Persónubundið.

Fyrir nokkrum áratugum var talið læknisfræðilega sannað, að maðurinn næði hámarki líkamlegrar getu, snerpu, viðbragða og krafts um 25 ára aldurinn. Eftir það færi að halla undan fæti, og þá einkum hjá þeim sem mest þurfa á snerpu að halda eins og spretthlaupurum.

Breski spretthlauparinn Linford Christie afsannaði þetta rækilega á þann hátt sem engan veginn verður véfengdur, sem sé í 100 metra hlaupi þegar hann var 35 ára gamall. Þá náði hann enn jafn góðum tímum og tíu árum fyrr og var í fremstu röð í heiminum. Raunar voru viðbrögð hans og snerpa svo góð hjá honum hálffertugum að hann var ranglega dæmdur úr leik fyrir þjófstart!

Í hnefaleikum hefur verið miðað við að menn geti haldið snerpunni og viðbrögðunum allt að þrítugu, en þá taki við það sem er kallað "hinn vafasami aldur" hnefaleikara.

Þetta hefur reynst nokkuð persónubundið. Sumir afburðahnefaleikarar hafa náð langt vegna viðbragðsflýtis og snerpu og má nefna Muhammad Ali, Roy Jones jr. og Prins Naseem Hamed sem dæmi. Þeir voru svo fljótir og snarpir að þeir komust upp með að brjóta ákveðnar reglur um varnir og viðbrögð og voru því sérstakt augnayndi.

En þessir hnefaleikarar eru í mestri hættu á að missa flugið þegar aldurinn færist yfir.

Allir fyrrnefndir hnefaleikarar urðu skyndilega "gamlir" og komust ekki lengur upp með það sem þeir höfðu getað sloppið með áður. Voru þeir þó fljótir sem fyrr en ekki nógu fljótir til að brjóta reglurnar.

Ali var frá keppni í þrjú og hálft ár og náði aldrei fyllilega fyrri hraða. Svipað átti við um Joe Louis. Þegar hann barðist sinn síðasta bardaga við Rocky Marciano sagði hann eftir á að hvað eftir annað hefði hann séð í bardaganum "opnanir" sem hann hefði fyrr á tíð getað notað sér til gagnhögga, en bara verið of seinn.

Roy Jones þyngdi sig upp í þungavigt og brilleraði þar, en hafði misst hraðann þegar hann létti sig aftur.

Oscar De La Hoya varð skyndlega gamall í síðasta bardaga sínum.

Ali vann upp hraðaminnkunina með útsjónarsemi, einbeitingu, kjarki og æðruleysi sem gerði síðari hluta ferils hans jafnvel enn magnaðri en hinn fyrri.

Prins Naseem Hamed ólst upp við harðræði götubardaganna og naut þess fyrst í stað en þoldi ekki velgengnina
og varð hægari og meyrari. Sama átti við um fyrstu alþjóðlegu ofurstjörnuna í íþrótttum, hnefaleikarann Jack Dempesy.

Andstætt þessu má telja ferla Bernards Hopkins og Jersey Joe Walcotts. Hopkins virtist nær ekkert hafa misst af fyrri snerpu þótt hann berðist fram yfir fertugt og Jersey Joe varð ekki heimsmeistari fyrr en hann var kominn hátt á fertugsaldur. Auðvitað bjuggu báðir þessir menn yfir reynslu sem bætti annað upp, en áberandi var hve lítið þeir döluðu líkamlega lengi vel.

Þetta getur átt við um knattspyrnumenn eins og Beckham, og á sínum tíma var sir Stanley Matthews gott dæmi um þetta. En það er oft erfitt að spila úr spilunum á þessum aldri. Mér hafa sagt reynsluboltar í íþróttum að innan við þrítugt hafi þeir komist upp með að fara úr þjálfun og vera fljótir að ná sér aftur, en eftir að aldurinn færist yfir megi þeir ekki við slíku.

Oscar De La Hoya tók sér tvívegis tveggja ára frí frá boxi og komst upp með það í fyrra skiptið en ekki það síðara þótt hann æfði þá betur en nokkru sinni fyrr.

Sjálfur prófaði ég það í 15 ár að fylgjast með formi mínu með því að hlaupa á innan við mínútu upp á fjórtándu hæð í blokk í Sólheimum. Yfirfærði síðan æfinguna yfir í að hlaupa tólf sinnum horn í horn í stærri salnum í Ræktinni á innan við 50 sekúndum.

Ég komst að því að hægt var að viðhalda þessari getu ótrúlega samfellt og lengi, en einnig að því, að ef getan minnkaði, gerðist það ekki jafnt og þétt, heldur í þrepum. Ég á enn í fórum mínum skrá yfir tímana og þyngd mína á hverjum tíma og hægt að sjá þetta á henni.

Hné- og bakmeiðsli gerðu það að verkum að ég varð að hætta þessu fyrir þremur árum en hafði þá enn ekki dalað á á fimmtán árum nema um nokkrar sekúndur.

Við fáum öll mismunandi spil að spila úr og eins og í annarri spilamennsku getur ánægjan byggst fremur á því hvernig spilað er úr spilunum heldur en því hve góð þau voru.


mbl.is Beckham gæti spilað til fertugs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Spilaði Stanley Matthews ekki fimmtugur landsleik?

Stefán Benediktsson (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 12:45

2 Smámynd: Sigurður Rúnar Sæmundsson

Þú ert æðislegur. Prófaðir bara í 15 ár að hlaupa upp á 14 hæð á hverjum degi... þú ert mikið gott fordæmi , mönnum eins og mér. Þú ert einn af turnunum í mínu lífi. Ég vildi mjög gjarnan hafa elst eins og þú, en það er sko aldeilis ekki öllum gefið. Til þess þarf mikla þrautseygju. Áfram, Ómar.

Sigurður Rúnar Sæmundsson, 29.12.2008 kl. 22:00

3 identicon

Fróðlegt að lesa. Mætti ekki Tyson endilega vera með í þessari upptalningu. Hann náði sér aldrei almennilega á strik eftir fangelsisvistina (eða hvað, mig minnir það, þú ert fræðingurinn, segðu endilega smá um Tyson) ;)

Ari (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband