26.12.2010 | 12:49
Frægð að endemum skárri en engin frægð?
Nú eru þeir dagar þegar árið 2010 er gert upp og það markverðasta, sem gerðist dregið fram.
Í ensku er orðið "infamy" notað sem nokkurs konar samheiti yfir orðin "illræmdur" og "frægð að endemum."
Roosevelt notaði þetta orð um 7. desember 1941 þegar Japanir réðust á Perluhöfn og sagði um þann dag: "It will live in infamy".
Nú er Eyjafjallajökull kominn á þennan stall en oft reyna útlendingar að komast hjá því að nefna þetta erfiða nafn með því að tala um "íslenska eldfjallið".
Svona fyrirbrigði eru til um víða veröld og má nefna nöfn eins Pompei, Örlygsstaði eða Hirosima sem dæmi.
Oft draga þau að sér þúsundir ferðamanna og er frægðin því jákvæð að því leyti. Gosið í Eyjafjallajökli 2010 og í Heimaey 1973 munu því koma sér vel fyrir ferðaþjónustuna á næstu árum.
![]() |
Þorparinn Eyjafjallajökull |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.12.2010 | 20:53
Ýmist of eða van.
Hann var byrjaður að bæta í vindinn þegar ég skaust nú síðdegis austur á Hvolsvöll til þess að huga að FRÚnni sem hefur staðið þar bundin á túninu hjá Jóni Loga bónda í einn mánuð.
Rafhlaðan orðin of máttlaus til að starta svo að það þurfti að notast við "Armstrong" til að koma henni í gang (handsnúa skrúfunni) og láta hreyfilinn síðan ganga svolítið og hitna.
Þar næst að lyfta flöpunum upp svo að vængirnir taki minna vindálag á sig.
Síðan tók við að breiða sorppoka yfir mælaborðið og framsætið til þess að láta ekki leka niður í sætin þegar stórviðrisrigngin kemur, því að í hinni láréttu íslensku rigningu er þessi 35 ára gamla flugvél ekki vatnsheld.
Ef sætin verða rennandi blaut skapast raki í vélinni sem hefur í gegnum tíðina hálfeyðilagt talstöðina og gæti eyðilagt það litla sem eftir er af henni.
Á leiðinni austur lenti ég nokkrum bílum fyrir aftan "lestarstjóra" sem ók á 40 kílómetra hraða og bjó til margra kílómetra lest á eftir sér.
Á einum stað á leiðinni hafði bíll runnið út af, að öllum líkindum eftir of hraðan akstur miðað við aðstæður. Eða þá að "lestarstjóri" hafi á endanum freistað einhvers úr lestinni til þess að reyna vonlausan framúrakstur.
Já, svona er íslenska umferðin, - .það er annað hvort of eða van.
![]() |
Ekkert ferðaveður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.12.2010 | 15:41
Jólalegra en á Íslandi?
Hvít jól eru sjaldgæf á Englandi en hins vegar oftar á meginlandinu. Þorfinnur og Ástrós eru í Brussel og því ekki við jólahátíðahaldið hér heima að þessu sinni en segja að afar jólalegt og vetrarlegt sé í Belgíu og það dragi úr söknuði yfir því að vera ekki hér heima.
Þess má geta að um þetta leyti 1944 var talsverður snjór í Benelux-löndunum og það átti stóran þátt í því hve miklum usla síðasta sókn Hitlers um Ardennafjöllin olli.
Dögum saman var hríðardimma í lofti og bandamenn gátu því ekki notað yfirburði sína í lofti til þess að stöðva sóknina í fæðingu.
Hér í gamla daga hefði snjór ekki valdið eins miklum usla varðandi samgöngur og þau gera nú.
Flugvallakerfi Breta og Frakka er greinilega ekki nógu vel búið til þess að ráða við þá miklu umferð, sem er jafnan í kringum hátíðarnar.
Einstakt hlýtur að teljast að tvisvar á sama ári geri náttúran svona mikinn skurk í flugsamgöngum í Evrópu, fyrst eldur og aska Eyjafjallajökuls og nú hinn kald og hvíta truflun.
![]() |
Mörg þúsund manns strandaglópar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2010 | 19:56
Hið tónlistarlega gildi jólanna.
Við sitjum hérna hjónin ásamt Erni syni okkar og hlýðum í annað sinn á jólatónleika Cortes-fjölskyldunnar, sem haldnir voru í Háskólabíói 2007 og voru svo mikið "2007" - Lexus-auglýsingar myndu ekki vera aðalprýðin nú, - en um leið voru þessir tónleikar svo einstaklega hátíðlegir og jólalegir, vel heppnaðir og yndislegir.
Ég veit ekki hvort fólk áttar sig á hinu gríðarlega mikla tónlistarlega gildi, sem jólin hafa.
Á öðrum árstímum ráða tískubylgjur ríkjum, og mörg árin myndi tónlist í stíl við jólalögin með útsetningum og blæ, sem kemur aftan úr bandarískum söngvamyndum frá því fyrir fimmtíu árum þykja alveg út í hött..
Útsetningarnar, hljómarnir, yfirbragðið, allt í gamla stílnum.
En á jólunum breytist þetta, þá er allt í lagi að spila, syngja og hlusta á lög sem á öðrum árstíðum myndu þykja gamaldags og jafnvel hallærisleg.
Þetta er mjög mikilvægt, því að um þessa tónlist gildir, að það sem einu sinni var gott, verður að klassík og ævinlega gott aftur.
Nú er komið að því að ganga til dagskrár og tekið fyrir eina málið sem er á dagskrá, pakkastandið, sem hefur verið fastur liður hjá okkur í bráðum 50 ár.
Og seinna í kvöld troðfyllist litla íbúðin hjá okkur á Háaleitisbrautinni af fjölskyldufólkinu og jólin ríkja í öllu sínu veldi!
Gleðileg jól, öllsömul !
![]() |
Jólin eru einstök reynsla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.12.2010 | 15:59
Sló í 31 m/sek á Sámsstöðum.
FRÚ-in mín stendur bundin úti við Hvolsvöll. Hún verður þar að minnsta kosti fram yfir áramót því að vitað er að í sparnaðarskyni er Reykjavíkurflugvelli harðlæst og lokað á jóladag og nýjársdag og engin flugumferð leyfð nema neyðarflug.
Þessi ráðstöfun er óþörf að mínu mati því þegar Akureyrarflugvöllur er lokaður breytist hann í flugvöll án flugumferðarstjórnunar og vegna þess að sáralítil hætta er á því að einhver mikil umferð verði þessa daga.
Sama ætti auðveldlega að geta gilt um Reykjavíkurflugvöll.
Fólkið fyrir austan er rósemdin sjálf og kippir sér ekki upp við smágoluþyt.
Þegar farið er á vedur.is sést að þegar hvassast var á Sámsstöðum komst vindurinn í 31 m/sek en það skilgreinist sem ofsaveður.
Á Hellu komst vindurinn mest í 25 m/sek.
Líklegt er að vindurinn við Hvolsvöll hafi verið einhvers staðar á þessu róli.
Nú er allt að fyllast hérna af fólki með pakka í árlegri örtröð, því að hér er skiptimiðstöð hjá stórfjölskyldunni.
Og hátíðin er að detta í garð! Það er að bresta á! myndi Bubbi hrópa.
Gleðileg jól!
![]() |
Enginn veðurofsi við Skálakot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.12.2010 | 20:49
Hin fullkomna jólaumgerð Akureyrar.
Ég brá út af vananum og var á Akureyri nú síðdegis á Þorláksmessu í stað þess að vera í Reykjavík.
Skaust hingað norður á litla Cuore-bílnum sem er með númerið A-467 og passaði því alveg í jólaumhverfið hér, enda rauður að lit.
Erindin var að árita diskana mína í Eymundsson á Akureyri og klára þá.
Hér á Akureyri er hin fullkomna jólaumgerð, drjúgur snjór sem skreytir hverja einustu trjágrein, ekki sami saltpækillinn og er á götunum fyrir sunnan svo allt veðst út, og stillilogn og frost.
Eftir áritun er ekki amalegt að fá sér smá snarl hér á horninu á móti KEA í Te og kaffi og blogga í kveðjuskyni við bestu aðstæður til þess arna sem ég hef kynnst á landinu.
Vippa sér síðan aðeins út til að ganga smáspöl með Friðargöngunni.
En þrátt fyrir þetta allt verður þessi Akureyrardvöl á Þorláksmessu undantekning.
Þeysisprettur dagsins hefur það í för með sér að þetta verður fyrsta Þorláksmessan, sem ég minnist þess að hafa ekki étið skötu.
Það er náttúrulega höfuðsynd hjá manni sem er giftur vestfirskri konu á á með henni vestfirsk börn.
Ó, Helga mín, ég er er bruna af stað suður og þrátt fyrir jólatöfra Akureyrar verð ég aldrei aftur annars staðar en í Reykjavík á þessum degi, nema þá að ég sé með þér.
Á leiðinni suður söngla ég við stýrið: "I´m coming home for Christmas!"
![]() |
Margir í friðargöngu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.12.2010 | 09:37
Dolly og Bruce, jólin komin !
Vinur minn, Andri Freyr Viðarsson, hefur að mínum dómi aldeilis yndislegan tónlistarsmekk og kunnáttu sem plötusnúður.
Nú rétt áðan, þegar ég er að leggja í hann til Akueyrar, spilar hann í röð þau tvö lög, sem ég verð að heyra áður en jólin ganga í garð: Here comes Santa Claus með Bruce Springsteen og syrpu tveggja jólalaga með Dolly Parton, þar sem "Walking in the Winter Wonderland" er aðallagið.
Flutningur Springsteen hefur ekkert með að gera fallega rödd eða flutning á margþvældu jólalagi, sem ég sauð við fyrsta jólatextann sem ég gerði fyrir aðra en mig sjálfan. Nei, það er þessi vetrarhráa, sanna og barnalega stemning sem Bruce tekst að fanga sem er svo einstök.
Maður verður barn í annað sinn og lifir sig inn í þetta lag eins og krakki og hugsar til minninga um föður sinn frá barnæsku.
En Dolly Parton og flutningur hennar er síðan saga út fyrir sig. Ef það er eitthvað eitt jólalag sem ég bókstaflega verð að heyra fyrir jólin, þá er það þetta lag sem í flutningi Dollyjar, sem er hreint óborganlegur, verður að einstakri blöndu af gleði barnsins í bland við það yfirbragð sem mér finnst gera þetta lag í flutningi hennar að mest sexý jólalagi allra tíma.
Í flutningi sínum finnst mér Dolly Paton komast nálægt sjálfri Marilyn Monroe hvað snertir einstæða blöndu af sakleysi og kvenlegum töfrum.
Og svo kemur Andri Freyr og spilar tvö af allra helstu jólalögunum mínum tvö saman í rykk!
Algert æði! Jólin eru að koma! Takk og gleðilega hátíð, Andri Freyr!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.12.2010 | 21:32
Hagkaupa-jóla-heilkennið.
Flest síðustu tuttugu ár hef ég verið við að árita bækur, mynddiska eða hljóðdiska í verslunum fyrir hver jól.
Fyrsta árið fannst mér þetta fíflalegt og út í hött en lét samt til leiðast og skipti alveg um skoðun. Í ljós kom að þetta var jákvætt og nauðsynlegt af mörgum ástæðum.
1. Maður hittir fullt af kunningjum og vinum, sem maður hefur ekki hitt árum saman.
2. Þverskurður þjóðarinnar, grasrótin sjálf, kemur upp í fangið og fólkið segir frá ýmsum skoðunum sínum og vekur máls á ýmsu sem annar hefði farið fram hjá manni.
3. Stundum er maður að árita með gefandi og skemmtilegu fólki. Í dag var það Tobba Marínós, í gær Bubbi Morthens og í fyrradag Vigdís Finnbogadóttir. Allt fólk sem ég þekki og er í miklum metum hjá mér.
4. Stór hópur fólks er nánast áskrifendur að verkum eins og Stiklunum og vill ekki missa neinn árgang úr. Þessu verður að sinna.
5. Þótt mikið sé fyrir árituninni haft, eins og til dæmis með því að gera það úti á landi, er það viss auglýsing. Á morgun fer ég til Akureyrar, - hefðin má ekki rofna.
Skemmtilegt er að kynnast ýmsum sálfræðilegum einkennum kaupenda.
Ég hef það fyrir reglu að láta tvo diska eða bækur liggja frammi samhliða þannig að framhliðin snúi upp á öðru eintakinu en bakhliðin upp á hinum.
Ef kaupandinn er tímabundinn getur verið þægilegt fyrir hann að sjá strax efnisyfirlit, til dæmis lista yfir lög og flytjendur sem er á bakhliðinni. En þetta gerist nánast aldrei, heldur er heilkennið það að kaupandi tekur upp diskinn, sem snýr rétt, og snýr honum síðan um leið sjálfur þannig að bakhliðin snúi upp.
Annað heilkennið kemur oft í ljós síðustu tvo dagana fyrir jól og kalla ég það Hagkaupa-jóla-heilkennið.
Þá sér maður vel klædd hjón á miðjum aldri koma inn í innganginn, stansa og svipast um. Bæði líta á klukkuna. Það er tímapressa í gangi. Þau ræða stuttlega saman og benda í báðar áttir.
Síðan er aftur litið á klukkuna og þau halda sitt í hvora áttina. Eftir dágóða stund hittast þau aftur á leið út á tilsettum tíma og hafa þá farið hvort sinn hálfhringinn um verslunina og eru nú klyfjuð af pökkum.
Upp með kortið og borgað og þotið út. "Mission completed", leiðangrinum og verkinu lokið.
Stundum hefur "grasrótin" gefið hugmyndir. Dæmi um það þegar ég var að árita bók fyrir tólf árum og nokkrar konur minntust á það við mig að þær teldu að það ætti að gefa Gáttaþefsplöturnar tvær aftur út á diskum.
Ég hafði aldrei heyrt þetta áður og fann því allt til foráttu. Það væri of dýrt að gera ný umslög og sleppa lakari lögunum sem ég ætti erfitt með að sætta mig við núna og vinna þetta allt upp á nýtt.
"Nei, nei!" hrópuðu þær. Sömu umslögin aftur! Öll lögin aftur!"
Ég tók ekki mark á þessu en við áritun annarrar bókar ári síðar komu margfalt fleiri til mín og orðuðu sömu bón. Það þýddi að eitthvað var í gangi hjá "grasrótinni".
Þegar ég hitt skömmu síðar Eið Arnalds, yfirmann þessara mála hjá Skífunni, sem þá var, og minntist á þetta, tjáði hann mér að þetta væri tiltölulega ódýrt, ef engu yrði breytt og ekkert auglýst.
Um næstu jól voru Gáttaþefsplöturnar gefnar út og eitthvað um 700 stykki seldust, nóg til að þetta bæri sig, en ekki meira en það.
Næstu jól seldust 3000! Og það án þess að vera neitt auglýstar. "Grasrótin" hafði haft rétt fyrir sér.
![]() |
Jólaösin að ná hámarki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.12.2010 | 09:56
Þráðurinn að ofan !
1930 stofnaði Sesselja Sigmundsdóttir Sólheima, þar sem auk þjónustu við þá sem minnst mega sín, var lögð áhersla á vistvæna starfsemi.
Á þeim tíma var þetta eins mikið "vonlaust eitthvað annað" og hugsast gat. Þá, eins og nú, var óhugsandi að nein önnur starfsemi "skapaði atvinnu" en verksmiðju- eða framleiðslurekstur.
Engan gat órað fyrir því þá að eftir 80 ár komu tugir útlendinga þangað til þess eins og nema þar fræðin, sem Sesselja lagði grunninn að og þessi staður ætti fyrir sér bjarta framtíð fyrir sér á grundvelli hugsjóna hennar.
Engan gat órað fyrir því að árið 2010 mætti segja að þróun og vöxtur staðrinn gæti verið tryggður, "jafnvel þótt þjónustustarfsemi framkvæmdastjórnarinnar við fatlað fólk yrði sagt upp".
Já, 80 árum eftir að barátta Sesselju Sigmundsdóttur hófst og loksins sést til fullnustu hve langt hún var á undan samtíð sinni, eru menn virkilega að pæla í því hvernig allt yrði í himnalagi þótt klippt yrði á "þráðinn að ofan", kærleiksþjónustuna, sem er siðferðilegur hornsteinn þessa merka staðar og það sem gefur honum gildi ofar öllu öðru.
Í mínum huga er það hrein móðgun við hugsjón Sesselju Sigmundsdóttur að láta sér það til hugar koma eða haga þannig málum í hagsmunalegri togstreitu að þessi hluti starfseminnar leggist nokkurn tíma niður.
Þráðurinn að ofan er ofinn úr tveimur þáttum, kærleiksþjónustunni og hinni vistvænu starfsemi.
Hvorugur þátturinn má slitna, þá hrynur allt.
Nú kemur í ljós að sé þessi þráður styrktur í stað þess að ógna honum, bíður Sólheima loks björt framtíð.
Ef líkja má tilvist staðarins þannig að hún hangi á keðju, gildir hið fornkveðna, að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.
Má vera að hin vistvæna starfsemi út af fyrir sig gefi peninga í hönd og víst er slík starfsemi fyrst og fremst fyrir velferð mannsins. En eigi bara að hugsa um peninga og ekkert annað og kærleiksþjónustan að leggjast af hefur Mammon sá, sem olli Hruninu, tekið völdin.
Það má aldrei gerast.
![]() |
Miklir möguleikar á svæði Sólheima |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2010 | 21:15
Biðlað til Lilju?
Lilja Mósesdóttir vakti fyrst athygli á fyrsta eða öðrum borgarafundinum í Iðnó, en þeir fundir voru liður í aðdraganda Búsáhaldabyltingarinnar.
Þar varaði hún eindregið gegn því að leitað yrði til AGS og hefur haldið sig við það síðan. Á þessum tíma var nafnið Lilja Mósesdóttir eitt af nýju nöfnunum, sem fólk tengdi eðlilega við "byltinguna" en ekki einhvern af fjórflokkunum.
Þessar vikur sýndist því líklegast að ef hún færi í framboð yrði það fyrir þá hreyfingu, sem þá var í mótun og tók loks á sig mynd Borgarahreyfingarinnar.
Kannski hefði hún gert það ef gengið hefði betur að koma þeirri hreyfingu á koppinn, en á ákveðnum tímapunkti orðið að velja á milli tveggja kosta: Að leita eftir framboði fyrir VG áður en það yrði of seint eða að bíða í óvissu eftir því hvort tækist að koma á fót framboði Borgarahreyfinginarinnar.
Ef þetta snerist um það að taka þann kost sem var líklegri til að skila henni áfram, er skiljanlegt að hún veldi VG.
Þráinn Bertelsson ákvað að fara fram og reyndi í tíma fyrir sér hjá Framsóknarflokknum en eftir slakt gengi þar stökk hann um borð hjá Borgarahreyfingunni.
Það hjálpaði til við ákvörðun Lilju að um þessar mundir mæltu Steingrímur J. Sigfússon og fleiri í VG á móti því að leitað yrði til AGS en síðar sneri Steingrímur við blaðinu og sagðist skipta um skoðun við nánari athugun.
Lilja hefur hins vegar haldið sínu striki, - samþykkti þó að styðja ríkisstjórn sem gekk til samvinnu við AGS, - en heldur þó til streitu andófinu gegn samvinnunni við AGS.
Af vinsamlegum ummælum Þórs Saari í hennar garð má ráða að Hreyfingin sé að biðla til Lilju um að hafa vistaskipti.
Myndi í því felast að hafa skipti "á sléttu" ef svo má að orði komast, með því að fá Lilju frá VG yfir í Hreyfinguna í stað Þráins Bertelssonar.
Það sem helst gæti hamlað vistaskiptum Lilju er það að hana ói við þeim kosti, sem myndi blasa við ef stjórnin veiklast of mikið, - að það gæti kallað fram ríkisstjórn með annað yfirbragð en "vinstri stjórn."
![]() |
VG gera allt til að losna við Lilju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)