Misjöfn staða forseta Íslands.

Það fer eftir atvikum hvort staðan sé þannig að valið standi milli forseta Íslands og viðkomandi ríkisstjórnar. Sjá má frásögn Vigdísar Finnbogadóttur í ævisögu hennar af tveimur atvikum sem varpa ljósi á þetta.

Þegar Matthías Bjarnason hótaði að segja af sér ef Vigdís Finnbogadóttir drægi að undirrita lög um bann á verkfall flugfreyja á afmælisdegi Kvennafrídagsins, var ljóst að valið gæti orðið milli hennar og ríkisstjórnarinnar. Hún skrifaði því undir lögin og afstýrði hættunni á hugsanlegri stjórnarkreppu. 

Þegar kom að því að undirrita lögin um EES mat Vigdís það svo í ljósi reynslunnar og stöðumats að ef hún nýtti málskotsrétt sinn myndi það jafngilda uppgjöri á milli hennar og þáverandi ríkisstjórnar og að hún yrði í kjölfarið að segja af sér embætti.

Þetta væri þeim mun erfiðari staða fyrir hana fyrir þá sök að mjótt væri á munum milli fylgjenda og andstæðinga aðildarinnar. 

Ein ástæða þessa stöðumats hennar gæti hafa verið að mjög erfið staða kæmi upp hjá forseta ef hann lenti upp á kant og í átökum við þingmeirihluta, sæti áfram og þyrfti að taka afstöðu til þingrofs og / eða veita umboð til stjórnarmyndunar. 

Ekki hefur ráðið litlu fyrir Vigdísi þegar hún tók þessa ákvörðun, að hún hafði orðið þjóðinni mjög að gagni í að kynna hana um víða veröld með glæsileik sínum og persónutöfrum. 

Fyrir forsetakosningarnar 1996 var Ólafur Ragnar Grímsson eini frambjóðandinn sem kvað 26. grein stjórnarskrárinnar ekki vera bara bókstaf heldur í fullu gildi í undantekningartilfellum. 

Ég hef alla tíð verið fylgjandi því að þessi öryggisventill væri til staðar, og enda þótt Ólafur Ragnar ætti skrautlegan feril að baki í íslenskum stjórnmálum vó það þyngra í mínum huga að öflugri talsmann og fulltrúa þjóðarinnar út á við væri erfitt að finna. 

Árið 2004 kvað Vigdís upp úr með í viðtali og í bókinni Kárahnjúkar - með eða á móti, það að hún hefði neitað að undirrita lög sem færu í sér óafturkræfan gjörning svo sem lögleiðingu dauðarefsingar, burtséð frá því hvert fylgi slíkt hefði hjá þing og þjóð. 

Hún staðfesti einnig að sama hefði gilt um jafn stórfelldan og óafturkræfan gjörning og Kárahnjúkavirkjun. 

Það urðu mér mikil vonbrigði að Ólafur Ragnar skyldi ekki nota málskotsréttinn 2003 varðandi lög um Kárahnjúkavirkjun, sem mér fannst miklu meira tilefni til en þegar hann notaði málskotsréttinn 2004 um fjölmiðlalögin, þótt ég styddi málskot hans þá. 

Forsetinn nýtti sér þá það sem kallaði "gjá á milli þings og þjóðar" og hafði sigur gegn sjálfum Davíð, þeim síðarnefnda vafalaust til mikillar gremju, sem tókst þó að gera þjóðaratkvæðagreiðslu óþarfa með því að afnema lögin og svipta Ólaf Ragnar ánægjunni af hugsanlegum sigri í henni.  

Aftur nýtti forsetinn sér fyrrnefnda "gjá" auk undirskriftaista InDefence gagnvart Icesavelögunum og sömuleiðis nefndi hann í röksemdum sínum fyrir synjuninni að hæpið væri að þingmeirihluti væri gegn þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Það gerði hann til að draga úr þeirri gagnrýni að ekki væri rétt að ganga gegn þingvilja í þingbundnu lýðræði. 

