20.5.2011 | 13:41
Stríð eða "fyrirbyggjandi aðgerðir" og "vopnuð átök"?
Einhvern veginn var hugtakið stríð skýrara á fyrri hluta síðari aldar en síðar varð. Yfirleitt lýstu þjóðir yfir stríði þegar þau brutust út og þannig var það yfirleitt í Seinni heimsstyrjöldinni.
Engin stríðsyfirlýsing fylgdi árás Japana á Perluhöfn en Bandaríkjamenn lýstu strax yfir stríði á hendur Japönum og nokkrum dögum síðar lýstu Þjóðverjar yfir stríði á hendur Bandaríkjamönnum, sem var afar dýrkeypt aðgerð, því að Hitler hélt að Japanir myndu halda Bandaríkjamönnum við efnið en vissi ekki að frá upphafi lét Roosewelt stríðið í Evrópu hafa forgang.
George Orwell gaf tóninn eftir stríðið í ádeilu sinni á það hvernig menn velji heiti á ýmsa starfsemi, sem lýsir þveröfugu við það sem hún felur í sér, svo sem friðarmálaráðuneyti í stað hermálaráðuneytis.
Ári eftir var stofnað "varnarbandalagið" NATO og í kjölfarið "varnarbandalagið" Varsjárbandalagið, en bæði voru að sjálfsögðu hernaðarbandalög sem stofnendurnir töldu að stuðluðu að friði.
Raunar sýndi reynslan frá 1939 að ekki er raunhæft að koma á fót her eða hernaðarbandalagi sem hefur aðeins varnaráætlun en enga sóknaráætlun tilbúna.
Þess vegna gátu Þjóðverjar í rólegheitum stefnt meginher sínum í austurátt í leifturstríð á hendur Pólverjum vegna þess að Bandamenn höfðu ekki tilbúna neina áætlun um að sækja inn í Þýskaland úr vestri.
Þegar skorist var í leikinn í átökunum á Balkanskaga á tíunda áratugnum var ekki lýst yfir neinu stríði heldur hernaðurinn skilgreindur sem aðgerð til að koma á friði, afstýra árásum á friðsama borgara og tryggja sanngjörn málalok.
Á það hefur verið bent að Íslendingar hafi með veru sinni í NATO verið að minnsta kosti óbeinir aðilar að þessum hernaði, sem þó var aldrei nefndur stríð heldur "friðargæsla" sem að vísu leiddi af sér "vopnuð átök."
Ef sá skilningur er réttur að Íslendingar hafi þarna átt aðild að stríði, var það í sjálfu sér breyting á utanríkisstefnu landsins sem hafði frá öndverðu byggst á því að við værum herlaus þjóð sem tæki ekki þátt í stríðsátökum.
Og í framhaldinu mátti síðan íhuga hvort ákvörðun tveggja manna í mars 2003 að Íslendingar lýstu sig í hópi "viljugra þjóða" til hernaðarinnrásar í Írak, hafi ekki falið í sér neina grundvallarbreytingu frá því sem gerðist í Júgóslavíu.
Innrásin í Írak var þó miklu stærri og harðskeyttari aðgerð sem engan veginn er hægt að flokka undir "vopnuð átök" heldur hefur þessi aðgerð réttilega verið kölluð Íraksstríðið.
Enn er um svipað álitaefni að fást nú í tengslum við aðgerðir NATO í Líbíu. Samkvæmt ályktun Öryggisráðsins er aðgerðunum aðeins ætlað að "verja óbreytta borgara" þar fyrir árásum hers Gaddafis.
Gallinn er bara sá að það getur verið svo erfitt að draga línuna á milli þess að verjast árás beint eða að teygja sig býsna langt til að fyrirbyggja árás.
Þetta nýtir Gaddafi sér þegar hann reynir að breyta aðferðum hers síns til að vinna bug á uppreisnarmönnum og að sama skapi geta aðgerðir NATO smám saman orðið ansi víðtækar, þannig að erfitt verði að greina á milli "fyrirbyggjandi aðgerða" og "vopnaðra átaka" annars vegar og hreins stríðs hins vegar.
