Færsluflokkur: Bloggar
2.6.2021 | 13:49
6 prósent hrökkva skammt.
Í frétt um sölu nýrra fólksbíla í maí hér á landi er sagt, að 6 prósent þeirra hafi verið hreinir rafbílar.
Heldur fleiri, 9,1 prósent, eru þeir bílar sem flokkast sem tengiltvinnbílar, en það er algerlega háð notum eigendanna, hve mikið rafknúni parturinn af akstrinum er nýttur.
Mjög verður að telja vafasamt að flokka tvinnbíla með enga tengilmöguleika, sem nýorkubíla, því að ávinningurinn af notkun þeirra varðandi kolefnissporið er ekkert meiri en ef keyptir eru dísilbílar af svipaðri stærð.
16 prósent innfluttra bíla voru tvinnbílar án tengilmöguleika, en tæknilega ómögulegt er að setja innlenda raforku á þá, heldur er orka aðkeypts bensíns á bensinknuínn hreyfil bílsins eingöngu notuð til þess.
Síðan er alveg ótalinn sá ávinningur sem getur verið af því að laga samsetningu bílaflotans betur að þörfinni fyrir akstur hentugra ökutækja af ýmsum stærðum og gerðum, svo sem í borgarakstri.
Nú er í gangi gríðarleg gerjun í gerð mjög fjölbreyttra farartækja á því sviði, svo sem tveggja sæta rafbílum, en laga þarf umhverfi opinberra gjalda og trygginga að breyttri samsetningu bílaflotans hjá einstaklingum, fjölskyldum og fyrirtækjum.
Vitað er um fjóra álíka stóra tveggja sæta rafbíla, sem fluttir hafa verið inn til landsins, tvo Tazzari Zero og tvo Invikta S2, og er sá nýrri, Invikta, sá hærri á þessari mynd.
Þessir bílar hafa nóg farþega-, farangursrými og önnur þægindi fyrir tvo, ná 90km/klst hraða og drægnin við íslenskar meðalaaðstæður er 110 kílómetrar fyrir Invikta en 90 km fyrir Tazzari samkvæmt athugunum síðuhafa.
![]() |
152% aukning bílasölu í maí |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.6.2021 | 18:57
Hvenær fá fleiri að greiða atkvæði um svona mál?
Tvennt hefur valdið meiri usla í evrópskum borgum í ríflega hálfa öld en flest annað. Annars vegar hin hrikalega eyðilegging sem loftárásir ollu, en á eftir þeim kom lúmskari tortíming sem fólst í því að má sem kyrfilegast allt hið gamla út og hrúga upp risasteinkumböldum í formi steinsteypu, stáls og glers.
Litlu munaði að þetta tækist gagnvart Bernhöftstorfunni við Lækjargötu, en með tímamóta andófi tókst að afstýra því.
En ekkert lát hefur samt verið í raun á því skilningsleysi gagnvart sameiginlegri reynslu og umverfi kynslóðanna sem sjá má merki um hvarvetna í borgarlandinu.
Fjölbreytnin er mikil, allt frá Austurbæjarbíói til lágreistra húsa við Laugaveg og víðar.
Sumu tókst að bjarga, en miklu fleira var eyðilagt.
Nú má sjá að Akureyringar hafa fengið að greiða atkvæði um hluta bæjarins.
Hvenær gerist svipað hér fyrir sunnan?
![]() |
Akureyringar kusu gegn skipulagi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.6.2021 | 12:22
"Besti aldurinn" til að fljúga er býsna langur.
Aldur skiptir mun minna máli en margur heldur hvað varðar það að fljúga flugvélum. Á sínum tíma fékk Sverrir Þóroddsson leyfi til að fljúga svifflugu í einliðaflugi talsvert fyrr en honum leyfðist að stýra bíl.
Dagfinnur heitinn Stefánsson hélt einkaflugmannsskírteini sínu við fram á tíræðisaldur, og kominn vel á níræðisaldur gerði Magnús Norðdal listflugæfingar á borð við ýmsar útgáfur af Lomcovak, sem meira að segja bestu listflugmennn okkar treystu sér ekki til að gera.
Bob Hoover framkvæmdi listflugsatriði á tveggja hreyfla flugvél allt fram um áttrætt, sem engum flugmanni á neinum aldri hefur tekist að leika eftir.
Myndin hér að ofan er tekin í gærkvöldi þegar tveir af þörfustu þjónum síðuhafa voru teknir til kostanna.
Annars vegar rafknúið léttbifhjól af gerðinni Super Soco LUx sem getur komist austur fyrir fjall og til baka aftur með aðeins 40 króna orkukostnaði, og hins vegar fjögurra sæta frönsk flugvél, Jodel 1050, sem getur borið fjóra fullorðna með ítrustu sparneyhtni þótt hreyfillinn sé aðeins 100 hestöfl.
Hún er rúmlega 100 kílóum léttari en samsvarandi vélar og á það meðal annars að þakka, að vera úr undraefni sem nefnist tré, krossviður.
![]() |
Fékk flugmannsstarf aðeins tvítug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.5.2021 | 23:03
Löngu tímabært að hætta við að kenna drepsóttir við lönd og staði.
Nafngiftir á sjúkdómum hafa verið í miklu rugli öldum saman. Sumar drepsóttir hafa fengið tilviljanakennd nöfn tengd löndum, sem hafa sum hver ekki einu sinni verið nefnd réttilega.
Kominn er tími til að fjarlægja staðanöfn úr þessu nafnakerfi og setja tákn, tölur eða bókstafi í staðinn.
Eitt versta dæmið um arfavitlausa nafngift var spánska veikin, sem kom fyrst upp í Bandaríkjunum þegar Fyrri heimsstyrjöldin stóð sem hæst, en barst með bandarískum hermönnum á vígstöðvarnar i Frakklandi þar sem hermenn frá Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi voru fjölmennastir.
Óttast var að ef veikin yrði nefnd eftir einhverri styrjaldarþjóð myndi það hafa hættuleg áhrif á baráttuþrek hermannanna.
Þegar pestin barst til Spánar, sem var hlutlaus, var hún umsvifalaust nefnd eftir landinu og hefur svo verið síðan.
Á síðustu árum hafa svínaflensa, fuglaflensa, HIV og SARS veira komið til sögunnar, en sem betur fór var HIV ekki kennd við Bandaríkin eða Vestur-Afríku þaðan sem hún mun hafa komið.
Síðan hefur sigið hratt á ógæfuhliðina og heiti eins og kínaveiran, breska afbrigðið og indverska afbrigðið hertekið umræðuna.
Er mál að linni og vonandi gefast bókstafaheitin vel, sem nú er stungið upp á.
![]() |
Afbrigðin verði kennd við bókstafi en ekki lönd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.5.2021 | 12:44
1954 börðust "Sannir Vesturbæingar" og "Tigrisklóin" í Reykjavík.
Fátt er nýtt undir sólinni segir máltækið og það virðist eiga við fyrirbærið LARP sem greint frá í viðtengdri frétt á mbl.is.
Á vordögum 1954 var óróasamt meðal unglinga á femingaraldri í Reykjavík og voru stofnuð bardagasamtök sitt hvorum megin í Reykjavík, Sannir Vestubæingar í Vesturbænum og Tígrisklóin í Austurbænum.
Þetta voru sjálfsprottin samtök, sem stofnuðu bardagasveitir vopnuðum trésverðum og öðrum bareflum og héldu æfingar síðdegis.
Strákar í Holtunum hittust á æfingum við Vatnshólinn svonefnda, tyrfðan vatnsgeymi bæjarins skammt frá Sjómannaskólanum, sem á sér merka sögu sem ein og sér ætti að tryggja varðveislu hans.
Það kom að því að síðuhafi drægist inn í Tígrisklóna, en náði aldrei að fara nema á eina æfingu, sem fór fram uppi á vatnsgeyminum.
Þar var hann svo óheppinn að lenda á móti einum öflugasta og best búna stráknum, sem sótti svo hratt áfram, að flóttinn afturábak endaði með því að falla aftur á bak út af geyminum alveg upp við steypt suðvesturhorn hans.
Það var nokkurra metra hátt fall ofan í gaddavírsgirðingu sem særði til blóðs en tók mesta þungann af fallinu.
Verra var þó, að hægra viðbein brotnaði og lauk þar með örstuttri hernaðarþátttöku hins beinbrotna.
Við óhappið leystist æfingin upp og ekki fer frekari sögum af átökum Sannra Vesturbæinga og Tígrisklóarinnar hvað Holtabísarana snerti.
Bæjaryfirvöld í Reykjavík og bæjarbúar höfðu áhyggjur af þeim róstum og óróa sem ríkti hjá unglingum í borginni þessa blíðu vordaga, og næsta vor var reynt að setja undir þennan leka með því að efna til íþróttanámskeiða á Melavellinum, þar sem hægt var að fá leiðsögn í alls kyns íþróttum.
Þar áttu ýmsir íþróttamenn sem stóðu sig vel síðar, sín fyrstu spor á keppnisvellinum, og var ekki ónýtt hjá strákunum að fá smá tilsögn hjá átrúnaðargoðum þeirra tíma, Clausensbræðrum og fleirum.
![]() |
Vígbúist í Vesturbænum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.5.2021 | 06:17
Sýnir hve teflt er á tæpt vað.
Þrátt fyrir þá miklu fjármuni sem fer í heilbrigðis- og velferðarkerfi nútíma þjóðfélags sýna ýmsir flöskuhálsar í flæði þess glögglega, að vegna stærðar þess og fjölbreytileika er víða teflt á afar tæpt vað.
Einnig kemur í ljós hve furðu lítill munur er á þanþoli kerfisins í heild og einnig á einstökum sviðum þess og á þanþoli hins margfalt einfaldara og ófullkomnara heilbrigðiskerfis fyrri tíma, svo sem í spænsku veikinni fyrir rúmri öld.
![]() |
Skurðaðgerðum frestað á LSH |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.5.2021 | 23:17
Ekki má gleyma rányrkjunni í nýtingu þverrandi auðlinda jarðar.
Olíurisarnir eru að byrja á því að finna fyrir þeim hluta af ábyrgðinni sem jarðarbúar bera á þeirri rányrkju sem vinnsla og nýting jarðefnaeldsneysis.
Þegar litið er á línurit yfir olíuöldina, sést að sú öld er aðeins örlítið brot þess tíma sem jarðarbúar hafa lifað, en línan rís eins og ógnarhá súla hátt í loft upp og er nú að byrja óhjákvæmilegt fall sitt niður.
Það óumdeilanlega risavaxna verkefni að bregðast við óhjákvæmilegum óförum í orkubúskap og öðrum búskap mannkyns fellur hihs vegar um of í skuggann af þeirri miklu þrætubókarlist sem blásin er upp um áhrif manna á loftslagshlýnun.
Það hentar afturhaldsöflum að tala sem minnst um olíuófarirnar, af því að þar blasa meginatriði mála við.
Því má vel hugsa sér að stugga líka við olíurisunum í þeim málum ekkert síður en í loftslagsmálum.
![]() |
Þrefalt högg fyrir olíurisa í gær |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2021 | 13:50
"Ekki bæði hægt að eiga kökuna og éta hana."
Íslendingar hafa í meginatriðum verið langt á eftir öðrum þjóðum í meðferðinni á einstæðu náttúruverðmætum landsins. Þetta hefur blasað við í kynnisferðum um þjóðgarða, vernduð svæði og virkjanasvæði í fjölmörgum löndum beggja vegna Atlantshafsins.
Þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir hugðist koma á svipuðu fyrirkomulagi hér á landi varðandi gjaldtöku fyrir sjö árum kom í ljós alveg einstök andstaða við allar tilraunir til slíks hér á á landi og hugmyndin var steindrepin.
Rökin sem beitt var í andstöðuni, meðal annars að slíkt væri "niðurlæging og auðmýking" fyrir innfædda Íslendinga, voru í hrópandi andstöðu við það sem ritað er stóru letri á náttúrupassa Bandaíkjamanna, frelsisunnandi þjóðar: "Stoltur þátttakandi."
Og enn eru svipuð rök blásin upp í umræðunni um hálendisþjóðgarð og notuð hin verstu orð; ofríki, frelsissvipting og þaðan af verra.
Hveraröndin í Mývatnssveit er eitt þeirra svæða, sem lengi hefur mátt hafa áhyggjur af vegna takmarkalítils ágangs ferðamanna.
Nú virðist að birta til í þeim efnum og er fagnaðarefni ef búið er að finna leið til þess að láta orðtakið góða ganga þar í gldi: "Það er ekki bæði hægt að eiga kökuna og éta hana."
![]() |
Framkvæmdir og gjaldtaka við Hveri í Mývatnssveit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.5.2021 | 01:15
Vanræksla, sem getur hefnt sín grimmilega.
Þegar byrjað var að dreifa boluefni gegn kórónaveirunni á Vesturlöndum hófst strax mikið kapphlaup milli þjóðanna að fá hana í hendur á undan öðrum.
Hér á landi hljómaði hávær söngur krafna um að fara í hálfgeran hernað til þess að ná bóluefninu frá öðrum þjóðum og íslensk heilbrigðisyfirvöld átalin harðlega fyrir aumingjaskap.
Þessar raddir hafa nú hljóðnað eftir að í ljós kom að stefnan hér hefur skilað okkur framar en Bandaríkjunum og mörgum fleiri þjóðum.
Eftir stendur sú stóra hætta sem vofir yfir, ef hin ríkari þjóðir heims ætla að graðga í sig svo miklu af bóluefni, að milljarðar í fátæku löndunum lendi langt á eftir.
Fari svo telja sérfræðingar að vaxandi hætta verði á því að ný afbrigði muni fá þar fótfestu með þeim afleiðingum að í heildina tekið fari jarðarbúar miklu verr út úr stríðinu við pestina en ella hefði orðið.
Skammsýnin og græðgin mun á endanum gera alla verr setta.
![]() |
Nýtt afbrigði veirunnar greinist í Víetnam |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2021 | 19:16
Fárviðri á fyrrum "framtíðar flugvallarstæði" í gær.
Í ástríðufullri eftirsókn eftir því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður hafa komið upp fjölbreytt "framtíðar flugvallarstætði" hjá þessum trúarsöfnuði.
Nú síðast er það svonefnt Hvassahraun, svæði sem er í raun ekki til undir því nafni, heldur hefur það frá öndverðu heitið nöfnum eins og Afstapahraun, Rjúpnadalahraun eða Almenningur.
Hvassahraun er heiti á húsi, eyðibýli, en ekkert hraun heitir því nafni.
Þar á undan, milli 2006 og 2014 var blásin upp mikil herferð fyrir stæði fyrir innanlandsflugvöll á Hólmsheiði, í tæplega 150 metra hæð yfir sjó og tvöfalt til þrefalt nær 700-900 metra háum fjöllum en núverandi Reykjavíkurflugvöllur er.
Þar að auki hefði aðal flugleiðin inn til Hólmsheiðarvallar í algengustu rok vindáttinni orðið yfir Vogahverfið, Grafarvogshverfi, Úlfarsdalshverfið og Grafarholtshverfið.
Andstæðingum Reykjavíkurflugvallar hömuðust í áróðri sínum fyrir Hólmsheiðarflugvelli þangað til skyndilega var svo komið að þar var risið ríkisfangelsi.
Austsuðaustan rok er algengasta rokvindáttin á höfuðborgarsvæðinu og síðdegis í gær kom dæmilegt áhlaup.
Lærdómsríkt var að sjá mismuninn á Hólmsheiði og öðrum veðurstöðvum.
Á Reykjavíkurflugvelli komst vindurinn 25 metra á sekúndu í verstu hviðum, en á Hólmsheiði var samsvaranditala 37 metrar á sekúndu, sem jafngildir fárviðri.
Þetta var 50 prósent hvassara veður en var á Reykjavíkurflugvelli.
Það var ekkert einsdæmi, heldur vöruðu kunnugir menn við því að svona gerðist oft á hverju ári þegar umræðan um Hólmsheiðarflugvöll stóð.
Umræðan um Hólmsheiðarflugvöll breyttist nánast a einum degi þegar andstæðingar Reykjavíkurflugvallar skiptu því út fyrir Hvassahraunsflugvöll.
Þar er nálægð við meira en 600 metra há fjöll álíka áberandi og á Hólmsheiði en við það bætist nálægð við virkar eldstöðvar í nokkurra kílómetra fjarlægð, sem ekki er fyrir hendi á Hólmsheiði.
![]() |
Veðrið kom aftan að veðurfræðingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)