Hvað sem því líður, sá Ólafur Ragnar það, sem verið hefur áberandi, að stjórninni helst illa á þingmeirihluta sínum.

Kom á daginn að ekki var samstaða hjá stjórnarflokkunum um að afnema lögin og í staðinn var farin sú leið að reyna að ná betri samningum, sem gerðu lögin úrelt. 

Komið hefur fram í nokkrum málum að stjórnin hefur ekki þingmeirihluta fyrir þeim og við það hefur myndast tómarúm sem forsetinn hefur stigið inn í. 

Það kallar á að nú verði ekki lengur dregið, eins og gert hefur verið í bráðum 66 ár, að koma á því skipulagi sem tryggir að beint lýðræði fái að ráða í mikilsverðum málum. 

Reynslan sýnir að 26. grein stjórnarskrárinnar var eina raunhæfa leiðin, sem gafst til þess og það var ljós í myrkrinu í argaþrasinu, sem forystumenn flokkanna buðu upp á í Silfri Eglis nú áðan, að loksins hylli undir þverpólitískan vilja til þess að virkja þjóðarviljann beint. 

En til þess þurftu þeir Heródes og Pílatus, Ólafur Ragnar og Davíð, að verða vinir varðandi synjun og þjóðaratkvæðagreiðluna nú, svo ótrúlegt sem það hefði getað sýnst þegar þeir sóru hvor öðrum eilífan fjandskap í eftirminnilegum orðaskiptum á Alþingi hér á árum áður. 


mbl.is Staðan breytt frá því í janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki einu sinni á kjörstað.

Fyrir utan Laugardalshöllina eru bílastæði, merkt hreyfihömluðum. Þegar ég var þar í dag voru þrír bílar þar í stæðum án þess að hafa merki í gluggum sem vottuðu hreyfihömlunina. 

Sjálfur hökti ég langa leið á hækjunum til að komast inn í höllina. Mér hefur tekist að komast hjá því að nota svona stæði hingað til og stefni að því að halda það áfram.  

Ef til þess kæmi að ég þyrfti samt nauðsynlerga að nota svona stæði vegna ástands míns myndi ég setja stóran miða í framgluggann með eftirfarandi áletrun: 

Er fótbrotinn í gifsi og á hækjum. Sími 6991414. Ómar Þ. Ragnarsson.

Miðað við svörin sem ég fékk um daginn við svona aðstæður gætu svipuð svör og andsvör orðið til við Laugardalshöllina þegar þeir sem ekki eru hreyfihamlaðir nota stæðin:

Svar 1. Það voru laus önnur stæði fyrir hreyfihamlaða þegar ég kom. /  Andsvar: Hvernig veist þú hvort þau verði áfram laus á meðan þú ert inn?  

Svar 2. Reikna má með því að ég verði stuttan tíma inni. / Andsvar: Hvernig á hinn hreyfihamlaði að vita hvort það tekur stuttan eða langan tíma að kjósa? 

Svar 3. Það eru ekki eins margir fatlaðir á ferð í svona færi og í svona kosningum og á venjulegum viðburðum í Höllinni að sumarlagi.  /  Andsvar: Er ekki hugsanlegt að einmitt núna verði fleiri fatlaðir hér á ferð? Réttlætir þessi ágiskun það að ræna þá stæðum sínum? Er rétt að fara yfir á rauðu ljósi að næturþeli af því að það eru svo fáir á ferli? 

Svar 4. Ég skutlaði konunni minni hingað til að kjósa. Hún er hreyfihömluð og merkið hennar er í glugganum. / Andsvar: Ég sá þegar þú komst að þú varst bara einn í bílnum. Það er greinilega verkefni fyrir Sálarrannsóknarfélag Íslands að finna út hvort einhver sat við hliðina á þér.

Fleiri útskýringar mætti nefna en læt þetta nægja.

Sonur minn, sem er bundinn við hjólastól skilur stundum eftir svohljóðandi miða í glugga ófatlaðs fólks sem hefur lagt í stæði sem ætlað er hreyfihömluðum.

Á miðanum hefur staðið þessi áletrun: Ertu viss um að þú sért fær um að aka bíl? Fötlun þín hlýtur að vera sú að þú sért blindur.  

P1011256

Vegna ákalls um mynd í athugasemd verð ég að nota myndir frá því að ég var beðinn um að koma í viðtal í fréttum Stöðvar tvö fyrir nokkrum dögum, því að ég gleymdi að setja kort í vélina í dag.

Á efstu myndinni sést bíll hreyfihamlaðs lagt þannig að hann tekur pláss frá ófötluðum við hliðina !

Raunar er hugsanlegt að orðið hafi að leggja þessum bíl svona vegna annars bíls sem hafi þrengt sér inn á stæðið  fyrir hreyfihamlað en er farinn.   

Á næstu myndum, sem koma nú inn næstu mínútur, sjást myndir af bílum sem bætast við.

P1011259

Fyrst bíll þar sem bílstjórinn, þegar hann kom út, kvaðst hafa verið að skjóta fatlaðri konu sinni sem væri inni í húsinu.

Ég á hins vegar kvikmynd af því að þessi maður kemur aleinn í bílnum og hleypur inn að versla og Sálarrannsóknar félagið veður í verkefnum !

P1011257

Þarna verður til algert rugl því að auk þess sem eitt stæði fyrir ófatlaðan er gert ónýtt til vinstri, er lagt yfir skástrikaða braut á milli stæðanna fyrir hreyfihamlaða, sem ætluð er fyrir þá sem þurfa að flytja eitthvað inn í húsið eða t. d. fyrir einhvern sem kemur þarna á hjólastól, handknúnum eða rafknúnum.  

 


mbl.is Skrítin þjóðaratkvæðagreiðsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Allt sem þjóðina varðar..."

Þessi orð hafa blasað við undanfarin ár á vegg í farþegaafgreiðslu Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli þar sem sunnudagsblað Morgunblaðsins er auglýst.

Tölublaðið, sem valið er, er frá vorinu 2007 og orðin valdi blaðamaður Morgunblaðsins sem fyrirsögn viðtals við mig í aðdraganda kosninganna þá. 

Þótt Íslandshreyfingin - lifandi land hefði fyrst og fremst verið hugsuð sem nokkurs konar þverpólitískur armur umhverfisverndarfólks og samtaka þeirra fannst blaðamanninum hin ákveðnu stefnumál hreyfingarinnar í lýðræðis- og stjórnskipunarmálum, sem reifuð voru í viðtalinu, vera það fréttnæmasta í því. 

Því miður var hugarástand þjóðarinnar þannig í gróðærisbólunni 2007 að enginn hafði áhuga á ræða þessi mál og var aðeins einu sinni hægt að skjóta þeim á ská inn í kappræður í sjónvarpi og aðeins einn annar þátttakandi í þessum kappræðum sem brást við með því að rétt tæpa á einum anga málefnisins. 

Af sjálfu leiðiir að ég var á lista þeirra sem skoruðu á forsetann að nýta málskotsrétt sinn og þar með fylgir að nýta atkvæðisréttinn.

Í viðtali við Steingrím J. Sigfússon í Kastljósi í kvöld kom fram að Icesave-lögin frá því í desember séu dauð og skoðanir aðeins skiptar um það hvernig formlegum dauða þeirra verði háttað.

Formenn stjórnarflokkanna virðast vilja að Alþingi felli lögin úr gildi þegar ný lög verði samþykkt og að það verði hinn formlegi dauðdagi þeirra. Þjóðaratkvæðagreiðslan sé því orðin óþörf og skipti ekki máli.

Aðrir telja að stjórnskipulega sé eðlilegra að þjóðin felli lögin úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda liggi nýir samningar ekki fyrir og þjóðaratkvæðagreiðslan liggi fyrir á stjórnskipulega réttan hátt.

Enn aðrir vilja greinilega geta samþykkt Icesave-lögin í atkvæðagreiðslunni og þá væntanlega á þeim forsendum að of einlit höfnun þeirra skaði orðspor Íslendinga út á við sem þjóðar, sem hægt sé að treyst.

Þegar Reykvíkingum gafst kostur á að kjósa um Reykjavíkurflugvöll 2001 á núverandi stað var þátttakan aðeins um 30% og ekki bindandi, auk þess sem munurinn á milli þeirra sem vildu völlinn og hinna sem ekki vildu hann var sáralítill. 

Að mínu viti gengur það illa upp að segjast í orði kveðnu vera hlynntur sem beinustu lýðræði og taka síðan ekki þátt þegar færi gefst.

Gildir einu hvort staðan sé tvíbent eða deilt um að hve miklu leyti atkvæðagreiðslan sé marktæk eða komi að gagni. 


mbl.is Ólafur Ragnar ætlar að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur 1908?

Áður en gengið var til Alþingiskosninga 1908 hafði íslensk samninganefnd, næsta þverpólitísk á þess tíma mælikvarða, samþykkt uppkast að sambandslögum Íslands og Danmerkur. 

Einn nefndarmanna skrifaði ekki undir og í kosningunum unnu hann og samherjar hans mikinn sigur og þar með uppkastið svonefnda úr sögunni.

Síðustu vikurnar hefur þverpólitísk samninganefnd setið við samningaborðið með Bretum og Hollendingum enda hafa viðsemjendurnir krafist þess að þverpólitísk samstaða yrði um samninga.

Þegar hlustað er á hollenska viðmælendur útskýra þetta segja þeir, að komið hafi í ljós eftir fyrstu samningana í maí í fyrra þegar Bretar og Hollendingar héldu að málið væri í höfn, að settir voru fyrirvarar af Alþingis og síðar samþykkt frumvarp með vægari fyrirvörum sem ekki hélt heldur vegna málskots forsetans. 

Þess vegna hafi Hollendingar viljað að hugsanlegt samkomulag héldi en yrði ekki gert marklaust.  

Er Steingrímur J. að ýja að því að svipað gæti gerst nú og 1908 að hin þverpólitíska samstaða fáist ekki hér heima?

Þetta setur hann fram sem spurningu um það að enda þótt allir í íslensku samninganefndinni hafi tekið þátt í starfi hennar vegna þess að vilji sé til að semja, kunni undir að liggja vilji einhverra til að semja ekki.  

Það er erfitt að svara svona spurningu því að túlka má ástæður mismunandi skoðana einstakra nefndarmanna á ýmsan hátt í báðar áttir, - annars vegar að sumir þeirra vilji sætta sig við nánast hvað sem er og hins vegar að aðrir muni aldrei samþykkja samning þegar á hólminn væri komið. 

Þegar samningamenn sjálfir fara að spyrja svona spurninga er það næsti bær við trúnaðarbrest.

Það verður að gera kröfu til allra þeirra sem að samingaviðræðum standa að þeir beri gæfu til að vinna að þessu viðfangsefni af þeirri eindrægni sem krefjast verður af fólki, sem þjóðin hefur valið til að standa að hagsmunamálum sínum.

P. S. Í viðtali í Kastljósi í kvöld kom fram að ákveðin ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í vikunni hefðu komið óþægilega við Steingrím og vakið hjá honum vafa um "bakstuðning" Sigmundar eins og Steingrímur orðaði það.

Kvaðst Steingrímur ekki hafa átt við neinn nefndarmanna í samninganefndinni.  


mbl.is Hvað á Steingrímur við?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið vikulega stóriðjuhróp.

Ég hef ekki tíma til að kanna það en ég giska á að undanfarið ár hafi verið tekið vikulega sama viðtalið við Vilhjálm Egilsson eða annan talsmann atvinnurekenda sem hrópar: Án meiri stóriðju erum við glötuð!

Alltaf þykir þetta vera sama stórfréttin og næsta víst að varla muni líða vika þar til Vilhjálmur Egilsson flytji okkur í 50. skiptið þá stórfrétt að stóriðja sé það eina sem geti bjargað þjóðinni.

Talsmaður iðnaðarins segir í viðtali í dag að 35 þúsund ný störf þurfi á næstu tíu árum og stóriðja sé forsenda fyrir að skapa þessi störf. 

Nú vill svo til að verði öll orka Íslands beisluð fyrir stóriðju munu aðeins 1,3% vinnuafls landsins fá vinnu í hinum nýju álverum. Það eru um 2500 störf af þessum 35000.

Jafnvel þótt því sé haldið fram að svonefnd afleidd störf yrðu 6-7000 fer því fjarri að þetta leysi atvinnuvanda Íslendinga. 

Og fórnirnar sem felast í því að eyðileggja mesta verðmæti landsins, sem felst í náttúruundrum þess, yrðu margfalt dýrkeyptari til allrar framtíðar. 

Afleiddu störfin eru alltaf nefnd eins og aðeins stóriðja taki þau með sér. 

En þetta á við um allar atvinnugreinar og ef talsmenn þeirra allra nefna þessa tölu verður útkoman sú að afleiddu störfin verða samtals tvöfalt fleiri en búa á landinu! 

Það er hægt að margfalda störf í ferðaþjónustu eða öðrum atvinnugreinum og fá út margfalt hærri tölu en fæst með ítrasta marföldunarreikningi stóriðjutrúarmanna. 

Það blasir við að af þessum 35.00 störfum, sem áltrúarmaðurinn nefnir falla 32.500 undir skilgreininguna "eitthvað annað" sem þessir stóriðjuhrópendur mega ekki heyra nefnd.

Og jafnvel þótt samþykkt yrði að afleidd störf eigi að telja með störfunum í álverunum falla minnst 25.000 störf undir "eitthvað annað."  

Áltrúarmenn dreymir um að á næstu tíu árum verði hægt að útvega þúsundum manna vinnu við virkjanaframkvæmdir. 

En hvað gerist þegar ekki verður hægt að virkja meira? 

Þá verður allt þetta fólk atvinnulaust og það ástand skapast sem einn af helstu ráðamönnum Íslands lýsti með þessari frábæru setningu fyrir rúmum áratug: "Það verður bara verkefni þeirrar kynslóðar sem þá verður uppi." 

P.S. ... Ekki var liðinn nema hálfur sólarhringur frá því að ég bloggaði á þá leið að það væri næsta víst að varla myndi líða vika þar til Vilhjálmur Egilsson flytti okkur stórfréttina um stóriðjuna að þetta stóriðjuhróp er haft eftir honum í fréttum !


Þegar Rússar tóku myndirnar mínar 1978.

Líklega er enn við lýði gömul Sovét-hefð á því svæði sem tilheyrði Sovétríkjunum sálugu, samanber sögu Páls Stefánssonar, því að síðsumars 1978 voru ljósmyndir sem ég hafði tekið í ökuferð bílablaðamanna frá Norður-Finnlandi til Murmansk gerðar upptækar þegar við fórum til baka yfir landamærin á Kolaskaga. 

Landamæraverðirnir voru sjúklega tortryggnir. Við töfðumst í margar klukkstundur við nákvæma skoðun á öllu í bæði skiptin sem við fórum yfir landamærin þar sem bílarnir voru settir upp á lyftur og skoðaðir af ótrúlegri smámunasemi, meira að segja boruð göt á bita og hvaðeina. 

Á leiðinni til baka lentum við hjónin, Helga og ég, í alveg sérstakri meðferð. Mest kom okkur á óvart þegar Helga var tekin fyrir og henni sagt að hún hefði verið með hring á fingri á austurleið sem ekki væri á fingri hennar nú!

Hún varð að sanna sitt mál, sem var það að vegna þess að fingurinn hafði bólgnað gat hún ekki sett hringinn á hann, og róta í föggum sínum til að finna hringinn, sem ekki komst upp á fingurinn eins og hún hafði sagt þeim. Létu þeir þá sér loks segjast. 

Verr fór fyrir mér. Þeir rótuðu í öllum mínum föggum af mikilli smámunasemi og tóku af mér allar filmur og myndir sem ég hafði tekið í ferðinni þrátt fyrir hávær mótmæli mín og norrænna kollega minna. 

Skipti engu þótt ég sýndi fram á að við værum í reynsluakstri fyrir norræn bílablöð og að ég yrði að koma heim með einhverjar myndir af bílnum, sem við vorum að reynsluaka.

Við höfðum orðið vör við það að rússneskar KGB-Lödur fylgdu okkur hvert fótmál í Murmansk og að hugsanlega hefði ég tekið mynd af einhverju sem ekki mátti mynda.  

Ég fór því mynda- og filmulaus heim til Íslands en þar setti ritstjórn Vísis þetta mál strax í fréttir og kvartaði við sovéska sendiráðið.

Virtist málinu nú vera lokið því ekkert svar barst lengi vel og mér sýndist einsýnt að filmunum hefði verið fargað þarna einhvers staðar inni á þeim risastóra ruslahaug sem maður hafði heyrt að Kolaskaginn væri í raun.

En þá gerðist það óvænta. Mörgum vikum eftir þetta atvik kom sending frá Murmansk til Íslands og voru ekki allar filmurnar framkallaðar og fínar komnar alla leið frá hinni afskekktu landamærastöð Raja-Joseppi norðan úr rassgati stærsta lands veraldar !  

Segið þið svo að sovétkerfið hafi aldrei virkað!  


mbl.is Handtekinn tvisvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Milljóna tjón vegna kortamerkinga.

Á fundi Slóðavina, samtaka áhugamanna um akstur á torfæruhjólum og fjórhjólum í kvöld, þar sem við Andrés Arnalds vorum með framsögu voru fjörugar og áhugaverðar umræður. 

P1011260

Eitt af því sem þar kom fram var að vegna merkinga á þeim kortum sem ferðalangar hafi í höndum til aksturs um landið hafi margir bílaleigubílar og aðrir bílar skemmst að óþörfu.

Ástæðan sé sú að á kortunum sé enginn greinarmunur gerður á þokkalegum hálendisvegum og slóðum og gömlum reiðleiðum.

Afleiðingin sé sú að ferðamenn séu lokkaðir inn á slóðir sem séu stórvarasamar og alls kyns vandræði komi þá upp.

Sýndi Andrés ýmis dæmi um þetta sem voru þess eðlis að undrun vekur.

Upplýst var að hjá eigendum bílaleiga væru menn mjög ósáttir við þetta vegna skemmda, vandræða og kostnaðar sem þetta hefur valdið og einnig ylli þetta því að farið væri á vélknúnum farartækjum inn á gamlar þjóðleiðir, sem væru verndaðar samkvæmt lögum um fornleifar og valdið umhverfisspjöllum á þeim.

Athyglisverðar umræður spunnust um ýmsar leiðir, svo sem svonefndan Árnastíg, sem er forn gönguleið frá Grindavík norður á Rosmhvalanes en hann liggur á sléttum hraunhellum og hafa því ýmsir vélhjólamenn haldið að í góðu lagi væri að þeysa eftir honum.

En það göngufólk, sem gengur eftir stígnum, gerir það til að upplifa gamla tíma þegar vermenn gengu þennan stíg og sú stemning er auðvitað eyðilögð ef hópur vélhjólamanna þeysir eftir honum.

Þannig hafa þessar fáránlega ófullkomnu merkingar valdið margs kyns misskilningi og vandræðum sem og það ófremdarástand sem ríkir í skipulagi þessara mála allra, því að gagngers átaks er þörf til að endurbæta skipulagslög og skilgreina og flokka vegi og slóða á markvissari hátt varðandi leyfilega notkun en nú er.   


"Fellum þá á eigin bragði!"

Eitt af þeim vígorðum sem heyrast oft í bandarískri samkeppni eru þessi: "Let´s beat them at their own game", en þessari aðferð er í íslensku glímunni lýst með orðunum: "Fellum þá á eigin bragði." 

Eftir meira en 30 ára sókn Japana og útlendinga inn á bandaríska bílamarkaðinn undir formerkjum vöruvöndunar virðast bandarísku bílaframleiðendurnir loksins vera að taka við sér á þann eina hátt sem mögulegur er, að auka gæði framleiðslu sinnar.

Á þann hátt má líta á samfelldar hrakfarir bandarískra bílaframleiðenda og ófarir fjármálahrunsins með jákvæðum augum, - þetta reyndist vera nauðsynlegt til þess að menn horfðust af raunsæi í augu við vandann og tækju almennilega á honum.

Fyrst eftir seinni heimsstyrjöldina var vöruvöndun í bandarískum bílaiðnaði heimsþekkt, hurðir féllu hljóðlega að stöfum, gírskiptingar runnu nákvæmt, mjúkt og þétt í gegn, allt virkaði eins og best var á kosið.

En velgengni er hættuleg og hún reyndist það á þeim tímum þegar Bandaríkjamenn framleiddu yfirgnæfandi meirihluta allra bíla í heiminum.

Heilbrigð samkeppni er af hinu góða og nú eru vonandi tímar hennar að renna upp, gagnstætt því sem gerðist í kreppunni miklu 1930-40 þegar löndin lokuðu að sér með tollmúrum og einokun á ýmsum sviðum innanlands í hverju ríki olli allsherjar samdrætti í heiminum um langt árabil.  


mbl.is Samdráttur í sölu Toyota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef Bretar samþykktu gagntilboð Íslendinga, hvað þá?

Ef Bretar samþykktu gagntilboð Íslendinga myndi Icesavedeilunni líklega ljúka, því að fulltrúar allra íslensku stjórnmálaflokkanna standa að því tilboði. 

En líklega eiga Bretar erfitt með að kyngja því.

Þá koma tveir kostir upp í hugann. 

Stjórnin lætur fella lögin um Icesave-samninginn úr gildi líkt og gerðist þegar fjölmiðlalögin voru dregin til baka 2004.

Munurinn er hins vegar sá að fjölmiðlalögin voru hreint innanríkismál en Icesavesamningurinn er milliríkjasamningur.

Stjórnin á líklega erfitt með að kyngja því að fara þessa leið.

Þá er hinn kosturinn.

Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan í lýðveldissögunni fer fram og morgunljóst að lögin verða felld úr gildi. 

Sjá menn einhverja fleiri raunhæfa kosti í stöðunni næstu fjóra dagana?  

Til dæmis að Bretar geri gagntilboð þar sem síðasta tilboð Íslendinga er breytt eins lítið og hægt er til að Bretar haldi andlitinu að eigin dómi?

Er líklegt að íslenska stjórnarandstaðan muni fallast á það? Það er ekki svo að sjá.  


mbl.is Án samráðs við stjórnarandstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju "afar miklar afleiðingar fyrir Evrópu"?

John McFall, formaður fjárlaganefndar breska þingsins, hittir naglann á höfuðið þegar hann segir að náist ekki lausn í Icesavedeilunni "verði afleiðingarnar afar miklar fyrir Evrópu."

Þarna nefnir hann höfuðástæðuna fyrir hegðun Breta, Hollendinga og fleiri þjóða gagnvart okkur. 

Það er upplýsandi að heyra um þessar "afleiðingar" því að þær munu augljóslega birtast í því að svipuð mál sé að finna í nágrannalöndum okkar og þau jafnvel miklu stærri. 

Og eru þau mál okkur að kenna? Nei, þar er um að kenna gölluðu regluverki Evrópusanbandsins og sameiginlegum afleiðingum fjármálabólunnar, sem látin var grassera á alþjóðavísu en ekki bara á Íslandi. 

Það þarf að útskýra vel fyrir alþjóðasamfélaginu á hvern hátt Íslendingar ætla, þrátt fyrir allt, að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar.

Bæði við sjálf og aðrar þjóðir þurfa að vita, hverjar þær séu og hvernig þetta flókna mál allt er vaxið. 

Í því gagntilboði sem íslenska samninganefndin spilaði síðast út er fólgin mikil ábyrgðartilfinning íslensku þjóðarinnar sem viðsemjendur okkar mættu taka sér til fyrirmyndar í stað þess að reyna að sópa sínum eigin stóra vanda undir teppið. 


mbl.is McFall: Telur að lausn verði að nást
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband