7.12.2013 | 14:43
Samt er trúað á ónýtan ferðamannavetur.
Í ferð til suðvesturhluta Írlands 1993 sanfærðist ég um það að hægt væri að lokka hundruð þúsunda ferðamanna til Íslands eins og til suðvesturhluta Írlands til að upplifa umhleypinga og rysjótt veður. Um þetta gerði ég sjónvarpsfréttir en engu varð haggað um gróna trú Íslendinga á hið íslenska fráhrindandi veður. Það eru tuttugu ár síðan.
Sama ár skrifaði breskur blaðamaður hástemmda grein í Sunday Times um ógleymanlega upplifun sína af íslenska óveðurshamnum yfir jól og áramót. Ekki haggaði það neinum Íslendingi í trúnni á, hvað slíkt veður hefði mikinn fælingarmátt.
Í ferð til Norður-Finnlands fyrir tíu árum sá ég að hægt væri að lokka hundruð þúsunda ferðamanna til Íslands rétt eins og gert í Lapplandi. En trúin á ómöguleika þess var meiri en nokkru sinni fyrr hér á landi og hafði aukist frekar en hitt.
Í sérstakri ferð um allt Lappland í febrúar 2005, - en þangað komu þá fleiri erlendir ferðamenn á veturna en allt árið á Íslandi, - sannfærðist ég enn frekar um mikla möguleika Íslands á að bjóða enn betur en Lappland. Gerði um þetta sjónvarpsfréttir en söngurinn hér heima um hið gagnstæða færðist bara í aukana og trúin á fælingarmátt íslenskrar náttúru í vetrarham jókst bara.
Nú fjölgar erlendum ferðamönnum hér um fjórðung í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra, en lítið lát virðist á rótgróinni trú okkar á það, í hve ómögulegu landi við búum varðandi það að dreifa fjölgun ferðamanna meira um árið í stað þess að allir skuli fara Gullna hringinn í júlí.
Sú staðreynd hefur nefnilega alveg gleymst, að þeim erlendu ferðamönnum fjölgar jafnvel mest, sem hafa komið áður til Íslands og vilja fara eitthvað annað en Gullna hringinn og upplifa eitthvað annað en hann.
En á sama tíma er það orðið höfuðatriði í stefnu stjórnvalda að skrúfa fyrir þrjá stórfossa í Efri-Þjórsá og auka sókn í eyðileggingu jarðvarmasvæða og þar með að eyðileggja möguleika á því að dreifa ferðamönnum meira um landið en verið hefur.
![]() |
Ferðamönnum fjölgaði um 25,7% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.12.2013 | 02:03
Maðurinn sem drekkti hænunni.
Þegar ég var í sveit í Hólmaseli í Flóa á sjötta árinu var þar á bænum heimastrákur í svipuðum aldri sem hafði gaman af að plata borgardrenginn.
Honum tókst að telja mér trú um hina ótrúlegustu hluti og taldi mér eitt sinn trú um að hænur gætu synt á vatni eins og endur og til þess að sannfæra mig enn betur um þetta sagði hann að ég gæti sjálfur prófað þetta.
Ég var það lítill að ég gat ekki handsamað neina hænu til að sannreyna þetta, en mér tókst að krækja í hænuunga og við fundum tunnu, fulla af vatni þar sem prófunin gat farið fram.
Ég setti ungann ofan í vatnið og viti menn: Hann synti eins og óður væri í hringi og tísti gríðarlega.
En allt í einu hætti hann að synda og flaut lífvana marandi í hálfu kafi.
Þá varð mér ljóst að hann hafði drukknað og þetta atvik fékk mjög á mig.
Í fyrsta sinn á ævinni sá ég lífveru deyja og áttaði mig á því að ég hafði orðið hennar bani og komið í veg fyrir að unginn gæti vaxið úr grasi, orðið hæna eða hani og notið lífsins.
Þrjátíu árum síðar átti ég leið um þetta svæði og komst að því að þessi saga um drekkingu hænuungans lifði enn góðu lífi hjá sumum í sveitinni, nema að nú var talað um borgardrenginn rauðhærða sem hefði drekkt hænunni.
Svona geta nú sögur vaxið í meðförum fólks, en þetta mátti að vissu leyti til sanns vegar færa úr því að ég hafði komið í veg fyrir að unginn gæti orðið að hænu, þannig að söm var gerðin.
![]() |
Þriggja ára drekkti bróður sínum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.12.2013 | 01:10
Að gæta meðalhófs.
Starf lögreglumanna er oft á tíðum áhættusamt og vandasamt. Lögreglan er það fjölmenn að hún getur að vissu leyti verið dálítill þverskurður af þjóðinni sjálfri. Það finnst mér frekar kostur en ókostur, því það dregur úr hættu á því að lögreglan komist úr mannlegum tengslum við þjóðina og þjóðin úr tengslum við lögregluna.
Ein af meginreglum um beitingu lögregluvalds er sú að "gætt sé meðalhófs" eins og það er stundum orðað, - ekki beitt meira valdi en nauðsyn ber til.
Flestum þeim sem sáu myndband var á atvikinu á Laugaveg í sumar bar saman um það, að þar var ekki gætt meðalhófs, þótt viðkomandi lögreglumanni fyndist handtakana hafa verið "fumlaus." Héraðsdómur fellst greinilega ekki á rök lögreglumannsins.
Þetta leiðir hugann að því hvernig meta beri aðrar handtökur lögreglu, hverja um sig.
![]() |
Lögreglumaður sakfelldur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.12.2013 | 11:06
Mikið gagn, - en þó með undantekningum.
ABS hemlar og önnur sjálfvirk tölvustýrð kerfi, sem nú eru á flestum bílum, geta komið sér afar vel fyrir venjulega ökumenn, sem ekki hafa að baki öfluga og langvarandi þjálfun rallökumanna í mörg þúsund beygjum við að stjórna bílum þegar þeir skrika í hálku, á malarvegi eða jafnvel á bundnu slitlagi.
En í rallkeppni eru slík tækni aðeins til trafala og engir rallökumenn nota slíkt.
Dæmi um slíkt kom upp í akstursprófun með ABS-hemla, sem íslenska Audi-umboðið lét fara fram fyrir tæpum 20 árum.
Bílablaðamenn voru látnir aka á lokaðri braut á 100 kílómetra hraða. Þegar komið var fram yfir ákveðna línu, áttu þeir að hægja á sér eftir getu til þess að ná snarpri beygju til vinstri, sem var skammt fram undan, hægja aftur á sér eftir því sem hægt var, áður en enn snarpari beygja kom, að þessu sinni til hægri.
Fyrst var bílunum ekið með ABS-hemlana tengda og okkur sagt að viðfangsefnið væri einfalt: Um leið og bíllinn væri kominn yfir upphafsbeygjuna, skyldum við hemla í botn og standa stanslaust á hemlunum um leið og við stýrðum bílnum klakklaust í gegnum báðar beygjurnar.
Okkur tókst þetta öllum auðveldlega nema mér, sem rétt slapp með skrekkinn.
Það var sama þótt ég reyndi að hafa það í huga að standa fast á hemlunum alla leiðina í gegnum báðar beygjurnar, - gömul þaulæfð viðbrögð urðu yfirsterkari, en þau fólust í því að hemla fyrst af alefli, sleppa síðan hemlunum eldsnöggt um leið og stýrt væri í gegnum fyrri beygjuna, hemla síðan aftur af alefli, en sleppa hemlunum síðan aftur eldsnöggt í gegnum seinni beygjuna.
Vegna þess að ég sleppti hemlunum eldsnöggt tvisvar, tapaði ég hemlunartíma og því stóð tæpast hjá mér að sleppa í gegn, allir gerðu þetta betur og öruggar en ég.
Síðan var komið að seinni hluti hemlunarprófuninnar, en þá voru ABS-hemlarnir aftengdir við að framkvæma sama akstur í gegnum beygjurnar tvær.
Þá brá svo við að dæmið snerist alveg við, - enginn komst klakklaust í gegnum beygjurnar nema ég. Gömlu viðbrögðin mín, sem aðrir blaðamenn höfðu ekki æft, svínvirkuðu.
Til eru þær aðstæður á möl þar sem ABS-hemlarnir gera ógagn, en það er þegar þær valda því að bíllinn skautar ofan á mölinni án þess að ná nægilegri eða jafnvel nokkurri hemlun.
Í vissum malarskilyrðum nær venjuleg hemlun, þar sem hjólin ná að læsa sér alveg, hins vegar stundum að valda því að dekkin rífa sig niður í gegnum mölina þannig að hemlunargrip við undirlagið náist, þótt það sé ekki nema að hluta til.
ABS-tæknin og önnur tækni til að aðstoða ökumenn til að hafa vald á bílnum er góðra gjalda verð og yfirleitt til góðs. En eins og ofangreind dæmi sýna, eru til undantekningar á því.
![]() |
Skriðstillir hættulegur í hálku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.12.2013 | 22:44
Fjölbreytileg þjálfun heilans hlýtur að skila mestu.
Þegar ég var í grunnskóla var utanaðbókarlærdómur í hávegum hafður en minna lagt upp úr því að þjálfa skilning og örva frumkvæði og sköpunargáfu.
Síðar sýndist skólamönnum þetta hafa verið rangar áherslur og þegar slíkt gerist er alltaf hætta á því að farið sé yfir í gagnstæðar öfgar, til dæmis með því að úthýsa utanaðbókarlærdómi eins og mest megi verða.
Alveg frá því að ég var í barnaskóla hefur hugarreikningur verið vanræktur og allt fram á þennan dag hef ég rekist á það að langskólagengið fólk getur verið einstaklega illa að sér í hugarreikningi, enda treyst á tölvutæknina úr hófi fram.
Tvö yngstu barnabörn mín eru á aldrinum 3-5 ára og þau virðast að eigin frumkvæði elska að læra lög og texta utanað. Þetta er sjálfsprottin þörf fyrir utanaðbókarlærdóm sem afsannar það að slíkur lærdómur sé skaðlegur, enda er gömlu fólki ráðlagt að þjálfa heilann sem lengst og mest til að hægja á hrörnun hans.
Svipað hlýtur að eiga við um öll aldursskeið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.12.2013 | 22:26
Suður-Afríka: Uppspretta frelsis- og mannréttindabaráttu.
Andlát Nelsons Mandela minnir okkur á hve mikilvægur vettvangur Suður-Afríka hefur verið í meira en öld í baráttu gegn misrétti og kúgun.
Hinn 6. nóvember síðastliðinn voru rétt 100 ár síðan Mohandas Gandhi neitaði að borga sekt fyrir að hafa farið inn á svæði, sem hann samkvæmt þágildandi lögum mátti ekki vera á. Þetta markaði helsta atriðið í upphafi baráttunnar gegn ofríki hvítra Evrópumanna í landinu sem stóð út næstum alla öldina.
Gandhi, sem var í indverskum minnihluta í Suður-Afríku, fór nokkrum árum síðar til Indlands þar sem hann fínpússaði hina nýju andófsaðferð sína gegn misrétti og kúgun Breta þar, en hún fólst í því að andófið væri friðsamlegt án ofbeldis.
Gandhi sagði um baráttu í hans anda að henni mætti skipta í fjögur stig: 1. Fyrst láta þeir eins og þú skiptir engu máli. 2. Næsta stig er að bæta við háði og spotti til að gera sem minnst úr þér. 3. Síðan berjast þeir við þig. 4. Svo sigrar þú.
Gandhi vann sinn sigur með frelsi Indlands 1948 og Mandela með afléttingu aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afrík 1993.
Fleiri, eins og Biko, sem var drepinn, börðust vasklega í frelsisbaráttunni, en nöfnin Gandhi, Mandela og Martin Luther King koma helst í hugann þegar horft er til baka yfir 20. öldina og helstu frelsishetjur hennar.
![]() |
Frelsishetja fallin frá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.12.2013 | 13:15
Óþarfi að hafa þau á bekknum ?
Auk jólasveinanna 13, Grýlu og Leppalúða, sem segja má að verði inná á leikvelli jólanna frá og með 12. desember, eru til nokkrar þjóðsagnapersónur, sem eru í slagtogi með þessari stóru fjölskyldu en hafa hingað til haft sig lítt í frammi.
Þau hafa kannski verið í svipaðri stöðu og leikmenn liðs, sem sitja allan leikinn á varamannabekknum.
Þetta eru þó sennilega áhugaverðar persónur ef marka má nöfn þeirra, en í hugann koma fimm nöfn, þau Leppur, Skreppur, Lápur, Skrápur og Leiðindaskjóða.
Þetta notfærði ég mér þegar ég velti því fyrir mér á fyrsta ári vinstri stjórnarinnar 1971 hvaða hlutverk þáverandi stjórnmálaforingjar og pólitísk fyrirbæri þess tíma fengju helst í flóru jólasveina, trölla og álfa.
Fjármálaráðherrann var að sjálfsögðu Aurasníkir, nokkrir hægri og vinstri menn voru þá uppnefndir á víxl sem leppar Bandaríkjamanna og Rússa, hinn ferðaglaði Gylfi Þ. Gíslason var Skreppur og forsætisráðherrann Leiðindaskjóða.
Í upphafi vinstri stjórnarinnar uppskarst hlátur þegar hið síðastnefnda bar á góma, því að fram að því hafði Ólafur Jóhannesson þótt afar litlaus stjórnmálamaður. En það átti eftir að breytast hratt, því að Ólafur snarbreytti um stíl og gerðist með allra skemmtilegustu stjórnmálamönnum.
Það hefur hingað til verið ákveðin lægð í Aðventunni fyrstu ellefu dagana áður en hinir "löggiltu" jólasveinar koma, en það má alveg gæla við þá hugmynd að óþarfi sé að hafa Lepp, Skrepp, Láp, Skráp og Leiðindaskjóðu á bekknum, heldur kalla þau inn á jólavöllinn, þótt ekki sé nema til að hita upp fyrir jólasveinana þrettán.
![]() |
Leiðindaskjóða mætt á svæðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
4.12.2013 | 20:53
"Setja jarðýtu á Korpúlfsstaði" í dag ?
Af sérstökum ástæðum er ég að blaða í nákvæmlega 20 ára gömlum dagblöðum i dag og sé í DV um þetta leyti þá, að samkvæmt skoðanakönnun blaðsins voru 62% þeirra, sem tóku afstöðu, fylgjandi því að húsin sem þá og nú standa á Korpúlfsstöðum jöfnuð við jörðu en aðeins 38% meðmælt því að gera húsin þar að því sem þau eru í dag.
"Láta jarðýtu brjóta húsin niður", - "þetta var reist sem fjós, burt með það." Svona ummæli mátti sjá hjá þeim yfirgnæfandi meirihluta sem vildi láta brjóta þessi stórmerkilegu, einstæðu og flottu hús brautryðjandans Thors Jensens niður.
Ætla hefði mátt að fylgjendur Sjálfstæðisflokksins hefðu kannski verið eitthvað veikari fyrir sögulegu gildi hússins sem ríkasta manns á Íslandi á sinni tíð og föður Thorsaranna, sem voru burðarásar í Íhaldsflokknum og síðar Sjálfstæðisflokknum fram yfir 1960.
En rétt eins og Sjálfstæðismenn sáu ekkert gildi í Kveldúlfshúsunum og Völundarhúsinu við Skúlagötu voru þeir jafn ólmir og aðrir í að mölva Korpúlfsstaði mélinu smærra fyrir réttum 20 árum.
Gaman væri ef haldin væri skoðanakönnun í dag um það hvort fólk teldi rétt að hafa látið Korpúlfsstaði standa og nota þá eins og nú er gert.
Eða hvort rétt hefði verið að jafna Bernhöftstorfuna við jörðu og endurbyggja ekki húsin á horni Lækjargötu og Austurstrætis og húsin tvö neðst við Laugaveg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
4.12.2013 | 16:44
Af hverju þessi sérstaða í fréttaflutningi?
Löng hefð er komin á varðandi fréttaflutning af viðburðum, sem koma til kasta lögreglu.
Kvikni í húsum eða öðru er látið vita af því og yfirleitt hefur það verið látið fréttast snemma þegar sérsveit lögreglu hefur verið kölluð út vegna hættu.
Þegar hættuástand myndast eins og í aðgerðunum í Hraunbæ er það öryggisatriði að láta almenning vita af því hvenær sólarhringsins sem er.
Þess vegna hlýtur sú spurning að vaka hvers vegna aðgerðirnar í Hraunbæ voru í raun þaggaðar niður lengi vel, þótt fregnir bærust af minni atburðum.
Varla getur það hafa verið gert til að koma í veg fyrir að forvitið fólk streymdi á staðinn enda ætti þá að reyna að leyna hverju því sem fréttnæmt er á sviði löggæslu.
Stóra fréttin í Hraunbæ var ekki aðeins það að í fyrsta sinn í sögu landsins var maður skotinn í skotbardaga við lögreglu heldur það mikla ófremdarástand sem ríkir í málefnum geðsjúkra.
![]() |
Meta hvort fréttaflutningur skapi hættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.12.2013 | 12:56
Fær Frans aftur svipað starf?
Í tilefni af því að Franz páfi hafi fyrrum verið útkastari á næturklúbbi má skella þessu fram:
Útkastarar eru hér
út um breiða sviðið.
Frægastur samt allra er
einn við Gullna hliðið.
Herrann Pétur heitir sá
og hefur lengi starfað
Brátt hann um það biðja má
við betra djobb fá garfað.
Afleysingar- mætan mann
mun hann verða að fá þar
vanan strák er starfið kann
og sterkum tökum ná þar.
Einn þá páfi er þar næst
sem á því ná mun tökum,
upp til himna eflaust fæst
með afar sterkum rökum.
Dýrir verða dómar hans,
drengjunum í syndafans
þegar segir "farvel", Frans,
"og farðu nú til andskotans."
![]() |
Páfinn vann sem útkastari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)