31.12.2013 | 10:22
Húsið, sem aldrei hefur fengið að njóta sín.
Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, mat Þjóðleikhúsið umfram öll önnur sköpunarverk sín, sem voru þó fjöldamörg og merkileg.
Því miður var húsinu holað niður í þrengslum innan um aðrar byggingar í stað þess að það hefði þurft að standa þannig að það blasti við úr öllum áttum.
Guðjón vildi að búið yrði til nokkurs konar "menningartorg" á milli Laugavegar og Hverfisgötu gegnt Þjóðleikhúsinu en af því hefur því miður ekki orðið.
Þjóðleikhúsið hlaut verstu meðferð, sem nokkur íslensk stórbygging hefur fengið, þegar það stóð autt, óupphitað og óklárað í meira en áratug á meðan bygging þess stöðvaðist vegna stríðsins og fjársveltis.
Verr er ekki hægt að fara með hús við íslenskar veðuraðstæður að mati Ragnars Ómarssonar, byggingarfræðings, sem nam sín fræði vegna reynslu sinnar af viðgerðum á íslenskum húsum sem ungur maður og áttaði sig eftir þá reynslu á því hve mikið skorti á þekkingu á þeim efnum.
Hann telur, að það skásta, sem hefði verið hægt að gera varðandi húsið í kringum 1990, þegar litið hefði verið til framtíðar, hefði verið að finna því annan og betri stað, þar sem það fengi að njóta sín, til dæmis nálægt Elliðaárdal eða höfninni, og reisa það að nýju í nákvæmri eftirmynd hússins við Hverfisgötu, sem jafnvel mætti síðan rífa og nýta það svæði á annan hátt.
![]() |
Þörf viðbygging við Þjóðleikhúsið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.12.2013 | 00:33
Vélfluga er því miður ótækt orð um "drone".
Björn Bjarnason stingur í bloggi sínu upp á nýyrðinu "vélfluga" um það sem kallað er "drone" á ensku.
Þetta gerir hann af góðum hug og áhuga á málinu og ber að meta það og þakka.
Enn því miður er þetta orð, vélfluga, "upptekið" í annarri notkun og hefur verið í sjötíu ár.
Flugvélar skiptast nefnilega í tvær megin gerðir og í öll þessi ár sem reglur um flug hafa gilt á Íslandi ,hefur orðið "sviffluga" verið notað um vélarlausa flugvél en orðið "vélfluga" hins vegar um flugvél sem knúin er hreyfli.
Báðar gerðirnar skiptast síðan niður í undirflokka.
Sem dæmi má nefna regluna um að sviffluga skuli njóta forgangs umfram vélflugur þegar ferlar þeirra skerast.
Í kringum þetta eru sem sé flugreglur og allar skilgreiningar byggðar.
Að nota orðið "vélfluga" um "drone" kollvarpar því og ruglar öll hugtakakerfinu í fluginu svo að menn yrðu að skera það upp með rótum.
Flugvélin mín er til dæmis skilgreind sem "vélfluga" og henni er ekki hægt að fljúga mannlausri.
Orðið "flygildi" er hins vegar ekki notað í hugtakakerfi flugsins og því miklu skárra að nota það með því að þrengja merkingu þessa ágæta orðs en að kasta sprengju inn í flugorðasafnið með því að breyta merkingu hins gróna orðs "vélfluga" og setja orðanotkunina í fluginu í uppnám í algerum ruglingi.
![]() |
Flygildi fylgjast með öllu í Sochi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.12.2013 | 22:17
"Enginn má sköpum renna..."
Kappakstur hefur alla tíð haft yfir sér blæ gríðarlegrar lífshættu. Og hnefaleikar hafa haft á sér blæ glæfraspils, jafnvel ólympískir áhugamannahnefaleikar með öllum sínum varúðaratriðum, hjálmum og stífum reglum.
Þó er það svo að hér um árið þegar ég lýsti í tvær nætur heimsmeistaramóti í áhugamannahnefaleikum meiddist enginn, en kvöldið á undan fóru nokkrar handboltakonur meiddar af velli í íslenskum handboltaleik og önnur þeirra meira að segja rotuð.
Þegar Michael Schumacher var upp á sitt besta snerist snilld hans meðal annars um hárfínt mat með hnífskörpum og nákvæmum viðbrögðum upp á sekúndubrot á ofurhraða.
Reiknað hefur verið út að af 500 matsatriðum/ákvörðunum í bílaíþróttum séu 2 að meðaltali rangar og þess vegna er það heppnin ein sem skilur milli grímmrar refsingar og afleiðinga mistakanna eða hins að sleppa með skrekkinn.
En þetta á líka við um svo margt annað eins og bara hina ósköp fjölskylduvænu og heilnæmu skíðaíþrótt , þótt það virki eins og fjarstæða að kappi sem spilað hefur árum saman áhættuspil á ystu nöf, skuli hrasa á skíðum á víðavangi og vera svo óheppinn að höfuðið lenti á kletti.
"Enginn má sköpum renna..."
Hættulegasta atvik sem mig hefur hent á bíl og bílbeltið bjargaði mér, gerðist á..., ja, hvað haldið þið miklum hraða?
Svar: Á minna en eins kílómetra hraða! Já, þið lásuð þetta rétt: Á minna en eins kílómetra hraða, kannski 0,8 km/klst.
Ég var að bakka bíl upp á ísskör við Reykjarfjarðará í Ísafjarðardjúpi klukkan hálf sjö að morgni í febrúarbyrjun, þegar skörin brotnaði og bíllinn valt heila veltu og fór á bólakaf á hvolf ofan í djúpan hyl í ánni, sem var í miklum vexti krapaflóðs.
Já, eins kílómetra hraða og beltin björguðu mér frá því að lenda allur ofan í ísköldu vatninu.
Davíð Helgason, æskuvinur minn, féll fram á morgunverðardiskinn örendur í hjartaáfalli.
Við jarðarför hans gerðist það, að þegar presturinn ætlaði að hefja moldunina, féll maður á fremsta bekk í kirkjunni fram yfir sig í hjartaáfalli.
Stöðva varð athöfnina á meðan beðið var eftir sjúkraliði til að sinna hinum sjúka manni og fara með hann.
Þetta var óskaplega magnað atvik, því að einhvern veginn hafði manni fundist það fjarstæða, að svona gæti gerst við jarðarför.
Á meðan þetta gerðist varð til í huga mér upphaf af sálmi, sem hljóðar svona og felur í sér eðli þessarra tveggja atvika:
Ljúfur Drotinn lífið gefur, -
líka misjöfn kjör -
og í sinni hendi hefur
happ á tæpri skör.
Feigðin grimm um fjörið krefur,
fátt er oft um svör.
Enginn veit hver annan grefur,
örlög ráða för.
![]() |
Handleggir hans kipptust til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 31.12.2013 kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.12.2013 | 15:28
Skemmtileg og djúpvitur umræða um tapara ársins.
Maður ársins 2013 og sigurvegari ársins sömuleiðis er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Allir vita og óumdeilt er hverjir unnu kosningasigur og hverjir töpuðu, hver vann frækilegan kosningasigur og varð næstyngsti forsætisráðherra í sögu landsins.
En nú geysar á facebook skemmtileg og djúvitur umræða um "skúrk ársins" og á þetta að vera þýðing á enska orðinu "loser", sem sumir kalla "lúser" á íslensku en er að mínum dómi best þýtt með orðinu "tapari" samanber það að sá sem skapar er kallaður skapari.
"Skúrkur ársins" er í þessum umræðum stjórnlagaráð og þar með sett á bekk með öðrum skúrkum, misyndismönnum af ýmsu tagi, lygurum og úrþvættum í áranna rás.
Þetta er bráðskemmtilegt allt saman og djúphugsað og verður enn skemmtilegra og áhugaverðara ef farið er aftur í söguna, því að samkvæmt þessu orðavali og þessum skilningi var Jón Sigurðsson skúrkur/tapari ársins 1851 en Trampe greifi sigurvegari.
Snorri Sturluson var skúrkur/tapari ársins 1241 þegar hann var gerður höfðinu styttri.
Kristur var að sjálfsögðu skúrkur/tapari þess árs sem hann var drepinn og enginn nema hugsanlega örfáum mönnum gat komið til hugar annað þá en að Pílatus væri sigurvegarinn.
Franskir herforingjar á borð við De Gaulle voru skúrkar ársins 1940 en Hitler sigurvegarinn.
Scott var skúrkur ársins 1911 þegar keppinautur hans, Amundsen var sigurvegarinn í kapphlaupinu um að komast á Suðurskautið.
Svo háfleyg er þessi umræða orðin að á einni bloggsíðunni hér á blog.is hefur verið komist að þeirri niðustöðu að íslenskir vinstrimenn eins og þeir leggja sig séu skúrkar ársins 2013.
Minna má það ekki vera.
![]() |
Samfylking fari í naflaskoðun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
30.12.2013 | 00:48
Plága sem verður að uppræta.
Auðséð er að það verður æ meira atriði í knattspyrnu að "fiska" aukaspyrnur eða vítaspyrnur með því að slungnir leikmenn beinlínis skipuleggja þannig snertingar við aðra leikmenn að þeir virðist hafa brotið af sér.
Þannig sést oft á myndum, þótt dómararnir sjái það ekki, að leikmenn breyta snöggt en hárfínt, svo að varla sést, um hraða eða stefnu þannig að þeir fái tilefni til að látast falla í jörðina vegna hrindingar eða hindrunar mótherja.
Enn einu sinni kemur upp í hugann þeir ónotuðu möguleikar, sem myndatökur gefa til þess að skera úr um vafaatriði.
Þótt í hraða leikskins sé kannski ekki alltaf hægt fyrir dómara að stöðva leikinn og skoða atvik í myndavél eða fá álit þess, sem myndina metur, áður dómarinn kveður upp sinn úrskurð, ætti að vera hægt að safna saman svona atvikum og láta menn taka út refsingu eftir leikinn, rétt eins og þegar menn safna gulum spjöldum svo að úr verður leikbann síðar.
Hér áður fyrr þótti það flott þegar menn "hlupu upp úr" tæklingum og héldu áfram án þess að falla, en það sést æ sjaldnar, því miður.
![]() |
Mourinho sakar Suárez um leikaraskap |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
30.12.2013 | 00:35
"Skíðun", fráleitt nýyrði.
Í frétt um alvarlegt slys, sem Michael Shumacher lenti í, er notað í fyrsta sinn svo að ég viti orðið "skíðunarbraut". Orðið "skíðun" hef ég aldrei heyrt fyrr eða séð á prenti.
Hingað til hafa verið notuð orð eins og skíðasvæði, skíðabrautir eða skíðagöngubrautir, og talað um að keppnisfólk falli í brautunum, en skíðunarsvæði væri í fyrsta lagi fráleitt orð og auk þess mun lengra en orðið skíðasvæði.
Hvað fáum við að sjá eða heyra næst?
Ökunarbraut í staðinn fyrir akstursbraut?
Flugunarbraut í staðinn fyrir flugbraut.
Ríðunargata í staðinn fyrir reiðgata?
![]() |
Schumacher höfuðkúpubrotinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.12.2013 | 09:28
Allt skal falt.
Rekstur Rásar 2 hjá RUV gengur best fjárhagslega þar á bæi. Nú er hrópað á að hún verði seld til einkaaðila.
Landsvirkjun ber höfuð og herðar yfir önnur orkufyrirtæki landsins. Lengi hefur verið hrópað á að hún verði seld eða þá rekin í raun með tapi á kostnað skattgreiðenda til þess að þjóna stóriðjufyrirtækjum í erlendri eigu.
Nú er mestu vöxtur í ferðaþjónustuinni og Keflavíkurflugvöllur er lykilfyrirtæki í þeim efnum. Þar er byrjað að hrópa á að þessi gullkýr verði seld.
Eftir mikil hróp um það að Reykjavíkurborg seldi hlut sinn í Landsvirkjun var það gert á þann hátt að salan fól í sér tugmilljarða tap fyrir borgina.
Allir þekkja Magma ævintýrið og hugmyndir um að selja Kínverjum Grímsstaði á Fjöllum.
Það eina, sem virðist ekki falt eins og er í hendur útlendingum eru sjávarútvegsfyrirtækin, þar sem lögum samkvæmt er bannað að þeir eigi meira en 49%.
Kannski er stutt í það að þar verði leitað "erlendra fjárfesta."
Allt virðist falt og vísa Flosa Ólafssonar kemur upp í hugann:
Seljum fossa og fjöll !
Föl er náttúran öll !
Og landið mitt taki tröll !
![]() |
Mætti selja Keflavíkurflugvöll |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
29.12.2013 | 02:02
Afrek svipaðs eðlis og hjá berklalækningunum forðum.
Eitt helsta afrek læknavísindanna í síðustu öld var fólgið í því að ráða niðurlögum "hvíta dauðans," berklanna. Þessi hræðilegi sjúkdómur var einna verst hvað varðaði það að hann réðist á fólk á öllum aldri.
Ég er orðinn nógu gamall til að muna þá tíð þegar böl áfengissýkinnar réðist á unga sem gamla án þess að neinum skipulegum vörnum yrði við komið.
Áfengisbölið var miklu víðar en flesta óraði fyrir enda þöggunin og meðvirknin miklu meiri en nú.
Sjúkdómurinn réðst eins og berklarnir á fólk á öllum aldri.
Allt í kringum mann var fólk, sem áfengið lék grátt, skapaði því miklar þjáningar og færði það í gröfina um aldur fram enda engin nútíma úrræði fyrir hendi né þekking á því hvernig hægt væri að ráða við þennan mikla vanda.
Engin veit hve margar þúsundir Íslendinga hefðu hlotið lækningu og verið hægt að bjarga ef stofnun eins og Vogur samtök með sama afl og SÁÁ hefðu verið á þeim tíma.
Á tímamótum í starfi samtakanna er hollt að íhuga það gagn sem þau hafa unnið fyrir land og þjóð.
![]() |
Litið yfir farinn veg hjá SÁÁ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2013 | 14:30
Græðgisæðið, stærsta atriði málsins.
Í öllum umræðum um sæstreng frá Íslandi til Evrópu hefur ríkt þöggun eða gleymska um aðalatriði málsins og mesta áhyggjuefnið sem er það fyrirsjáanlega virkjanaæði, sem renna mun á Íslendinga ef af stórfeldri raforkusölu til Evrópu verður.
Nú þegar stefna valdhafar að því að innan fárra ára verði búið að þurrka upp helminginn af stórfossum Íslands án þess að fara í lagningu sæstrengs.
Má nærri geta hvað muni gerast ef af lagningu strengsins verður.
Við Íslendingar virðumst svo blindir á verðmæti náttúruundra landsins, sem er það langstærsta sem okkur sem þjóð hefur verið falið að varðveita fyrir okkur, afkomendur okkar og mankyn allt, að forðast hefur verið hingað til að ýja einu orði að því hvort við ætlum að fórna þeim öllum eins og þau leggja sig á altari sams konar græðgisæðis og olli hér efnahagshruni fyrir fimm árum.
Það er ömurlegt að forstjóri Alcoa á Íslandi skuli hafa rofið þessa þögn valdaaflanna en ekki íslenskir ráðamenn. Sæstrengur myndi rjúfa þá gíslingu íslenskrar orku, sem íslenskir ráðamenn hafa fært stóriðjunni með þeim afglapahætti að eyðileggja fyrirfram alla samningsaðstöðu sína varðandi orkuverð með yfirlýsingum sínum um áframhaldandi stóriðjustefnu á fullu.
![]() |
Arður af sæstreng óviss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
27.12.2013 | 23:38
Snjallúrin mest spennandi ?
Snjallúrin svonefndu eru nýjung sem vekja spenning hjá mér. Ástæðan er sú að ekkert tæki er eins aðgengilegt og það sem er beint fyrir framan nefið á manni á úlnlið.
Ég hef fengið af þessu reynslu undanfarinn mánuð. Hann hefur verið fyrsti tíminn í lífi mínu sem ekkert úr hefur verið á úlnlið mínum, en áratugum saman gekk ég með þrjú úr. (Tvö eru ekki nóg, - ef þeim ber ekki saman veit maður ekki hvort er rétt).
Þegar maður var kominn með tvo farsíma með klukku féll úrafjöldinn niður í eitt. Síðan slitnaði festin og ég hef verið úrlaus þennan mánuð, ekki tímt að kaupa mér festi.
Ég var líka forvitinn um hve vel það gengi að fara eftir klukkunum í farsímunum.
Það gekk alveg bölvanlega. Það er svo miklu óhentugra að teygja sig eftir síma og gá á hann heldur en að horfa beint á úrskífuna fyrir framan sig.
Hér áður fyrr gengu menn með vasaúr í keðjum. Þau hurfu smátt og smátt og viku fyrir úrunum.
Svipað gæti gerst að hluta eða jafnvel alveg varðandi snjallsímana þannig að eftir sitji aðeins snjallúr og snjallar litlar spjaldtölvur.
Eina áhyggjuefnið gæti verið notkun snjallúranna við akstur. En það hafa verið vandamál varðandi farsínana við akstur svo að það ætti að vera hægt að finna á þessu lausn.
Þekkt er að á sumum bílum hefur hluti af stjórntækjum bílanna verið færður í hnappa í stýrunum. Eitthvað hliðstætt gæti gerst varðandi færslu á ákveðnum viðfangsefnum snjallasímanna yfir í snjallúr.
Þetta eru spennandi tæknitímar. Það virðist ekkert lát á hröðum tækniframförum á þessu sviði.
![]() |
2014 verður ár snjalltækjanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)