15.6.2010 | 12:44
Klukkustundin sem skipti sköpum.
Ég hef hitt fólk í morgun sem hefur innt mig eftir nánari skýringum á myndinni sem er á innsíðu Morgunblaðsins af nýja vatninu, sem er í gíg Tindfjallajökuls. Ég skal gera það hér og myndin kemur seinna því ég get ekki sett hana á bloggsíðuna fyrr en ég kemur suður seinna í dag. -
Nú er ég kominn suður og set þrjár myndir inn, allar teknar úr suðri
Á þeim sést vatnið í forgrunni og öskuþröskuldur, sem talað er um blasir við á strönd vatnsins hinum megin með rjúkandi gufur.
Á efstu myndinn sést vel sprunginn jökullinn, þakinn ösku, okkar megin við vatnið.
Á næstefstu mynd er horft til norðaustur og eru Þórsmörk og Mýrdalsjökull í baksýn.
Á neðstu myndinni, þeirri sem kom í Morgunblaðinu í morgun má sjá handan öskuþröskuldsins, hinum megin vatnsins, móta fyrir skarði í svartan vegg, sem sýnist vera hamraveggur en er í raun Gígjökull, sem hraun úr gígnum rauf skarð í á leið sinni niður til norðurs.
Þetta skarð og farveg sinn gat hraunið ekki myndað nema bræða allan jökulinn ofan af sér og fyrir vikið er liggur stórkostleg ísgjá niður eftir öllum jöklinum.
Ég birti myndir af henni hér á síðunni á sínum tíma en nú hefur hún breyst talsvert og askan setur alveg nýjan svip á allt.
Margir halda að svona myndir náist fyrir tilviljun eða hundaheppni en oftast er það ekki svo.
Eyjafjallajökull er 1666 metra hár og til að sjá allan gígin varð að vera bjart yfir tindinum og gígskálin ekki full af gufum eins og verið hefur fram til þessa.
Kvöldið og nóttina fyrir myndatökuna fylgdist ég með veðurspám, veðurathugunum og myndum í vefmyndavélum mila.is.
Af þeim mátti ráða að hugsast gat, að þegar sólar nyti um hádegi gæti rofað til á tindinum og að loftið þar yrði tiltölulega þurrt og hlýtt í sæmilega miklum vindi þegar byrjaði að hvessa af suðri á undan vaxandi suðaustanvindi með vætu.
Þarna var möguleiki á að einhverja stund, hálftíma til tvo tíma, yrðu þessi skilyrði.
Ég fór því austur snemma um morguninn og beið átekta.
Um klukkan hálf ellefu hreinsaðist skýjahulan skyndileg af jöklinum þegar sunnanvindurinn fór að blása.
Af því að ég var staddur aðeins um 12-15 mínútna flugs fjarlægð, gat ég farið í loftið þegar í stað og nýtt mér færið. Ef ég hefði fylgst með vefmyndavél í Reykjavík hefði þetta ekki verið hægt, - það sem skipti sköpum var að ég var þannig staðsettur að jökullinn blasti við mér í návígi.
Hálftíma eftir að ég lenti voru tindurinn og fjallið byrjuð að hyljastskýjum. Þessi klukkstund sem þarna var um að ræða, skipti sköpum.
En á undan henni höfðu verið farnar margar ferðir austur án þess að svona skilyrði sköpuðust.
Ég þekki vel til margra ljósmyndara og kvikmyndatökumanna, sem hafa lagt alúð í starf sitt, og kannski rétt að víkja að verkum þeirra og annarra listamanna. Ég hef í gegnum árin fylgst með því óhemju mikla starfi og kostnaði, sem liggur á bak við flest verk þeirra.
Ragnar Axelsson, RAX, hefur lýst hluta af þessu í skemmtilegum pistlum í Helgarblaði Morgunblaðsins með greinum undir fyrirsögninni "Sagan á bak við myndina." Er þar þó ekki sögð nema lítil brot af því sem liggur á baki myndarinnar ef allt er til talið.
Um daginn var athyglisverð umræða um verk listamanna á ýmsum sviðum og töldu margir litla eða enga ástæða til þess að þeir nytu tekna eða launa fyrir verk sín, svo sem fyrir tónlistarsköpun.
Þar mátti sjá á prenti í bloggi ummæli eins og: "Það getur hver sem er skotist út og náð svona myndum. " Eða: "Það getur hver sem er skotist út í bílskúr og glamrað eitthvað á gítar og sett á disk."
Svona röksemdir voru notaðar til þess að rökstyðja að það væri engin ástæða fyrir því að til þess að borga þessum mönnum.
Þegar ég hef lent í rökræðum við fólk um þetta hefur svar mitt verið stundum orðið þetta: Ef það er svona lítilfjöregt mál að búa til myndverk eða tónlist, af hverju gerið þið bara ekki þetta sjálf, "skjótist út til að smella mynd" eða "skjótist út í bílskúr og glamrið á gítar?"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2010 | 21:52
Ýmsar hliðar á sunnanþeynum.
Í dag flaug ég frá Hvolsvelli til Sauðárflugvallar, sem er milli Brúarjökuls og Kárahnjúka og síðan þaðan til Akureyrar, þar sem þessi bloggpistill er skrifaður.
Þegar loftið er þurrt og hlýtt og vindur blæs eitthvað verður loftið rykmettað víða í byggð vegna þess að á hálendinu eru sums staðar þurrar leirur á borð við Jökulsárflæður norðan Dyngjujökuls sem byrjar að rjúka úr.
Ég get ekki birt myndir úr úr þessari ferð í dag en vonandi á morgun.
Munu ýmsir verða undrandi á að sjá þær, því að þær munu sýna að mönnum fannst ekki nóg á sínum tíma að sætta sig við hið óumflýjanlega, að þurrar leirur með sífellt nýjum framburði færu að rjúka og færa næsta umhverfi sitt á kaf í moldviðri, heldur var búið til nýtt manngert leirstormasvæði norðan Brúarjökuls til að bæta við alveg nýju svæði leirstorma.
Meira um það með myndum á morgun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2010 | 07:16
Löw og Maradona.
Argentínumenn og Þjóðverjar hafa tekið byrjunina á HM með trompi fyrir sakir stórkostlegs liðsanda, hugmyndaauðgi og samheldni, sem þjálfarar liðanna láta smita út frá sér niður á leikvanginn.
Að sama skapi valda Englendingar vonbrigðum. Einkum er óskaplega ánægjulegt að sjá til þýska landsliðsins, sem er ekki aðeins eins og þrautskipulögð og öguð heild, heldur sést mun meiri hreyfanleiki, frumkvæði, yfirsýn og tímaskyn hjá liðinu en áður hefur sést hjá Þjóðverjum, sem hafa oft verið skammaðir fyrir að leika frekar leiðinlegan fótbolta þótt árangursríkur hafi verið.
Enginn er þó betri en andstæðingurinn leyfir hverju sinni og það á eftir að koma í ljós þegar líður á HM hvort Þjóðverjar halda þessum dampi og hve langt Argentínska liðið kemst á þeim baráttuanda og lífsgleði sem hinn litríki þjálfari þeirra blæs þeim í brjóst.
![]() |
Löw: Yfirburðir allan leikinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.6.2010 | 01:38
Eru hjónaskilnaðir skemmtilegir ?
Fréttin á mbl.is um leðjuslaginn í Borgarnesi er létt og skemmtileg, - gerir lífið skemmtilegra. Birtist sú frétt þó í fjölmiðli sem tekur það ekkert sérstaklegra að hann sé skemmtilegur.
Eini fjölmiðillinn sem tekur það sérstaklega fram um sjálfan sig er "Séð og heyrt" sem hefur letrað á forsíðu sinni og ítrekar í forystugreinum um sjálft sig: "Gerir lífið skemmtilegra".
Þetta hefur verið kjörorð blaðsins árum saman.
Í síðustu tveimur tölublöðum eru á forsíðu fréttir af hjónaskilnuðum.
Í tölublaðinu sem flaggar skilnaði Selmu og Rúnars teygir kjörorðið "Gerir lífið skemtilegra" sig yfir í ljósmyndina af Selmu eins og sést á meðfylgjandi myndum.
Samkvæmt þessu gerir blaðið sér far um að gera lífið skemmtilegra með því að birta "stórfréttir" af hjónaskilnuðum, gjaldþrotum og fleiru sem þeir sem í hlut eiga finnst ekki skemmtilegir.
Mér er spurn: Fyrir hverja eru hjónaskilnaðir, gjaldþrot og aðrir erfiðleikar í einkalífi fólks svona skemmtilegir að þeir eru flaggskip stórfrétta á forsíðu?
Bið að afsaka að vegna tæknilegra mistaka er neðri myndin í tveimur stærðum á bloggsíðunni.
![]() |
Fréttamaður og þingmaður í leðjuslag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.6.2010 | 12:12
Peningar eru enn til.
Það er gömul saga og ný í mannkynssögunni að aldrei komi svo erfið kreppa eða óáran að ekki séu til fjölmargir sem græða á ástandinu eða haldi sínu og vel það.
Margur auðmaður hefur orðið ríkur á því fyrirbæri sem kallað er brunaútsölur og það á ekki að koma á óvart að fjöldi Íslendinga hafi næga peninga á milli handanna og jafnvel hagnist á því ástandi sem nú ríkir í þjóðlífinu.
Það verður alltaf til útsjónarsamt fólk sem alltaf hefur sitt á þurru, græðir peninga og á nóg fé til að veita sér munað, sama hvernig ástandið er.