![]() |
Réðust á flota Gaddafis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.5.2011 | 16:56
Fór með hestinn upp á 2. hæð ?
Hér í gamla daga voru margir af helstu hestamönnum landsins jafnframt miklir gleðimenn og gerðu sér þá dagamun í mat og drykk.
Ein af þeim sögum sem ég heyrði ungur af einum þeirra var sú, að í teiti sem einn þeirra hélt í íbúð sinni á efri hæð hefði hann teymt einn af eftirlætis gæðingum sínum til að gera samkvæmið óviðjafnanlegt.
Ég hef vissan skilning á þessu vegna þess að í ungæðishætti á menntaskólaárunum gerði ég það einu sinni í bríaríi að aka NSU-Prinz örbílnum mínum inn í KFUM-húsið við Antmannsstíg þar sem tveimur bekkjardeildum skólans var kennt.
Til að komast aftur út bakkaði ég bílnum inn í fatahengi, en hrekkjalómar skelltu þá hurðinni að henni í lás svo ég var fastur inni.
Ég sá að ef ég kæmist ekki strax út myndi uppátæki mitt geta orðið til þess að ég lenti í enn frekari vandræðum og yrði rekinn úr skólanum.
Tók ég á það ráð að flauta hátt og snjallt og var heppinn, því að hávaðinn olli því að húsvörðurinn, ung kona, kom og opnaði dyrnar.
Ég afsakaði veru mína í flýti, sagðist hafa lagt bílnum hjá hinum skóhlífunum og hefði orðið að selja frakkann minn til að eignast hann.
Konan gapti svo af undrun að sá ofan í háls henni, og ég greip tækifærið og brunaði út.
Hún kærði mig sem betur fer ekki og naut ég kannski þess að vera þá orðinn landsþekktur skemmtikraftur.
En 40 árum síðar var ég að skemmta á fjölmennri skemmtun um verslunarmannahelgina í Vatnaskógi þegar roskin kona snaraðist upp á sviðið, stöðvaði atriðið hjá mér og sagði, að nú loksins fengi hún tækifæri til að borga fyrir óskundann, sem ég olli forðum.
Var þar komin húsvarðarkonan góða frá árinu 1960 og náði sér þarna loks niðri á mér, í skemmtilegasta bróðerni þó.
Ég hef aldrei fengið sannreynda að fullu söguna um hestinn sem fór upp stigann en ég trúi henni allt eins.
![]() |
Mætti með hestinn á spítala |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.5.2011 | 12:32
Hvað um brennisteinsmengunina? Ljúga áfram?
Svifryk er aðeins nokkra daga á ári yfir mörkum í Reykjavík. Fyrir þremur árum kom í ljós að loftgæði í Reykjavík stóðust í 40 daga á ári ekki öll lágmörk sem gerð eru í Kaliforníu.
Síðan hafa útblástur og mengun aukist verulega á Hellisheiðarsvæðinu og í ráði að stórauka mengunina með virkjunum við Gráuhnúka og síðar Hverahlíð.
Því stefnir í það að mánuðum saman standist loftgæði á höfuðborgarsvæðinu ekki lágmörk Kaliforníuríkis sem er að stórum hluta mjög þéttbýlt land með stórborgirnar Los Angeles og San Fransisco.
Heilbrigðiseftirlit leiðir nú líkur að því að brennisteinsvetni í lofti sé orðið það mikið nú þegar að það hafi heilsuspillandi áhrif, einkum á astmasjúklinga og gamalt fólk.
Auk þess eru rannsóknir Orkuveitu Reykjavíkur gagnrýndar harðlega sem villandi og lélegar en það er svo sem ekkert nýtt, því að í mati á umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjuna var talið að loftmengun myndi hafa sáralítil ef nokkur áhrifi á gróður við virkjunina. Annað kom þó í ljós.
Við segjum hverjum sem er, líka Kaliforníubúum sem hingað koma, að í Reykjavík sé hreinasta loft í nokkurri höfðuborg í heimi. Hve lengi ætlum við að halda áfram að ljúga þessu að öðrum þjóðum.
Við segjum líka öllum að orkuvinnslan sem komin er og áætluð er á svæðinu frá Nesjavöllum til Gráuhnúka í samræmi við sölusamninga við álver standist kröfur um endurnýjanlega orku og sjálfbæra þróun. Samkvæmt þeim rannsóknum, sem nú liggja fyrir, mun þessi orka vart duga lengur en í 50 ár og svæðið þá verða kalt í allt að öld eftir það.
Hvenær ætlum við að hætta að ljúga að okkur og öðrum í þessum efnum?
![]() |
Svifryk verður yfir mörkum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.5.2011 | 22:24
Borgarbörn fara mikils á mis.
Borgarbörn nútímans fara mikils á mis að upplifa það aldrei að standa undir heiðum næturhimni að vetrarlagi og sjá himingeiminn með öllum sínum óteljandi stjörnum hvelfast yfir sér.
Þegar ég var barn var ljósmagnið í Reykjavík, sem var á mörkum þess að vera borg eða bær, aðeins brot af því sem það er í dag, og ekki þurfti að fara langt, aðeins inn undir Elliðaár til að sjá vel til himins.
Þegar komið var fram í lok september í sveitardvölinni var orðið vel dimmt um nætur og himinninn heiður og tær.
Ég áttaði mig ekki á því hve mikils börn mín höfðu farið í mis fyrr en þau Iðunni og Friðrik fluttu börnum sínum til Víkur í Mýrdal í tvö ár í upphafi kennaraferils síns.
Þegar þau komu til baka var stjörnubjartur næturhiminninn í Vík og bjarminn af tunglskini yfir Reynisdröngum auk algerrar þagnar eftirminnilegasta upplifunin svo af bar.
![]() |
Fegurð næturhiminsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.5.2011 | 22:15
Vandlifað.
"Það þarf sterk bein til þola góða daga" eða eitthvað á þá leið minnir mig að máltæki eitt hljóði.
Of mikil neysla á sykri og fitu hefur gert ofþyngd að einhverju erfiðasta heilbrigðisvandamáli okkar tíðar.
En hve langt á að ganga í meinlætalifnaði og eftir hvaða mynstri?
Ég er ekki viss um að orðið "fyllerísmenning" eigi alveg við það að gera sér dagamun eins og til dæmis einu sinni í viku varðandi ýmislegt.
Nú er það einu sinni svo að annar frídagurinn um hverja helgi er skilgreindur sem nauðsynlegur hvíldardagur frá amstri hversdagsins og því getur varla verið óeðlilegt að á einn dag sé nældur merkimiði fyrir það að gera eitthvað sem gefur lífinu lit.
Þegar ég fór í gegnum það nýlega hvað vægi þyngst í minni neyslu varðandi líkamsþyngdina kom fljótlega í ljós að það var súkkulaði. Súkkulaði er nefnilega afar mikið lostæti en því miður er það óhollustan uppmáluð hvað það snertir, að 30% af þyngd þess er fita og í því auk þess hvítasykur sem er út af fyrir sig eitt versta fíkniefni samtímans.
Langstærsti hluti súkkulaðineyslu minnar átti rót að rekja til menntaskólaáranna þegar það varð að tákni þess tíma að fara inn á "Skalla" og fá sér kók og prins.
Við nákvæma greiningu á lífsvenjum mínum kom í ljós að ég át að meðaltali 20-30 Prins póló stykki á viku eða um eða yfir hundrað stykki á mánuði.
Það þýddir að í þau 50 ár sem þetta hafði verið hluti af neyslumynstri mínu hafði ég innbyrt 50 þúsund stykki hið minnsta.
Ég ákvað því að taka þetta af neyslulistanum að undanskildu því að hver sunnudagur væri "nammidagur", en aðeins þessi eini dagur og aðeins þetta eina Prins póló stykki.
Af hverju að hafa þetta svona? Jú, ef maður getur fundið eitthvað til að hlakka til, þá finnst mér ekkert að því að finna eitthvað til þess.
Ég hlakka alla vikuna til þess að fá mér eina kók í gleri og Prins póló einu sinni í viku. Tel það hvorki ýta undir "fyllerísmenningu" eða óhóf. En miklu varðar að "nammidagurinn" sé aðeins einn en ekki tveir í röð. Þar munar jú helmingi, ekki satt?
![]() |
Nammidagar ala á fyllerísmenningu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.5.2011 | 21:33
Ólíklegt að þetta breyti neinu.
Staðbundnar aðstæður á ströndinni suður af Grundartanga valda því að hlutfall norðaustanáttar er þar óvenju hát. Þess vegna mátti gera ráð fyrir því fyrirfram að mengað loft frá verksmiðjunum legði í bæina á ströndinni.
Ég hef áður bloggað um það hvernig horft er í gegnum fingur sér varðandi reyk frá járnblendiverksmiðjunni og mér skilst að verksmiðjurnar sjálfar þarna sjái um mælingar á útblæstri.
Hér hefur verið landlægt að sjá í gegnum fingur sé við ýmsa starfsemi sem veldur mengun.
Er Funamálið í Skutulsfirði gott dæmi um það og ólíklegt verður að telja að hagsmunir tiltölulegra fárra, sem búa í nágrenni við jafn stórar verksmiðjur og eru á Grundartanga verði taldir skipta nokkru máli, jafnvel þótt mengun muni reynast mun meir en reglur sögðu til um.
Í Hvalfirði hafa verið stofnuð samtök sem nefnast Umhverfisvaktin og eiga þau mikinn rétt á sér. En félagsfólk úr röðum þeirra hafa kvartað í mín eyru yfir þöggun og tómlæti hvað varðar það þegar pottur er brotinn í ýmsum efnum á verksmikjusvæðinu.
Það rímar við það sem ég margbloggaði um í vetur um það hvernig skipstjórar á risaskipum, sem þurfa að losa sig við úrgangsefni af skipunum eru í sjöunda himni yfir því að fá að haga sér að vild hér við land, eitt allra landa, vegna algers tómlætis Íslendinga.
Þess vegnar er ólíklegt að nokkur dauð hross verði til að hagga við neinu þegar STÓR-iðjan er annars vegar.
![]() |
Telur flúormengun orsök veikinda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2011 | 17:08
Gamlar ranghugmyndir lífseigar.
Hinn eldvirki hluti Íslands hefur verið af dómbærum erlendum sérfræðingur dæmdur sem eitt af sjö mestu náttúruundrum Evrópu og í hópi 40 merkustu náttúruundra heims.
Frægasti þjóðgarður heims, Yellowstone, sem dregur að sér tvær milljónir manna um sumartímann og þar af kemur helmingur frá öðrum heimsálfum en Ameríku, kemst ekki á blað.
"Gullni hringurinn" Þingvellir - Gullfoss - Geysir nýtur ofuráherslu hér á landi.
Finnar fengu að "stela" jólasveininum frá okkur og staðsetja í Rovianemi sem er lengra burtu frá helstu löndum Evrópu en Ísland og Lappland fær til sín fleiri ferðamenn um vetrartímann en koma allt árið til Íslands.
Við höldum að íslenskar ferðaskrifstofur séu undirstaða ferðamennsku á Íslandi en fylgjumst ekkert með þeim hópi ferðamanna, sem fer sístækkandi og vill sjálfur upplifa land og þjóð í stað þess að vera í ferðamannahópum.
Þetta fólk er á róli Lonely Planet og kemur hingað undir formerkjunum, "get your hands dirty and feet wet", að upplifa það að lifa af, (survival) og eignast persónuleg upplifunarævintýri.
Tvær bílaleigur prófuðu fyrir nokkrum árum að leigja út Lödu Sport. Önnur þeirra gafst upp; leigendurnir komu til baka með húnana í höndunum og annað var eftir því.
Hin seldi bílana ekki strax og er nú að endurnýja Lödu Sport bílaflota sinn. Af hverju? Af því að það er ögrun og heillandi ævintýri að halda á fjöll á svona bíl.
Sumir þeirra, sem gera það, komu til landsins sem "bakpokalýður" fyrir 25-30 árum og tóku svona jeppa á leigu af því að þeir voru langódýrastir.
Nú koma þeir aftur en vilja endurlifa ævintýrin með þessum grófgerðu jeppum en ekki að setjast upp í nýjustu og best búnu jeppana.
"Viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér." Þessu gleymum við og höldum að útlendingar horfi á landið okkar augum.
Ef við gerum það verður markaðssetningin að stórum hluta röng.
![]() |
Er markaðssetning Íslands röng? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2011 | 21:20
Vegir Guðs eru órannsakanlegir.
Þótt vegir Guðs séu órannsakanlegir er vonandi að leit mannsins að aukinni þekkingu stöðvist aldrei.
En eilífðin og óendanleikinn tryggja það, að jafnóðum og menn halda að þeir hafi komist að hinum endanlega sannleika eða endimörkum sannleikans uppgötva þeir fyrr eða síðar að leitin tekur engan enda því ávallt birtast nýjar og nýjar spurningar og viðfangsefni.
Þetta gerir lífið, dauðann og alheiminn allan og tilveruna svo heillandi og spennandi.
![]() |
Ætla að ráða gátuna um guðsöreindina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
17.5.2011 | 21:09
Hávaðinn er áhrifamestur.
Það er að vísu tignarlegt að horfa á geimskot frá Canaveralhöfða. En lang áhrifamestur er þó hinn ærandi hávaði og titringurinn, sem fylgir skotinu. Þetta get ég borið vitni um en hins vegar ekki um það, sem mér finnst líklegt að sé satt, að hávaðinn við kappakstursbrautina í Formúlu 1 sé lang áhrifamesti hluti upplifunarinnar.
Og þó. Á Farnborough flughátíðinni fyrir um áratug fór fram keppni þotu og Formúlu 1 kappakstursbíls á flugbrautinni og hávaðinn var lang áhrifamestur.
Þegar ég sá myndina Aviator um ævi Howard Hughes var ég líklegast sá maður í bíósalnum í það skiptið, sem var dómbærastur á útfærsluna á hinu magnaða atriði þegar Hughes brotlenti í skógi vaxinni byggð.
Þar á ég við hljóðsetninguna á hávaðanum, sem Hughes upplifði sjálfur. Ég get borið um það vitni að í atviki sem þessu er hávaðinn langáhrifamesta minningin.
![]() |
Endeavour skotið á loft |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2011 | 06:31
Svívirðileg drápstól.
Jarðsprengjur eru einhver svívirðilegustu drápstól okkar tíma og baráttan gegn notkun þeirra er með ólíkindum erfið. Tregða Bandaríkjamanna til að taka þátt í alþjóðlegu banni gegn þeim er þeim til lítils sóma.
Hér á landi olli sprengja á víðavangi dauðaslysi tveimur árum eftir að styrjöldinni lauk, og man ég enn vel hvað sú frétt hafði mikil áhrif á mig, þá aðeins fimm eða sex ára.
Það var einkum vegna þess hvernig slysið bar að, en það varð þegar dætur bónda á Héraði hlupu á móti pabba sínum sem var að koma heim og sprengjan sprakk þegar þær mættu honum.
Hafði hún legið í sverðinum án þess að tekið væri eftir henni. Ég man að bóndinn fórst og gott ef ekki dæturnar líka.
![]() |
Slasaðir eftir jarðsprengju úr seinni heimsstyrjöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)