Færsluflokkur: Bloggar
6.6.2013 | 21:15
Mikilvægt símanúmer fyrir hálendis- og fjallafara: 9020600.
Hvað eftir annað undanfarin ár hafa gerst atburðir í hálendisferðalögum, þar sem ferðafólkið hefði fengið dýrmætustu upplýsingarnar með því að skoða vefinn vedur.is en ekki síður að hringja í sjálfvirkan símsvara Veðurstofunnar, 9020600.
Í gegnum hann er ekki aðeins hægt að fá upplýsingar um veður í mismunandi landshlutum með því að velja viðeigandi undirnúmer, svo sem 1,2,3,4 og 5, heldur sést fólki oftast yfir númer, sem getur skipt sköpum við það að meta veðuraðstæður á hálendinu, sem kynnt er undir heitinu "flugveðurskilyrði", númer 5.
Sem sagt: Hringja fyrst í 9020600 og bíða að fyrirmælum símsvarans í tvær sekúndur eftir því að gjaldfærsla hefjist. Hringja síðan í númer 5.
Þar er byrjað á því að gefa upp vindhraða, vindstefnu og hita í 5000 feta hæð, en það samsvarar 1500 metra hæð, sem er svipuð hæð og hájöklar landsins.
Ef hringt var í þetta númer í einna nýjasta tilfellinu, þegar erlendur ferðamaður tilkynnti um vandræði sín á Fimmvörðuhálsi, mátti heyra að þarna væri snælduvitlaust veður, yfir 30m/sekúndu og mikil rigning, því að hitinn væri um 8-9 stig og því gríðarleg bráðnun.
Ferðamaður, sem fær slíka veðurspá, lætur sér auðvitað ekki detta í hug að fara upp á Fimmvörðuháls eða jöklana þar í kring.
![]() |
Allir lækir vitlausir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.6.2013 | 13:34
Mývetnskt þor.
Nokkrum sinnum á ferli mínum sem fréttamaður og síðar kvikmyndagerðarmaður hef ég upplifað þrúgandi þöggun varðandi ákveðin mál í byggðum landsins. Það ríkti ástand, sem byggðist á því að þögn væri sama og samþykki við því sem átti að gera og gert var.
Sú stærsta var í gangi í aðdraganda stórvirkjana á Austurland þegar þeir, sem ekki þýddust fullkomlega í einu og öllu það sem virkjanamenn héldu fram, lentu í djúpri ónáð og aðkasti.
Út á við var mikil áhersla lögð á einhug vegna framkvæmdanna og var einróma samþykkt allra sveitarstjórna fjórðungsins gott dæmi um það, því að fyrirsjáanlegt mátti vera að þegar frá liði myndu ruðningsáhrif framkvæmdanna bitna á jaðarbyggðum og að verið var að fórna möguleikum til verndarnýtingar virkjanasvæðisins sem gæti haft jafnari og dreifðari áhrif.
Það var nóg að sýna myndir af þessu svæði til að fá skammaryrðið "óvinur Austurlands númer eitt."
Ég skynjaði svipað ástand í Vesturbyggð þegar sagt var að 99,9% líkur væri á að olíuhreinsistöð risi þar.
Maður heyrði engan á þeim tíma fyrir vestan sem áræddi að segja neitt misjafnt um þetta, - það ríkti alger þöggun, sem maður tók þátt í til að halda friðinn.
Frá og með 2007 var ég á ferli í Mývatnssveit í nokkur ár, stundum vikum saman og margoft á öllum árstímum og upplifði svipaða þöggun þar, - algera þögn, sem skoðast skyldi sem samþykki við hverju eina sem virkjanamenn segðu, ekki síst landeigendur Reykjahlíðar.
Ég var farinn að halda að þetta ástand yrði til frambúðar. En þegar meira en 200 manns komu saman til að minnast sprengingar Miðkvíslarstíflu sumarið 1970.
Allt í einu spratt þetta fólk fram, mér og fleirum til mikillar gleði.
En síðan virtist sem sækti í fyrra far. Formaður Landeigendafélags Reykjahlíðar skrifaði þrjár greinar í Morgunblaðið um nauðsyn þess að virkja allt sem virkjanlegt væri í þeirri gríðarstóru landareign og þá einkum Gjástykki.
Á borgarafundi um Bjarnarflagsvirkjun síðsumars í fyrra þögðu nær allir heimamenn þunnu hljóði.
Við Hjördís Finnbogadóttir vorum eitthvað að spyrja og malda í móinn og maður fann fyrir einmanakennd.
Svo virtist sem bloggskrif mín, birtingar mynda og greinarskrif í Fréttablaðið í ársbyrjun hefðu ekki haft hin minnstu áhrif, hvað þá fleiri skrif sem birtust í vetur.
Síðan var haldinn annar borgarafundur á dögunum og allt í einu var þögnin rofin og fjöldi heimamanna kvaddi sér hljóðs og spurði gagnrýnna spurninga.
Og nú koma sex landeigendur af sextán og segja að fréttatilkynning frá stjórn félagsins hafi ekki lýst afstöðu allra landeigenda.
Hér á árum áður voru tvö byggðarlög á Íslandi, þar sem manni skildist á ferðum sínum, að fólk væri sjálfstæðast og héldi fast fram gagnstæðum skoðunum, Jökuldalur og Mývatnssveit.
Hákon Aðalsteinsson var dæmi um Jökuldæling sem þessu marki var brenndur, þorði að andæfa virkjununum þótt nánustu skyldmenni hans tæki hressilega undir virkjanakórinn.
Á tímabili síðustu ár var ég farinn að halda, að Kísiliðjan og Krafla hefðu barið allt slíkt niður í Mývatnssveit.
En nú er komið í ljós að mývetnskt þor er ekki liðið undir lok, sem betur fer, þökk sé þeim, sem nú hafa stigið svo sem minnihluti landeigenda Reykjahlíðar, sem kannski er ekki minnihluti, hver veit?
![]() |
Lýsir ekki afstöðu allra landeigenda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.6.2013 | 12:06
Náttúru norðausturhálendisins var aldrei gefið tækifæri.
Í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar var ég stundum spurður að því á fundum, hvaða skoðun ég hefði á henni. Þá var ég fréttamaður hjá Sjónvarpsinu og forðaðist því að segja eða gera nokkuð það sem gæti túlkast annað hvort sem andstaða mín eða meðmæli.
Ég svaraði því þannig að enn hefði ég ekki nógu góðar upplýsingar um málið til að geta tekið opinbera afstöðu.
Til þess að geta gert það þyrfti að hafa rannsakað tvo nýtingarmöguleika.
1. Að reisa álver í Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun og afmá Jökulsá á Brú af yfirborði jarðar.
2. Að bíða með þetta og gefa fyrst 10-20 ár til þess að setja virkjanasvæðið á heimsminjaskrá UNESCO og gera það sem þjóðgarð aðgengilegt fyrir ferðamenn. Höfða til þess að ekkert fljót í heiminum og skriðjökullinn, sem það kemur úr, búa yfir jafn hröðum sköpunarmætti í krafti aurburðar og jafn miklum rennslissveiflum og Jökla og Brúarjökull; - að flest sköpunarverk þeirra, Krákustígshryggirnir, Hraukarnir, sethjallarnir í Hjalladal, Staparnir, Rauðaflúð og komandi Rauðagljúfur og Dimmugljúfur, eiga sér enga hliðstæðu. Í Jökulsá í Fljótsdal tveir af tólf stórfossum Íslands og hinn þriðji í Kringilsárrana. Eftir 20 ára reynslutíma yrði metið hvort gæfi meira af sér, orkunýting eða verndarnýring.
Það yrði að kanna þetta í þessari röð, friðun fyrst, því að munur á friðun og virkjun er sá, að ef virkjað er á óafturkræfan hátt eins og eysra, útilokar það friðun síðar.
En friðun útilokar ekki virkjun síðar.
Þegar niðurstaða samanburðar lægi fyrir og yrði ég lifandi þá, skyldi ég taka opinbera afstöðu.
Til þess kom ekki. Það var vaðið í álerið. Náttúru norðausturhálendisins var aldrei gefið tækifæri. Einblínt var á byggð í miðju fjórðungsins en ekki á þá möguleika fyrir allt svæðið, sem þjóðgarður gæfi fyrir allar byggðirnar í kring, bæði á Miðausturlandi og í jaðarbyggðunum.
Lengi hafa verið möguleikar á því að gera Egilsstaði og Fljótsdalsheiði að miðstöð jólasveinsins með mun meiri og fjölbreyttari möguleikum til þess en Rovaniemi í Finnlandi hefur og nýtir sér allt árið.
Það hefur verið afgreitt með þögninni og háðsyrðunum "eitthvað annað" þótt Rovaniemi byggi ferðamannastraum allt árið á jólasveininum.
Nú er of seint að bregðast við. Ferðamenn frá stórskógalöndum Evrópu og Ameríku munu ekki streyma til Austurlands til að fara í Hallormstaðaskóg eða skoða álver og stíflur. Raunar oft ófært til stíflanna snemmsumars í bestu og björtustu veðrum vegna leirfoks úr lónstæði Hálslóns.
Nú er kvartað yfir dauða Lagarfljóts og ljótum lit þess og yfir lítlum ferðamannastraumi eystra. Það var allt fyrirsjáanlegt og menn vildu þetta.
![]() |
Vilja millilandaflug til Egilsstaða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2013 | 10:17
Orðin góðu vön.
Síðan um aldamótin erum við Íslendingar orðnir svo góðu vanir varðandi hlýtt veðurfar að komi einn og einn mánuður eins og maí í vor, finnst okkur þetta vera harðindi. Þó voru aðeins fyrstu dagar mánaðarins kaldari en í meðalári.
Til dæmis um þessa kuldatilfinningu landans hefur að sjálfsögðu verið gert mikið veður út af snjóþyngslum á landinu og Fljótin í Skagafirði nefnd sem gott dæmi um það, svo að halda mætti að þau hafi verið alger einsdæmi.
Í fróðlegri úttekt Trausta Jónssonar veðurfræðings nýlega kom hins vegar fram að á síðari hluti aldarinnar sem leið voru svona snjóþyngsli alvanaleg og furðu marga máímánuði var alhvít jörð í Fljótum allan mánuðinn og maí því vetrarlegri þau árin en hann hefur verið nú.
Sum árin eftir 2000 hafa allir mánuðir viðkomandi árs verið hlýrri en í meðalári.
Þessa fyrstu daga júní er afar hlýtt. Þannig er tveggja stiga hiti í 3000 metra hæð og frostleysið í meira en 30 metra vindi á sekúndu nær 1000 metra upp fyrir hæsta tind Íslands, Hvannadalshnjúk.
Í slíku veðri er afar mikil og ör snjóbráðnun á öllu hálendinu.
![]() |
Kaldasti maí í Reykjavík frá 2005 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.6.2013 | 21:46
Eins og búast mátti við.
Í dag hefur verið fyrsti alvöru hlýindadagur sumarsins og hitinn komist í 13 stig í Básum á Goðalandi, sem er aðeins fyrir innan vöðin á Krossá og í svipaðri hæð.
Ef bílstjórar og fararstjórar í skólaferðalaginu, sem sagt er frá í fréttum mbl.is, hefðu hringt í veðurstofusímann 9020600 og valið númer 5, hefði símsvarinn þar sagt þeim þegar í stað, að uppi í 1500 metra hæð (5000 fetum) sem er 20 metrum hærra en Mýrdalsjökull, væri bálhvasst og sex stiga hiti.
Um jökulinn, sem Krossá kemur úr, flæddi sem sé heitt loft sem sá til þess að allur snjór á jöklinum væri í örri bráðnun og nóg af snjónum eftir veturinn.
Af sjálfu leiddi að ef það ætti að vera 100% öruggt að komast klakklaust yfir ána þyrfti að draga viðkomandi farartæki til öryggis alla leið, því að fyrstu alvöru vatnavextirnir væru á fullu.
Festa strax taug úr rútunni yfir í öflugt dráttartæki, áður en farið væri út í ána.
Þegar farið er yfir ána í þessum ham verður að aka eins mikið og unnt er niður ána í sömu átt og straumurinn liggur til þess að láta strauminn hjálpa bílnum og koma í veg fyrir að hann velti honum eða hamli för hans.
Ekki er svo að sjá á myndinni, sem fylgir fréttinni, að það hafi verið gert, heldur ekið þvert á strauminn.
Það sem gerðist var nákvæmlega það sem búast mátti við.
![]() |
Skólabörn festust í Krossá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.6.2013 | 08:42
Af hverju ætti að setja á sérstök gjöld eftir þjóðerni?
Fróðlegt er að fylgjast með algengum viðbrögðum okkar Íslendinga við fjölgun ferðamanna.
Í stað þess að fagna því, að spáð er að ferðaþjónustan fari fram úr sjávarútveginum á þessu ári varðandi tekjur okkar af henni, er gert lítið úr henni með því að kalla hana "eitthvað annað" í háðungarskyni, af því að hún er ekki stóriðja, og sungið hátt um það hvílíkur átroðningur og skemmdir verði af völdum hennar.
Er hið síðarnefnda þó eingöngu vegna þess að í nísku okkar og græðgi tímum við ekki að fara að dæmi annarra ferðamannaþjóða, og verja smábroti af tekjunum af ferðamönnunum til framkvæmda á ferðamannastöðunum, sem koma í veg fyrir slíkar skemmdir og auðvelt er að framkvæma.
Nú síðast er grátið yfir því að kostnaður geti hlotist af því að leita og bjarga ferðamönnum, sem gera mistök eins og við sjálf og komast í hættu.
Heimtað er að þeir og allir útlendingar, sem komi til landsins, verði teknir sérstaklega út úr til að borga fyrir leitina.
Í gær var Landhelgisgæslan verðlaunuð verðskuldað fyrir björgunarafrek þegar hún bjargaði sjómönnum, þar sem skipstjórinn hafði sofnað og keyrt splunkunýjan bát á fullri ferð upp í harða grót undir bröttu bjargi.
Hvernig sem reynt verður, verður aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir mistök og óhöpp.
Nógu mikið þekki ég til sjósóknar til að vita, að það hefur hent þreytta sjómenn mörg hundruð sinnum í sögu íslenskrar útgerðar að sofna við stýri og hefur líka hent þúsundir ökumanna í gegnum tíðina.
Af hverju er þá aðeins krafist þess að útlendingar borgi sérstakt gjald og það sem allra hæst en ekki við sjálf? Ættu þeir þá ekki að borga sérstakt gjald fyrirfram fyrir kostnaðinn af því að þeir sofni við stýri undir bíl.
Spurt er: Hverjir borga? Jú, við höfum hingað til borgað fyrir þetta með sköttum okkar og gjöldum, sem renna í ríkissjóð.
Og útlendingarnir skila sínum tugum milljarða í íslenskan ríkiskassa stanslaust í gegnum einn hæsta virðisaukaskatt í heimi og meira en helminginn af verðinu, sem borguð eru fyrir eldnsneytið á fararækin, sem þeir eru í meðan þeir dvelja í landinu.
Af hverjur ættu þeir frekar að borga aukagjöld af ýmsu tagi, bara af því að þeir eru ekki Íslendingar?
Af hverju á það að fara eftir þjóðerni, hvort leitað sé að fólki og því bjargað og hverjir borgi fyrir það?
![]() |
Greiddu 13,7 milljarða með korti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
2.6.2013 | 21:36
Hermann var ekki í stjórninni 1953-56.
Umfjöllun Guðna Th. Jóhannessonar um þær stjórnir, sem Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hafa setið saman í, er hin ágætasta. Þó má gera tvær athugasemdir.
Það er ekki rétt að Ólafur og Hermann hafi setið saman í stjórn 1950-56. Hvorugur gat sætt sig við að sitja í stjórn undir forsæti hins, allt frá 1942 og fram á sjöunda áratuginn.
1947-49 var þriggja flokka stjórn undir forsæti Stefáns Jóhanns Stefánssonar, formanns Alþýðuflokksins, og það lýsti hnútinn í bili,
En hvorki Ólafur né Hermann sátu í þeirri stjórn.
En síðan tók við minnihlutastjórn Ólafs Thors og allt var í hnút í einni lengstu stjórnarkreppu lýðveldistímabilsins veturinn 1949-50.
Þá hófst sex ára samstarfstímabil flokkanna.
Þegar Ólafur myndaði samstjórn flokkanna 1953 gat Hermann því ekki hugsað sér að sitja í þeirri stjórn heldur kaus frekar að vera formaður án ráðherraembættis. Í stjórninni 1950 til 53 var lausnin sú að Steingrímur Steinþórsson varð forsætisráðherra, maður sem var þannig staðsettur í stjórnmálunum að engin "hætta" var á því að hann næði í fremstu röð áhrifamanna.
Þetta var ekki ólíkt því sem gerðist hjá R-listanum þegar Ingibjörg Sólrún hætti, þ. e. fundinn samnefnari sem ekki var of hár.
1950-53 var Ólafur því sjávarútvegsráðherra og Hermann landbúnaðarráðherra.
Með Hermann alveg utan stjórnar eftir 1953 bar sú stjórn dauðann í sér. Stjórnin var fyrst og fremst mynduð til að klára verkefni fyrri stjórnar varðandi uppbyggingu fyrir Marshallféð og vegna ástandsins innan lands í Kalda stríðinu. Um tíma var jafnvel ætlunin að "hernámsflokkarnir" þrír, Sjallar, Framsókn og Kratar væru í stjórn "lýðræðisflokkanna".
En Þjóðvarnarflokkurinn og "þíðan í samskiptum risaveldanna eftir lát Stalíns og lok Kóreustríðsins, breytti ástandi alþjóðastjórnmála og ógnaði fylgi Framsóknar.
Hermann notaði tímann utan stjórnar til að byggja brú á laun í gegnum Finnboga Rút Valdimarsson yfir til "kommanna" og vinstri arms Alþýðuflokksins, sem hópaðist í kringum Hannibal Valdimarsson og Málfundafélag jafnaðarmanna.
Afleiðingin varð vinstri stjórnin 1956-59 undir forsæti Hermanns.
1974 hafði Ólafur Jóhannesson verið mjög áberandi og öflugur í embætti forsætisráðherra og stjórnarmyndunarviðræðurnar gengu erfiðlega af því að margir Sjálfstæðismenn gátu ekki kyngt því að hann yrði áfram forsætisráðherra og efldist enn frekar meðal þjóðarinnar.
Ólafur var með stjórnarmyndunarumboðið en Geir Hallgímsson varð forsætisráðherra og gárungarnir sögðu að Ólafur hefði myndað stjórn fyrir Geir Hallgrímsson og fannst sumum það háðulegt og Ólafi til vegsauka en Geir til minnkunar.
Hvort sem það var ýkt eða ekki má segja að Geir hafi aldrei náð sér almennilega á strik eftir þetta, þótt hann yrði forsætisráðherra, einkum eftir að stjórn hans beið afhroð í Alþingiskosningunum 1978.
Stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens 1980 og síðan það, hvernig Geir lenti síðar í sjöunda sæti í prófkjöri í Reykjavík, lék Geir grátt.
Hann sýndi samt mikla stjórnvisku, framsýni og lagni þegar honum tókst að halda Sjálfstæðisflokknum formlega saman 1980-83, þannig að flokkurinn gat farið samhentur út í kosningar það ár.
Það var að mörgu leyti ekki ólíkt því hvernig Ólafi Thors tókst það sama við myndun Nýsköpunarstjórnarinnar 1944 gegn andstöðu fimm Sjálfstæðisþingmanna.
![]() |
Stormasamt samstarf í gegnum tíðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.6.2013 | 13:58
Stundum þarf svo lítið til að villast.
Allir hafa villst einhvern tíma á ævinni. Jafnvel örstutta stund inni í myrkri inni hjá sér. Ég hef líkast til verið 4-5 ára gamall þegar ég villtist í fyrsta sinn.
Mamma hafði farið til tannlæknis við Óðinstorg og ég átti að bíða á biðstofunni á meðan.
Á þessum árum var ég talinn furðulegur að því leyti að þegar hún var á ferli með mig, til dæmis í heimsókn hjá vinkonu, var ég settur niður á stól eða í sófa og sat þar við kyrr með eigin hugsanir tímunum saman án þess að segja orð.
En í þetta skipti varð eitthvað til þess að ég labbaði út á götu og gleymdi mér alveg við að skoða mig um þangað til ég áttaði mig á því að ég var rammvilltur.
Þegar svona háttar til er eins og öll hús verði eins og þannig varð það í þessari villugöngu.
Svo hugkvæmdist mér að leggja eitt ákveðið hús á götuhorni á minnið og ganga eins langt og ég komst frá því í ákveðna átt og ég komst án þess að missa sjónar á því.
Síðan gekk ég aftur að þessu hornhúsi og fór á svipaðan hátt í hina áttina.
Svona gekk ég fram og aftur lengi í allar áttir út frá þessu húsi og kom tvívegis að gatnamótum, sem voru mjög lík. Þá ákvað ég að sjá hvort ég kæmist inn í eitthvert hús sem mér fannst líkjast húsinu sem tannlæknastofan var í.
Loksins kom ég að inngangi, þar sem auðvelt var að komast lengra inn í húsið og viti menn: Þetta var þá húsið sem tannlæknastofan var í og örfáum mínútum seinna kom mamma út frá tannlækninum og hélt að ég hefði verið þarna kyrr allan tímann.
Rúmlega 60 árum seinna gerðist svipað atvik á gerólíkum stað og að var eins og ég væri orðinn 4-5 ára á ný og hefði nákvæmlega ekki lært neitt.
Ég var akandi á leið út eftir Fljótsdalsheiði í ljósaskiptunum, kvöldþokan var farin að læðast um alla heiðina eftir að sólin hafði sest og loft byrjaði að kólna og rakamettast, þegar skyndilega blasti við langstærsta hreindýrahjörð, sem ég hafði nokkurn tíma séð.
Hreindýr voru styggari á þessum slóðum þá en nú og fóru strax að færa sig og augljóst að þau myndu hverfa á skammri stund inn í þokuna, svo auðséð var, að ef ég ætti að ná mynd af allri hjörðinni yrði ég að fara samstundis út úr bílnum með myndavélina og þrífótinn eins og ég stóð, og ég bjóst við að ekki yrði hægt að ná hinni þráðu mynd, nema alveg í upphafi, - bjóst því ekki við að ganga nema smáspöl.
Í þessum flýti gleymdi ég því að farsímarnir mínur voru ekki í vasa mínum, eins og venjulega, heldur lágu saman í hægra framsætinu.
Ég mátti hafa mig allan við að komast í skotfæri við hjörðina áður en að hún kæmist úr sjónfæri og náði þarna loks mynd af langstærstu hreindýrahjörð sem kvikmynduð hefur verið hér á landi, um 800 dýr þegar þau voru talin á myndinni daginn eftir í frétt, sem var afrakstur af eldsnöggu viðbragði, útsjónarsemi með blöndu af flýti og varfærni.
Þokuloftið, sem umlukti þessa risastóru hjörð þessa mínútu, sem hún sást öll, áður en hún gliðnaði og þokan fór að gleypa hana, gerði þetta stutta myndskeið óviðjanlegt.
Rétt í þann mund sem um mínútu langt skot náðist af allri hjörðinni hvarf hún inn í þoku sem skall á og ég áttaði mig á því, mér til mikillar armæðu, að ég var í raun rammvilltur, sá ekki lengur veginn þar sem ég hafði hlaupið út úr bílnum.
Og ekki bara það, bíllinn stóð uppi á vegarbrún, opinn með lyklana í svissinum!
Í svona villu í þoku er illmögulegt að átta sig á því hvernig landið hallar ef það er ekki þeim mun brattara, nema finna læk.
Nú kom þrífóturinn í góðar þarfir. Ég stillti honum upp og gekk í átt frá honum eins langt og ég sá til hans. Gekk þá í eins víðan hring í kringum hann og hættandi var á til að kanna umhverfið, - lagði á minnið ákveðna kletta og steina á einum staðnum, þar til komið var að sama stað aftur í þessum gönguhring.
Þá gekk ég beint að þrífætinum með augun á steinunum og fór síðan með þrífótinn að þeim og gekk nú beint í gagnstæða átt og endurtók hringgönguna, var nú búinn að stækka könnunarsvæðið tvöfalt.
Þetta var agalegt. Búinn að gera ótal fréttir og fara í ótal ferðir og leitir vegna týnds fólks og var sjálfur að klúðra sams konar máli á ömurlegan hátt !
Hafði meira að segja ekki gefið mér tíma til að grípa neina flík með mér. Þetta yrði frétt til næsta bæjar. Kvaddar út björgunarsveitir til að leita að heimskum fréttamanni sem sjálfur var félagi í björgunarsveit !
Því að ef bíllinn fyndist mannlaus og opinn með lyklunum í svissinum og tvo farsíma í hægra framsætinu var víðbúið að menn færu að leita að þessum fjallheimska manni, sem hlaut að hafa villst á heiðinni.
En við þessu var ekkert að gera og aðalatriðið að ana ekki út í þokuna heldur stækka svæðið, sem ég var að kanna, á skipulegan hátt.
Þegar ég var í þriðju stækkuninni rofaði allt í einu aðeins til smástund og mér til mikillar gleði sá ég glytta í þjóðveginn, og áður en hann hyrfi aftur í þokumóðuna, tókst mér að komast að honum.
Vissi að ég hafði villst austan við hann og farið í norður, þannig að leiðin lá eftir honum til suðurs að bílnum, sem fljótlega kom í ljós.
Í raun hafði ég verið að leita að sjálfum mér eftir ákveðnu skipulagi þennan tíma sem ég var var villtur, þannig að ég ætti ekki hættu á að villast um langan veg og að því leyti hafði ég farið eftir boðorðinu um að halda sem mest kyrru fyrir nálægt upphafsstað.
Já, það þarf stundum svo lítið til að villast og þá geta mistök, sem virðast smá, orðið svo stór. Bara það eitt að grípa ekki annan farsímann voru arfamistök.
En eftir á huggaði ég mig við það að hafa náð myndskeiði af stærðargráðu, sem aldrei hafði náðst áður, og hefur ekki náðst síðan, - næst kannski aldrei aftur.
Og meðan ég var villtur var ég búinn að sætta mig við það að ef það þyrfti að kalla út leit, myndi ég með því krækja mér í aðra frétt í viðbót við hina ! Segið þið svo að fréttamennska geti ekki kostað fórnir!
![]() |
Gekk berfætt í snjónum á fjallinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.6.2013 | 01:34
"Sjung om studentens lykliga dag!" "Góðar og glaðar stundir!"
Það er skemmtilegt að heyra lýsingu Sigfríðar Nieljohiusdóttur á því þegar hún varð stúdent frá M.R. 1938. Mér sýnist á þessari lýsingu að minna hafi breyst milli 1938 og 1960 en eftir 1960, enda kannski eðlilegt vegna þess að fyrra tímabilið er 22 ár en hið síðara er 53 ár.
Dimmissjonar-dagurinn árangsins míns, 12. apríl 1960; er í eins fersku minni og hann hefði verið í vor. Það var svo gott veður allan daginn og hópurinn var svo samstilltur í að fagna þessum áfanga, kennararnir kvaddir um morguninn, dimmittendar og remanentar sungust á á skólatröppunum, og ég man hvað það var skemmtilegt þegar farið var á bílum suður fyrir Hafnarfjörð áleiðis í Kaldársel; man ekki hve margir þeir voru, en NSU-Prinzinn kom í góðar þarfir í þessari "picnic"ferð.
16.-18. júní voru svipaðir dýrðardagar og Sigfríður lýsir, farið í hópum um bæinn og sungið og sungið með hvítu kollana.
Mig rámar í að við hittum biskup og forsætisráðherra, og nýlega var rifjað upp, að þeir báðir höfðu fengið 3ju einkunn á stúdentsprófi þegar þeir útskrifuðust !
Skandinavískir stúdentasöngvar, einn þýskur og gott ef ekki eitthvað á ensku, allt var þetta sungið stanslaust auk íslenskra laga, sem voru með svipuðum blæ.
Ég minnist samkomu í Þjóðleikhúskjallaranum og stúdentasamkomu á Hótel Borg, þar sem manni fannst 20 og 30 ára stúdentar vera hálfgerð gamalmenni.
Þegar yngsta dóttir okkar Helgu, Alma, varð eina barnið okkar til að verða stúdent frá M.R. 1995, (hin flest fóru í M. H.), átti hún lengi erfitt með að skilja, af hverju M.R. og árin þar voru í svona miklum ljóma hjá mér og mér svona kær.
Henni fannst skólinn gamaldags, húsnæðið óhentugt, og kennslan ekki alveg í takt við tímann.
Ekki fylgst nógu vel með þróuninni. Rektorinn gamall.
Mér fannst á móti undarlegt hvernig gömlu stúdentasöngvarnir og aðrir söngvar, sem voru ein af mikilvægum hefðum skólans, höfðu horfið með árunum, og hvernig Guðni Guðmundsson gæti nokkurn tíma orðið gamaldags.
En daginn eftir stúdentafagnaðinn sagði hún mér að síðustu vikurnar og mánuðina hefði hún fyrst uppgötvað þann ólýsanlega sjarma, sem skólinn og tradisjónir hans (afsakið, hefðir) hans bjuggu yfir og þá kom í ljós að hefðirnar hefðu ekki verið eins mikið horfnar og ég hafði haldið.
Og þegar Guðni söng Alúettuna sína með sínum einstæðu tilþrifum á fagnaðinu sá hún hann í alveg nýju, já, í sínu rétta ljósi.
Á sínum tíma var ég í stundum í meira samneyti við bekkinn á undan mínum bekk og kannski hafði það hjálpað mér til að grípa þennan sérstaka anda skólans fyrr en ella.
En kannski var félagsstarfið í skólanum, einkum starfið í Herranótt, með nemendum úr bekkjunum á undan og eftir, sem mestu skilaði í þessum efnum.
Yrirleitt eru táningsárin það tímabil ævinnar sem í mestum ljóma skína þegar árin líða.
Árin í Lindargötuskólanum, Landsprófi og þó einkum árin í M.R. eru þau ár ævinnar sem ég er einna þakklátastur fyrir og reyndi löngu síðar að túlka það í eftirfarandi texta við yndislegt lag Sigfúsar Halldórssonar, sem hann gerði upphaflega við ljóð á norsku eftir Kristmann Guðmundsson.
Við Sigfús voru félagar í Lionsklúbbnum Ægi, og þegar Magnús Ingimarsson, sömuleiðis félagi þar um hríð, gerði fjórraddaða útsetningu við lagið, (sem Sigvaldi Snær Kaldalóns hefur varðveitt), og lét sönghópinn M.R. 60 syngja það, varð það að ráði hjá okkur Sigfúsi, að ég gerði við það íslenskan texta; þennan hér:
GÓÐAR OG GLAÐAR STUNDIR.
Góðar og glaðar stundir
geymast í huga og sál
vina sem orna sér ennþá
við æskunnar tryggðamál.
Þær stundir leiftrandi lifa;
svo ljúfsárt minningaflóð!
Og okkur til æviloka
yljar sú forna glóð.
Allt er í heimi hverfult.
Hratt flýgur stund, lán er valt.
Góðar og glaðar stundir
þú geyma við hjarta skalt
og magna eld, sem að endist,
þótt annað flest reynist hjóm.
:,: Hann logar fegri og fegri,
þótt fölni hin skærstu blóm :,:
![]() |
Fagnaðarlætin stóðu í marga daga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.6.2013 | 19:04
Sparakstur: Sæmilegt tímakaup.
Þegar niðurstöður eru birtar úr keppni í sparakstri finnst mörgum niðurstöðurnar svo ótrúlegar að þær geti ekki verið réttar. En þær gefa ákveðna hugmynd um það hvernig hægt er að ná furðu miklum sparnaði í akstri, svo góðum, að ef menn reikna út þann tíma, sem það tafði þá í ferðinni við að aka á hagkvæmum hraða, er tímakaupið bara furðu gott, jafnvel meira í sumum tilfellum en ef þeir hefðu unnið þessar "glötuðu mínútur" fyrir kaupi í atvinnugrein sinni.
Sparaksturinn á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar þyrfti hins vegar að vera þannig, að keppendum sé sett það fyrir að fara leiðina á ákveðnum lágmarkstíma.
Ástæðan er sú að í raunveruleikanum eru takmörk fyrir því hve hægt sé hægt að aka án þess að valda vandræðum fyrir aðra umferð.
Á sumum köflum er ekki hægt að bjóða þeim sem eru á eftir manni upp á það að þurfa að lenda á eftir slíkum "lestarstjóra".
Því þyrfti til dæmis að setja aksturinn þannig upp, að bílstjórunum sé skylt að stansa í 20 mínútur á tveimur stöðum á leiðinni til eðlilegrar hvíldar og að ferðin taki ekki meira en 5 klukkustundir í akstrinum sjálfum, en það samsvarar um 77 kílómetrum á klukkustund.
Reynsla mín af því að aka þar sem það er hægt vegna annarrar umferðar á rúmlega 80 kílómetra hraða í staðinn fyrir að liggja við 95 eins og svo margir gera, skipuleggja aksturinn þannig, að lítið sé um snögga hraðaaukningu, og láta fríhjóla niður þar sem það kemur ekki um of niður á heildarrennslinu, er sú, að það sparist um 2 lítrar á klukkustund á bíl, sem eyðir annars um 10 lítrum á hundraðið.
Svona akstur verður um 40 mínútum lengri til Akureyrar en eyðslan minnkar um alls 8 lítra, sem kosta um 2000 krónur. Það gerir um 3000 króna á tímann þessar auka 40 mínútur, sem er álíka kaup og menn með 500 þúsund krónur á mánuði fá.
Ef bíllinn er einn af þeim nýjustu, minnstu og sparneytnustu, verður sparnaðurinn minni, kannski helmingi minni, en er nokkuð að því að fá borgaðar 1500 krónur á tímann?
![]() |
Sparaksturskeppendur langt komnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)