Askan sem lokað getur flugvöllum.

p1011426.jpg

Ég ók austur að Rangá í kvöld og rétt fyrir sólarlag sviptist skýjahula, sem verið hefur yfir Eyjafjallajökli, af jöklinum sem varð alheiður.

Þá sást hvernig gosmökkurinn stendur upp úr gígnum og er ljósgrár upp í um ca 12-16 þúsund feta hæð, en þar aðskilst frá honum dökkur öskumökkur sem leggur til suðurs, - til hægri á myndinni.

Sá mökkur er óþverrinn sem spáð er að leggist til vesturs í fyrramálið og og á morgun og loki flugvöllunum í Keflavík og jafnvel Reykjavík.  p1011428.jpg

Af og til koma svartir strókar upp úr gígnum og blanda þeir ösku inn í gufumökkinn. 

Á efri myndinni má greina svartan hluta hans neðst til vinstri í mekkinum og í myndinni þar fyrir neðan er hann farinn að belgja sig út.

 

 


mbl.is Flogið á Akureyri og Egilsstaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Einu sinni, einu sinni enn..."

Ofangreind orð urðu að tákni fyrir eitt lagið, sem við Íslendingar sendum í söngvakeppni sjónvarpsstöðva í Evrópu og hlaut lítinn hljómgrunn í keppninni, því miður. 

Þau virðast nú vera orðin að áhrínsorðum um samgöngubætur á Vestfjörðum sem hafa verið á röngum stað í forgangsröðun hér á landi í áratugi sem og forgangsröðun um framkvæmdir innan fjórðungsins.

Í kjölfar þeirra mistaka, sem gerð voru fyrir 40 árum þegar ákveðið var að tenging Vesfjarða suður og norður yrði um Steingrímsfjarðarheiði en ekki suður um Breiðafjörð, hafa afleiðingarnar lýst sér í því að Vestfirðir eru eini landshlutinn sem ekki hefur alþjóðflugvöll eða flugvöll sem hægt er að nota á nóttu sem degi. 

Ofan á það bætist að ófært skuli á veturna milli sunnaverðra og vestanverðra Vestfjarða og að fólkið vestra skuli þurfa að hlíta því að vera algerlega lokað frá öðrum landshlutum á landi og í lofti dögum saman á veturna þegar illa viðrar. 

21. öldin er ekki enn runnin upp í samgöngum Vestfirðinga.  Þeir búa við verri kjör en aðrir landshlutar bjuggu við fyrir hálfri öld. 


mbl.is „Ólýsanleg vonbrigði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul frétt sem er orðin ný.

Eftir gosin í Gjálp og Grímsvötnum settu íslenskir eldfjallafræðingar fram þá tilgátu að vegna minnkandi þrýstings ísfargs Vatnajökuls myndi eldgosum þar fjölga.

60 fyrstu ár síðustu aldar urðu mun færri eldgos hér á landi en að meðaltali. Milli 1934 og 1947 var rólegt og ekkert eldgos varð frá 1947 til 1961. 

Nú er kominn "tími á" Heklu, Grímsvötn, Kötlu og jafnvel svæðið norðan Vatnajökuls. 

Og það er líka kominn tími á að spár íslenskra sérfræðinga rati á síður erlendra fræðiblaða og í erlenda fjölmiðla. 


mbl.is Nýtt eldgosaskeið að hefjast?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjög nauðsynlegt viðtal og gott.

Ég hef í öðrum bloggpistli rakið helstu staðreyndir sem fyrir liggja um eldgos hér á landi, sem gætu haft áhrif erlendis. Þær þurfa hverju sinni að koma fram í heild en ekki slitnar úr samhengi ein og ein.

Undanfarna daga hef ég þurft að setja þær fram í viðtölum við erlenda fjölmiðla og þróa framsetninguna þannig að heildarmyndin verði skýr og niðurstaðan yfirveguð. 

Eldgosið í Eyjafjallajökli er hið eina af 23 eldgosum á Íslandi síðan 1961 sem haft hefur áhrif á flugsamgöngur erlendis. 

Þetta atriði er eitt af þeim sem verður að taka tillit til í eðliegum líkindareikningi og útskýra, að þótt gosið í Eyjafjallajökli hafi ekki verið hið mesta hér á landi síðustu áratugina, réði úrslitum um áhrif þess að askan er óvenju létt og berst hærra og víðar en ella. 

Einnig var vindátt óhagstæð. 

Liðin eru 223 ár síðan eldgos á Íslandi hafði síðast veruleg áhrif erlendis, en það voru Skaftáreldarnir. 

Þeir báru eitur og öskuský yfir Evrópu, Rússland, Kína, Kyrrahafið og þvert til austurs yfir Bandaríkin þar sem Benjamín Franklín skráði niður upplýsingar um það. 

Næstu tvö ár kólnaði loftslag á jörðinni vegna þess að sólarljósið komst ekki eins greiðlega og fyrr í gegnum lofthjúpinn. Ein og hálf milljón manna dó í Afríku og Japan vegna breytts veðurfars og í Frakklandi varð hungursneyð vegna uppskerubrests sem var ein af kveikjum frönsku stjórnarbyltingarinnar. 

Að meðaltali líða um 300 - 500 ár á milli svona stórgosa að Fjallabaki en einnig hafa orðið smærri gos, líkt og það sem eyddi sveitinni Tólfahring ofan við Skaftárdal.

Það gæti komið slíkt gos eftir 5 ár, 50 ár, 100 ár eða 200 ár. Enginn veit nú hvenær þetta verður og hættan á því hefur ekkert vaxið við gosið núna. Þegar slíkt er nefnt róast menn, sem það heyra.  


mbl.is Vona að við sjáum betri tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markvissar og áfallalausar aðgerðir!

Nú geta Íslendingar lært af reynslunni úr Heimaeyjargosinu. Þá reyndu menn að bjarga því sem sannanlega var hægt að bjarga á meðan á gosinu stóð, hægja á hraunrennslinu og rýma hús.

Þegar vísindamenn tilkynntu formlega að gosinu væri lokið fór endurreisnarstarfið í gang af fullum krafti, en ekki fyrr. 

Í þetta sinn verður erfiðara að tilkynna um goslok. Vísindamenn vita að jökullinn hefur áður gosið með hléum og að Katla getur fylgt í kjölfarið. 

Endurreisnarstarf af sömu gerð og í Heimaey, getur ekki orðið öruggt, markvisst og áfallalaust nema vitað sé að gosahrinunni sé lokið og að Katla sé ekki að koma í kjölfarið. 

Það væri til lítils að vera komin á veg með kostnaðarsamt starf af því tagi ef annað eldgos eyðileggur það svo að það er unnið fyrir gýg og fjármunum og fyrirhöfn eytt til ónýtis. 

Það gæti dregist í allt að eitt til tvö ár að vísindamenn gætu gefið út tilkynningu um goslok og grænt ljós. 

Þjóðin var stórhuga varðandi gosið í Vestmannaeyjum og bætti Eyjamönnum tjónið. 

Nú þarf að sýna sama stórhug og það á að vera hægt, þrátt fyrir kreppuna, einfaldlega með því að efla Viðlagasjóð svo að hægt verði að bæta Eyfellingum allt tekjutap að fullu þangað til séð er fyrir endann á hamförum Eyjafjallajökuls og Kötlu. 

Þá þarf þjóðin öll að hjálpast að við það að hefja markvisst og öruggt endurreisnarstarf líkt og gert var í Eyjum. 


mbl.is „Fólk er farið að sjá sólina“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þversögnin um flugið.

Nú eru gangi miklar pælingar varðandi ferðaleiðir fólks næsta sumar hvað Evrópu snertir.

Heyrst hefur að í Bandaríkjunum ætli ferðamálafrömuðir að reyna að beina straumnum næsta sumar til Evrópu vegna hættunnar á því að gos hér á landi loki yfir norðanverða álfuna. 

Þetta er nú meira en hæpin röksemdafærsla. Ég veit ekki betur að lið Barcelona hafi neyðst til að aka í rútu frá Spáni til Ítalíu til að tapa fyrir Inter Milan. 

Hins vegar hefur verið flugfært allan tímann frá Bandaríkjunum til Íslands og flogið innanlands og þar af leiðandi rétt að beina ferðamannastraumnum hingað!

Og það gleymist alveg í þessu sambandi að gosið núna er það eina af 23 gosum síðan 1961 sem hefur valdið röskun erlendis. 

Öskufallið úr Heklu 1970 fór í norðnorðvestur og á það er að líta að askan úr Eyjafjallajökli er óvenju létt og kemst því hátt og fer víða. 

Aðalatriðið í þessu máli er að halda jafnt til haga öllum staðreyndum um þetta mál og í stað þess að fara í vörn að sækja fram og sýna fram á með mörgum gildum rökum hvernig gosið núna geti orðið til góðs til okkur hvað snertir ferðamannastraum, rétt eins og gerðist í Surtseyjargosinu 1963, Eyjum 1973 og Heklu 1970. 


mbl.is Askan truflar flug til Grænlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkrar staðreyndir um íslensk gos.

1. Frá 1961 hafa orðið 23 eldgos á Íslandi. Gosið í Eyjafjallajökli er það eina sem hefur haft teljandi áhrif   erlendis. Ástæðan er fyrst og fremst sú hvað askan er fíngerð og létt og fer því hátt og berst langa leið. Einnig hafa háloftastraumar verið óhagstæðir. 

2. Mikil aska kom upp í Heklugosinu 1970 en fór í norðvesturátt en ekki í suðurátt. 

3. Langflest gosin frá 1961 hafa fyrst og fremst verið hraungos.  dscf5789.jpg

4. Jarðfræðingar benda á að oftar en ekki hafi Kötlugos komið í kjölfar goss í Eyjafjallajökli. Oft hafa þau verið lítil. Þrátt fyrir þetta og einkum vegna þess hve langt er orðið síðan Katla gaus síðast, hefur viðbúnaður hér á landi þó byggst á því að gera ráð fyrir stóru gosi og jafnvel hamfarahlaupi til vesturs. dscf5793.jpg

5. Gosið í Eyjafjallajökli hefur haft minni áhrif hér á landi en í flestum löndum. Ef Evrópubúar teldu ástæðu til að draga úr flugferðum vegna hættu á svipuðu ástandi og verið hefur undanfarna viku, ættu þeir frekar að hætta við ferðir um önnur Evrópulönd en Ísland. 

6. Eldgos á borð við hið öfluga öskugos í Heklu 1970 jók ferðamannastraum til landsins frekar en hitt. 

Hvaða ályktanir má draga af þessu?  Jú, það fer allt eftir því hvernig staðreyndir um þetta mál eru settar fram hvaða áhrif þær hafa. 

Á þessari síðu má sjá mynd af svæðinu, þar sem hraun runnu niður frá gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Allt er þar svart yfir að líta og ekki verður auðvelt að fara eftir gönguleiðina næsta sumar meðan askan liggur þar enn. 

En á hitt ber að líta að sá markhópur ferðamanna sem vill upplifun og ögrun kann að vilja komast í færi við þær aðstæður sem þarna eru. 

1998 kom amerískur ferðamálaprófessor hingað til lands og sagði í viðtali við mig, að sá hópur ferðamanna, sem stækkaði mest, væri fólk sem sæktist eftir ferðum sem lýsa mætti með markmiðinu: "Get your hands dirty and your feet wet." 


mbl.is Kröftugt gos úr stærsta gígnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyjafjöll skulu rísa!

Gosið í Eyjafjallagosi á eina hliðstæðu hvað búsifjar snertir síðan Katla gaus 1918, en það er gosið í Heimaey. Eyjafjallagosið er þegar orðið þungbærara en öskufallið úr Heklu 1970. Myndirnar hér á síðunni voru teknar um miðnætti í nótt og snemma í morgun. dscf5812.jpg

Enn er minnisstætt þegar menn sátu hnípnir í Sjónvarpssal viku eftir að gosið í Heimaey byrjaði og voru farnir að velta vöngum yfir því að gera nýja höfn í Dyrhólaósi og leggja byggð niður á Heimaey. 

Ólafur Jóhannessson, þáverandi forsætisráðherra, reif umræðuna út í þessu fari með því að segja af miklum þunga: "Vestmannaeyjar skulu rísa!" 

Þetta gerbreytti andanum í umræðunum. dscf5809.jpg

Sama má segja um Eyjafjöll og það nágrenni eldstöðvanna í Suðurjöklum, sem menn munu hafa athygli við næstu misseri. 

Gosvirknin á svæðinu hefur nú breyst úr sakleysislegu túristagosi í hamfarir sem geta orðið á borð við gosið í Heimaey að umfangi, tjóni og afleiðingum. 

Askan úr Eyjafjallajökli minnir á framburðinn úr Brúarjökli í Kringilsá og Hálslón. Hún er fíngerð eins og hveiti þegar hún er þurr en verður eins og steypa þegar hún blotnar. dscf5802.jpg

Á næstefstu myndini sést Markarfljót í forgrunni og Eyjafjallajökull fjær, en athygli vekur hvernig sveitin er á kafi í ösku mekki sem skefur ofan í hana undan norðanáttinni. 

Á sumum svona leirum á Íslandi, eins og við Hagavatn, er uppgræðsla vonlaus, - það þrífst enginn gróður á þeim.

Í morgun mátti sjá hvernig þessi óþverri, sem kom í flóðunum á dögunum, rauk niður í Landeyjar og setti Stóra-Dímon á kaf í öskurokið. 

Eyjagosið í Eyjum 1973 stóð í nokkra mánuði og þá gat uppbyggingarstarf hafist að fullu.

Öðru máli gegnir um þær byggðir sem gos í Eyjafjallajökli og hugsanlegt Kötlugos í kjölfarið hafa áhrif á.

Hugsanlega þarf að bíða í allt að tvö ár eftir því að séð verði fyrir endann á hamförunum.

Ef byrjað er of snemma að reyna að endurreisa gróðurlendi á þessu búsældarlegasta svæði Íslands, gæti það verið unnið fyrir gýg og betra að geyma átakið þangað til öruggt er að allir þeir fjámunir, sem í það fara, nýtist. Ekki mun af veita.

Þetta kann að kosta fullnaðar viðlagatryggingu í allt að tvö ár á þessum biðtíma en aðalatriðið hlýtur að vera að hægt verði að segja með sama þunga og ákveðni og sagt var 1973: Eyjafjöll skulu rísa! 

Minni að lokum á myndskeið af sprengingum í gosinu með bloggpistli mínum á eyjan.is og á ruv.is. 


mbl.is Gosstrókurinn minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nálægðin ræður öllu.

Þótt öskufall og kraftur gossinn í Eyjafjallajökli hafi minnkað njóta Eyfellingar ekki góðs af því, því miður, vegna nálægðar sveitarinnar við eldstöðina.

Aðeins eru um tíu kílómetrar frá gígnum niður í byggð og meira að segja í gær, þegar verið var að flytja þá stórfrétt út um heimsbyggðina að þessu væri að slota, mátti sjá á flugi yfir eldstöðina að enn kom upp aska, sem þá féll til austurs yfir Fimmvörðuháls og austur á Goðabungu í Mýrdalsjökli. 

Þetta yrði lítið skárra fyrir Fljótshlíðina í sunnan átt en þó munar miklu um það, að frá gígnum norður í Múlakot eru 17 kílómetrar en ekki 10 eins og til næstu bæja undir Eyjafjöllum. 


mbl.is „Skyggnið er einn metri“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðnunin virðist fara minnkandi.

Í gærkvöldi gafst mjög gott tækifæri til að skoða eldstöðina í skálinni á tindi Eyjafjallajökuls. Þegar gosið datt nær alveg niður eins og sést á myndum í bloggpistli á undan þessum,  virtist eldstöðin hafa einangrað sig talsvert frá ísnum í skálinni, sem er þakinn ösku. p1011394.jpg

Eftir sem áður koma gufustrókar upp sem eru væntanlega bráðinn ís en þess í milli brjótast kolsvartir öskustrókar upp í gegnum gufuna. 

Í gærkvöldi tókst að ná kvikmyndum af mekkinum við mjög góð skilyrði, þar sem hann er þrílitur eins og fáni, hvítur, svartur og brúnn. 

Því miður hafði kvikmyndatakan forgang svo að fáar ljósmyndir fengu að verða til, en kannski eiga þessar kvikmyndir eftir að sjást á skjánum í kvöld. 


mbl.is 10-15% af ísnum hefur bráðnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband