31.8.2010 | 22:27
Erfiðasta fíkniefnið.
Alla tíð hafa ríkt fordómar gagnvart þeim sem stríða við ávanabindandi fíkniefni á borð við áfengi og tóbak. Alltof lengi hefur það viðgengist að líta á fólk, sem stríðir við slíkt sem aumingja og ræfla og af bloggi um ummæli borgarstjórans má ráða að enn sé svona á sveimi.
Staðreyndin er sú að það fer ekkert eftir gáfum eða öðru andlegu eða líkamlegu atgerfi hve vel fólki gengur að halda aftur af neyslu fíkniefna, en áfengi og nikótín eru fíkniefni og ekkert annað.
Tölurnar tala sínu máli: Hér eru prósenttölur þeirra sem missa stjórn á neyslu fíkniefna:
Hass: 8%
Áfengi: 13%
Kókaín 18%
Heróin: 23%
Nikótín: 33%
Það er algerlega persónubundið hvernig fólki gengur.
Ferill Baracks Obama Bandaríkjaforseta sýnir að hann er geysilega viljasterkur og snjall maður.
Hins vegar er það opinbert að hann hefur ekki getað hætt að reykja.
Faðir minn heitinn fór í áfengismeðferð en reykingar höfðu ekki minnstu áhrif á hann. Hann gat reykt hvað sem honum lysti þegar honum sýndist og látið það vera og hætt því hvenær sem honum datt það í hug og snerti ekki tóbak árum saman.
Á hinn bóginn gat hin viljasterka móðir mín aldrei ráðið við nikótínið.
Það er á skjön við staðreyndir að dæma fólk eftir því hvernig því gengur að glíma við erðabundna erfiðleika gagnvart fíkniefnum.
![]() |
Pirringur vegna nikóktínfíknar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.8.2010 | 14:34
Árnaðaróskir.
Ég óska félögum mínum og vinum um árabil til hamingju með að geta haldið áfram því þjóðþrifastarfi sem ég tel að þeir hafi sinnt undanfarin ár og áratugi með því að vera með fingurna á þjóðarpúlsinum.
Þeir hafa verið í næsta herbergi við mig í útvarpshúsinu og auðvitað sakna ég þeirra þaðan og finnst súrt í broti að missa þá í burtu frá þeim vettvangi sem hefur verið sameiginlegur fyrir okkur lengst af.
Þeir félagar hafa verið ómissandi síðustu tvö ár í að viðhalda beittri og ómissandi háðsádeilu á samfélag okkar og það er fagnaðarefni að þeir geti látið gamminn geysa áfram.
![]() |
Spaugstofan á Stöð 2 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.8.2010 | 09:32
Kynslóðin hömlulausa.
Í viðtali við blaðið Krónikuna 2007 lýsir Sigurjón Þ. Árnason því fjálglega að kynslóðin, sem stjórni hinum ævintýralegu loftfimleikum fjármálamanna, sé að mestu á sínu reki, hafi alist upp við mikið frjálsræði og segir í lokin: "...telur allt mögulegt og er að þessu leyti hömlulaus."
Sú spurning vaknar nú í mínum huga hvort þessi sama kynslóð sé nú að nýta sér sparnað minnar kynslóðar til að breiða yfir skítinn sinn, - þið fyrirgefið orðbragðið.
Nú er það svo að við erum öll á sama báti og að það er kannski einföldun að setja þetta mál í farveg togstreitu kynslóða.
Hitt liggur ljóst fyrir að elsta kynslóðin á ekki aðeins mest undir því að lífeyrissjóðirnir séu vel notaðir þannig að þeir séu ekki eyðilagðir eða stórskertir, heldur kemur veiklun þeirra beint niður á elstu kynslóðinni á sama tíma og vofa Hrunsins gengur enn ljósum logum, hugsunarháttur skyndireddinga, kúlulána, ofnýtingar orkulinda og eyðileggingar náttúruverðmæta á kostnað komandi kynslóða.
Annað varasamt atriði kemur upp í hugann við ráðstöfun framlaga lífeyrissjóðanna, en það er sú þróun að mörg stór fyrirtæki séu rekin af ríkinu á kostnað skattgreiðenda til þess að keppa við önnur fyrirtæki, sem ekki voru eins glæfralega rekin.
Ef þessu fer fram stefnum við í svipað ástand og á spillingartímum haftakerfisins hér í gamla daga þegar þau fyrirtæki sem höfðu pólitísk sambönd inn í hið opinbera fyrirgreiðslukerfi ríkisbankanna gátu nýtt sér það í "pilsfaldakapitalisma" þess tíma, sem orðhagur maður kallaði kapítalisma andskotans.
Það mátti heyra á útvarpsauglýsingum fyrir síðustu jól að fyrirtæki, sem ríkið hafði tekið að sér, gátu auglýst miklu meira en samkeppnisfyritækin, sem urðu að spenna sultarólina í þrengingum kreppunnar og fengu ekki aðstoð né umbunun fyrir að sýna aðhald og gætni.
![]() |
Ósátt við fjárfestingar sjóðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.8.2010 | 23:37
Tveir kven-landvættir, Björk og Vigdís.
Landvættirnir fjórir að fornu voru allir karkyns. Samkvæmt nútímahugsun ætu að minnsta kosti tveir þeirra að vera kvenkyns.
Við þurfum ekki að leita langt. Björk Guðmundsdóttir og Vigdís Finnbogadóttir hafa lagt af mörkum ómetanlegt framlag til verndar landi, þjóð og tungu.
Frægð ýmissa endist skammt en ég hygg að nöfn Bjarkar og Vigdísar muni uppi meðan land byggist.
Auk hæfileika þeirra og afreka met ég það mest við þær báðar, að þær eru afar hugrakkar konur sem hafa látið sannfæringu sína og karakter vega þyngra en það að sigla lygnan sjó og hugsa um að vera "þægar".
Upp í hugann kemur minni frá árinu 1955 þegar Halldór Laxness tók við sínum verðlaunum úr hendi þálifandi Svíakonungs.
Það var stór stund í sögu okkar og þessi var það líka.
![]() |
Björk tók við Polarverðlaununum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.8.2010 | 23:24
Oftrú á tæknina.
![]() |
Fannst bensínlaus og villtur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.8.2010 | 18:18
Verður rekin sama verðlagningarstefna áfram?
Hvaða skoðanir sem fólk hefur á Jóhannesi í Bónus og fjölskyldu hans varðandi umsvifin utan verslunarinnar er hitt óumdeilanlegt að hið lága verð í þessum verslunum um allt land hefur verið mikil kjarabót fyrir allan almenning í tvo áratugi og að meðan Jóhannes Jónsson hefur ráðið þar ríkjum hefur ekki verið slegið af þessari verðstefnu þrátt fyrir að verslunarveldið Hagar hafi haft ráðandi markaðsstöðu síðustu árin.
Ef Jóhannes er endanlega farinn út úr fyrirtækinu hygg ég að stóra spurningin spurningin verði sú hvort þessari verðlagningarstefnu verði haldið áfram eða hvort nýir eigendur muni hyllast til að nýta sér markaðsstöðuna og hækka verðið í skjóli hennar.
Við skulum sjá til hvað gerist.
![]() |
Sérstök tilfinning að kveðja Bónus |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.8.2010 | 09:42
2007 lifir !
Sumar persónur ná slíkri frægð að þegar þær deyja eru margir sem trúa því ekki heldur berast fregnir af því að hinn látni hafi sést hér og þar. "Elvis lifir!"
2007 er orðið hugtak sem er sprelllifandi og kemur aftur og aftur í hausinn á okkur. 1,8 milljarður, sem Reykjanesbær á ekki fyrir, er eitt af mörgum dæmum um það.
Það að fjórfalda og fimmfalda skuldir íslensku heimilanna og fyrirtækjanna 2007 átti að færa okkur mestu mögulegu lífshamingju. "Kúlulán" voru eitt af lykilorðunum, "take the money and run!"
Reykjanesbær var einn af mörgum aðilum sem tók peninga og reynir að hlaupa en getur ekki hrist sprellifandi vofu 2007 af sér.
![]() |
Rukkaður um 1,8 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.8.2010 | 23:05
Viðhöldum friðsömu yfirbragði íslensks vélhjólafólks.
Í dag skrapp ég í Kaldársel þar sem boðið var upp á veitingar í tilefni af því að 85 ár eru síðan KFUM í Hafnarfirði hóf þar að bjóða upp á sumardvöl barna.
Meðfylgjandi er mynd af tveimur dóttursonum mínum, bræðrunum Birki Ómari og Hlyni Kristófer Friðrikssyn, sem voru þarna í för með ömmu sinni og móður.
Ég var þarna þrisvar sinnum tvo mánuði í sumardvöl árin 1947, 48 og 49 og hafði gott af.
Meðal gesta í selinu voru nokkrir íslenskir vélhjólamenn, þeirra á meðan Gunnar vélhjólaprestur í Kópavogi í fullum svörtum skrúða sínum.
Það var ánægjulegt að sjá þetta dæmi um það hve íslenskir vélhjólamenn stinga sem betur fer í stúf við það gengi glæpamanna sem búið er að koma óorði á vélhjólin í Noregi og Danmörku eins og síðustu fréttir frá Osló bera með sér.
Vonandi kemur festir þessi ófögnuður ekki rætur hér á landi, en eins og aðgerðir lögreglu gegn innrás Vítisengla hingað sýna, þarf að hafa fyrir því að viðhalda hinu góða og jákvæða yfirbragði sem vélhjólafólk hefur tekist að bregða yfir vélhjólamennskuna hér á landi og Kópavogspresturinn var góður fulltrúi fyrir í Kaldárseli í dag.
![]() |
Fimm handteknir í Ósló |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.8.2010 | 14:28
Gömul nauðsyn uppstokkunar.
Vegna þess hve virkjana- og stóriðjuumræðan hefur verið yfirgnæfandi síðasta áratug hefur hin stórfellda jarðvegseyðing á Íslandi fallið í skuggann.
Flestir eru búnir að gleyma því að með umfjöllun minni og myndatökum af afréttum landsins hófst sá tímibili í starfi mínu sem ég var illa þokkaður af mörgum og umfjöllun mín vakti miklar deilur.
Steingrímur Hermannsson segir frá því í æviminningum sínum að þegar hann varð landbúnaðarráðherra fyrir um 30 árum hafi hann séð að eitthvað væri bogið við það að sauðfjárbúskapur hlítti sömu lögmálum varðandi kvóta, annars vegar á svæðum sem voru með góða afrétti eins og til dæmis í Strandasýslu og Vestur-Húnavatnssýslu og fólk hafði að litlu öðru að hverfa, - og hins vegar á afréttum á hinum eldvirka hluta landsins á Suðurlandi og Norðausturlandi þar sem mikil jarðvegseyðing var og atvinnulíf mun fjölbreyttara.
Datt honum í hug að hægt væri að hlífa bændum á góðu svæðunum við samdrætti en styðja bændur á slæmu svæðunum til að hverfa að öðru en sauðfjárrækt.
"En bændaforystan og landsbyggðarþingmennirnir urðu alveg brjálaðir" segir Steingrímur í bókinni "og ég þorði aldrei að minnast á þetta aftur."
20 árum síðar orðaði Hjálmar Jónsson, þá orðinn formaður landbúnaðarnefndar Alþingis, svipaða hugsun í viðtali á Stöð tvö og aftur gerðist það sama og tuttugu árum fyrr.
Ég kom í heimsókn að Gautlöndum, nágrannabæ Baldursheims, fyrir um 20 árum og vildi taka viðtal við Böðvar Jónsson bónda, sem hafði hólfað land sitt niður og stýrði beitinni með því að hafa þau opin eða lokuð fyrir beit eftir atvikum.
Við það batnaði ástandi beitilandsins og fallþungi dilkanna jókst.
Það tók mig nokkur ár að fá Böðvar til þess að koma í viðtal vegna þess að hann var svo hræddur við að styggja nágranna sína.
Ég nefni líka Guðrúnu á Brekku og Gunnar Jónsson á Daðastöðum sem dæmi um bændur nyrðra sem voru ekki vel þokkuð vegna búskaparhátta sinna sem miðuðust við að fara vel með landið og ganga ekki á gæði þess, - skila því betra til afkomendanna en þau tóku við því.
Íslandshreyfingin er eini stjórmálaflokkurinn sem hefur þorað að setja uppstokkun í þessum málum á stefnuskrá hjá sér.
Það er enginn að tala um að leggja niður sauðfjárbúskap á Íslandi eða útrýma fjárréttum haustsins.
Það er aðeins verið að tala um það að því ástandi linni einhvern tíma sem hefur stuðlað að mestu jarðvegseyðingu sem þekkt er á byggðu bóli.
![]() |
Meira fólk en fé í réttunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.8.2010 | 23:43
Lýsi eftir 40 hestafla vél.
Fyrir þremur árum var glænýjum 40 hestafla utanborðsmótor stolið af báti mínum, Örkinni, þar sem hann stóð rétt hjá vinnubúðunum við Kárahnjúka.
Þetta olli mér miklum vandræðum því málið upplýstist ekki.
Mér tókst að vísu að afla mér 9 hestafla mótors en í blankheitum síðasta vetrar þegar ég sá að ég neyddist til að selja bátinn, gat ég það ekki, því að hugsanlegir kaupendur vildu að almennilegur mótor fylgdi honum.
Nú sé ég í frétt á mbl.is að grænlenskan sjómann vantar slíkan mótor.
Ég vil því gera þeim, sem stal mótornum mínum þetta tilboð:
Ef þú skilar mér mótornum mun ég láta það mál niður falla, heita þér nafnleynd og sömuleiðis því að gefa grænlenska föðurnum mótorinn.
Þú getur hringt í mig eða gert mér skilaboð á annan hátt og sagt mér hvar mótorinn er að finna og ég myndi þá sækja hann án þess að reka málið neitt frekar.
Það myndi verða þér til mikils sóma, hver sem þú ert, ef þú tekur þessu tilboði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)