BJÖRGUM GAMLA FLUGTURNINUM !

Víðar en á Seyðisfirði eru menningarminjar í hættu. Í mynd í Kastljósi í kvöld sem tekin var ofan úr flugturninum Reykjavíkí vakti athygli mína að það sást langar leiðir í hve hörmulegu ástandi gamli flugturninn er. Til stóð að rífa hann fyrir tveimur árum og enginn skilningur virðist vera á því að þetta er ein merkasta bygging borgarinnar. Úr turninum var stjórnað stórum hluta orrustunnar um Atlantshafið sem í öllum fræðibókum um stríðið fær álíka umfjöllun og Barbarossa, Stalingrad, Kursk, El Alamein og innrásin í Normandy.

Þegar farið er um Bretland, Frakkland og Noreg sést vel hvernig menn líta stríðsminjar af þessu tagi allt öðrum augum en hér.

Þegar breski sendiherrann hér frétti af því hvert stefndi með gamla turninn átti hann ekki orð af undrun. Hann er kurteis maður og kann sig en auðvelt var að sjá þegar rætt var við hann og fleiri Breta að þeim fannst þeim misboðið þegar þeir fréttu af því hvernig Íslendingar ætluðu að haga sér gagnvart sameiginlegum menningarminjum.

Menningarminjum? Hvernig getur hernaðarmannvirki verið menningarminjar?

Jú, í þessari byggingu var fyrsta flugumferðarstjórn á Íslandi og veðurstofan var einnig í turninum. Hvort tveggja var í turninum í mörg ár eftir stríð og stóra sjóflugvélaskýlið í Vatnagörðum og flugturninn eru elstu byggingar í þágu flugs á Íslandi. Það er lýsandi dæmi fyrir skilning Reykvíkinga á gildi sjóflugvélaskýlisins, sem á sínum tíma var stærsta bygging landsins, að bóndi vestur í Örlygshöfn skyldi verða til þess að varðveita það. Auðvitað hefðu Reykvíkingar átt að finna því stað í landi borgarinnar.

Ef við Íslendingar hefðum einhvern snefil af þeim hugsunarhætti sem maður sér að ríkir á hliðstæðum stöðum í nágrannalöndunum, væri gamli flugturninn kominn í upprunalegt horf og búið að innrétta hann sem safn þar sem á ákveðnum tímum um helgar væri sýnt hvernig sú starfsemi fór fram sem þarna var. Þar mætti sjá menn grúfa sig yfir kort af vígstöðunum við landið og skipuleggja baráttuna við óvininn.

Frá Íslandi flugu þær flugvélar sem klófestu fyrsta þýska kafbátinn sem náðist í stríðinu og baráttan um Atlantshafið stóð svo tæpt fyrstu mánuði ársins 1943, að hefði ekki tekist að snúa við blaðinu hefði ekki verið gerlegt að ráðast inn í Normandy í tæka tíð 1944 og Sovétmenn hefðu komist einir yfir Þýskaland með gríðarlega afdrifaríkum afleiðingum.

Hér á landi ríkir tvískinnungur varðandi hernaðarminjar. Þannig voru allir sammála um að varðveita Skansinn í Vestmannaeyjum, sem þó var hernaðarmannvirki reist á vegum dansks einvaldskonungs til þess að skjóta á og drepa aðvífandi innrásarlið.

Þegar hins vegar kemur að hernaðarminjum eftir veru Breta og Bandaríkjamanna er eins og mörgum Íslendingum finnist þær óæsklegar minjar um mannvirki sem nýttust í þeim ljóta tilgangi að herja og drepa. Það er eins og kalda stríðið standi enn þversum í mönnum, - að þetta séu vondar minjar.

Auðvitað er stríð hræðilegasta athöfn mannsins en gildi Skansins í Vestmannaeyjum byggist á því að hann var reistur til að verjast villimannlegum árásum sunnan frá Afríku.

Gamli flugturninn í Reykjavík var eitt af því sem notað var til að verjast nasismanum, einhverri mestu og villimannlegustu ógn sem mannkynið hefur þurft að horfast í augu við. Í stað þess að hálfskammast okkur fyrir að hafa tekið þátt í að verjast þessari ógn þurfum við Íslendingar ekkert að skammast okkar fyrir það að hafa nauðugir viljugir lagt varnarbaráttunni lið, þótt hún kostaði miklar mannfórnir.

Ein afsökunin sem borin var fram fyrir því að rífa turninn var sú að hann væri of nálægt aðflugslínu og akstursbraut. Er þó nýi turninn einnig inni í aðflugslínu og mjó akstursbraut rétt fram hjá turninum kemur ekki að sök, þótt hún myndi gera það á flugvelli með mjög mikilli umferð.

Önnur afsökun fyrir því að rífa turninn er að flugvöllurinn eigi að fara og þar með turninn líka. Þetta er enn lélegri afsökun.

Ég minni á vatnsturninn í Taarnbyen, Turnbænum á Amager, sem stendur þar á krossgötum og bæjarhverfið dregur nafn af. Þótt flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni gæti turninn vel staðið þar sem hann stendur nú og orðið prýði fyrir nýju byggðina, langmerkilegasta byggingin, hluti af lifandi flugsafni og mætti meira að segja skipuleggja umhverfið þannig að þarna yrði Taarnby, Turnbær Reykjavíkur.

Ein afsökunin sem notuð var til að réttlæta niðurbrot flugturnsins var sú að það yrði að brjóta hann niður, því ekki væri hægt að flytja hann. Þetta er líka rangt, - þannig var gamla flugstöðin á Kastrup, margfalt stærri bygging, flutt langar leiðir við flugvöllinn til að rýma fyrir nýrri því Dönum datt ekki í hug annað en að varðveita gömlu flugstöðina.

Flugturninn er annað af tveimur elstu flugmannvirkjum á Íslandi og hefur að því leyti til svipað gildi og elsta flugstöðin í Danmörku.

Þannig ber allt að sama brunni og ég enda þennan pistil eins og ég byrjaði hann: Björgum gamla flugturninum!


AÐ ÝMSU AÐ HUGA.

Það má fagna auknum áhuga á að leggja raflínur í jörðu. Hingað til hefur raflínulögn ofanjarðar verið afsökuð með því að hún sé svo margfalt ódýrari en lögn neðanjarðar. Á tímum stórvaxandi verðmætis orkunnar er þetta ekki einhlít afgreiðsla. Einn versti staðurinn þar sem raflína á alls ekki heima ofanjarðar er byggðalínan fyrir norðan Landmannalaugar. Af mörgum stöðum þar er einstakt útsýni til norðurs í góðu veðri, allt norður til Bárðarbungu af hæstu stöðunum.

Margir útlendingar sem ég hef hitt á þessum slóðum hafa ekki átt orð yfir það hvers vegna línan var lögð einmitt þarna. Þetta er ekki langur kafli en alveg ótrúlega áberandi.

Í sambandi við fyrirhugaðar línulagnir þvers og kruss um Reykjanesskagann hefur verið bent á það að miklu verra sé að komast að til viðgerða á línum neðanjarðar en ofanjarðar. Þar sem línurnar liggi þvert á sprungustefnur þurfi líka að huga vel að því að ekki verði óþarfa bilanir þess vegna.

Það er að ýmsu að huga í þessum málum og þess vegna er tímabært að taka þetta mál upp að nýju og sjá til hvort ekki sé hægt að breyta ýmsu sem hingað til hefur ekki verið talið hægt að gera.


mbl.is Vilja móta stefnu um raflínur í jörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VELDUR TÆMING LÓNSINS ÓRÓANUM NÚ ?

Í fyrstu bloggpistlum mínum um skjálftana við Upptyppinga setti ég fram þá tilgátu að líklegt yrði að þegar tæming Hálslóns hæfist myndu skjálftar aukast og að létting vatnsfargsins á jarðskorpuna myndi verða líklegri til að valda eldgosi heldur en þynging. Vísaði ég þar í það að snögg létting á vatnsfargi hefði valdið gosum í Grímsvötnum og þess vegna kynni hætta á eldsumbrotum að verða meiri  þegar liði á veturinn, jafnvel þótt létting lónsins væri mun hægari en hraðasta þyngingin. Má minna á að létting ísaldarjökulsins var mjög hæg fyrir 11 þúsund árum en gosvirknin þrítugfaldaðist samt við það norðan Vatnajökuls. 

Nú hefur það gerst samtímis, að þegar vatn er tekið að renna úr lóninu niður í stöðvarhúsið í Fljótsdal og lónið að lækka og léttast kemur mikil skjálftahrina sem er nær Kárahnjúkum en áður var.

Það vekur athygli mína, þegar ég ber saman lónhæðina og skjálftana nú í haust með því að skoða tölur Veðurstofunnar og Landsvirkjunar, að þegar lónið var að nálgast fulla hæð í september til nóvember og því var haldið í svipaðri hæð á þessum tíma með því að hleypa vatni um botnrás og síðar yfirfall, var rólegt við Upptyppinga.

Þess vegna kemur skjálftahrinan nú mér ekki á óvart að öðru leyti en því að ég hélt að hún kæmi  kannski seinna. Hin vegar kemur mér það á óvart þegar haft er eftir sérfræðingi Veðurstofunnar í fréttum Stöðvar tvö í kvöld, að með þessari nýju skjálftahrinu sé kenningin um að fylgni þunga Hálslóns skjálftanna geti bent til orsakasambands þarna á milli, fokin út í veður og vind.

Eins og sést í nýrri athugasemd minni hér fyrir neðan frá klukkan 13:45 virðist ég hafa misskilið það sem haft var eftir sérfræðingnum. Það sem hann átti við var svipað og ég segi hér fyrir neðan, að þegar umbrotin aukast kemur að því að þau verða svo öflug að þau fara sínu fram án tillits til lónhreyfinga. Að því leyti vísar hann ekki á bug tilgátunni um að tilvist lónsins hafi komið óróanum af stað, samanber ummæli Páls Einarssonar í fréttum í október s.l.   

Ég er bara leikmaður og þegar ég benti fyrstur manna á hugsanlegt orsakasamband milli fyllingar og skjálfta ríkti þögn um það meðal vísindamanna. Síðan féllst sá virti jarðvísindamaður Páll Einarsson á að ekki væri hægt að útiloka það, enda fylgdust línurnar sem sýndu skjálfta og mismunandi hraða á hækkun lónsins svo kyrfilega að, að með ólíkindum var.

Það verður spennandi að fylgjast með því hvort hæð lónsins og skjálftavirknin muni fylgjast að áfram. Hugsanlega verður uppstreymi kvikunnar sem hófst í sumar brátt orðið það mikið að hrinurnar byrja að fara eigin ferla eftir því sem nær dregur yfirborði.

Það verður líka spennandi að sjá hvað á eftir að "fjúka út í veður og vind" áður en upp er staðið.  

 


mbl.is Ekkert lát á jarðskjálftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HVENÆR HEFUR MAÐUR DREPIÐ MANN?

Spurning Jóns Hreggviðssonar kemur upp í hugann við útkomu bókar um morðið á Gunnari Tryggvasyni vegna þess gríðarlega ósamræmis sem gætti í sýknudómi í því máli og sektardómi í Geirfinnsmálinu. Davíð Oddsson nefndi orðið dómsmorð um það mál og ég tek undir það. Berum þessi tvö mál saman, Gunnarsmálið og Geirfinnsmálið. Í Gunnarsmálinu var: 1. Lík fyrir hendi. 2. Morðvopn fannst í vörslu hins grunaða. 3. Leiða mátti líkur að ástæðu fyrir morðinu. 4. Framburður hins grunaða var ekki sannfærandi þótt hann neitaði allan tímann sök.

Skoðum síðan sömu atriði í Geirfinns- og Guðmundarmálinu. 1. Ekkert lík fannst. 2. Ekkert morðvopn fannst. 3. Aldrei var borin fram nein rökstudd ástæða fyrir morðunum. 4. Margbreyttur og misvísandi framburður fékkst fram með þvingunum sem ekki stóðust kröfur og færir réttarsálfræðingar á borð við Gísla Guðjónsson hafa sýnt fram á að ótækt er að byggja á slíkum framburði.

Einar Bollason var meðhöndlaður þannig í fangelsi að á tímabili var hann farinn að halda að hann hlyti að hafa staðið að morðunum þótt hann gæti ekki munað það. Þegar hægt er að leika alsaklausan heiðursmann svona grátt ætti það að liggja fyrir að mun verri þvingunarmeðferð og miklu lengra gæsluvarðhald gagnvart öðrum sakborningum gat náð fram hvaða játningu sem var.

Í Gunnarsmálinu var höfð í heiðri ein höfuðregla réttarfars: In dubio pro reo, þ. e. allur vafi skal túlkaður hinum ákærða í hag. Á þeim forsendum var kveðinn upp réttur sýknudómur í Gunnarsmálinu.

Aldrei var sannað að Geirfinnur og Guðmundur hefðu verið myrtir. Þeir gætu þess vegna báðir dúkkað upp einn góðan veðurdag og tekið til þar sem frá var horfið.

Þáverandi dómsmálaráðherra sagði að þungu fargi væri létt af þjóðinni með þungum refsidómum í Geirfinnsmálinu.

Ég held því hins vegar fram að það verði ekki þungu fargi létt af þessari þjóð fyrr en sama reglan, in dubio pro reo, verði látin gilda í Geirfinns- og Guðmundarmálinu og í Gunnarsmálinu.

Um þetta mál gildir nefnilega það sama og felst í heiti leikverks í Borgarleikhúsinu í haust: Lík í óskilum. Það vantar lík, morðvopn og ástæðu. Við erum aftur komin að upphafsspurningunni: Hvenær hefur maður drepið mann? Mitt svar er: Það hefur enginn drepið mann ef enginn er dauður.


KANNSKI EFTIR KOSNINGAR.

Ráðstefnan á Bali er haldin á óheppilegum tíma fyrir Bandaríkjamenn því að forsetakosningar á næsta ári gera það að verkum að forsetinn, hver sem hann er, er ekki í nógu sterkri aðstöðu til að taka jafn erfiðar og afdrifaríkar ákvarðanir og þarf að gera í þessum málum. Löngum hefur verið talað um forseta Bandaríkjanna á síðasta valdaári sínu sem "lame duck", lamaða önd, hvað það snertir að hann á mjög erfitt með að taka stórar og afdrifaríkar ákvarðanir fyrir framtíðina og eftirmenn sína.

Frambjóðendur reyna að taka sem minnsta áhættu og telja öruggara að fara með löndum. Því er ekki öll nótt úti hvað snertir alþjóðlegt samkomulag sem takið við af Kyotosamkomulaginu og öll helstu stórveldi heimsins eigi aðild að. Vonandi að maður þurfi ekki að blogga aftur undir upphrópuninni "hjálpum þeim !" eins og ég gerði í fyrradag.


mbl.is Samkomulags ekki vænst á Balí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AFTUR ALI-FRAZIER, ALI-BONAVENA,-ALI-LISTON ? JÁ.

Áður en ég fer út úr dyrunum að hitta Bubba og lýsa boxi í nótt má ég til með að benda á að bardaginn Mayweather-Hatton getur orðið jafnvel enn betri formúla að hinum fullkomna bardaga en Ali-Frazier á sínum tíma. Þegar ég kem heim eftir bardagann ætla ég að bæta við þennan pistiil hér fyrir neðan.

Berum þetta tvennt saman.

Ali-Frazier var:

1. Tveir ósigraðir þungavigtarheimsmeistarar. Engin hliðstæða.

2. Gerólíkir hnefaleikarar, Ali tæknilegt undur, Frazier höggamaskína sem gekk stanslaust áfram og sló. "Besti einhenti boxari sögunnar" því að eina höggið sem hann treysti á (og sló Ali niður með því) var ótrúlegur vinstri krókur, sem var ólíkur öllum öðrum vegna meiðsla sem hann hlaut í æsku.

3. Pólitík. Ali uppreisnarmaðurinn, Frazier í náðinni hjá valdastéttinni.

Báðir voru svartir en Ali tókst alltaf að koma sér í hlutverk blökkumannsins gegn fulltrúa hvíta kynstofnsins.

Mayweather-Hatton:

1. Tveir ósigraðir meistarar. Þó ekki í þungvigt, því miður.

2. Gerólíkir hnefaleikarar á mjög svipaðan hátt og Ali-Frazier, tæknileg unun á móti hráum krafti og stanslausri sókn.

3. Hvítur á mótu svörtum. Raunverulega. Eins ólíkir og hægt er að hugsa sér.

4. Breti á móti Bandaríkjamanni. Enn stærra atriði, hugsalega það stærsta. Frá upphafi hnefaleikanna hafa Bandaríkjamenn aldrei þolað Breta í þessari íþróttagrein. Við vigtunina var salurinn fullur af Bretum og það var púað á gullbarkann Michel Buffer þegar hann sagði að þetta væri stærsta innrás Breta í vesturheimi síðan 1812.

Ég segi að lokum eins og Bubbi: Það er að bresta á !  Góða skemmtun.  

 

Nú er klukkan 6:10 að íslenskum tíma og mér finnst rétt að vera með sögulokin í sama pistlinum. Þetta varð annað Ali-Frazier. Það gerðist það sama og frelsisbaráttu Bandaríkjamanna að breska innrásin mistókst. Þetta stóð undir öllum væntingum, breska tígrisdýrið réðist af þvílíkum hraða og ákafa á hinn mikla hnefaleikasnilling að hann hafði aldrei lent í eins kröppum dansi.

Þetta bauð upp á allt, dramatík, annar næstum dottinn út úr hringnum, dómaraskandall besta hnefaleikadómara heims á kafla í bardaganum, svipaða stemningu og á breskum knattspyrnuleik í höll þar sem ALLT frægasta fólkið var og sjálfur Tom Jones söng breska þjóðsönginn.

Strax í upphafi bardagans fékk Mayweather að vita að hér var ekki við neinn venjulegan andstæðing að ræða þegar hann riðaði og var næstum dottinn afturábak í gólfið undan harðri höggahríð Bretans. Honum tókst með mikilli kænsku að koma sér út úr vandræðunum og plataði besta dómara heims í leiðinni svo að dómarinn fór á taugum og fór að skipta sér á fráleitan hátt af hæstu návígum. 

Eftir fimm lotur var Mayweather búinn að læra á hið illskeytta og óstöðvandi breska tígrisdýr sem aldrei hefur tapað og aldrei verið slegið niður enda þolað hvað sem er og étið högg eins og konfekt á sigurbraut sinni.

Mayweather þurfti að taka á allri kænsku sinni og útsjónarsemi, nota alla klæki í návígi og hvílast sig þar til þess að geta tekið stuttar skorpur þar sem hann kom eldsnörpum og nákvæmum höggum og gagnhöggum á andstæðinginn, sem hins vegar sló óteljandi högg sem annað hvort voru stöðvuð eða hittu ekki eins og til var ætlast. 

Þannig skipulagði Mayweather orkunotkun sína af mikilli snilld og aðlagaði sig smám saman að bardagaaðferð andstæðingsins uns tækifærið kom: Í leiftursókn Hattons þar sem hann stökk fram og sló hraðan vinstri krók, vék Mayweather sér eins og eldiing til hliðar og sló um leið hægri handar högg á sem var enn hraðara en högg Hattons og hitti nákvæmlega þar sem því var ætlað á kjálka Hattons sem hljóp á höggið og sá það aldrei.

Þá hafði hann af og til í bardaganum fengið á sig nákvæm högg Mayweathers án þess að riða og sagði eftir bardagann að hann hefði oft fengist við þunghöggari andstæðinga sem þó hefðu aldrei komið sér úr jafnvægi. Munurinn var hins vegar sá að hann hafði aldrei áður fengið á sig svo mörg nákvæm, hröð og vel tímasett högg.  

Hann fór í gólfið í fyrsta skiptið á ferlinum og eftirleikurinn var gargandi snilld.

Í þessum bardaga sýndi Mayweather allt sem besti hnefaleikari heims getur haft upp á að bjóða, - aðlögunarhæfni, bardagavilja, skipulagningu á notum úthalds síns, seiglu, hraða, ofurtækni í sókn og vörn, nákvæmni og tímasetningar. 

Þetta var eitthvert besta skólabókardæmi um hágæðaframmistöðu sem aðeins bestu meistarar geta gefið.  

Í þeim ham sem hann er nú er hann að mínum dómi besti hnefaleikari sem ég hef séð síðan ég fór að horfa á hnefaleika að staðaldri fyrir tuttugu árum. (Pund fyrir pund eins og það er kallað).

Þetta var sigur mannshugans, skynseminnar og tækninnar yfir hráu afli, - sigur nautabanans yfir nautinu.

Með því er ég ekki að kasta neinni rýrð á Hatton, getu hans, dugnaðar og hugrekkis, frekar en dýrð Alis kasti rýrð á Joe Frazier.

Þetta var að mínum dómi eins magnað og hægt er að ætlast til af nokkrum íþróttaviðburði. Og þá er gaman.

Fjórar hliðstæður úr hnefaleikasögunni koma upp í hugann.

Ali-Bonavena. Samskonar atvik í 15. lotu. Bonavena hafði aldrei áður verið sleginn niður.

Ali-Liston: "Draugahöggið" fræga, sem nýjar myndir sanna að var raunverulegt rothögg.

Sugar Ray Robinson-Gen Fullmer: Sams konar atvik, oft kallað "draumahöggið". Fullmer hafði aldrei áður verið sleginn niður.

Rocky Marciano-Jersey Joe Walcott: Svipað atvik, stundum kallað svakalegasta rothögg sögunnar. 

 

 


HJÁLPUM ÞEIM !

Hjálpum þeim! - vesalings Bandaríkjamönnunum sem treysta sé ekki til að láta af hendi yfirburða forystu sína í útblástri gróðurhúsalofttegunda. Hjálpum þeim til að sleppa við að endurvinna ál með því að lofa þeim að reisa ný álver hér á landi til þess framleiða það sem þeir þurfa til að geta hent álumbúðunum áfram. Hjálpum þeim í leiðinni til leggja niður óvinsæl álver heima hjá sér. Hjálpum þeim til að varðveita orkubúntið Yellowstone með því að virkja fyrir þá hér á Íslandi mun dýrmætari náttúru á heimsvísu. 

Hjálpum þeim til að reisa olíuhreinsistöðvar hér í stað stöðvanna sem þeir hafa lagt niður hjá sér.  

Við erum fá en en við getum hjálpað þeim eins og við getum við framleiða áfram stóra og eyðslufreka bíla með því að halda áfram að kaupa slíka bíla af þeim og veita áfram tollaafslátt í því skyni.

Ef við hjálpum þeim hjálpa þeir kannski okkur. Ef við styðjum sem allra mesta uppbyggingu herafla NATÓ við bæjardyr Rússa í austanverðri Evrópu getum við kannski hleypt lífi í nýtt kalt stríð og fengið herinn aftur til okkar, herinn sem fór héðan og menn segja að hafi með því valdið mesta atvinnu- og tekjumissi hér á landi í áratugi.

Ég er félagi í Samtökum um vestræna samvinnu og studdi með atkvæði mínu veru varnarliðsins. Ég hef hins vegar vonast til að ekki þyrfti að koma til þess, sem nú virðist stefna í, í flótta Bandaríkjamanna frá viðfangsefnum alþjóðsamfélagsins.

Það er í ósamræmi við fyrri viðbrögð Bandaríkjamanna við alþjóðlegri vá. Þeir komu, seinþreyttir til vandræða,  Evrópubúum og raunar mannkyninu öllu til hjálpar á ögurstundum í heimstyrjöldunum tveimur, einkum þeirri síðari. 

Ég var að vona að þeir brygðust eins við nú. Nú dofnar sú von hratt og stefnir að óbreyttu í það að hlutunum verði snúið við, - við verðum að hjálpa þeim við að komast hjá því að taka á sig sinn stærstan skerfinn af ábyrgðinni af því hvernig mannkynið umgengst jörðina sína og afkomendur sína.

Aðrar þjóðir heims, þar á meðal Íslendingar, eiga líklega engra annarra kosta völ en að láta herópið hljóma svo það berist vestur yfir Atlantshafið:  Hjálpum þeim !


mbl.is Bandaríkin skrifa ekki undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"SECOND TO NONE"

Ofantalin þrjú orð eru í miklu dálæti hjá Bandaríkjamönnum þegar hernaðarmáttur er annars vegar og dugði vel í kalda stríðinu. Þegar menn önduðu léttara við fall Sovétríkjana og veiklingu Rússlands vildi hinn mikli kjarnorkuhernaðarmáttur landsins gleymast, en hann gefur landinu sérstöðu miðað við önnur öflug ríki eins og Japan og Kína.

Gallinn við stefnu í varnarmálum öflugra ríkja er sú kenning sem menn treysta sér ekki til að hafna, að einhliða varnarviðbúnaður nægi ekki nema til staðar sé líka geta til sóknar.

Líklega er besta dæmi hernaðarsögunnar um þetta einhliða varnarviðbúnaður Frakka og Breta við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Engin áætlun var til hjá þeim um sókn inn í Þýskaland og vesturveldin höfðu ekki þorað að framleiða stórar sprengjuflugvélar vegna þess að þær yrðu taldar sóknarógnun.

Fyrir bragðið gátu Þjóðverjar ósköp rólegir sent nær helming herafla síns í innrásina í Pólland og lungann úr brynsveitum sínum (panzer), skriðdrekasveitum. Þeir luku leiðangrinum á methraða og voru síðan komnir til baka með heraflann til vesturlandamæranna á methraða eftir nýlögðum hraðbrautum.

Ráðamenn í austustu ríkjum NATÓ telja líklega ekki nægja að hafa þar hreinan varnarbúnað til að tryggja sig gegn huganlegri ásælni Rússa heldur þrýsta á sóknarbúnað í formi eldflauga.

Rússar telja sig á sama hátt ekki getað látið sem ekkert sé og aðeins treyst á varnarbúnað sinn heldur grípa þeir að sjálfsögðu til kjarnorkumáttar síns, eflingu sóknareldflauga og hefðbundins herafla í Evrópu.

Afleiðingin getur varla orðið nema ein: Vígbúnaðarkapphlaup, enn eina ferðina.

Það var dásamlegt að mannkynið slapp við gereyðingarstríð þegar kalda stríðið stóð sem hæst. Gallinn við það er bara sá að úr því að mannkynið slapp í það sinn fara menn að treysta því sem gefnum hlut að vígbúnaðarkapphlaup geti ekki endað í slíku stríði.

En lögmál Murphys lætur ekki að sér hæða. Ef eitthvað getur farið úrskeiðis mun það fyrr eða síðar gerast. Þess vegna var sú viðleitni sem hófst hér í Reykjavík á frægum fundi leiðtoga risaveldanna til að eyða gerðeyðingarvopnunum svo nauðsynleg.

Menn líta oft einhliða á Reagan sem haukinn sem vildi vígbúast svo heiftarlega að Sovétríkin yrðu undir í vopnakapphlaupinu. 

Þá vill það gleymast í frægri ræðu sinni um geimvarnaráætlunina eða stjörnustríðsáætlunina setti hann fram þann vilja sinn að kjarorkuógninni yrði aflétt. Hann taldi ekki hægt að sætta sig við það að hún vofði yfir. 

Nú er Rússland á uppleið efnahagslega og ef það stefnir smám saman í stigvaxandi vopnakapphlaup austurs og vesturs með þeirri hugsun að Rússland verði beygt í duftið í annað sinn eins og þegar Sovétríkin hrundu, þá er það hættuleg hugsun.

Hún leiðir til nýrrar og vaxandi kjarnorkuógnar og í þetta sinn er ekki víst að Rússland hrynji innan frá eins og Sovétríkin gerðu því að þrátt fyrir takmarkað lýðræði í Rússlandi hefur hið misheppnaða skipulag kommúnismans verið lagt þar niður, ríkið sæmileg heild en ekki kraðak sambandsríkja og aðstæður því aðrar en var í kringum 1990.  

 

 

 

 


mbl.is Rússar segja upp afvopnunarsamningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ER ENGINN HÆFUR TIL AÐ SEGJA SANNLEIKANN?

Gamalkunnar röksemdir um hræsni sjást nú á kreiki um Al Gore. Hann má ekki segja hinn óþægilega sannleika um gjörðir manna við að sóa auðlindum jarðar og menga lofthjúpinn af því að hann lifir í umhverfi þar sem þetta er stundað. Á sínum tíma var ráðist á Héðin Valdimarsson fyrir það að hann væri vel stæður forstjóri og því mætti hann ekki berjast fyrir kjörum verkamanna af því að hann væri hræsnari.

Ég trúi mátulega fullyrðingum þessara manna um að Gore aki um daglega á stórum og eyðslufrekum jeppa því að sjálfur hef ég verið sakaður um hræsni fyrir það sama þótt ég aki meira en 90% af akstri mínum á minnstu, ódýrustu og sparneytnustu bílum sem hægt er að finna hér á landi.

Efst á lista fólks sem ekki má samkvæmt þessu hafa skoðanir og tjá sig um þær varðandi þessi mál eða kjör hinna lægst launuðu: Forseti Íslands, félagsmálaráðherra, biskup Íslands, formaður BSRB, o. s. frv.

Samkvæmt þessum gamalkunna áróðri má ekkert af þessu fólki berjast fyrir þessum málum.

