Tímamót. Hvað um Jón Pál og Hjálm ?

Íslendingar hafa alltaf átt menn, sem hafa verið efni í bardagaíþróttamenn á borð við Gunnar Nelson, sem nú gleður alla, bæði okkur landa hans og aðra með likamlegri og andlegri hæfni sinni. Árangur hans markar tímamót í íslenskum bardagaíþróttum, ef frá er talin frækileg frammistaða Bjarna Friðrikssonar á Ólympíuleikunum í Los Angeles.

Slíkar íþróttir liggja vel, bæði andlega og líkamlega, við íslenskum hreystimennum. Íslenska glíman gaf mönnum á borð við Jóhann Þ. Jósefsson, Hallgrím Benediktsson, Hermann Jónasson, Ármann J. Lárusson, Sigtrygg Sigurðsson og Hjálm Sigurðsson tækifæri til að láta til sín taka hér heima, en vettvangurinn var alltof þröngur hjá þjóð, sem var langt fram eftir síðustu öld innan við 200 þúsund manns.

Jóhann Jósefsson braust út úr þessu og fékk það mikinn frama erlendis í fangbrögðum að hann kom til Íslands sem ríkur maður og reisti Hótel Borg.

En bann við hnefaleikum af öllu tagi, líka tafði fyrir því í hálfa öld að íslenskum mönnum með hæfileika á þessu sviði gæfist jafn fjölbreytt tækifæri hér heima og í öðrum löndum til að fara út á þessa braut.

Oft er það svo, að það eitt að prófa viðkomandi íþróttagrein nægir til að hún verði fyrir valinu en ekki einhver önnur.

Ég er nokkuð viss um það að í þeim Jóni Páli Sigmarssyni, Ármanni J. Lárussyni og Hjálmi Sigurðssyni bjuggu miklir hæfileikar til þess að verða hnefaleikarar á  heimsmælikvarða.

Það sást vel þegar Jón Páll Sigmarsson var upp á sitt besta, að hann bjó yfir einstakri yfirburða blöndu af stærð, afli, hraða, snerpu og þoli, sem ég tel að hefði skilað honum upp í fremstu röð hnefaleikara heims í kringum 1980 þegar Ali og Foreman drógu sig í hlé.

Jón Páll hefði getað orðið annar tveggja Norðurlandabúa, sem hampaði heimsmeistaratitli í þungavigt, og ekki ónýtt að feta í fótspor Ingemars Johannssonar. Hjálmur Sigurðsson hafði svipaða hæfileika í sínum þyngdarflokki og maður hefur séð hjá Floyd Mayweather, einkum í varnaraðferðum í sérflokki.  


mbl.is Glæsilegur sigur Gunnars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er reyndar ekki viss um að Jón Páll Sigmarsson hefði staðist lyfjapróf, sem nú er skylda.

Guðmundur (IP-tala skráð) 17.2.2013 kl. 14:59

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jón Páll hefði komið inn í hnefaleikana fyrir meira en 30 árum þegar lyfjaprófin í hnefaleikunum voru ekki eins og þau eru orðin nú.

Ómar Ragnarsson, 17.2.2013 kl. 15:25

3 Smámynd: Sævar Óli Helgason

"Maður pissar nú ekki bara fyrir hvern sem er..." Tíhíhí...!

Sævar Óli Helgason, 17.2.2013 kl. 15:29

4 identicon

ég er ekki viss.Hjalti Úrsus fékk að kenna á því þegar hann hélt að vöðvaaflið eitt myndi færa honum sigra í hnefaleikahringnum.Jón var snarpur,spurning samt hversu góður hann hefði verið í að lesa andstæðinginn,nú eða hvort hann hefði hæfileika til þess að rota menn,yfirleitt.Pudzianowski sterkasti maður heims,er búinn að læra sína lexíu í hringnum.

Dodds (IP-tala skráð) 17.2.2013 kl. 15:31

5 Smámynd: Björn Geir Leifsson

Sorglegt að kalla það íþrótt þar sem eitt helsta keppikeflið er að valda heilaskaða á andstæðingnum.

Björn Geir Leifsson, 17.2.2013 kl. 15:34

6 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Sammála Björn Geir.  Mér finnst þessi hugtök eiga heima á sínum hvorum enda kvarðans, það er íþróttir á öðrum endanum og keppni í ofbeldi (box) á hinum.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 17.2.2013 kl. 15:45

7 identicon

Bjarni Friðriksson vann bronsið í Los Angeles...

Reynir (IP-tala skráð) 17.2.2013 kl. 15:49

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

þÚ segir Ómar;

"En bann við hnefaleikum af öllu tagi, líka tafði fyrir því í hálfa öld að íslenskum mönnum með hæfileika á þessu sviði gæfist jafn fjölbreytt tækifæri hér heima og í öðrum löndum til að fara út á þessa braut."

MMA, íþrótt Gunnar er að ég held bönnuð hér á landi. Einungis ólympískir hnefaleikar er leyfðir hér þar sem höfuðhögg koma við sögu.

Tek undir með aths. #4. Hjalti átti ekki séns.

En Gunnar er frábær og ég hef ALDREI verið eins stressaður fyrir beina útsendingu og í gærkvöldi. Ég hef hins vegar áhyggjur á vörn hans gegn góðum hnefaleikara. Ég held að hendurnar svona niðri kunni ekki góðri lukku að stýra.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.2.2013 kl. 16:04

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Á móti kemur er að hann er sennilega fljótari að grípa í menn og skella þeim niður, með þessa stöðu og þar er klárlega hans styrkleiki.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.2.2013 kl. 16:08

10 identicon

Það er að verða ljóst hvað andstæðingur sem ætlar að leggja Gunar þarf að hafa.

Hann á ekki von á góðu blessaður!   Til að sigra Gunnar þarf andstæðingurinn að ná honum áður enn farið er í fangbrögð í gólfinu.  Mjög öflugan hnefaleikamann með minni getu í fangbrögðum þarf til að sigra Gunnar.  Trúlega rothögg og styttist í það.   En þolið og seiglan, þar ná þeir honum ekki. Gunnar er eiginlega eins og krókodíll, ef hann nær að draga bufflana niður í vatnið þá eru þeir búnir að tapa.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.2.2013 kl. 16:36

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er ekki takmark hnefaleikara að valda viðfangsmönnum sínum heilaskaða, ekki frekar en það sé takmark mikilla skallamanna í knattspyrnu að valda sér heilaskaða.

Takk fyrir Los Angeles ábendinguna og breyti þessu í pistlinum. Ég segi hvergi að Hjalti Ursus hefði átt möguleika í hnefaleikum, enda tel ég það hefði verið fráleitt.

Jón Páll Sigmarsson á hátindi getu sinnar, maður, sem gat líka orðið Íslandsmeistari í vaxtarrækt, var klassa eða jafnvel klössum fyrir ofan það sem maður hefur séð.

Ómar Ragnarsson, 17.2.2013 kl. 17:26

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Svekkjandi að slá inn vitlaust borgarheiti fyrir ÓL í Los Angeles vegna þess að í sögu leikanna urðu þjóðir heims sér tvívegis til skammar með því að blanda saman stjórnmálum og íþróttum, annars vegar í Moskvu 1980, þegar Bandaríkin og fylgifiskar þeirra neituðu þátttöku vegna þess að Sovétmenn réðust gegn sömu öflum í Afganistan og Bandaríkjamenn sjálfir réðust gegn tveimur áratugum síðar, og síðan í Los Angeles 1984, þegar kommúnistaríkin sniðgengu leikana til þess að hefna sín vegna leikanna 1980.

Ómar Ragnarsson, 17.2.2013 kl. 17:34

13 Smámynd: Stefán Þ Ingólfsson

Sem notandi gleraugna átti Jón Páll ekki séns í hnefaleikum. Hafi hann verið nærsýnn, eins og ég held að hann hafi verið, hefði hann ekki getað stundað hnefaleika.

Stefán Þ Ingólfsson, 17.2.2013 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband