sturla Snorrason, 11.11.2009 kl. 22:44

4 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ómar - ég er með langa gagnrýni, á vaxtastefnu Seðló - hérna:

Snillingarnir í Seðló

Ég virkilega held, að hugmyndir þeirra um "nettó-vexti" eigi ekki við, vegna þess að verðbólgan sem við eigum við í dag, er ekki eftir-spurnar-verðbólga.

Með öðrum orðum, orsakasamhengi hennar, er ekki þensla. Þ.e., hagkerfi sem er að yfirhitna, kostnaðarhækkunum vegna launaskriðr sé velt útí verðlag - sem framkallar, klassíska "eftirspurnar-bólgu".

Vextir virka mjög vel á eftirspurnar-bólgu, vegna þess að þeir draga peninga út úr hagkerfinu, þ.e. þeir valda því að hallir hafa minni peninga, eftirspurn minnkar, hagkerfið kólnar.

-----------------------------

Eins og ég sagði, þetta er ekki vandamálið í dag.

Þannig, að þ.e. ekki viðeigandi, að betia sömu meðölum.

Eina leiðin til að vextir lækki verðbólgu í dag, væri ef þeir framkölluðu hækkað gengi krónunnar. 

En, fram að þessu, hafa verið fá teikn uppi um, að þeir séu að gera það.

-----------------------------------

Þvert á móti, held ég að kónunar-áhrif vaxtanna, sem auka á núverandi kreppu, séu að framkalla alveg sjálfstæð lækkunaráhrif á gengi krónunnar, vegna þess - að, minnkandi efnahagsumsvif, framkalli minnkandi verðmætasköpun - og það sé, verðmætasköpin sjálf, þegar öllu er á botninn hvolft, sem standi undir gjaldmiðlinum.

Svo ég reyndar held, að hið þveröfuga eigi við, að við núverandi aðstæður, gæti vaxtalækkun, hjálpað genginu með því að framkalla meiri efnahags umsvif, eða hið minnsta, að flíta fyrir bata.

------------------------------------

Ef þetta gerist ekki, held ég að nýjasta efnahags spá Seðló, sé of bjartsýn, og að samdráttur verði meiri en þeir spá.

Og einnig, að ekki sé líklegt að hagvöxtur hefjist fyrr en 2011.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 11.11.2009 kl. 23:13

5 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Vel mælt Ómar.

Þráinn Jökull Elísson, 12.11.2009 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband