31.5.2010 | 16:01
Góðar fréttir.
Sjaldgæft er að frambjóðandi til borgarstjórnarkosninga hafi sökkt sér eins vel í mikilvægan málaflokk borgarmálefna og Hjálmar Sveinsson, en það gerði hann varðandi skipulagsmál.
Auk þess er Hjálmar afar fróður og frambærilegur og þess vegna var það hið versta mál að hann skyldi ekki ná inn sem borgarfulltrúi.
Þegar hrópað er á endurnýjun og að öflugt fólk komi til starfa í pólítík skýtur það skökku við að Hjálmar skyldi ekki komast inn.
Sem fyrsti varborgarfulltrúi Samfylkingarinnar bíða hans hins vegar verkefni ef rétt er á málum haldið og því fagna ég því að hann renni ekki af hólmi, heldur haldi sínu striki.
Hjálmar var óheppinn að eins konar pólitískar hamfarir skyldu dynja yfir í þessu borgarstjórnarkosningum í formi stórsigurs Besta flokksins sem á sér enga hliðstæðu í sögu borgarinnar.
Ágætis fólk skipar þann lista en þarf hins vegar að nýta sér þá reynslu og þekkingu sem Hjálmar og fleiri geta veitt í störfum á vegum borgarbúa.
![]() |
Hjálmar tekur sæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.5.2010 | 00:11
Fýkur fram og til baka.
Nýr veruleiki blasir við í þeim sveitum sem næst liggja Eyjafjallajökli. Hann mótast af því að askan, sem kom í gosinu fýkur fram og til baka og setur mark sitt á daglegt líf í þessum sveitum.
Fyrir nokkrum dögum fauk askan af afréttum og svæðunum norðan jökulsins yfir hann og gerði myrkur um miðjan dag undir Eyjafjöllum.
Um miðjan dag í dag fauk þessi aska til baka yfir Eyjafjallajökul og Fimmvörðuháls og olli öskumistri norður yfir Fljótshlíð og þegar vindur snerist til suðausturs byrjaði hún að berast yfir Rangárþing.
Ég flutti flugvélina til vesturs á tún við Meiritungu nálægt Landvegamótum til að forðast vindstrenginn, sem stendur oft í vestur frá Fljótshlíðinni, en hann ber ösku af aurunum og norðurhlíðum Eyjafjallajökuls til vesturs.
Litlu skiptir þótt rykið setjist þegar rignir því að um leið og þornar, losnar um það og öskufokið byrjar á ný.
Svona ástand var á Skeiðarársandi í meira en ár eftir hlaupið mikla 1996 en munurinn var sá, að sá aur, sem þá barst fram og þornaði og rauk, var á óbyggðu svæði.
![]() |
Mistur vegna öskufoks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.5.2010 | 20:19
1986 enn og aftur.
Í aðdraganda úrslitakvöldsins í Evróvision 1986 var það orðið formsatriði í augum margra Íslendinga að innbyrða sigurinn, svo sigurstranglegan töldum við Gleðbankann vera.
Niðurstaðan varð 16. sætið.
Ekkert virðumst við hafa lært af þessu þótt við höfum haft 24 ár til þess. Aftur gerðist það nákvæmlega sama og fyrir 24 árum, að eftir forkeppnina og lokaæfinguna væri það bæði formsatriði að taka 1. sætið.
Umræðan var meira að segja komin í þann gír að ráða fram úr þein vanda að halda keppnina á næsta ári og því velt upp hvort Norðmenn gætu gert það fyrir okkur.
Það breytir því þó ekki að Hera Björk og íslenski hópurinn stóð sig óaðfinnanlega og gerði sitt besta.
Það gleymdist hins bar að þetta er söngvakeppni, ekki söngvarakeppni og að það er mjög erfitt að leggja dóma á smekk einstaklinga eða þjóða.
![]() |
Svona er þetta bara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2010 | 19:57
Eðlilegt miðað við stöðuna.
Þegar úrslit borgarstjórnarkosninganna eru skoðið sést að möguleikarnir á meirihlutasamstarfi eru fáir.
Í þessari kosningabaráttu hefur það heyrst að meirilhlutasamstarf sé úrelt aðferð í stjórnun sveitarfélaga eða ríkja og að ekki eigi að leita að slíku heldur eigi allir að vinna saman og enginn formlegur meirihluti að vera myndaður.
Víst er það svo að við sérstakar aðstæður, svo sem á stríðstímum eða alvarlegum krepputímum getur verið nauðsynlegt að mynda svonefndar þjóðstjórnir með þátttöku allra flokka.
Á hitt verður líka að líta að málum er jafnan ráðið í stjórnum ríkja, héraða og sveitarfélaga, að í atkvæðagreiðslum ræður meirihluti atkvæða.
Ef ekki á að ríkja stjórnleysi eða láta skeika að sköpuðu er því engin leið að komast hjá því að meirihlutar myndist í hverri atkvæðagreiðslu heldur er oftast farsælast að sami meirihluti ráði ferð þegar skoðanir eru skiptar.
Að þessu gefnu sést að það er eðlilegt að Besti flokkurinn og Samfylkingin reyni fyrst slíkt meirihlutasamstarf í borgarstjórn Reykjavíkur.
Það sést ef skoðaðir eru hinir möguleikarnir.
1. Besti flokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn.
Kannski ekki svo fráleitt ef miðað er við það að í skoðanakönnunum hefur Hanna Birna haft mest fylgi sem borgarstjóri.
En á móti kemur að ekki verður fram hjá því komist að D-listinn er listi Sjálfstæðisflokksins, sem var höfuðsmiður Hrunsins og óaldarinnar í borgarstjórninni á meðan á henni stóð.
Það væri skrýtin niðurstaða hjá Besta flokknum, sem var stofnaður til að mótmæla og andæfa Hruni, borgarstjórnarfarsa og afleiðingum þessa, ef hann tæki höndum saman við þann flokk sem mesta ábyrgðina bar.
2. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin. Efast má um að þessir flokkar myndu þora að láta tilvist og sigur Besta flokksins sem vind um eyru þjóta með því að fara í samstarf, jafnvel þótt meirihluti kjósenda í Reykjavík stæði á bak við slíkan meirihluta. Það yrði auðvitað vatn á myllu Besta flokksins.
3 og 4 myndu felast í því að Vinstri grænir yrðu þriðja hjól á bílnum með Besta flokknum og Samfylkingunni og ekki er auðvelt að sjá að það sé raunhæfur eða nauðsynlegur kostur.
5. "Þjóðstjórn" í borgarstjórn. VG hefur útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn svo að þessi kostur er ekki inni í myndinni.
Besti flokkurinn stendur nú frammi fyrir því að þurfa að vinna samkvæmt landslögum að því að inna þau verk af hendi, sem þeir Reykvíkingar, sem kusu hann, hafa ráðið hann til að vinna.
Framhjá því mun hann ekki komast, ekki einu sinni sem minnihlutaflokkur, því að hann verður að tilnefna fólk til starfa í nefndum borgarinnar. Slíkt er ekki hægt að afgreiða sem "djók".
![]() |
Ræddu við Samfylkingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.5.2010 | 08:27
Mikið grín, - mikið gaman !
Tvær hliðar hafa verið á atburðarásinni hér á landi síðustu tvö ár hvað varðar álit okkar og orðstír erlendis.
Annars vegar sú dauðans alvara að þjóðin er rúin trausti erlendis. Það er alvörumál því að það kemur óþyrmilega á hverjum degi við buddu hvers Íslendins og veldur þjóðinni ómældu tjóni.
Hins vegar það að við virðumst leggja okkur fram um að gera okkur að athlægi um víða veröld og var þó ekki á það bætandi.
Spéfuglar allra landa fá nú ný tilefni til háðs og spotts í garð okkar, því aldrei fyrr hefur verið hægt að nota um íslenskan viðburð hin fleygu orð Ladda: "Mikið grín, - mikið gaman!"
Eitt af þeim orðum sem Jón Gnarr hikaði ekki við að nota í kosningabaráttunni var orðið "aumingjar".
Út á við mun það orð hugsanlega fá flug í hugum annarra þjóða í viðhorfi þeirra til okkar. Ef einhverjar þeirra eiga eftir að reynast okkur vel verður það aumingjagæska.
Í augum alheimsins hafa Íslendingar lagt sig fram um það í þessum byggðakosningum og atburðum siðustu missera að gera sig að aumkunarverðri þjóð sem liggi fyrir hunda og manna fótum, höfð að háði og spotti jafnt inn á við sem út á við, tilbúin til að gefa frá sér auðlindir sínar og alheimsverðmætin, sem henni var falið að hafa umsjón með.
Í kosningabaráttu Besta flokksins sást lítið til þeirrar nauðsynlegu ádeilu með beittan brodd sem Spaugstofan hefur sýnt.
Svo virðist sem að á öllum sviðum, jafnt í gríni sem alvöru, sé forðast að grípa á því sem helst þarf að laga í hegðun okkar, heldur látið nægja að grínið sé almennt nóg til að bæta ál fáránleikann, sem komst í himinhæðir í hruninu.
Þess vegna er hætt við að framtak Jóns Gnarr og fylgismanna hans nægi ekki til að snúa málum hér til betri vegar, en slíkur árangur svona framboðs hefði verið æskilegur.
Með því að láta háðið bitna eingöngu á stjórnmálamönnum sem stétt en leyfa nær öllum öðrum að sleppa var nefnilega tryggt að fylgi fengist. Að því leyti til reyndist Besti flokkurinn engu betri en hinir fyrri flokkar að tilgangurinn virtist helga meðalið.
![]() |
Besti flokkurinn stærstur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
29.5.2010 | 08:12
"Hnjúkurinn gnæfir..."
Í tilefni dagsins og gönguferða á Hvannadalshnjúk læt ég flakka hér brot úr texta við lagið "Hnjúkurinn gnæfir."
HNJÚKURINN GNÆFIR. (Með sínu lagi)
Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir, -
hamrahlíð þverbrýnt, ísað stál.
Ógnfagur rís hann, ögrandi þegir,
inn í þig smýgur hans seiðandi mál.
Bjartur sem engill andartak er hann.
Alheiður berar sig blámanum í.
Á sömu stundu í fötin sín fer hann,
frostkalda þoku og óveðursský.
Hvers vegna´að klífa´hann?
Hvers vegna að sigra´hann ?
Hvers vegna öll þessi armæða´og strit ?
Hví ertu góði að gera þig digran?
Geturðu´ei stillt þig ? Skortir þig vit ?
Hvers vegna finnst þér hans ögrun til ama ?
Af hverju að hætta sér klærnar hans í ?
Svarið er einfalt og alltaf það sama:
Af því hann rís þarna, - bara af því.
![]() |
200 manns fara á Hvannadalshnjúk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.5.2010 | 20:37
Söngvarakeppni eða söngvakeppni?
Ummæli þess efnis að Anna Bergendahl, sem söng lag Svía í undankeppni Evróvision, hafi verið besti flytjandinn, sýna að söngvakeppnin er í hugum flestra flytjendakeppni að því er virðist.
Þarna virðast síast inn áhrif frá alls kyns hæfileikakeppni sem úir og grúir af, allt frá keppni framhaldsskólanna til American Idol.
Persónulega finnst mér þetta bagalegt. Ég tel þvert á móti að leita eigi að besta laginu, ekki besta flytjandanum.
Annars væri réttara að breyta nafni keppninnar úr "...song contest..." í "singers contest..." eða úr söngvakeppni í söngvarakeppni.
![]() |
Svíum brugðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.5.2010 | 16:21
Að skoða tölurnar á umbúðunum.
Á þessu ári hefur staðið yfir átak hjá mér til að létta mig og er takmarkið að léttast um tíu kíló.
Ekki er ætlunin að þetta gerist hratt heldur hægt og bítandi. Margföld reynsla er fyrir því að léttingaráhlaup séu árangurslítil því að aftur sæki í sama farið þegar átakinu er lokið. Ég miða við eitt kíló á mánuði og ætla mér því að ljúka þessu fyrir jól.
Síðan á að taka við strangt aðhald til að halda sig við þetta 82-83 kíló.
Þetta hefur gengið ágætlega. 6,5 kíló eru farin á fimm mánuðum.
Allt fram á allra síðustu ár hef ég notað harðsnúin hlaup og hreyfingu til að halda í horfinu.
En nú eru hnén illa slitin og hlaupin því ekki möguleg enda bönnuð að læknisráði. Hann bannaði mér þó ekki að læðast hratt.
Þegar þannig er ástatt er aðeins eitt ráð til, og það er hitaeininga- , hvítasykurs - og fitubókhald.
Til að hafa einhverja vísbendingu um það hvernig mataræðinu sé best háttað er nauðsynlegt að vita innihald þess sem maður borðar og það má lesa á umbúðum flestra matvara.
Ég er ekki í ströngu aðhaldi heldur er sunnudagurinn nammidagur og allt í lagi að njóta góðra máltíða í veislum eða gera sér dagamun af og til.
En það er hið jafna og sígandi aðhald hversdagsins sem gildir, afnám ýmissa ósiða og að hafa innihald hins étna á hreinu.
Þá finnst sumt mjög fljótlega út, til dæmis það að þriðjungur súkkulaðis er hrein fita og í mörgum súkkulaðivörum er líka mikið af hvítasykri og hitaeiningarnar eru margar.
Smjör og Smjörvi eru 80% fita og því má segja að hver smjörklípa fari beint framan á magann.
Ég hef lengi tekið eftir því að margt feitt fólk drekkur Diet Kók eða Pepsi Max.
Auðvitað telur það að drekka ekki ekta Kók eða Pepsi en þegar lesið er á umbúðirnar sést að þótt sykurinn sé vafalaust óhollur í þessum drykkjum eru hitaeiningarnar ekkert margar í hverjum 100 grömmum, ekkert fleiri en í Appelsíni eða mörgum ávaxtadrykkjum.
Feita fólkið, sem drekkur diet-drykki fitnar greinilega við það að skófla í sig súkkulaði eða innbyrða matvörur sem innihalda margar hitaeiningar í formi fitu og kolvetna.
Þegar maður fer að lesa á umbúðirnar kemur margt fróðlegt í ljós sem kemur oft á óvart og nýtist vel í grenningunni.
Þetta snýst um þrennt: 1. Rannsaka innihaldið. 2. Horfa langt fram og taka sér góðan tíma. 3. Hreyfa sig, helst í lengri skorpum en 20 mínútna löngum.
![]() |
Kaloríusprengja sem maður hristir ekki af sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.5.2010 | 14:47
Smækkuð útgáfa af Móðuharðindunum.
Síðustu daga hefur fólk á Suðurlandi kynnst veðurlagi sem er mjög undir áhrifum frá gosinu í Eyjafjallajökli þótt því sé lokið í bili. Það lýsir sér á þurrum góðviðrisdögum þannig að á morgnana sé ágætt veður, en síðan byrjar að blása sólfarsvindar sem þyrla upp öskunni sem féll í gosinu og kaffæri austustu sveitir Suðurlands.
Síðan breiðist þessi örfína öskumóða yfir allt Suðurland og verður það þykk, að skyggni fer víðast hvar jafnvel niðurfyrir tíu kílómetra svo að ekkert sést til fjalla.
Ef vætutíð verður mikil í sumar mun þetta ekki verða eins algengt en ævinlega áberandi þegar þornar.
Í morgun var sæmilegt skyggni í Rangárþingi fram yfir hádegi en síðan náði sólfarsvindurinn sér á strik með svalri hafgol sem blés á móti ríkjandi norðanátt í fjallahæð.
Land er dökkt á öskufallssvæðunum og hitnar því meira en ella á björtum morgnum. Loftið stígur þá upp og fer á flakk í vindstrengjum sem blása af ýmsum áttum.
Síðdegis í gær var maður aumur í augunum vegna hins fína og ósýnilega ryks, sem smýgur um allt.
Vitað er að gosefnin í Móðuharðindunum voru í þvílíku magni að þetta Eyjafjallagos er bara örlítið sýnishorn sem gefur þó smá vísbendingu um það við hvað þjóðin mátti búa hið hræðilega tímabil sem fékk réttilega nafnið Móðuharði.
![]() |
Væta fyrir sunnan - þurrt fyrir norðan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2010 | 16:37
Erfitt að túlka þetta.
Ef það sem kemur fram í könnuninni um fylgi við borgarstjóraefni er nokkurn veginn rétt væri einfaldasta ályktunin sú að stærsti hópur kjósenda á laugardaginn vilji hafa sama borgarstjóra áfram en refsa samt stjórnmálamönnum með því að gera Besta flokkinn að stærsta aflinu í borgarstjórn.
Jón Gnarr lýsti því yfir strax í upphafi að markmið framboðs hans væri að skaffa honum þægilegt og skemmtilegt starf sem borgarstjóra.
Nýjustu yfirlýsingarnar um að auglýsa eftir fólki til að vinna í nefndum og annað svipað handverk passa alveg við þetta.
Enginn þarf að efast um að við þetta verði staðið enda ákaflega auðvelt að gera það.
Ef hins vegar á að refsa því fólki sem áður hefur komið nálægt stjórnmálum gengur það ekki upp að vera fylgjandi því að Hanna Birna verði áfram.
Hún var innsti koppur í búri Sjálfstæðisflokksins í Valhöll fyrir hrun og því talsverð Ragnars Reykás lykt af því að vera bæði fylgjandi framboði Besta flokksins og því að Hanna Birna verði áfram borgarstjóri.
En tæpur helmingur kjósenda í Reykjavík virðist kæra sig kollótta heldur vera til í að keyra farsa stjórnmála undanfarinni ára í botn.
![]() |
Flestir vilja Hönnu Birnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)