Aðeins er hægt að draga eina ályktun af svona skrifum: Þeir sem svona skrifa vilja að þeir sem segi inn óþægilega sannleika búi við svo slæm kjör að þeir hafi engin tök á að láta að sér kveða. Ég get ekki séð neitt annað sem búi að baki.  


FORSENDUR, HEPPILEGA OG HAGRÆDD GÖGN RÁÐA.

Stóriðjusinnar fagna því að Ísland skuli vera í 3.sæti á lista þjóðanna í umhverfismálum og virðast álíta að það sanni að umhverfsissamtök hér hafi rangt fyrir sér. Ísland hefur áður komist hátt á svipuðum lista, og gaf ég mér tíma til að kafa í gegnum alla skýrsluna. Eitt af því sem skipti máli í þeirri skýrslu var ástand gróðurs. Nokkrar þjóðir gáfu ekki upplýsingar um það og í reit Íslands, Króatíu, Ukrainu og nokkurra A-Evrópu- og þróunarlanda stóð: NA, þ.e. ekki vitað. Þetta eina atriði sýndi að hjá að minnsta kosti Íslandi og Ukrainu var lokaniðurstaðan röng, Ukraina með sína geislavirkni eftir Chernobyl og Ísland þá með verstu gróðureyðingu heims miðað við stærð landins og íbúafjölda. Nú þarf kannski að kafa í gegnum nýju skýrsluna til að sjá hvað er á seyði. Af hinni nýju frétt má þó álykta. Ætli það, sem ræður nú, sé ekki margtuggin síbylja um hreinar og endurnýjanlegar orkulindir og það að 70 prósent húsa á Íslandi séu hituð með slíkri orku? Það út af fyrir sig segir ekkert um að neinar hugsjónir Íslendinga hafi verið að verki, -húsin eru eingöngu hituð með þessu vatni vegna þess að það er ódýrast og sparar gjaldeyri. Íslendingar földu ástand gróðurs í skýrslunni fyrir sjö árum. Nú ljúgum við því að Kárahnjúkavirkjun sé sjálfbær eilífðarvél eins og Sogsvirkjanirnar og segjum ekki frá því að orkan á Hengils- Hellisheiðarsvæðinu verði uppurin eftir aðeins 40 ár, hvað þá að 88% orkunnar fari til spillis og að útblástur brennisteinsvetnis sé margfaldur útblástur allra álvera landsins. Í þessari skýrslu er áreiðanlega ekkert um rányrkjuna á nokkrum afréttum landsins sem landgræðslustjóri sagði fyrir nokkrum árum að væru ekki beitarhæfir. Við förum senn upp í fyrsta sætið í heiminum hvað snertir koldíoxíðsútblástur á mann en líklega bjargar miklu fyrir okkur í þessari skýrslu að drykkjarvatn á Íslandi er hreint og loftgæði góð, en hvort tveggja er eingöngu því að þakka hve landið er dreifbýlt. Ætli rykmengun í stærstu þéttbýlisstöðum landsins sé tiltekin í þessara skýrslu frekar en ástand gróðurs fyrir sjö árum? Um svona skýrslur gildir bandaríska máltækið: "Garbage in - garbage out." Með því að gefnar eru hagkvæmar forsendur og við ljúgum síðan um staðreyndir, felum þær eða hagræðum þeim má komast hátt í skýrslum. Þegar ég hef tíma til ætla ég að reyna að kafa niður í nýju skýrsluna. Ef ég hefði ekki kafað niður í skýrslu SÞ fyrir sjö árum stæðu niðurstöður hennar enn letraðar gullnu letri í sögu landsins því að enginn annar hafði fyrir því að skoða smáaletrið þá. Stóriðjusinnar sjá nú væntanlega hilla undir það að við getum haldið áfram að vera ofarlega listanum með því að hafa engar áhyggjur af útblæstri bílanna okkar því að loftgæði á Íslandi verði áfram í fremstu röð. Eins og við horfum nú framhjá ýmsu sem máli skiptir, þarf ekkert að vera að minnast á það að 300 hestalfa þriggja tonna bíldreki í innkaupaferð í Reykjavík blæs jafnmiklu út í sameiginlegan lofthjúp allra jarðarbúa og jafnstór bíldreki í New York.

mbl.is Ísland í fremstu röð í umhverfismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband