21.3.2009 | 10:33
Kynslóðirnar á undan og eftir.
Í bókinni "Kárahnjúkar - með og móti" er kafli sem heitir: "Kynslóðin sem brást en getur séð að sér." Þar er því lýst hvernig sú kynslóð, sem ráðið hefur för undanfarin ár arðrændi eldri kynslóðir með því halda uppi óðaverðbólgu sem eyðilagði sparnað gamla fólksins.
Nú stefnir í stórfellda skerðingu á lífeyrnum sem gamla fólkið hafði unnið fyrir hörðum höndum. Í kaflanum í Kárahnjúkabókinni er síðan eftirfarandi kafli:
"Þegar verðbólgan var hvað mest upp úr 1980 var tekið stórt erlent lán til 35 ára sem ekkert þarf að borga af fyrr en það fellur í einu lagi ásamt vöxtum á þá Íslendinga sem þá hafa tekið við... ....Nú hefði mátt halda að þessari stórlega ofmetnu kynslóð hefði nægt að arðræna tvær kynslóðir, þá sem á undan var og þá sem á eftir kemur, foreldra sína og afkomendur. En það er nú öðru nær. Nú ætlar hún að hrifsa til sín verðmæti landsins af þvílíkri græðgi að það mun síðar bitna á kynslóðum framtíðarinanr sem sitja munu uppi með lakari landgæði en ella."
Þessi kafli í bókinni er þó ekki málaður eingöngu svörtum litum heldur er í framhaldiinu skorað á þessa kynslóð sjálftöku og oftöku að sjá að sér og snúa við blaðinu.
![]() |
Áhyggjur af skerðingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.3.2009 | 00:41
Austurvöllur, staður minninganna.
Það hefur verið einstaklega gefandi að taka þátt í mótmælafundum á Austurvelli í vetur sem og öðrum samkomum og mótmælum. Mér eru þessar stundir einkar kærar vegna þess að á þessum stað í september 2006 slóst ég fyrst opinberlega í hóp með því hugsjónafólki sem hafði þá staðið vaktina þar við erfiðar aðstæður frá sumri 2002 fram á útmánuði 2003 og hóf merkið að nýju þremur árum seinna.
Hugsjónamaðurinn Hörður Torfason og fleiri hafa verið kallaðir "atvinnumótmælendur" í niðrunarskyni. Sumir þer sem notað hafa þetta orð sem skammaryrði hafa sjálfir verið í hálaunastörfum við það sem verið er að mótmæla en enginn talar um þá sem "atvinnumeðmælendur" þótt þeir vinni beinlínis við það og þiggi há laun fyrir.
Orðið "atvinnumótmælandi" er rangnefni hvað Hörð Torfason snertir og fjölmarga aðra sem af hugsjónum einum saman hafa gerst raddir hrópandanna án þess að þiggja krónu fyrir það.
Fyrir hluti orðsins "atvinnu"mótmælandi hittir þá sjálfa fyrir sem hafa jafnvel af því ævistarf á háum launum að þjóna vafasömum og stundum vondum málstað. Þeir eru þeir einu sem eru atvinnumenn.
![]() |
Hlé á fundum Radda fólksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.3.2009 | 00:29
Hvernig var heildarmyndin ?
"Athygli vekur að Íslandshreyfingin fékk milljón krónur meira í styrki en Frjálslyndi flokkurinn." Þetta var margendurtekið í fréttum í dag. Hvergi var í fréttum fjölmiðlanna í dag minnst einu orði á það að styrkir fyrirtækja til flokkanna voru aðeins hluti af því fjármagni sem þeir höfðu til ráðstöfunar fyrir síðustu kosningar.
Þeir flokkar sem þá höfðu fulltrúa á þingi fengu tugi milljóna og jafnvel yfir hundrað milljónir í framlag frá ríkinu á sama tíma og Íslandshreyfingin fékk ekki krónu þaðan.
Síðan tel ég að þau fyrirtæki sem styrktu öll framboðin jafnt eigi ekki að lenda í orrahríð ásakana um óeðlilega tengsl.
Margir aðilar höfðu þessa reglu og hún grundvallaðist á því að nauðsynlegt væri að kosningabaráttan í heild væri styrkt og þá framboðin öll jafnt til þess að styrkja nauðsynlegt flæði upplýsinga og skoðana sem er undirstaða lýðræðisins.
Eins og aðstæður voru 2007 var útilokað að reka kosningastarf án þess að hafa fjármagn. Íslandshreyfingin hafði aðeins úr broti af því fjármagni að spila sem hin framboðin höfðu.
Ef eitthvað var um fjárráð hennar að segja í fréttum hefði það verið þetta: "Athygli vekur að Íslandshreyfingin eyddi langminnstu fé í kosningabaráttuna."
![]() |
Baugur styrkti Sjálfstæðisflokkinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.3.2009 | 00:05
Ekki talað um það sem menn vissu ekki um.
Það er vafalaust rétt hjá Geir Haarde að fyrir kosningarnar 2007 talaði enginn um að bankarnir væru of stórir. Á því er hins vegar skýring. Ég minnist þess ekki að það hafi komið þá fram í fjölmiðlum eða annars staðar hvað þeir væru orðnir stórir á þessum tíma.
Veit einhver enn svarið við því hvað fjármálakerfið okkar var þá orðið stórt?
Hver átti að fylgjast með því? Að sjálfsögðu fulltrúar almennings og fjölmiðlarnir.
Almenningur hafði ekki hugmynd um að einu og hálfu síðar hefði bankakerfið margfaldast. Hverjir áttu að fylgjast með því? Fulltrúar almennings og fjölmiðlarnir.
Hvenær fékk almenningur að vita um stærð bankakerfisins og að skuldir þjóðarinnar væru orðnar sem svaraði fimmfaldri árlegri þjóðarframleiðslu? Í september 2008. Hverjir voru í aðstöðu tl að fylgjast með þessum ósköpum?
Fulltrúar þjóðarinnar og stofnanirnar sem heyrðu undir þá.
![]() |
Bankaleyndin gengið út í öfgar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.3.2009 | 21:19
Austur-Evrópa: Fólkið brást, ekki stefnan.
1956 flutti Krjústjoff, æðsti valdamaður Sovétríkjanna, fræga leyniræðu á þingi kommúnistaflokksins, og lýsti því hvernig Jósef Stalín hefði brugðist en ekki kommúnisminn, og þess vegna hefði ríkt kúgun í sæluríkinu og tugir milljóna manna farist.
Þetta blasti við þegar stjórnarskrá Sovétríkjanna var lesin, að ekki sé minnst á rit Marx og Lenins um hið fullkomna ríki kommúnismans sem átti að tryggja "alræði öreiganna" þar sem allir væru jafnir, fengju eftir þörfum og legðu af mörkum eftir getu.
1964 var Krjústjoff vikið í burtu og Brésnef tók við. Krústjoff brást, ekki stefnan. Gorbasjof sagði það sama um fyrirrennara sína og með örlitlum lagfæringum á kommúnismanum átti sæluríkið að vera tryggt.
Engu að síður hrundi sæluríki kommúnismans, sem breitt hafði verið út um Austur-Evrópu, með brauki og bramli 1989. Niðurstaða talsmanna kommúnismans var yfirleitt sú að stjórnendurnir hefðu brugðist, ekki stefnan.
Þegar meirihluti íbúa Leipzigborgar kom saman á mótmælafund og hrópuðu: "Wir sind das volk!" "Við erum þjóðin !", svaraði Erick Honnecker: "Þið eruð ekki þjóðin !" Sem sagt: Fólkið var á rangri leið, ekki stefnan.
Reagan sagði: "Þetta snýst ekki um að ríkisstjórnin leysi vandann. Ríkisstjórnin er vandinn." Niðurstaðan varð sú stefna Reagans, Thatchers, Bush og Hannesar Hólmsteins sem menn tala nú um erlendis um að hafi brugist.
En ekki hér á landi. Hér er niðurstaðan: Fólkið brást, - ekki stefnan. Hana þarf ekkert að lagfæra.
![]() |
Fólkið brást, ekki stefnan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.3.2009 | 11:50
Ekki hálfvitar, en hvað um umferðina?
Það er ekki ónýtt að Íslendingar fái vottorð hjá erlendum stjörnublaðamanni um að þeir séu ekki hálfvitar.
Fjarri er þó því að við séum alvitrir í umferðinni.
Lítið þið á þessa mynd sem var tekin á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Laugavegar/Suðurlandsbrautar í gær.
Myndin er tekin út um framrúðuna á bíl, sem við skulum segja að við séum í.
Við ætlum að beygja til vinstri niður Laugaveg eins og bílarnir fyrir framan okkur hægra megin.
Við sjáum grænt ljós loga framundan til hægri, hinum megin við Laugaveginn.
Umferðin upp Kringlumýrarbrautina er þung, - það er bíll við bíl. Oftast komast örfáir bílar til vinstri þegar gult og rautt ljós kviknar á móti bílunum sem koma á móti okkur.
En ekki þegar umferðin er þung. Þá ryðjast bílstjórarnir sem koma á móti okkur inn á gatnamótin þótt komið sé gult ljós og stappa sér svo fast saman að það er ekki smuga, jafnvel fyrir minnsta bíl á Íslandi að komast til vinstri.
Bílstjórunum sem búa til þessa teppu mátti vera það fullljóst að þeir græddu ekkert á því að þjappa sér svona þétt saman inni á gatnamótunum. Þeir lenda eftir sem áður í röð bíla sem silast rólega upp að næstu gatnamótum.
Bara ef þeir hefðu nú skilið eftir smá bil sem við gætum smeygt okkur í gegnum. En það gera þeir ekki. Þeir hugsa um ekkert nema sjálfa sig og græða þó ekkert á því.
Þeir yrðu alveg jafn fljótir eða seinir eftir að þeir eru komnir yfir gatnamótin, þótt þeir gæfu okkur örlítinn sjens.
Mér er kunnugt um að víða erlendis varðar það sektum að fara inn á gatnamót eins og hér tíðkast, þegar ljóst má vera að við það verði menn þar innlyksa og búi til óleysanlegan umferðarhnút.
Það fyndna við það sem við sjáum hér er að á morgun verða kannski bílstjórarnir sem við sjáum loka gatnamótunum í okkar stöðu og við hins vegar að koma upp Kringlumýrarbrautina.
Þá verðum við að sjálfsögðu bara í þeim sporum sem þeir eru á þessari mynd undir kjörorðinu úr laginu góða: "Á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint."
Og þeir verða í okkar sporum, bölvandi hálfvitunum, sem loka gatnamótunum, í sand og ösku.
Hugarfarið hjá bílstjórunum, sem loka gatnamótunum er það sama og var í "gróðærinu": Ég hugsa bara um sjálfan mig og mitt frelsi, - varðar ekkert um þótt ég skerði réttindi og frelsi annarra og að allir tapi á þessari vitleysu á endanum.
![]() |
Íslendingar engir hálfvitar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
20.3.2009 | 01:08
Að rugga ekki bátnum.
Handtaka blaðamanns sem var sendiboði válegra tíðinda sýnir í hnotskurn eina af ástæðum þess að þar og hér á landi ríkti hræðsla við að "rugga bátnum" með því að segja frá váboðum í efnahagslífinu.
Sagt var að ef talað væri of opinskátt um þetta væri verið að vekja athygli þeirra, sem hefðu hag af árás í íslenska bankakerfið á því hve tæpt þessi mál stóðu öll hjá okkur.
Þessi afstaða held ég að hafi byggst á hættulegu vanmati á klókindum þeirra sem gátu haft hag að því að gera áhlaup á íslenska bankakerfið. Þeir voru áreiðanlega búnir að finna þetta út áður sjálfir.
Í maí 2008 sagði Davíð Oddsson þáverandi Seðlabankastjóri í skýrslu bankans að íslensku bankarnir hefðu staðist álagspróf. Maður spyr sig hvers konar álagspróf það hefðu verið, hvort þau hefðu verið raunhæf eða hvort hér var aðeins um mannalæti að ræða til að breiða yfir hina raunverulegu stöðu sem sami Davíð kvaðst hafa hvíslað í eyru nánustu vina mestallt árið.
![]() |
Handtekinn fyrir samlíkingu við Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.3.2009 | 23:42
Brekka er merkileg jörð.
Að Brekku í Núpasveit bjó ein merkilegasta kona sem ég hef kynnst, blessunin hún Guðrún, ásamt dugnaðar eiginmanni sínum. Þau tóku við jörðinni á brún eyðingar vegna jarðvegseyðingar og sandfoks. Með nánast berum höndunum réðust þeir til bardaga við eyðingaröflin og var melgresið drjúgt vopn í höndum þeirra.
Þegar þau byrjuðu var stundum sandskafl við dyrnar eftir sandstormana. Ég tók viðtal við Guðrúnu sem lagði allt sitt í þessa baráttu og keypti sjálf Landgræðsluflugvélina árum saman til að sá úr lofti yfir jörðina.
Guðrún talaði af langri og djúpri reynslu um þátt Íslendinga sjálfra í eyðingu jarðvegs og gróðurs og var ómyrk í máli.
Hún kvaðst geta grátið yfir því að heyra í þeim sem rækju enn fé inn á Mellöndin á Mývatnsöræfum og héldu þeirri firru fram að féð græddi landið upp með því að skíta á það.
Á þessum árum ræddi ég einnig við Böðvar Jónsson á Gautlöndum, sem þráaðist í mörg ár við að láta taka við sig viðtal. Hann hafði hólfað sína jörð niður líkt og Gunnar Jónsson á Daðastöðum, nágranni Guðrúnar, og tekist með stýrðri og takmarkaðri beit að fá fram allt í senn, meiri fallþunga fjár og stóraukin afköst beitilandsins.
Böðvar sagðist ekki þora að láta vita um árangur sinn af ótta við að verða fyrir aðkasti frá bændum sem teldu aðferðir Böðvars varpa rýrð á aðra bændur.
Sem betur fer er þetta liðin tíð að öðru leyti en því að enn er beitt á Mellöndin 22 árum eftir að ég fór með fulltrúum Landgræðslunnar yfir þau og fjallaði um þessa beit í sjónvarpi.
Brekka er merkileg jörð vegna sögunnar sem hún segir um hetjuskap skörungsskonu og baráttu hennar sem á erindi við okkur enn í dag. Það er ekki sama hvernig vegur er lagður um þessa jörð.
![]() |
Eignarnám Vegagerðarinnar ógilt í Hæstarétti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.3.2009 | 22:53
Bandaríkjaforseti leikur sér með fyrirtæki.
Bandarískur kollegi Vilhjálms Egilssonar myndi kannski koma í sjónvarpsviðtal og segja þetta:
"Bandaríkjaforseti á ekki að leika sér með fyrirtæki. Hann á ekki að hneykslast yfir því þótt innstu koppar í búri fyrirtækja skammti sér drjúgan bónus og arð heldur þakka fyrir það að þeir vildu frekar leggja fé sitt í áhættusamt fyrirtæki heldur en í miklu öruggari og betri fjárfestingu annars staðar.
Í þessu máli skiptir það engu þótt fyrirtækið hafi fengið drjúga fjárhæð frá ríkinu til þess að fara ekki á hausinn.
Almenningur hefði tapað mest á því ef fyrirtækið hefði verið látið rúlla og því er höfuðatriði að fyrirtækið starfi áfram þjóðinni til heilla með bestu hugsanlegu stjórnendur við stýrið.
Nauðsynlegt er að fjármálasnillingarnir fáist til að leggja sitt af mörkum í fyrirtækjarekstri í stað þess að missa þá annað vegna þess að þeir geti grætt meira annars staðar. Án snjalls fólks sem viðheldur gangverki atvinnulífsins er þjóðfélagið dauðadæmt."
Hér heima gildir svona röksemdafærsla líka. Hér eiga Kristján Loftsson og hans líkar að fá umbun fyrir að leggja sitt af mörkum til HB Granda í stað þess að taka sitt út úr því, skilja það eftir á vonarvöl og fjárfesta annars staðar og græða miklu meira þar.
Þegar vel gengur eiga þeir að fá ríkulega umbun vegna hinnar miklu áhættu sem þeir taka með því að eiga hlut í áhættusömum fyrirtækjarekstri. Þegar illa gengur er ekki skynsamlegt að þeir tapi á því að hafa tekið áhættuna, heldur eiga þeir líka að fá umbun þá vegna þess að ef það gerist ekki fara þeir annað með peningana.
Síðan er höfuðatriði að ríkið stuðli að því beint og óbeint að Kristján Loftsson verði studdur við það að halda úti hvalveiðum við landið, hafi efni á því og hafi helst sem mest upp úr því. Það kemur honum ekkert við þótt hætt sé á milljarða tap hjá útflutningsfyrirtækjum af því að útlendingar hætti að kaupa af þeim vegna hvalveiðanna.
Fólkið sem vinnur á gólfinu hjá HB Granda verður að gera sér grein fyrir áhættunni sem fylgir því að reka svona fyrirtæki og taka á sig launaskerðingu þegar illa gengur. Aðeins þannig er hægt að halda nógu miklu fé inni í fyrirtækinu til þess að hægt sé að greiða nógu háar arðgreiðslur til hinna ómissandi eigenda.
![]() |
Atvinnurekendur reiðir Jóhönnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.3.2009 | 19:57
Að breikka grænu fylkinguna á þingi.
Þegar Íslandshreyfingin - lifandi land var stofnuð fyrir tveimur árum var það yfirlýst stefna hennar að breikka hina grænu fylkingu þingmanna á Alþingi og gera það á miðjunni og við hana. 5% atkvæðaþröskuldurinn kom í veg fyrir að 2-3 grænir þingmenn Íslandshreyfingarinnar settust á þing í samræmi við kjörfylgi.
Íslandshreyfingin átti þátt í því að stóriðjustjórnin vék en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur héldu samt meirihluta, illu heilli. Framhjá þeim meirihluta komst fyrri stjórn ekki og heldur ekki núverandi stjórn þegar um stóriðjuna er að ræða.
Verkefni Íslandshreyfingarinnar er það sama nú og 2007, að breikka fylkingu grænna þingmanna og koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fái meirihluta á þingi.
Það þýðir að berjast þarf fyrir að hin framboðin fái hreinan meirihluta á þingi og myndi stjórn.Í síðasta mánuði kom fram hjá yfirgnæfandi meirihluta félaga í flokknum að með sérstöku framboði nú yrði tekin of mikil áhætta á því að gera ógagn.
Á aðalfundi Íslandshreyfingarinnar sem var að ljúka var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að óska eftir því við Samfylkinguna að Íslandshreyfingin verði eitt að aðildarfélögum hennar og lögum Íslandshreyfingarinnar var breytt lítillega í samræmi við þetta.
Á vinstri væng íslenskra stjórnmála er VG og þingmenn þar á bæ hafa reynt að standa grænu vaktina eftir föngum. Á miðjunni og hjá henni þarf að fjölga grænum þingmönnum, sem gætu myndað næstu stjórn með VG.
Íslandshreyfingin er fyrsta og eina stjórnmálahreyfingin á Íslandi sem er grænn flokkur númer eitt og skilgreinir sig hvorki til hægri né vinstri. Hún hefur nú ákveðið á aðalfundi sínum að leggjast á miðjunni á sveif með Samfylkingunni og leggja henni og grænu fylkingunni innan hennar lið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)