31.12.2008 | 17:43
Gætum vel að.
Lýðræði er gallagripur en ekkert skárra hefur fundist til að skipa málum þjóða. Fjölmiðlar eru líka gallagripir eins og öll mannanna verk . Samt er það svo að eins ótrufluð, bein og réttlát fjölmiðlun og unnt er að framkvæma er alger forsenda lýðræðisins.
Án nauðsynlegra skoðanaskipta og upplýsinagjafar fjölmiðla er borin von að kostir lýðræðis njóti sín.
Austurvöllur hefur verið vettvangur réttlátrar óánægju þeirra sem mótmæla ófremdarástandinu í þjóðfélaginu. Ég hef verið á þessum fundum og tekið þátt í öðrum mótmælaaðgerðum ásamt öðrum úr flokki okkar, Íslandshreyfingunni.
Við höfum verið meðal annars verið óánægð með ósanngjörn kosningalög, sem hafa meinað okkur að fá fulltrúa á löggjafarþingið í samræmi við fylgi okkar og þar með meinað okkur að taka þátt í umræðuþáttum eins og Kryddsíldinni.
Við höfum komið þessum skoðunum okkar á framfæri í fjölmiðlum eftir því sem það hefur verið unnt.
Af Austurvelli og öðrum staðum utanhúss og af fjölmennum borgarafundum innanhúss um þjóðfélagsástandið hafa blöð og fjölmiðlar flutt frásagnir og myndir og útvarpað hefur verið og sjónvarpað frá heilum fundum.
Í blöðum voru birtar í heilu lagi ræður af fundunum. Þetta var nauðsynleg og ótrufluð fjölmiðlun.
Það mátt kannski búast við því að heyrast myndi í mótmælendum fyrir utan neðstu hæðina á Hótel Borg rétt eins og á öðrum fundum þeirra á hinum hefðbundna mótmælastað, Austurvelli, og hefði kannski átt að flytja Kryddsíldina á annan stað.
Hvað um það, bein fjölmiðlun frá Hótel Borg þar sem heyrðist í mótmælendum fyrir utan hefði komið fullkomlega þeim skilaboðum yfir að hér á landi ríkir ófremdarástand sem blaðamaðurinn Karl Blöndal lýsir mjög vel í grein í Morgunblaðinu í dag. Það er gjá milli ráðamanna og fólksins og brúun þessarar gjár ekki í sjónmáli.
En gætum nú vel að því sem gerðist í viðbót við þetta, sem að framan er lýst.
Ég minnist þess ekki að mótmælafrömuðir á borð við Martein Lúter King hafi reynt að láta hendur skipta við tæknifólk fjölmiðla og stöðvað starfsemi þeirra þótt þeir sem kæmu fram í þessum fjölmiðlum í það og það skiptið væru ekki í náðinni hjá mótmælendum.
Á sínum tíma kom hingað til lands Walter Chroncite, hinn heimsfrægi sjónvarpsfréttamaður, sem hlaut mesta frægð fyrir það að hafa í raun verið einn sterkasti liðsmaður þess almenningsálits í Bandaríkjunum sem snerist gegn stríðinu í Vietnam. Hlutur Chroncites var þó aðeins að vera óhræddur við að miðla þeim upplýsingum og skoðunum sem nauðsynlegt var að miðla.
Ég spurði hann: "Eru fjölmiðlar heimsins orðnir of öflugir og valdamiklir?"
Hann svaraði: "Nei", svaraði hann. "Fjölmiðlar verða aldrei of öflugir og valdamiklir. Afl og vald fjölmiðla til að miðla skoðunum og upplýsingum í lýðræðisþjóðfélagi er nauðsynlegt til þess að FÓLKIÐ GETI NOTAÐ AFL SITT OG VALD."
Rétt er að geta þess að á ensku notaði Chroncite aðeins eitt orð "power" í svari sínu, en það þýðir bæði afl og vald
á íslensku og því nota ég bæði orðin í þýðingunni.
Niðurstaða: Hömlur á fjölmiðla til þess að miðla skoðunum og upplýsingum á sem sanngjarnastan hátt leiða til ófarnaðar og kippir grundvellinum undan raunverulegu og öflugu lýðræði, því hinu sama og mótmælendur hafa verið að berjast fyrir að undanförnu.
Að svo mæltu óska ég öllum landsmönnum árs og friðar.
![]() |
Fólk slasað eftir mótmæli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 1.1.2009 kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.12.2008 | 07:32
Fleiri á sveif með Íslandshreyfingunni.
Stjórn Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands setti fram þá hugmynd í haust að höggvið yrði á þann hnút og rofin sú sjálfhelda, pattstaða og truflun, sem ríkt hefur í ESB-málum hér á landi með því að taka það mál út úr flokkafarvegi og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um það sérstaklega hvort ganga eigi til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.
VG ljáði þessari hugmynd máls nýlega og nú telur forsætisráðherra þetta koma til greina.
Þetta mál er það stórt að jafnvel það eitt hvort láta eigi reyna á aðildarviðræður er bært sem þjóðaratkvæðismál. Þar að auki hefur sundrung nær allra flokka vegna málsins gert þeim erfiðara að vera vettvangur fyrir stjórn landsins með tilliti til mismunandi áherslna til hægri eða vinstri.
ESB-málið er að mörgu leyti líkt sjálfstæðismálinu fram til 1916-18. Eðlileg flokkamyndun fram til þess tíma, grundvölluð á mismunandi sýn á þjóðfélagsskipan, var ekki möguleg vegna þess að sjálfstæðismálið klauf allar eðlilegar fylkingingar um önnur mál í herðar niður.
Stofnun Framsóknarflokks og Alþýðuflokks var viðleitni til að færa flokkapólitíkina frá sjálfstæðismálinu, en það var ekki fyrr en með sambandslögunum 1918 að grundvöllur myndaðist að þeirri skiptingu þjóðarinnar í flokka til hægri og vinstri sem varð að mestu fullmótuð á þriðja áratug síðustu aldar.
Rétt eins og sambandslögin tóku sjálfstæðismálið að mestu út úr flokkafarvegi og gerði flokkum kleift að staðsetja sig með tilliti til mismunandi áherslna á gildi markaðshyggju og félagshyggju getur færsla ESB-málsins yfir á vettvang þjóðaratkvæðagreiðslna haft svipuð áhrif, níutíu árum síðar.
![]() |
Umsókn í þjóðaratkvæði? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
31.12.2008 | 02:32
Mikið þanþol.
Síðustu tíu árin hefur verið litið á það eins og nokkurs konar náttúrulögmál að bílasala þyrfti að vera jöfn og góð til þess að bílaflotinn endurnýjaðist á sem bestan hátt og í notkun væru teknir betri, sparneytnari, mengunarminni og öruggari bílar.
Þetta er að sönnu rétt hvað það snertir að það er ekki hagkvæmt þjóðhagslega að vera með of gamlan bílaflota, sem bilar meira en nýir bílar og eyða meira eldsneyti.
En það er með bílana eins og annað óhóf sem helltist yfir okkur í hinu svonefnda góðæri. Í stað þess að kaupa sparneytnari og mengunarminni bíla var hér kapphlaup um sem stærsta, eyðslufrekasta og dýrari bíla í rekstri.
Ef meira hóf hefði verið í þessu væri bakslagið ekki eins erfitt og það er. Fólk situr uppi með of stóra, dýra og óseljanlega bíla í þúsunda tali. Og það sem verra er, vegna ofmettaðs markaðar er engin þörf fyrir nýja bíla.
Bandaríkjamenn komust af með að framleiða enga bíla frá byrjun febrúar 1942 til haustsins 1945 eða í þrjú og hálft ár og tókst að nýta þann bílaflota sem fyrir var.
Íslendingar fluttu örfáa bíla inn á árunum 1948 til 1954 eða í sjö ár og létu þá gömlu duga. Lítið var flutt inn af bílum á árunum 1956 til 1960.
Bílar geta enst enn betur nú á tímum. Það er tæknilega mögulegt að enginn nýr bíll sé fluttur inn til landsins í áratug.
Á Kúbu er stór hluti bílaflotans amerískir kaggar frá því fyrir byltingu 1959.
Þanþol bílaflotans getur verið mikið og þetta eru vondar fréttir fyrir þann mikla fjölda fólks, sem hefur haft atvinnu í tengslum við bílana.
Hins vegar kunna þetta að vera góðar fréttir fyrir bifvélavirkja því eftir því sem bílarnir eldast þurfa þeir meira viðhald.
![]() |
Einn fólksbíll seldist í síðustu viku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.12.2008 | 13:21
Kínverjar með trompin á hendi ?
Rétt eins og 1929 voru stóru upphæðirnar sem nefndar voru sem "eignir" í hlutabréfum og peningum aðeins huglæg gildi. Þetta sést best á hruninu nú.
Það verður afar spennandi að sjá hvað verður um allar skuldirnar því þegar þessar svonefndu eignir hafa fallið niður úr öllu valdi verða skuldirnar hærri, jafnvel svo mjög að þjóðir heims skuldi meira en þær eiga í peningum og bréfum talið.
Svo virðis sem ein þjóð, Kínverjar, standi þá uppi með pálmann í höndunum. Það er vegna þess hvílík býsn aðrar þjóðir, ekki síst Bandaríkjamenn, skulda þeim. Eignir Kínverja dreifast um víða veröld og þeir eru í lykilaðstöðu.
En ef menn vilja líkja þeim við sníkjudýr sem lifir á hýslinum, þá gildir hið sama og í lífríkinu, að sníkillinn má ekki ganga of hart að hýslinum, því að á því tapa þeir báðir.
Lækkun skulda og niðurfelling er því ferli sem hlýtur að fylgja kreppunni og verður að hafa á bak við eyrað þegar hver reynir að bjarga sínu skinni.
![]() |
Um 90% lækkun á árinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
30.12.2008 | 00:02
Hægt og bítandi.
Hægt og bítandi eru loksins að birtast tölur og upplýsingar um bankahrunið, en þó afar hægt. Jón Ásgeir Jóhannesson telur sig ekki hafa valdið því hvernig fór í stórri Morgunblaðsgrein í dag og kveðst aðeins hafa verið með um 6% af þeim fjármunum umleikis sem til umræðu eru.
Í flestum greinum erlendum og innlendum um hrunið er sagt að um þrjátíu manns hafi borið ábyrgð á því hvernig fór. Það þýðir að að meðaltali hefur hver þeirra átt 3,3% hlut í því eða næstum helmingi minni en Jón Ásgeir kveðst hafa átt.
Niðurstaðan virðist því geta orðið sú að vegna þess hve lítinn hlut hver á í hruninu í heild beri enginn ábyrgð.
Sem aftur leiðir til þess að ábyrgð þeirra, sem voru við stjórnvölinn og áttu að fylgjast með, setja reglur og hafa eftirlit, þ.e. ríkisstjóprn, Seðlabanki og Fjármálaeftirlit bera hlutfallslega meiri ábyrgð hver um sig en þrjátíumenningarnir. Því neita þó allir.
Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu og því hvort nokkur muni að lokum taka á sig neina ábyrgð og hvort nokkurn tíma komi öll kurl til grafar. Mun þjóðin sætta sig við það?
![]() |
Engar ólögmætar færslur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.12.2008 | 20:10
Leyndarmálin fleiri.
Orkuverðið sem Norðurál ætlar að greiða er auðvitað leyndarmál eins og tíðkast hefur um svipaða samninga hingað til. Við sem eigum orkuna fáum ekki að vita um það sem fólk í þjónustu okkar gerir í okkar nafni.
Setningin úr lagi Jóns Múla og Jónasar "það er meðal annars það sem ekki má" gildir um fleira sem ekki má segja frá né láta vitnast. Ég bendi á gott blogg Dofra Hermannssonar í dag en vil þó nefna eitt atriði en það er hið algjöra ábyrgðarleysi sem sýnt er í því hvernig gengið er að orkusvæðunum.
175 megavöttin, sem bæta á við, eru fengin út með því að ætla sér að taka þessa orku úr jörðinni með eins skefjalausum ágangi og borunum og þurfa þarf, án þess að huga að því hve lengi þessi orka endist.
Mesta hneykslið við hina upprunalegu orkuöflun við Kröflu var það að öllum varúðar- og öryggisreglum sem Guðmundur Pálmason hafði lagt upp með, var vikið til hliðar.
Nú er nýting háhitasvæðanna nær samfellt Kröfluhneyksli og aldrei hugað að neinu í ætt við þessa aðferð Guðmundar, sem fólst í stuttu máli í því að gefa sér þann tíma sem þyrfti með tilraunaborunum hvernig hægt væri að nálgast sjálfbæra og endurnýjanlega nýtingu jarðvarmasvæðanna á öruggan hátt.
Ending svæðanna er leyndarmál að því leyti að skautað er framhjá því að finna út úr því hver hún er.
Viitað er þó, að svæðin endast ekki flest hver nema nokkra áratugi, en því er ekki aðeins haldið leyndu heldur bætt um betur með því að halda því fram að um sjálfbæra þróun sé að ræða með nýtingu og hreinnar og endurnýjanlegrar orku sem Íslendingar geti ekki aðeins verið stoltir af að nýta, heldur fyrirmynd fyrir allan heiminn!
![]() |
Sala á orku hefjist 2011 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
29.12.2008 | 10:50
Persónubundið.
Fyrir nokkrum áratugum var talið læknisfræðilega sannað, að maðurinn næði hámarki líkamlegrar getu, snerpu, viðbragða og krafts um 25 ára aldurinn. Eftir það færi að halla undan fæti, og þá einkum hjá þeim sem mest þurfa á snerpu að halda eins og spretthlaupurum.
Breski spretthlauparinn Linford Christie afsannaði þetta rækilega á þann hátt sem engan veginn verður véfengdur, sem sé í 100 metra hlaupi þegar hann var 35 ára gamall. Þá náði hann enn jafn góðum tímum og tíu árum fyrr og var í fremstu röð í heiminum. Raunar voru viðbrögð hans og snerpa svo góð hjá honum hálffertugum að hann var ranglega dæmdur úr leik fyrir þjófstart!
Í hnefaleikum hefur verið miðað við að menn geti haldið snerpunni og viðbrögðunum allt að þrítugu, en þá taki við það sem er kallað "hinn vafasami aldur" hnefaleikara.
Þetta hefur reynst nokkuð persónubundið. Sumir afburðahnefaleikarar hafa náð langt vegna viðbragðsflýtis og snerpu og má nefna Muhammad Ali, Roy Jones jr. og Prins Naseem Hamed sem dæmi. Þeir voru svo fljótir og snarpir að þeir komust upp með að brjóta ákveðnar reglur um varnir og viðbrögð og voru því sérstakt augnayndi.
En þessir hnefaleikarar eru í mestri hættu á að missa flugið þegar aldurinn færist yfir.
Allir fyrrnefndir hnefaleikarar urðu skyndilega "gamlir" og komust ekki lengur upp með það sem þeir höfðu getað sloppið með áður. Voru þeir þó fljótir sem fyrr en ekki nógu fljótir til að brjóta reglurnar.
Ali var frá keppni í þrjú og hálft ár og náði aldrei fyllilega fyrri hraða. Svipað átti við um Joe Louis. Þegar hann barðist sinn síðasta bardaga við Rocky Marciano sagði hann eftir á að hvað eftir annað hefði hann séð í bardaganum "opnanir" sem hann hefði fyrr á tíð getað notað sér til gagnhögga, en bara verið of seinn.
Roy Jones þyngdi sig upp í þungavigt og brilleraði þar, en hafði misst hraðann þegar hann létti sig aftur.
Oscar De La Hoya varð skyndlega gamall í síðasta bardaga sínum.
Ali vann upp hraðaminnkunina með útsjónarsemi, einbeitingu, kjarki og æðruleysi sem gerði síðari hluta ferils hans jafnvel enn magnaðri en hinn fyrri.
Prins Naseem Hamed ólst upp við harðræði götubardaganna og naut þess fyrst í stað en þoldi ekki velgengnina
og varð hægari og meyrari. Sama átti við um fyrstu alþjóðlegu ofurstjörnuna í íþrótttum, hnefaleikarann Jack Dempesy.
Andstætt þessu má telja ferla Bernards Hopkins og Jersey Joe Walcotts. Hopkins virtist nær ekkert hafa misst af fyrri snerpu þótt hann berðist fram yfir fertugt og Jersey Joe varð ekki heimsmeistari fyrr en hann var kominn hátt á fertugsaldur. Auðvitað bjuggu báðir þessir menn yfir reynslu sem bætti annað upp, en áberandi var hve lítið þeir döluðu líkamlega lengi vel.
Þetta getur átt við um knattspyrnumenn eins og Beckham, og á sínum tíma var sir Stanley Matthews gott dæmi um þetta. En það er oft erfitt að spila úr spilunum á þessum aldri. Mér hafa sagt reynsluboltar í íþróttum að innan við þrítugt hafi þeir komist upp með að fara úr þjálfun og vera fljótir að ná sér aftur, en eftir að aldurinn færist yfir megi þeir ekki við slíku.
Oscar De La Hoya tók sér tvívegis tveggja ára frí frá boxi og komst upp með það í fyrra skiptið en ekki það síðara þótt hann æfði þá betur en nokkru sinni fyrr.
Sjálfur prófaði ég það í 15 ár að fylgjast með formi mínu með því að hlaupa á innan við mínútu upp á fjórtándu hæð í blokk í Sólheimum. Yfirfærði síðan æfinguna yfir í að hlaupa tólf sinnum horn í horn í stærri salnum í Ræktinni á innan við 50 sekúndum.
Ég komst að því að hægt var að viðhalda þessari getu ótrúlega samfellt og lengi, en einnig að því, að ef getan minnkaði, gerðist það ekki jafnt og þétt, heldur í þrepum. Ég á enn í fórum mínum skrá yfir tímana og þyngd mína á hverjum tíma og hægt að sjá þetta á henni.
Hné- og bakmeiðsli gerðu það að verkum að ég varð að hætta þessu fyrir þremur árum en hafði þá enn ekki dalað á á fimmtán árum nema um nokkrar sekúndur.
Við fáum öll mismunandi spil að spila úr og eins og í annarri spilamennsku getur ánægjan byggst fremur á því hvernig spilað er úr spilunum heldur en því hve góð þau voru.
![]() |
Beckham gæti spilað til fertugs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.12.2008 | 14:35
Frá því í barnsminni.
Ég var sjö ára gamall þegar ég áttaði mig fyrst á hinum grimma veruleika stríðs þegar dag eftir dag bárust fréttir af hryðjuverkum Gyðinga og óöldinni í Palestínu, sem náði hámarki með morðinu á Bernadotte greifa, sendimanni SÞ.
Þessar fréttir vöktu mér ótta en faðir minn reyndi að sefa hann. 60 árum síðar er hins vegar ástæða til að fólk sé óttaslegið um víða veröld því að púðurtunnan við botn Miðjarðarhafs ógnar heimsfriðnum.
Ég man að faðir minn átti erfitt með að útskýra fyrir mér að vegna þess að Gyðingar hefðu hrökklast frá Palestínu fyrir nær 1800 árum teldu þeir sig hafa rétt til stunda hryðjuverk til að stofna þar eigið ríki á grundvelli loforða Guðs almáttugs og reka burtu það fólk, sem þar hefði búið í allan þennan tíma.
Á árunum á undan höfðu 14 milljónir manna af þýskum ættum verið fluttar burtu í Evrópu í refsingarskyni fyrir útþenslustefnu nasista. Á mörgum þessara svæða höfðu þýskættaðir menn búið öldum saman.
Munurinn á þessu og stofnun Ísraelsríkis var hins vegar sá að þálifandi Palestínumenn áttu enga sök á því að Gyðingar höfðu hrakist frá landinu helga". Í raun var því fyrir tilverknað kristinna þjóða runnin upp öld nýrra krossferða, jafn blóðugra og óréttlátra og hinar fyrri voru.
Gyðingar notuðu hryðjuverk til að ná fram markmiði sínu og komust upp með það. Síðan hefur dæmið snúist við og þeir verða fyrir hryðjuverkum hinna kúguðu. Þau eru raunar ekki mikið frábrugðin hryðjuverkum andspyrnumanna í hersetinni Evrópu á stríðsárunum sem við teljum hafa verið réttmæt vegna þess hve villimannlegur nasisminn var.
Sakbitnar þjóðir Evrópu eftir útrýmingarherferð nasista og öll stórveldin, þeirra á meðal Bandaríkin og Sovétríkin, lögðu blessun sína yfir stofnun Ísraelsríkis. Íslendingar mæltu fyrir henni hjá SÞ. Upphaflegu ábyrgðina báru þó Bretar sem hleyptu Gyðingum fyrst inn í Palestínu og vægðu fyrir Zíonismanum.
Það er athyglisvert að sjá í sögubókum að um aldamótin 1900 skoðuðu stórveldin vestrænu það í fullri alvöru að "gefa" Gyðingum Uganda til búsetu. Stofnun Ísraelsríkis var því í raun aðeins framlenging á nýlendustefnu stórveldanna, sem birtist ekki aðeins í öðrum heimsálfum, heldur einnig í heimsveldisstefnu Sovétríkjanna í Austur-Evrópu síðari hluta liðinnar aldar.
Hvað um það, - héðan af er jafn óraunhæft að reka Gyðinga öðru sinni frá Palestínu og það hefði verið að reka hvíta menn frá Suður-Afríku.
En í 41 ár hafa Ísraelsmenn brotið alþjóðalög með hernámi Palestínu og kúgun á palestínsku þjóðinni. Alþjóðasamfélagið þvingaði hvíta minnihlutann í Suður-Afríku til að láta af kynþáttaaðskilnaðarstefnu sinni, en lætur Ísraelsmenn komast upp með óverjandi yfirgang. Þetta eitrar öll heimsmálin og þessu verður að linna.
Þegar andspyrnumenn myrtu Heydrich nasistaforingja í Tékkóslóvakíu töldu nasistar þá hafa komið frá þorpinu Lidici og myrtu alla þorpsbúa í refsingar- og fælingarskyni.
Það er lítill ef nokkur munur á þessu og þegar Ísraelsmenn drepa í fælingar- og refsingarskyni 270 Palestínumenn af handahófi fyrir einn drepinn Ísraelsmann. Sorglegt hve lítið hefur breyst á þeim 67 árum sem liðið hafa á milli þessara tveggja atburða.
![]() |
Yfir 270 látnir á Gaza |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (66)
27.12.2008 | 17:30
Erfiðir útmánuðir.
Eftir áfall haustmánaðanna hafa flestir, sem í þeim lentu, áreiðanlega lagt á það áherslu að komast í gegnum hátíðir áramótanna á sem skaplegastan hátt. Því miður er næsta víst að það á eftir að harðna verulega á dalnum strax eftir áramót, einkum á útmánuðum.
Það verður peningalegt frost á Fróni og "harmar hlutinn sinn" margur vinnandi hásetinn þegar gluggaumslögin koma inn um lúgurnar.
Stjórnarflokkarnir munu vafalaust reyna að dreifa athygli fólksins með því að keyra upp umræður um ESB og hávaða og rót í kringum landsfund Sjálfstæðisflokksins.
Þeir ætla að nota landsfundinn sem afsökun fyrir því að skipta ekki úr ráðherrum og draga allt slíkt sem mest þeir mega á langinn.
Sú spurning er áleitin hversu langt þeir munu komast upp með að þeir, sem mestu ábyrgðina bera, komist hjá að axla hana. Það er umrót framundan og það má ekki gerast að engu verði breytt og spillingin, sjálftökustjórnmálin og ábyrgðarleysið látið halda áfram.
![]() |
Friðsamleg og málefnaleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
26.12.2008 | 14:05
Íslenskur friðarhöfðingi.
Ég játa að ég er ekki nógu kunnugur í Sómalíu til að geta útskýrt til fullnustu hvers vegna ræningjar í þessu landi eru það öflugir að þeir komist í heimsfréttirnar. Hitt veit ég að persónulega upplifði ég nálægð þeirra nokkru fyrir norðan landamæri Sómalíu og Eþíópíu fyrir tveimur árum.
Það voru ræningjar á landi, sem herjuðu norður fyrir landamærin inn í Eþíípíu. Ég var þá á ferð með Helga Hróbjartssyni kristniboða syðri landleiðina milli Addis Ababa og héraðsins El-Kere.
Á leiðinni fékk ég að vita hjá innfæddum að engir erlendir ferðamenn væru óhultir fyrir ræningjum frá Sómalíu á þessum slóðum og þess vegna dirfðust engir útlendingar að fara um þessar slóðir.
Hins vegar breytti það miklu fyrir mig að vera í för með Helga Hróbjartssyni kristniboða. Slíkrar virðingar nyti hann á þessum slóðum fyrir einstætt líknar- hjálpar og menntastarf sitt. Enginn myndi dirfast að snerta hár á höfði hans, hvorki sómalskir ræningjar né nokkrir aðrir.
Á langri leið um þau héruð þar sem Helgi hafði unnið ævistarf sitt hittum við fólk, sem komið var til áhrifa fyrir tilverknað Helga og voru orðnir stjórnendur í hinum fátæku og frumstæðu samfélögum á þessum slóðum.
Í El-Kere var haft á orði að virðingarröð átrúnaðargoða fólksins væri þessi: 1. Allah. 2. Múhammeð. 3. Helgi Hróbjartsson.
Þetta afrek Helga er þeim mun merkilegra að hann er kristniboði og þess vegna með ólíkindum sú virðing sem hann hefur aflað sér, ekki aðeins meðal muslima heldur einnig yfir landamærin á slóðir ræningja.
Ég hef hvergi upplifað eins sterkt hvað ævistarf eins manns getur haft göfgandi áhrif á fjölda fólks og ljúft að minnast þessum á hátíð friðarins.
Ég er að vinna að heimildarmynd um Helga, sem ber nafnið "Engill af himnum." Vegna veikinda og anna við önnur störf hefur það starf dregist á langinn en mjakast þó áfram. Myndin byggist á tveimur ferðum til Eþíópíu 2003 og 2006 og ég reikna með að í tengslum við myndina muni einnig fylgja mynd um ferð til Mósambík árið 2005.
Ekki er langt síðan að bandaríski flugherinn gerði árás á sómalska uppreisnarmenn með velþóknun yfirvalda í Eþíópíu. Sómalía er greinilega "órólegt horn" á austurströnd Afríku rétt eins og Balkanskagi hefur löngum verið í Evrópu.
![]() |
Sómölskum sjóræningjum sleppt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)