19.12.2013 | 07:39
Ýmsar hliðar á samskiptum Rodmans við Norður-Kóreumenn.
Samskipti vestrænna þjóða við slæmar einræðisstjórnir hafa alla tíð orðið tilefni deilna um gagnsemi eða skaðsemi slíks.
Einræðisstjórnir geta oft á tíðum nýtt sér aðstöðu sína til að koma á fót afreksíþróttafólki í fremstu röð og þurfa svo sem ekki erlenda aðstoð til þess.
17 milljónir Austur-Þjóðverja gátu til dæmis komist í allra fremstu röð í flestum greinum íþrótta meðan DDR var og hét.
Ungverjar áttu besta knattspyrnulandslið heims á árunum 1950 til 1956.
Norður-Kóreumenn komu fyrst á óvart á HM í knattspyrnu 1966 þegar lið þeirra vann óvænt afrek þótt það kæmist ekki í úrslit.
Vel getur verið að það sé meira gagn en ógagn sem Dennis Rodman gerir með því að vera í vinfengi við harðstjórnina í Norður-Kóreu. Að minnsta kosti er opinn smá gluggi til vesturs í gegnum hann á meðan og kannski geta vitneskja og tengsl Rodmans gert gagn í heimalandi hans ef svo ber undir, án þess að hann þurfi beinlínis að rjúfa trúnað, sem hlýtur að vera skilyrði fyrir veru hans í Norður-Kóreu.
Rodman varð þekktur fyrir skrautlega hegðun á leikvellinum á sínum tíma og fyrir það að vera næsta óútreiknanlegur í uppátækjum sínum. Það er því hægt að spyrja margra spurninga nú um þessi nýjustu uppátæki hans og hvort þau gætu skipt einhverju máli varðandi "vini" hans í Norður-Kóreu.
En reynslan sýnir að gagnvart firringu gerspilltra harðstjóra hrökkva áhrif eins aðkomumanns oft skammt.
![]() |
Rodman til N-Kóreu enn á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.12.2013 | 18:54
Hugarreikningur er þroskandi og nytsamlegur, en vanmetinn.
Einhvern tímann í kringum 1960 birtist athyglisverð grein í Readers Digest um stærðfræði og reikning.
Í henni var lögð áhersla á þátt æfingarinnar í því að verða góður í stærðfræði og njóta góðs af því alla ævi.
Stærðfræðin hefur nokkra sérstöðu meðal námsgreina hvað varðar það, að afar mikilvægt er halda þræðinum og vanrækja hana ekki, jafnvel þótt um tiltölulega stuttan vanrækslutíma sé að ræða, vegna þess að hvað byggir á öðru.
Þetta er ólíkt því sem gildir til dæmis um orðaforða í tungumálum en um stærðfræði og tungumál gildir alveg það sama, að æfingin skapar getuna.
Allir þekkja hvernig kunnátta í tungumálum byrjar að snaraukast eftir því sem dvölun í viðkomandi landi lengist.
Í greininni fyrrnefndu í Readers Digest voru gefnar upp nokkrar aðferðir í hugarreikningi, sem væru nytsamlegar. Gaman væri að vita hve mikið íslenskir kennarar gera af því að æfa nemendurna í slíku.
Í mörgum þeirra er það fært í nyt að oft er auðveldara að draga frá eða leggja saman heldur en að margfalda eða deila.
Flestir þekkja til dæmis það að margföldun með 9 er fljótlegust með því að margfalda fyrst töluna, sem margfalda á, með 10 (bæta núlli við) og draga síðan töluna sem margfaldi átti frá .
Dæmi: 9x67 er sama og 670 mínus 67= 603.
Sömuleiðis að margfalda með 11 með því að margfalda fyrst töluna, sem margfalda á, með 10 (bæta núlli við) og bæta síðan við tölunni, sem margfalda átti.
Dæmi: 67x11 er sama og 670 plús 67 = 737.
Sama gildir um tölur sem 9 eða 11 ganga upp í.
Ef margfaldað er til dæmis með 18 er best að margfalda fyrst með 2, bæta núllí við ( sama og að margfalda með 20) og bæta síðan 1/10 við útkomuna til að fá endanlega útkomu.
Svipað gildir um 27, 36, 45, 54 ...o.s.frv.
Og ef um margföldun með tölum sem 11 ganga upp í gilda svipaðar reglur.
Ef margfaldað er til dæmis með 33 er fyrst margfaldað með 30 og síðan bætt 1/10 við útkomuna til að fá endanlega útkomu.
Dæmi: 21x33 er sama og 630 plús 66 = 696.
Ef verið er að leysa hugarreikningsdæmi gróft er oft hægt að flýta fyrir sér með því að "slumpa".
99 x 101 er nokkurn veginn sama og 100 x 100 = 10.000. (Nákvæmt svar er 9.999 og þarf ekki annað en líkindahugsun, hlutfallaskilnign, til að finna það út án þess að framkvæma margföldunina, því að prósentvís er talan 1 sem skekkja frá 100 í 99 stærri en talan 1 upp á við í tölunni 101 miðað við 100. Útkoman hlýtur því að verða lægri en 10.000) Auk þess sést strax að 9 hlýtur að verða lokatalan í útkomunni)
88 x 102 er líka nokkurn veginn það sama og 100x100. (Nákvæm útkoma 9.998)
46 x 54 er nokkurn veginn það sama og 50x50.
Í mörgum tilfellum þegar margfaldað er með tveimur tölum getur stundum verið ágætt til einföldunar að helminga aðra töluna, sem nota á í margföldun, en tvöfalda hina.
Dæmi: 14x3 er sama og 7x6=42.
Að margfalda með 5, 50, 500, 5000 er einfalt. Fyrst er margfaldað með 10, 100, 1000, 10.000 og síðan deilt með 2.
Talan 4 er sama sem 2x2 og þessa staðreynd er hægt að nota sér, bæði í margföldun og deilingu.
Dæmi: 37x4 er sama og 37x2x2. Margföldunin fer fram í tveimur einföldum þrepum: 37x2=74. 74x2=148.
Ein góð regla er sú, að til þess að forðast stórfelldar skekkjur sé ágætt að finna fyrst út sem snöggvast af hvaða stærðargráðu útkoman muni verða.
Dæmi: 87x117 eru eitthvað í námunda við 10.000, líkast til um 3% hærri tala en 10.000. (117 er tæplega 3% hærri tala en 113, sem er 13 meira en 100, en 87 er 13 lægri en 100.
Og hugarreikningsæfing í notkun prósentureiknings er gulls ígildi ef fólk vill flýta fyrir sér og verða ekki strand ef það vantar vasatölvu eða skriffæri.
![]() |
Hvernig verða menn góðir í stærðfræði? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
18.12.2013 | 13:44
Í rétta átt, svo langt sem það nær.
Gott er að samkomulag hefur tekist í tíma um þinglok að sinni, án þess að kæmi til hefðbundinna stórvandræða með óhæfilegu málþófi.
Að vísu var byrjað á málþófi en sem betur fer sáu þingmenn úr báðum fylkingum að sér áður en þingið yrði sér enn einu sinni til rækilegrar skammar eins og orðið hefur á síðustu árum.
Þetta er skref í rétta átt, svo langt sem það nær.
![]() |
Samþykkt að greiða desemberuppbót |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.12.2013 | 14:52
En hver kemur í staðinn og hvað gerir sá ?
Það er í takt við skynsamlega greiningu á þeirri stöðu sem upp er kominn hjá RUV að Páll Magnússon ákveður að hætta þar störfum, jafnvel þótt stjórn RUV segi að ekkii sé um trúnaðarbrest að ræða.
Páll hafði að vísu ekkert með hina hrikalegu aðför að RUV að gera, sem fólst í enn einum niðurskurðinum í kjölfar þeirra fyrri og afar grunnfærnu mati, því að augljóst var að ekki var hægt að losna við ýmsa dýrustu póstana í rekstrinum, svo sem hið hræðilega dýra hús, heldur varð að láta niðurskurðinn bitna beint á starfsmönnum.
En engu að síður gerist þetta á hans vakt og eðlilegt, miðað við þann úlfaþyt sem orðið hefur, að hann ákveði að stíga til hliðar og sjá hvort arftaka hans muni auðnast að spila einhvern veginn öðruvísi úr spilum.
Rétt er að hafa í huga að eftir því sem mér skilst var það á hendi yfirmanna deilda RUV hvers um sig að ákveða hverjir yrðu reknir, en allt um það gerist þetta á vakt Páls.
Hlálegt er að sjá ummæli sumra eins og Björns Bjarnasonar þar sem eingöngu Páli er kennt um allt.
Kemur í hugann máltækið: "Árinni kennur illur ræðari."
Sjálfur var Björn menntamálaráðherra árum saman og í tvo áratugi var útvarpsstjórinn fyrrverandi borgarstjóri Sjálfstæðismanna og á þeirra vakt var RUV stærra "bákn" en nú.
Aðalspurningin er sú, hver tekur nú við og hvort sú persóna finnur einhverja aðra leið til að skera niður en Páll. Og verður sá stjóri handbendi þeirra afla sem vilja draga sem mest úr afli ríkisútvarpsins og ráðast að stöðu þess í íslensku þjóðlífi?
![]() |
Páll hættir sem útvarpsstjóri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
16.12.2013 | 22:51
Vonir jólakattarins vænkast.
Aukin útgjöld um jólin verða ekki umflúinn af neinum. Jólunum fylgja að vísu aukin vinna og umsvif með meiri tekjum en ella hjá mörgum, en það fer að mestu fram hjá öldruðum, öryrkjum og atvinnulausum.
Þess vegna er verið að auka á misréttið með því að neita um desemberuppbót.
"Jólunum á eru allir vinir..." er sungið í laginu um sjö litlar mýs, en vináttan virðis á stundum rista frekar grunnt, og segja má á táknrænan hátt að vonir jólakattarins vænkist við allt sem hjálpar til við að draga úr því að þeir sem verst standa geti tekið þátt í og notið mestu hátíðar ársins.
Kannski má draga þetta saman í þessi skilaboð sem niðurfelling desemberuppbótar felur í sér: Þið fáið enga andskotans desemberuppbót! Gleðileg jól!
![]() |
Aumt að neita atvinnulausum um desemberuppbót |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 17.12.2013 kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.12.2013 | 15:33
"Finnska leiðin".
Finnar fóru í gegnum dýpri kreppu upp úr 1990 eftir fall Sovétríkjanna en Íslendingar frá 2008 til þessa dags.
Í fyrstu datt þeim í hug að klára virkjun vatnsorku landsins til orkuöflunar fyrir stóriðju, en hurfu frá því af umhverfissjónarmiðum, enda um að ræða að skapa tiltöluega afar fá störf sem kostuðu hvert um sig margfalt meira að skapa en nokkur önnur störð.
Þeir fóru hinsvegar útí nýsköpun, rannsókn og þróun og efldi menntu landsmanna.
Þeir viðurkenndu að vísu á eftir að þeir hefðu mátt fara heldur vægar í að skera niður fé til velferðar- og heilbrigðismála en að öðru leyti svínvirkaði þessi leið sem fékk nafnið "finnska leiðin".
Núverandi stjórnarflokkar virðast hins vegar algerlega fráhverfir neinu sem líkist finnsku leiðinni.
Ríkisstjórnin hefur lýst yfir einróma vilja til að reisa álver í Helguvík og fara á fullu út í stóriðjustefnuna, sem hefur sömu galla hér á landi og Finnar fundu út upp úr 1990.
![]() |
Sókn skapi tekjur til framtíðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.12.2013 | 10:16
Þar fór það.
Nú mun að líkindum linna í bili fréttaflutningi af auðæfum í formi jarðgass á Skjálfandaflóa, sem skotið hefur ítrekað upp kollinum og stundum á þann hátt að þetta hafi verið staðreynd.
Það mun svo sem ekki breyta miklu hjá olíugróðadreymendum, heldur bara auka gasið í Öxarfirði og olíuna á Drekasvæðinu og Íslendingar verða enn ríkari, þeir ríkustu í heimi eins og þeir voru árin 2006 og 2007, einmitt þegar komið hefur í ljós að bankakerfið okkar stórkostlega var þegar dauðanum merkt.
![]() |
Ekkert jarðgas á Skjálfanda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.12.2013 | 21:41
Dýrlegt að heyra þetta! Ragnar Reykás hvað?
Hún fór ekki hljótt, andúð ýmissa þingmanna svosem Gunnars Braga Sveinssonar á IPA-styrkjunum sem þeir töldu vera til skammar fyrir bæði Ísland og ESB.
Síðan, eftir að Íslendingar eru búnir að stöðva ferlið, sem styrkirnir eru tengdir, og ESB stöðvar þá, rjúka sömu menn upp með látum og úthúða ESB fyrir að taka burtu styrkinga sem þeir höfðu áður hamast gegn! Vilja nú fara í málaferli við ESB út af þessu!
Dýrlegt að heyra þetta! Ragnar Reykás hvað?
![]() |
Skoða réttarstöðu vegna IPA-styrkja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
15.12.2013 | 13:12
"Heilög vé".
Hér á Íslandi myndu menn vafalaust margir fagna því að nú værir hægt að reisa stærri og öflugar virkjanir ef það kæmi í ljós að einhver eldstöð og þar með jarðvarmakerfi væri miklu öflugra en áður hefði verið talið.
Í tengdri frétt á mbl.is má sjá, að Yellowstone sé mun öflugri eldstöð en áður var talið, en í Bandaríkjunum nefnir ekki nokkur maður slíkt á nafn. Ekki aðeins er ekki hróflað við einum einasta hver af 10 þúsund hverum í Yellowstone, heldur er 100 þúsund ferkílómetra svæði á stærð við Ísland umhverfis garðinn (Greater-Yellowstone) friðað fyrir slíku.
"Yellowstone er heilög vé" ("sacred earth) sagði bandarískur sérfræðingur í jarðvarmavirkjunum í fyrirlestri hér í sumar þegar hann sýndi hvernig farið yrði um öll Bandaríkin við nýtingu jarðvarma en langöflugasta svæðið, Yellowstone, látið óstortið.
Þótt merkilegt sé kemst Yellowstone ekki á blað yfir 40 helstu náttúruundur jarðar í vandaðri umfjöllun sérfræðinga um það efni í stórri bók, sem ég á.
Hinn eldvirki hluti Íslands er hins vegar á þeim lista og á sama tíma og Yellowstone er heilög jörð í Bandaríkjunum ætlum við ekki aðeins að sækja fast í að umturna sem flestum náttúruverðmætum hér á landi heldur endilega að hjálpa Bandaríkjamönnum við að vernda sín svæði, sem þó eru ekki eins merkileg á heimsvísu.
![]() |
Yellowstone-ofureldstöðin geysistór |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
15.12.2013 | 02:43
Ástæður þess að Píratar hafa líklega traust fylgi.
Kjósendur sem eru stuðningsfólk Pírata mun vera að mestu leyti á aldrinum 18-28 ára.
Ég átti þess kost að komast svolítið inn í hugarheim þessa ágæta fólks á viku ráðstefnu í Brussel í vor um beint lýðræði netlýðræði og þátttöku almennings í stjórnmálum.
Ljóslega kom fram á ráðstefnunni hve miklir möguleikar eru á þessu sviði og hve nauðsynlegar tillögur stjórnlagaráðs um beint lýðræði eru.
Netið býður bæði upp á framfarir og hættur, kosti og galla. Það opnar alveg nýja möguleika, sem brýn nauðsyn er að aðrir stjórnmálaflokkar en Píratar kynni sér.
Gallarnir geta verið fólgnir í þeirri mótsögn, að auknu víðsýni og aukinni þekkingu geti fylgt ákveðin þröngsýni hjá þeim, sem hverfa alveg inn í netheima og eiga hættu á firringu frá raunverulegu lífi utan netheimanna.
Það er hægt að hafa gríðarlega gefandi samskipti á netinu en ekkert getur samt komið alveg í stað fyrir venjuleg mannleg samskipti, ekki einu sinni Skype eða réttnefndur "sýndarveruleiki."
Hópur þess fólks sem lifir og hrærist á netinu er ekki aðeins nokkuð stöðugur heldur fer stækkandi.
Ég spáði því í vor að Píratar myndu fá nokkuð stöðugt fylgi í kringum 7% en það eina sem gæti komið í veg fyrir að það fylgi skilaði sér væri að fylgjendurnir nenntu ekki að nota gamla lagið til að fara á kjörstað.
Enginn vafi er á því að dæmið myndi snúast við ef kosningarnar væru komnar úr kjörklefunum inn á netið. Þá myndi stór hópur fólks, sem er seint til að tileinka sér nýja tækni, detta út.
Enginn skyldi vanmeta möguleika Pírata í sveitarstjórnarkosningunum frekar en í alþingiskosningum.
Miklu mun þó ráða málafylgja þeirra og mannskapur, sem boðinn er fram.
![]() |
Píratar bjóða fram í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)