![]() |
Biðlisti eftir Rolex-úrum og góð sala sögð í flatskjám |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.6.2010 | 22:40
Sviptingar í fjallinu.
Ég hef verið að fylgjast með Eyjafjallajökli í dag og skilyrðin hafa verið betri en nokkru sinni síðan gosið í tindgígnum byrjaði. Ég var þarna á svipuðum tíma og Magnús Tumi Guðmundsson snemma í morgun, en þá var minna líf í gígnum en ég hafði nokkurn tíma séð fram að því og þessvegna grillti í vatnið í gígnum.
Hins vegar fór heldur að færast líf í fjallið þegar leið á daginn og um níuleytið í kvöld gaus upp mikill og kraftmikill strókur.
Sagan sýnir að þetta eldfjall getur verið ólíkindatól og að gera verði ráð fyrir ýmsu.
Rétt fyrir kvöldmat varð mikið öskurok norður og austur af Þórsmörk og Tindfjöllin fóru gersamlega á kaf svo og svæðið austan við þau.
Í Þórsmörk skrúfuðust upp þyrilstrókar og rauk úr leirum Markarfljóts í snarpri vestanhafgolu sem tók sig upp. Annars var áberandi í dag hvað mikil rigning í gær gerði gott gagn í því að binda öskuna.
Annars hefði orðið miklu meira öskufok í norðvestanvindinum sem lék um Suðurland í dag.
![]() |
Loka Þórsmörk vegna flóðahættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.6.2010 | 06:46
"Ring generalship".
Ofangreint hugtak er notað í hnefaleikum varðandi stigagjöf og lýtur að því að sá keppenda, sem ræður ferðinni og bardagaaðferðinni í viðureigninni, nýtur þess í stigagjöf.
Besti flokkurinn sýndi "ring generalship" í borgarstjórnarkosningunum á ýmsan hátt, til dæmis með því að velja sér algerlega nýja aðferð spaugs og gríns sem keppinautarnir vissu ekki hvernig ætti að bregðast við.
Þeir höfðu greinliega aldrei búist við að fást við slíkt og fundu ekki svar. Sama átti við um fjölmiðla.
Þegar Jón Gnarr setti fram stefnumálin varðandi hvítflibbafangelsi og hvítabjörn í Húsdýragarðinum, gjaldtökuhlið milli Reykjavíkur og Seltjarnarness og fleira í þessum dúr, hafði hvorki neinn fjölmiðla né keppinauta fyrir því að kanna þessi mál.
Kannski af því að þau áttu hvort eð er að vera grín eða vegna þess að það var ómögulegt að vita hvort þau væru grín.
Þegar síðan Jón Gnarr er að taka við borgarstjórastöðu og heldur fast við þessi mál og segir, að auðvitað hafi þetta verið alvara, fara menn fyrst að kanna þau eins og raunar hefði átt að gera strax í upphafi.
Besti flokkurinn var sem sagt "hershöfðinginn í hringnum" í aðdraganda kosninganna, réði ferðinni, umræðuefnunum, bardagavettvangi og bardagaaðferðum.
Keppinautarnir áttu hvorki plan A eða plan B um viðbrögð og niðurstaða kosninganna varð eftir þessu.
![]() |
Tóku fjölmiðla með áhlaupi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.6.2010 | 18:16
Næstum eins og að vera áfram heima.
Ég hef þrívegis komið til Þrándheims og ævinlega finnst mér það líkjast því sem ég sé ennþá heima á Fróni. Ástæðuna hef ég áður nefnt hér á blogginu.
Þrándheimur er með álíka íbúafjölda og Reykjavík og Þrændalög álíka fjölmenn og byggðirnar á suðvesturhorni Íslands, frá Borgarnesi til Hvolsvalla.
Menning, þjóðlíf og lífskjör eru líkari því sem er í Reykjavík en í nokkru öðru erlendu byggðarlagi og þar að auki eru borgirnar á sömu breiddargráðu með svipað loftslag.
Að vísu eru sumrin heldur hlýrri og veturnir aðeins kaldari en munurinn er lítill.
Í Þrándheimi angar borgin af sameiginlegri sögu og tengslum Íslendinga og Norðmanna.
Þarna er dómkirkja sem vísar til þess tíma þegar erkibiskupinn í Niðarósi hafði umráð með málefnum kirkjunnar á Íslandi.
Hægt er að fara niður að ánni Nið og sjá þann stað þar sem Ólafur konungur Tryggvason þreytti sund við Kjartan Ólafsson, koma að lítilli kirkju á svipuðum slóðum og Grettir Ásmundsson mistókst að sverja eið á réttan hátt vegna sakargifta þess efnis að hann hefði brennt inni menn í kofa að vetrarlagi.
Eins og í Bergen eru stórkostleg bryggjuhús í Þrándheimi og í þessum borgum sátu æðstu ráðamenn Íslands.
Íslenskir ráðamenn og skáld sóttu hin norsku yfirvöld heim og þáðu af þeim valdastöður og skáldalaun áður en Ísland lenti undir Danakonungi.
Frá Þrándheimi er frábært að fara að Stiklastöðum þar sem Ólafur konungur helgi og Þormóður Kolbrúnarskáld féllu í bardaga sem enn er minnst á stórkostlegan hátt á hverju ári.
Ef tími vinnst til er líka hægt að fara á þann stað þar sem þeir börðust Gunnlaugur Ormstunga og Hrafn, en Norðmenn sinna minningu helstu atburða fyrr á tíð af miklum myndarskap og setja þá á svið.
Hér heima mætti gera slíkt, svo sem við Örlygsstaði eða á þeim stað þar sem Bolli vó Kjartan.
![]() |
Icelandair til Þrándheims |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.6.2010 | 14:34
Óvenjulega snjólétt.
Alveg einstaklega snjólétt er á hálendinu og því má búast við að það verði ekki Kjalvegur einn, sem verði opnaður snemma, heldur einnig aðrir hálendisvegir að leiðinni ofan í Eyjafjörð frátalinni.
Eins og ég hef sagt áður frá er Sauðárflugvöllur harður eins og malbik og hefur verið opinn í 2-3 vikur.
Skaut einni snöggsoðinni ljósmynd af fólki, sem flaug með mér inn á völlinn s. l. sunnudag og undraðist að sjá þar völl á stærð við Reykjavíkurflugvöll í 14 stiga hita inni við jökul í 660 metra hæð.
Sá illa á skjá myndavélarinnar fyrir ofbirtu en á myndinni má sjá að endurnýja þarf vindpokann.
Í baksýn sést Snæfell gnæfa í fjarska.
Ég fékk fréttir af því í dag frá manni, sem var farþegi í Fokker F50 vél í morgun, að Snæfell hefði varla sést svona vel í morgun vegna mikils leirstorms úr lónstæði Hálslóns, en meirihluti lónsins, um 35 ferkílómetrar, er á þurru vegna þess hve miklu verður að hleypa úr því á veturna.
![]() |
Búið að opna Kjalveg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.6.2010 | 00:04
Það var svo mikið "in" að berast á.
Gróðærisbólan sem sprakk 2008 risti að ég held mun dýpra en við við viljum flest vera láta. Þess alvarlegri eru afleiðingarnar af því að skuldir heimilanna fjórfölduðust á undraskömmum tíma.
Það er fróðlegt að lesa textana með myndunum, sem Séð og heyrt og önnur tímarit birtu með greinum sínum á gróðærisárunum, því að þessar myndir og myndatextar seldu blöðin, - þetta var það sem fólk vildi lesa og ylja sér við.
Alls staðar skein í gegn fölskvalaus hrifning á umbúðunum utan um hvað sem var, afmæli, hjónavígslur, samkvæmi og hvað eina. "Fínasta, flottasta, dýrasta, glæsilegasta" voru orðin sem seldu, sem voru "in".
Varla var birt frásögn af neinu nema að hamra á þessu: "Glæsileikinn allsráðandi! Lang flottasta fólkið! Sjáið fínu kjólana, skartgripina, bílana, gjafirnar o.s. frv.
"Taktu mynd af frægum!"
Á þessum árum var hversdagslegt alþýðufólk ekki talið mikils virði. Sjónvarpsstöð var með þætti um brúðkaup og var leitað til mín um frásögn af mínu. Það fór strax af því ljóminn þegar í ljós kom að það hafði ekki verið neitt opinbert brúðkaup heldur vorum við tvö með prestinum í kirkjunni eftir messu.
Engin brúðkaupsveisla, brúðargjafir, brúðkaupsferð eða neitt sem nauðsynlegt þótt í umfjöllun um þetta.
Það datt því jafnskjótt um sjálft sig að við hjónin værum talin gjaldgeng sem efni í einn þáttinn, enda moraði allt í dýrindisflóði í hinum frásögnunum hvað varðaði umgjörð hjónavígslanna.
Í fyrra frétti ég af því að nær öll dýrustu og íburðarmestu hjónaböndin hefðu endað með skilnaði.
Okkar heldur þó enn eftir 48 ár, sjö börn og bráðum 21 barnabarn.
Þetta breytir þó ekki því að þúsundir fólks er nú komið á vanskilaskrá sem á það ekki skilið.
Engu að síður er hollt að íhuga hvert það þjóðarsálarástand sem ríkti hér og endurspeglaðist í allri umræðunni um peninga og bruðl leiddi okkur.
![]() |
Um 22 þúsund á vanskilaskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)