Sagði ég ekki?

Fyrir kosningarnar 2007 benti ég á að nútíma álfyrirtæki teldu sig, af hagkvæmnisástæðum, þurfa að minnsta kosti eins stór álver eins og álverið í Reyðarfirði. Með einfaldri samlagningu væri hægt að finna út að á endanum þyrfti að virkja alla orku Íslands til að fullnægja kröfum þeirra sex staða, sem stefnu að byggingu álvers á Íslandi og þá yrði ekkert eftir til okkar eigin þarfa eða fyrir fyrirtæki sem ekki menguðu og sköpuðu fleiri og betri störf fyrir hverja orkueiningu.

Forsætisráðherra taldi slíkt ýkjur og blaðafulltrúi Alcoa setti ofan í við mig og sagði Alcoa ekki stefna að stærra en 250 þúsund tonna álveri á Bakka.

En er gamla sagan uppi á teningnum og stefnir í sama og gerðist þegar 120 þúsund tonna fyrirhugað álver á Reyðarfirði var allt í einu orðið of lítið og 400 þúsund tonna álver talið lágmark.

Skilaboðinvoru skýr þá: Annað hvort verður reist risaálver eða ekki neitt.

Sama gerðist í Straumsvík þegar Alcan tilkynnti: Annað hvort leyfið þið stækkun álversins eða við leggjum það niður.

Ég varaði við því að á Norðurlandi kynni að stefna í það að Alcoa teldi sig þurfa alla jarðvarma- og vatnsorku Norðurlands og fékk að heyra að þetta væri óþarfa ótti. Nú er annað að koma á daginn og ballið rétt að byrja.


mbl.is Skoða stærra álver á Bakka en áður var áformað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snærið og fiskurinn.

Með lögum skal land byggja en ólögum eyða. "Es muss ordnung sein".  Mál Ásmundar minnir um margt á þau lög, sem voru í landinu á sínum tíma og bönnuðu landsmönnum að versla við aðra en danska kaupmenn.

Það er auðvelt að sjá rök Dana fyrir þessum lögum: Svona lög voru alsiða í öðrum löndum og nauðsyn fyrir hverja þjóð að efla eigin verslun og atvinnuvegi innan ríkisheildarinnar.

Verslunarkerfi þessa tíma voru nokkurs konar kvótalög. Dönsku kaupmennirnir höfðu keypt "verslunarkvóta" sinn á Íslandi og með því að Íslendingar versluðu við annarra þjóða menn fóru verðmæti úr landi og verslunarkvótaeigendurnir, dönsku kaupmennirnir, voru rændir hagnaði af nýtingu kvótans, sem þeir höfðu keypt og áttu rétt á að njóta góðs af.

Verslunarlögin áttu að tryggja sem mesta hagkvæmni og öryggi verslunarinnar og hún mátti ekki við því tapi sem fólst í því að versla við annarra þjóða menn en Dani.

Danska ríkið tapaði líka á "leka" á borð við þann að snærishönk væri keypt ólöglega, því að hinn danski kóngur þurfti á öflugri og vel borgandi kaupmannastétt að halda til þess að fá frá þeim tekjur til að halda uppi á Íslandi menntakerfi, kirkjunni, opinberri þjónustu embættismanna og nauðsynlegum siglingum og verslun og lögin áttu að tryggja að Danir nytu af sanngirnisástæðum einir samskipta við þjóðina sem þeir önnuðustu um.

Á okkar tímum hafa menn haft það sem dæmi um það hvílík ólög þetta hafi verið að dæmi voru um það að menn voru látnir sæta hörðum viðurlögum fyrir það eitt að hafa keypt ólöglega snæri af Hollendingum.

En snæriskaupendurnir voru lögbrjótar rétt eins og Ásmundur er talinn vera nú. Ef Danir hefðu notið nútímaflugtækni hefðu þeir hugsanlega getað sent þyrlu út að duggunni þar sem hin ólöglega snærishönk skipti um eigendur, staðið lögbrjótana að verki og gert snærið upptækt þegar til hafnar kom.

Síðan fylgt því eftir fyrir dómstólum þar sem hinn seki hlaut refsingu í samræmi við gildandi lög.

Það er fróðlegt að rifja þetta upp núna þegar maður veltir fyrir sér því hvort ríkjandi fiskveiðistjórnunarkerfi sé réttlátara en kerfið sem gerði forvera okkar að sakamönnum fyrir að kaupa snærishönk eða brýnustu nauðsynjar af útlendingum þegar einokunarkaupmannakerfið brást þeirri skyldu sinni að hafa þær á boðstólum.

Eftir situr áleitin spurning:

Eru kvótalögin lög, sem byggja skal land með....

...eða...

ólög, sem eyða skal landi með?


mbl.is Bátur á ólöglegum veiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrímslið í Bolungarvík.

Nú eru Bolvíkingar og gestir þeirra byrjaðir að sjá hvernig hlíðinni fyrir ofan bæinn verður umturnað til þess að búa þar til snjóflóðavörn sem líkja má við skrímsli í stað þess að aðstoða fólkið í þeim tiltölulega fáu húsum, sem töldust vera í snjóflóðahættu, til að flytja annað. Uppkaupa-og flutningalausnin í Bolungarvík hefði orðið óvenju auðveld, því að á fáum stöðum á býðst betra og öruggara byggingarland á flötu landi en þar.

Fyrir rúmum áratug fór ég í fréttaferð til snjóflóðastöðvarinnar í Davos í Sviss, talaði þar við sérfræðinginn sem fenginn var til Íslands eftir snjóflóðið á Seljalandsdal en var bannað að úttala sig um snjóflóðahættu á öðrum svæðum. Ég kom heim úr ferðinni með úttekt á því hvernig hægt væri að leysa snjóflóðamálin á fleiri en einn hátt með því að læra af langri reynslu Svisslendinga.

1. Með snjóflóðavarnir í hlíðunum. Í Sviss var sjaldnast um háa garða að ræða heldur stórar lítt áberandi girðingar eða spjöld ofarlega í fjöllunum sem komu í veg fyrir myndun þykkra snjófleka.

2. Með því að kaupa upp eignir á hættusvæðum og gera íbúum kleift að flytja sig á betri stað.

3. Með því að gera hús snjóflóðaheld með litlum tilkostnaði, svo að snjóflóð færu yfir þau eða klofnuðu um þau þannig að húsin stæðu heil, sama á hverju dyndi. Sjá mátti heilu kirkjurnar með þessu lagi. Þeim íbúum sem vildu vera heima hjá sér í slíkum húsum meðan hættuástand ríkti var gert skylt að hafa hjá sér nægar vistir og aðrar nauðsynjar til dvalar í þeim þar til hættan væri liðin hjá.

Ég get ekki varist þeirri hugsun að versti kosturinn hafi verið valinn í Bolungarvík. Hægt hefði verið að fara blandaða leið úr kostum 2 og 3 í stað þess að velja skrímslis-kostinn.

En ráðamenn þjóðarinnar voru fastir í þessu á sínum tíma og eru líklega enn. Einn þeirra flutti mér þau rök, að ef því fólki, sem ætti hús á hættusvæði, yrði borgað fyrir þau, myndi það vekja öfund hjá öðrum íbúum, sem áfram yrðu í átthagafjötrum verðlausra eigna. Þar af leiðandi yrði um mismunun að ræða, íbúum á hættusvæðunum í vil.

Sem sagt: Betra að allir séu í átthagafjötrum verðlausra eigna og fá í ofanálag ofan við bæinn forljóta og fokdýra umhverfisskemmd heldur en að fara aðra og bærilegri leið.

Svisslendingar hafa ekki látið svona rök ráða og þess vegna sá ég ekki garða- og haugaskrímsli ofan við byggðir þar í landi, - mannvirki sem skapa leiðindi og vandræði með úrrensli og jafnvel skriðuhættu þar sem vörnin sjálf getur orðið að nýrri ógn.

Þannig er það á Siglufirði og Norðfirði, en munurinn á Sigló og Neskaupstað annars vegar og hins vegar Bolungarvík er sá að stærð hættusvæðis, fjöldi húsa og takmarkað bygginarland, gera þeim fyrir norðan og austan erfitt fyrir, en öðru máli gegnir um Bolungarvík.


Óverðskuldað í skugganum.

Bogi Ágústsson nam sagnfræði og fáir eru honum fróðari um seinni heimsstyrjöldina og vopn hennar á landi, láði og í lofti. Stórgóð frétt hans í sjónvarpsfréttum í kvöld um B-17 "fljúgandi virkið" naut góðs af því.

Ég man þá tíma fyrst eftir stríðið þegar ég fékk lítið módel af "fljúgandi virki" í gjöf og lék mér af því með glampa í augum yfir því að hafa eftirmynd af svona frægri flugvél í höndum og heyra frásagnir fullorðna fólksins af henni.

Þessi glýja fylgdi mér síðan í allri umfjöllun og fréttaflutningi þar til fyrir nokkrum vikum að ég fór að lesa mér betur til um hana í tveimur nýjum bókum um sprengjuflugvélar stríðsins.

Þá hrundu allar helstu gömlu klisjurnar:

1. Fljúgandi virkið var best varða og vopnaða flugvél síns tíma. Rangt. B-24 Liberator var fremri henni að þessu leyti. 

2. B-17 var hraðskreiðust á sínum tíma og hafði mest flugdrægi. Rangt. Þökk sé nýrra og fullkomnara vænglagi flaug B-24 mun hraðara og lengra með sama sprengjumagn. 

3. B-17 var framleidd í fleiri eintökum en aðrar sprengjuflugvélar á þeim tíma og var af þeim sökum mikilvægust. Rangt: Af engri sprengjuflugvél fyrr né síðar hafa verið framleiddar fleiri eintök en af B-24.

Hvers vegna baðar B-17 sig þá í ljóma en B-24 ekki? Jú, B-17 kom aðeins fyrr fram á sjónarsviðið og viðurnefnið "Fljúgandi virki" svínvirkaði. Með árunum skemmdi ekki ætternið fyrir, - ekki ónýtt að vera ættingi B-29, B-52 og Boeing 707, 720, 727, 737, 747, 757 og 767.

Fleiri klisjur:

Spitfire var besta orrustuflugvél stríðsins og átti mestan þátt í sigri Breta í orrustunni um Bretland. Rangt: Messerschmidt 262 var besta orrustuvél stríðsins, og þegar Focke-Wulf FW 190 kom fram 1941 var hún betri en Spitfire á öllum sviðum nema hvað snerti beygjuhring. Rússneska flugvélin Lavochkin La-2 hafði betri flugeiginleika en aðrar orrustuvélar bandamanna í stríðinu. Fleiri óvinaflugvélar voru skotnar niður af Hawker Hurricane í orrustunni um Bretland en af Spitfire.

Af hverju þessi ljómi af Spitfire? Jú, það eru sigurvegararnir sem skrifa söguna og Spitfire var hraðskreiðari og betri orrustuvél en Hurricane. Ljóminn af sigrinum fellur því á Spitfire.

Flugvélar Sovétmanna stóðu öðrum flugvélum að baki í stríðinu: Rangt. Sovétmenn voru að vísu að mestu með úreltan flugflota í blábyrjun stríðsins en ekki þarf að kynna sér þær flugvélar sem komu fram frá og með 1940-41 til að sjá að rússarnir stóðu vesturveldunum ekki að baki. Þegar sumar af þessum vélum komu fyrst fram, svo sem Yak-vélarnar, var þýskum flugmönnum ráðlagt að forðast að lenda í orrustu við þær.

Sovétmenn hefðu ekki getað snúið taflinu við síðustu þrjú stríðsárin með lélegum flugflota. Þannig átti Il-2 Sturmovik stóran þátt í hinum mikilvæga sigri Sovétmanna í Kursk-orrustunni. Fleiri eintök voru framleidd af þeirri vél en nokkurri annarri hernaðarflugvél fyrr eða síðar.

 

 


Enn í gangi, 40 árum síðar.

Fyrir rúmum 40 árum gafst mér færi á að flytja á skemmtunum uppfærða gerð af "Ísland, farsælda frón" um ástandið í þjóðlífinu. Þar inni í voru þessar línur: "En á eldhrauni upp / þar sem enn Öxará rennur/ yfir Almannagjá/ Alþingi feðranna úthlutaði lóðum fyrir sumarbústaði." 

Þetta um sumarbústaðina setti ég inn vegna umræðna í þjóðfélaginu um það að þá var úthlutað á ábyrgð Alþingis lóðunum, sem nú ganga enn, 42 árum síðar, kaupum og sölum á tugi milljóna króna.

Ekki hafði maður hugmyndaflug til að ímynda sér að dýrustu flutningatæki okkar tíma yrðu notuð til að flytja efni í glæsibústaðina í þeim mæli að mörgum þætti raskað ró og friði mesta helgistaðar þjóðarinnar.   


mbl.is Þyrluflug bannað í þjóðgarði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera viðbúinn.

Björn Bjarnason reynir að opna Evrópuumræðuna í annað sinn með þessu útspili sínu, - fyrst gerði hann það þegar hann talaði um það sem hann kallaði "vegvísi" inn í Evrópu. Björn virðist á leið í átt til þeirrar afstöðu sem Íslandshreyfingin gerði að sinni fyrir síðustu kosningar, að Íslendingar ættu strax að fara að vinna heimavinnu sína í alvöru í þessum málum til þess að fá úr því skorið til hlítar hvaða kostir byðust. Annað væri ábyrgðarleysi. 

Aðeins þannig væri hægt að fá úr því skorið hvort hugsanlegum samningum við ESB fylgdu slíkir annmarkar gagnvart yfirráðum Íslendinga yfir auðlindum sínum að þeir kæmu ekki til greina.  

Í Staksteinum Morgunblaðsins og sjónvarpsfréttum var rokið upp með látum eftir að Lárus Vilhjálmsson hafði rætt málið fyrir hönd I-listans í sjónvarpsumræðum um utanríkismál og útskýrt fyrrnefnda stefnu. Sagt var að með þessu hefði Lárus lýsti yfir skilyrðislausum stuðningi Íslandshreyfingarinnar við inngöngu í ESB, en það var alrangt.

Innan Íslandshreyfingarinnar hafði Elvira Mendes, doktor í Evrópuréttti, sem var í framboði fyrir flokkinn, reifað fyrir okkur frambjóðendunum möguleika á undanþágum og afbrigðum fyrir Íslendinga, sem hún taldi geta verið mun meiri en látið væri í veðri vaka og vísaði þar til undanþága og afbrigða sem aðrar þjóðir hefðu fengið í gegn.

Augljóst er að með því að útiloka allt slíkt fyrirfram fæst ekki úr því skorið hvað sé í boði. Björn Bjarnason og fleiri virðast nú vera að átta sig á þessu.


mbl.is Evruleið fremur en aðildarleið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu tímabærar framkvæmdir.

Það gleður flugáhugamann að sjá hve vel gengur að lengja Akureyrarflugvöll. Það leiðir hugann að annarri löngu tímabærri og nauðsynlegri framkvæmd, en það er lenging Egilsstaðaflugvallar, sem hefði jafnvel átt að koma á undan. Vegna nálægðar við hringveginn við syðri brautarendann nýtast ekki til lendingar úr suðri 240 metrar á suðurenda vallarins.

Þetta getur verið bagalegt og vafasamt. Ég var frammi í hjá flugmönnunum í sneisafullri Flugleiðaþotu af gerðinni Boeing 757 þegar hún lenti í norðurátt á brautinni í september í fyrra. Misvinda var og lenti þotan í lítilsháttar meðvindi í blálok aðflugsins þannig að það þurfti að auka hraða hennar, miðað við jörð, þessa síðustu metra.

Fyrir bragðið þurfti vélin alla brautina eins og hún lagði sig til að geta stöðvast og snúið við til aksturs til baka.

Aðflug að Egilsstaðaflugvelli er mun einfaldara og auðveldara en að Akureyrarflugvelli, vegna þess hve fjöllótt er við þann síðarnefnda, Eyjafjörðurinn þröngur og lágmarsflughæð í blindaðfluginu hærri en fyrir austan.

Þetta hefur þá þýðingu að flugmenn, sem þekkja ekki til aðstæðna og hafa ekki áður flogið inn á þessa velli, hlífa sér frekar við því að fara inn á Akureyri þegar þeir skoða aðflugið.

Myndarleg lenging Egilsstaðaflugvallar svo að hann geti gagnast hvaða þotum, sem er, er að mínum dómi einhvert brýnasta framkvæmd íslenskra flugmála, samgangna og ferðamála.


Misjafnlega alvarlegt.

Ónákvæmni í frásögnum fjölmiðla af nauðlendingum er stundum bagaleg. Fjölmiðlum hættir stundum til að kalla svonefndar varúðarlendingar (precauitionary landings) nauðlendingar, en talverður munur getur verið á slíkum lendingum og nauðlendingum (emergency landings).

Eitt af mörgum dæmum um þetta er það atvik þegar flugmaður var á leið frá Akureyri til Reykjavíkur í júlílok 2000 og lenti í það miklum mótvindi að hann varð í vafa um að hann hefði bensín alla fyrirhugaða leið og lenti því í Húsafelli í staðinn.

Aldrei var nein hætta á ferðum en í fjölmiðlum var talað um nauðlendingu vegna bensínleysis sem gerir atvikið margfalt alvarlegra en það raunverulega var. Þetta var ákaflega leiðinlegt fyrir flugmanninn og þeim mun bagalegra að aðeins rúmri viku síðar hafði þetta hugsanlega áhrif á það þegar sami flugmaður þurfti aftur að leggja mat á það þegar hann var kominn af stað í flugferð hvort hann hefði nóg eldsneyti alla leið.

Í slíku tilfelli hefur flugmaður eðlilega ekki mikinn áhuga á því að lenda strax aftur í fréttum vegna hugsanlegs bensínleysis og það getur haft óæskileg áhrif á ákvarðanir hans. Sú flugferð endaði með banaslysi.


mbl.is Lenti á einum hreyfli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn "gríðarlegi ferðamannastraumur við Kárahnjúka".

Á sínum tíma sýndi Landsvirkjun glæsimyndir sem áttu að sýna mikinn ferðamannafjölda við Kárahnjúka eftir að virkjað yrði. Virkjunin yrði forsenda þess og sýndir voru fjallaklifrarar utan í stíflunni og fólk sem þaut um lónið á seglbrettum og bátum og tjaldaði og var við leiki og útveru. 

Í sumar hafa borist fréttir í fjölmiðlum, sem hafa átt að sanna hve mikið aðdráttarafl þessa svæðis ykist við virkjun. Virkjanasinnar hafa hent þetta á lofti í skrifum sínum.

Nú hef ég verið þar í alls níu daga í fjórum ferðum í sumar og aldrei séð ferðamenn á ferli nema þrjá bíla í fyrradag og tvo ferðamenn 12. júní. Samt hefur verið þarna 15-20 stiga hiti, sól og blíða dögum saman. Ég hef gengið, ekið og flogið yfir vegi og slóða sem eru á annað hundrað kílómetra og síðustu tíu árin aldrei séð jafn fáa á ferli. 

Nú kann að vera góður ferðamannastraumur sé í byggð austur í Fljótsdal að Hengifossi, Skriðuklaustri, Végarði og stöðvarhúsi virkjunarinnar. En þaðan eru meira en 50 kíómetrarar að stíflunum við Kárahnjúka og Hálslóni, sem er heldur ókræsilegt um þessar mundir, með splunkunýjar tuga kílómetra sandleirur og rofabörð af mannavöldum.

Í sumar hefur verið eindæma stilliviðrasamt og ekki hreyft vind svo neinu nemi í þurru veðri. Ekki hefur því fengist reynsla varðandi sandstorma. Þegar ég var á sandleirunum við Töfrafoss kom smá golukaldi sem nægði til að gefa mér færi á að kvikmynda sýnishorn af því hvað hinn þurri sandur þurfti lítið til að fjúka.

Glansmynd Landsvirkjunar og virkjanasinna af örtröð ferðamanna á Kárahnjúkasvæðinu er enn bara glansmynd. Fréttir af gríðarlegum ferðamannastraumi þar upp frá byggjast á misskilningi og kannski líka af því, að vegna þess hve fá vitni eru af fámenninu þar er hægt að segja sögur af örtröð án þess að eiga á hættu að þær séu leiðréttar.  


Löglegt en siðlaust?

Vilmundur heitinn Gylfason var naskur á að finna einfaldar lýsingar á hlutunum, svo sem ofangreinda setningu og orðið "möppudýr." Athyglisvert er í máli Ramsesar (ég vil beygja nafn hans) hvernig stanslaust er staðið löglega að máli hans en samt gengur það svo hægt að þjóðin horfir upp á dapurlega atburðarás sem fer miklu hraðar en lagalegir tilburðir til að ná á því siðlegum og mannúðlegum tökum. 

 


mbl.is Kæra vegna Paul Ramses hefur ekki borist ráðuneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband