Færsluflokkur: Bloggar
7.2.2013 | 13:49
"Eitthvað annað" sem er að engu hafandi?
Stoðtækjaframleiðandinn Össur er eitthvert besta dæmið um það sem talað hefur verið niður til í fyirlitningartóni í meira en áratug sem "eitthvað annað" og því að engu hafandi og rétt að hlæja og draga dár að.
Nú vinna meira en 1600 manns hjá fyrirtækinu sem er fleira fólk en vinnur samanlagt í álverum Íslands.
Stór hluti þessa fólks vinnur að vísu í verksmiðjum Össurar erlendis en engu að síður ber þessi staðreynd vitni um að "eitthvað annað" geti verið atvinnuskapandi.
Össur er skráð hér á landi og samkvæmt upplýsingum um það á netinu, skilaði fyrirtækið 5 milljarða króna hagnaði sem er 9% meira en í fyrra.
Össur er ekki eina "eitthvað annað" fyrirtækið á Íslandi sem hvert um sig skilar jafn miklu eða meira í þjóðarbúið en öll störfin í álverunum. CCP og önnur fyrirtæki, sem byggja eingöngu á hugviti og mannauði, eru gott dæmi um slíkt.
Enda munum við Íslendingar ekki geta boðið upp á viðunandi kjör fyrir fólk ef við afneitum því, sem kallað er "eitthvað annað."
Jafnvel þótt sex risaálver myndu nýta orku hverrar einustu sprænu og hvers á Íslandi og rústa einstæðri ósnortinni náttúru landsins, myndu störfin í álverunum aðeins skapa 2% af vinnuafli landsins atvinnu. 98% væri "eitthvað annað."
Áltrúarmenn flagga "afleiddum störfum" og fá út að 8% vinnuaflsins myndu nærast á álverunum. Samt yrðu 92% eftir sem væru "eitthvað annað". Og áltrúarmenn gleyma því að hver um sig leiða aðrar atvinnugreinar af sér afleidd störf þannig að ef frumkvöðla- og sprotafyrirtækin margfalda líka störfin á sama hátt kemur út marfalt hærri tala en álverin gefa.
En af hverju er ég að "tönnlast á" þessu, sem ég hef bloggað svo tugum skiptir um áður.
Það er vegna þess hér á landi ríkir það sem kalla má "valkvæð vitneskja", þ. e. að enda þótt margir heyri eða sjái einfaldar staðreyndir kýs það að láta þær fara inn um annað eyrað og út um hitt jafn óðum.
![]() |
Tæplega 5 milljarða hagnaður Össurar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
6.2.2013 | 22:48
Auðvitað var minni umferð í fyrra.
Þegar sú stórfrétt er sögð að umferðin í Reykjavík í janúar síðastliðinum hafi verið meiri en í janúar í fyrra koma orð Guðmundar Jaka í hugann þess efnis að stundum megi efast um nauðsyn umfangsmikilla og dýrra rannsókna hámenntaðs fólks, sem fréttnæmar þykja, á hlutum, sem liggja í augum uppi.
Nefndi hann sem dæmi þegar viðamikil og dýr háskólarannsókn á matarvenjum Íslendinga leiddi þá stórfrétt í ljós að landsmenn borðuðu mest á milli klukkan 12 og 1 í hádeginu og milli klukkan sjö og átta á kvöldin.
Nýliðinni janúarmánuður var 3,3 stigum hlýrri en í meðalári og einn af tíu hlýjustu janúarmánuðum frá upphafi mælinga fyrir 160 árum. Götur Reykjavíkur voru auðar mest allan mánuðinn með sumarfæri og lengst af nánast vorveður.
Í fyrra var hins vegar einhver snjóþyngsti janúar í áraraðir í borginni nánast allan mánuðinn, mikil ófærð og hálka í marga daga og erfiðleikar við að komast um. Hundruð manna beinbrotnaði í hálkunni.
Af sjálfu leiðir að umferðin var minni þá en núna og er engin frétt. Það hefði verið frétt ef umferðin hefði verið meiri í janúar í fyrra en nú.
![]() |
Aukin umferð á höfuðborgarsvæðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.2.2013 | 18:54
Notað sem rök gegn notkun belta í bílum og flugvélum.
Flugslysið hörmulega í Munchen fyrir 55 árum var gríðarleg blóðtaka fyrir Manchester United, sem missti að mestu gullaldarlið sitt í einu vetfangi.
Þegar rætt var um það hér á landi að lögleiða notkun bílbelta myndaðist öflug andstaða við það og var ansi langt seilst í röksemdafærslu gegn notkun beltanna. Ein þeirra röksemda sem oftast og mest var hamrað var á, var sú, að í flugslysinu í Munchen hefðu einhverjir af hinum látnu farist vegna þess að þeir voru með beltin spennt en hefðu sloppið ef þeir hefðu ekki notað beltin.
Þetta voru alveg fáránleg rök, vegna þess, að ef þau voru gild, var auðvitað best að farþegar spenntu sig aldrei um borð í flugvélum og allra síst í lendingu eða flugtaki.
En ótrúlega margir lögðu trúnað á þessi rök og að beltin væru til bölvunar og myndu fjölga slysum.
Af því, sem ég hef barist fyrir um ævina, eru þessi tregða og andóf eitt það dapurlegasta sem ég hef orðið að fást við.
![]() |
55 ár liðin frá harmleiknum í München |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2013 | 13:27
Goðsögnin um "mest seldu bíla Bandaríkjanna".
Áratugum saman hefur það verið nokkurs konar goðsögn að Ford F pallbílar hafi verið mest seldu pallbílar Bandaríkjanna og mest selda gerð bíla þar í landi.
Ég hef oft undrast þessa skilgreiningu og linku General Motors í þessu efni, því að í þau skipti sem ég hef gluggað í sölutölur vestra, en það hef ég gert með nokkurra ára millibili síðustu áratugina, hefur komið í ljós að þegar lagðar eru saman sölutölur Chevrolet og GMC pallbíla, hafa þær verið hærri samanlagt en sölutölur Ford F-línunnar.
Langoftast hafa Chevrolet og GMC pallbílarnir verið í aðalatriðum sömu bílarnir en í mismunandi útfærslu hvað útlit og búnað og skráningu snertir auk þess sem GM hefur af mér óskiljanlegum ástæðum haldið í það að skipta þessum bílum á milli tveggja aðskildra tegunda.
Það er ákveðið áróðurs- og söluörvunaratriði fyrir Ford að geta slegið því upp á F-pallbíllinn sé vinsælasta bílgerð Ameríku og hefur áreiðanlega nýst framleiðandanum vel.
![]() |
Ford-pallbílarnir hafa breyst mikið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.2.2013 | 00:11
Endingarmeiri og betri bílar = færri seldir.
Grimm samkeppni bílaframleiðenda um kaupendur leiðir meðal annars til þess að bílar endast betur en áður og ábyrgð á þeim er komin upp í sjö ár, þar sem hún er lengst.
Ef afleiðingin er sú að færri bílar seljist en áður lítur hún að vera rökrétt. Þannig bítur samkeppnin um endingu í skottið á bílaframleiðendum.
Hið eina sem getur haldið sölunni við er að bílarnir verða sífellt sparneytnari og notadrýgri miðað við stærð og verð. En það hljóta að vera takmörk fyrir því hve lengi þær framfarir geta staðið eða haldið áfram á sama hraða og nú.
Þekkt eru dæmi um gagnstæða þróun úr fortíðinni. Þegar Ford Falcon var settur á markað í Bandaríkjunum síðla árs 1959 náði hann mestri sölu hinna þriggja nýju "compact" bíla vegna þess að hann var léttastur og einfaldastur.
En það var líka reiknað með að hann entist ekki nema örfá ár og væri skipt út fyrir nýjan á 2ja til 5 ára fresti.
Þetta jók söluna í bili en leiddi til lakari gæða og það hefndi sín þegar til kom samkeppni frá erlendum bílum, einkum japönskum, sem settu alveg ný viðmið varðandi lága bilanatíðni og endingu.
Krafan um hinn sívaxandi hagvöxt mun ekki geta gengið upp til lengdar þegar hráefni og auðlindir jarðarinnar fara að minnka.
Nú þegar hefur olíuöldin náð hámarki eins og spáð var fyrir talsvert löngu. Hún náði hámarki 2005.
Hér eftir verður æ dýrara að vinna olíuna, sem finnst á nýjum en óaðgengilegri svæðum.
Upp úr 1980 gátu Sádi-Arabar hjálpað vestrænum þjóðum til að auka hagvöxt og fella Sovétríkin í leiðinni með því að auka framboð á olíu.
Þeir hafa verið grátbeðnir um að gera þetta nú, en gera það ekki. Ástæðan getur ekki verið nema ein:
Sá tími mun einfaldlega styttast þar til olíulindirnar fara að þverra ef dælingin upp úr þeim er aukin, og það er ekki lengur hægt að horfa fram hjá því.
Á árunum fyrir Hrun reyndu þjóðir heims að auka hagvöxtinn með því að búa til sýndarverðmæti úr lánum í stærri stíl en áður hafði þekkst. Bólan sprakk og þjóðir heims glíma við skuldir og fjárlagahalla, sem virðast fela í sér óleysanlegt viðfangsefni, samanber fjárlagaþverhnípið sem Bandaríkjamenn standa frammi á.
![]() |
Nýskráningum stórfækkar í Þýskalandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.2.2013 | 18:02
Allra bragða er neytt.
Þar sem hagsmunir stórra auðfyrirtækja og valdamanna eru miklir finna þessir aðilar ævinlega leiðir til að fara sínu fram.
Þegar íslensku bankarnir voru einkavæddir, var á yfirborðinu rætt um dreifða eignaraðild á sama tíma sem unnið var að því hörðum höndum að skipta bönkunum milli gæðinga þáverandi stjórnarflokka og einkavinavæða þá þannig að þeir yrðu seldir á gjafverði.
Þegar þjóna þurfti þröngum kjördæmahagsmunum annars af tveimur mestu valdamönnum landsins um síðustu aldamót var óhugsandi að fá einkafyrirtæki til þess að fjárfesta í Kárahnjúkavirkjun, - til þess var hugsanlegru arður af virkjunni of lítill og áhættan allt of mikil, samanber þessa lýsingu Landsvirkjunar sjálfrar sem varð að sjálfsögðu ekki opinber fyrr en eftir á: "...Virkjunin er erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu-, tæknilegu-, umhverfislegu-, og markaðslegu tilliti, í raun eyland í raforkukerfinu..."
Á ákveðnum tíma í borun síðasta kafla ganganna munaði svo litlu að hún mistækist að óhugnanlegt er.
Ef það hefði gerst hefði verið búið að ljúka mestöllum öðrum framkvæmdum og tjónið því algert, samtals upp á 3-400 milljarða króna á núvirði. En áhættan var réttlætt með orðunum: "Við ætluðum í gegn þarna hvort eð var."
Svo vel vildi til fyrir þá Hallór og Davíð að ríkið átti Landsvirkjun og þess vegna var hægt að fara út í þetta mikla hættuspil með fjármuni þjóðarinnar í samningi, sem núverandi forstjóri hefur talið gefa allt of lítinn arð.
Í ofanálag voru ívilnanir vegna framkvæmdirnar yfirgengilega miklar. Til dæmis fór öll raforka Lagarfossvirkjunar ókeypis til Impregilo á meðan framkvæmdir stóðu yfir.
Nú eru aðstæður þannig, að til þess að geta haldið stóriðjustefnunni áfram þarf að helst að selja Landsvirkjun og skiptir þá litlu máli, hver vill kaupa eða hvort ekki verði látið nægja að þjóðin verði sett í pant eins og 2003, heldur líka lífeyrisþegar og gamla fólkið.
Þegar stórgróðahagsmunir eru annars vegar eins og eru til dæmis hjá Alcoa skiptir ekki máli hvort verið er að beita einkavinavæðingaraðferðum eins og við bankasöluna 2002 eða sovéskum aðferðum frá 2003 til að meginhluti arðs af íslenskum auðlindum renni beint út úr landinu.
![]() |
Landsvirkjun og Statoil ekki samanburðarhæf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
5.2.2013 | 00:51
Fyrsta demparareiðhjólið 1954.
Líklega hef ég átt fyrsta reiðhjólið á Íslandi sem var með dempara á framgafflinum og gleðst þess vegna yfir því þegar Íslendingar brydda upp á nýjungum á því sviði.
Þegar ég var 14 ára átti ég venjulegt reiðhjól sem ég hjólaði af ástríðu á. Foreldrar mínir voru hræddir um mig því ég hjólaði svo hratt og þrátt fyrir suð um að fá að hjóla lengri vegalengdir út úr bænum bönnuðu þau það, einkum á þeim forsendum að vegirnir væru svo holóttir að hætta væri á að ég bryti framgaffalinn.
Þau höfðu frétt af því hjá einhverjum bílstjóra að ég hefði farið fram úr honum undan vindi niður Ártúnsbrekkuna, sem þá var bæði brött og ómalbikuð á 60 kílómetra hraða og vildu ekki hleypa mér á enn verri vegi.
Ég brá þá á það ráð að fá reiðhjólaverslunina Örninn til þess að flytja inn gaffal með dempurum og setti á hjólið. Þar með féll sú mótbára að gaffallinn myndi brotna og loks kom að því að ég fór með þeim á vörubílnum, sem pabbi átti, með hjólið á pallinum, austur á Sandhól í Ölfusi í heimsókn til Heiðu frænku og Þorláks og samdist síðan um að ég fengi að hjóla af stað í bæinn og þau myndu pikka mig upp.
Ég rauk af stað og hjólaði svo hratt, að ferðin til Reykjavíkur tók aðeins tvær klukkustundir eftir krókóttum og holóttum malarveginum.
Foreldrarar mínir náðu mér aldrei, enda var það klukkustundar og 20 mínútna ferð að fara þessa leið á þunglamalegum vörubíl á þessum tíma.
Þeim fannst þau hafa heimt mig úr helju þegar þau fundu mig heima, því að þau óraði ekki fyrir að ég hefði verið svona fljótur og óttuðust að ég hefði orðið fyrir alvarlegu slysi og verið fluttur í burtu í sjúkrabíl.
Af hjóli þessu fóru margar sögur sem bíða skráningar en það endaði feril sinn í misheppnuðu "stönti" 1. apríl í M.R. þegar allir fengu frí í einn tíma vegna góðs veðurs og ég kom á hjólinu í skólann af því að ég óttaðist að skólafélagar mínir myndu endurtaka hrekk, sem þeir höfðu áður gert mér á NSU örbílnum mínum.
Ég hafði sagt þeim frá því fyrr hvernig maður gæti bjargað sér af baki á fullri ferð af hjólinu og komið hlaupandi niður ef keðjan og hemlarnir biluðu. Þegar nemendur stóðu þarna fyrir utan skólann skoruðu bekkjarfélagar mínir á mig að sanna þetta og varð úr að hópurinn stóð uppi við skólann og ég kom með hjólið.
Ég hjólaði niður Menntaskólatúnið á fulla ferð, kastaði mér af hjólinu og kom hlaupandi niður, en mistókst að taka snöggt í stýrið á því sem siðustu snertingu, en við það átti það að snúast og falla til jarðar.
Hjólið hélt áfram mannlaust niður túnið og flaug fram af bakkanum neðst.
Þar fyrir neðan var þá bekkur fyrir fólk sem beið eftir strætó og hjartað stöðvaðist þegar ég og aðrir nemendur horfðum sem lömuð á hjólið stefna beint á konu, sem þar sat.
Til allrar hamingju beygði konan sig eftir tösku sinni einmitt þegar hjólið small á sætisbakinu, framhjólið og demparagafallinn fóru í keng og það skall þar niður.
Eftir þetta var ekki hjólað meira á þessu hjóli og þar með endaði reiðhjólatímabilið endanlega og tók sig ekki upp aftur fyrr en meira en 40 árum seinna.
![]() |
Nýjung í hjólaheiminum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.2.2013 | 19:34
Tuga milljarða tjón vegna tískufyrirbrigðis.
Á rúmum áratug fyrir miðja síðustu öld ruddi sér til rúms það tískufyrirbrigði í húsagerð að hafa stóra hornglugga á húsum. Þetta sést einna best í Norðurmýrarhverfinu í Reykjavík en einnig vel á Oddeyri á Akureyri og ótal íbúðarhúsum í sveitum og bæjum.
Þessi tíska tók ekkert mið af veðurfarslegum aðstæðum hér á landi enda fóru þessir gluggar snemma að leka og skapa bæði vandræði og tjón.
Varla hafði þessi tíska valdið sínum vandræðum þegar önnur ennþá verri tók við, en það voru flötu þökin.
Allt í einu var það orðið púkó að hafa góðan bratta á þökum sem hrintu sem best af sér snjó, slyddu og regni.
Við hjónin lentum hastarlega í þessu þegar við keyptum raðhús, þar sem leka hafði verið leynt fyrir manninum, sem seldi mér húsið, en hafði aðeins búið í því í eitt ár, en þann vetur viðraði þannig að snjóalög ollu ekki leka.
Húsið var hannað þannig, að austast var bílskúr með flötu þaki, síðan tók við eystri partur íbúahússins sjálfs, stofuálman, sem var með bröttu þaki, sem hallaði til austurs á móti aðal snjókomuáttinni.
Fyrir vestan var síðan svefnálman með flötu þaki. Þennan vetur voru austan hríðarveður algeng, og þá skóf snjó yfir þakið á stofuálmunni og myndaði djúpan skafl, stundum mannhæðar háan, á þaki svefnálmunnar.
Þar myndaðist klaki í þakrennum og fyrr en varði fossaði vatn inn í öll herbergin inn um samskeyti á milli flatra þakplatnanna.
Eina leiðin til að koma í veg fyrir að allt færi á flot í álmunni var að moka öllum snjó jafnóðum ofan af henni. Margar nætur og kvöld fóru í þetta þennan fyrsta vetur okkar í húsinu.
Ég gerði um þetta pistil í Kastljósinu sem kom mér í djúpa ónáð hjá arkitektum landsins, en með mér í þeim skammarkróki var Vilhjálmur Hjálmarsson frá Brekku, sem skrifaði dásamlega meinhæðinn pistil þar sem hann sagði meðal annars að Bakkabræður hefðu reynt að gera gluggalaus hús en þeim hefði aldrei dottið í hug að gera hús með flötum þökum.
Eina leiðin til að stöðva lekann á húsi mínu var að rífa þakið og leggja í staðinn á það tjörupappa, því að bæði var dýrara að gera alveg nýtt og bratt þak enda arkitektinn þar að auki með lögvarinn höfundarrétt á vitleysunni.
Þetta kostaði mig um sjö milljónir króna á núvirði.
Þökin á álmum Borgarspítalans eru frá þessum árum og tjónið af öðrum slíkum hleypur á milljörðum, jafnvel tugum milljarða.
![]() |
Rækta berklabakteríur í leku húsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2013 | 16:16
Var "yfirvofandi árás umhverfishryðjuverkamanna" 2005?
2005 var ákveðið að halda stóra æfingu á vegum NATO hér á landi vegna þeirrar hættu af hryðjuverkum um allan heim, sem skapast hefði í kjölfar stórfeldldrar og einstæðrar árásar Al Qaeda samtakanna á Bandaríkin 11. september 2001, sem ógnaði öryggi allra vestrænna þjóða.
Niðurstaðan varð sú, að hér á landi stafaði mesta hættan af "yfirvofandi árás umhverfishryðjuverkamanna" og í samræmi við það haldin umfangsmikil heræfing með öllu tilheyrandi.
Undir það heyrði sérkennilegt ástand í símamálum sem gaf rökstuddan grun um ótrúlega umfangsmiklar símahleranir.
Á þessum tíma voru nokkrir mótmælendur á virkjanasvæðinu fyrir austan og síðar klifruðu tveir upp í möstur á Reyðarfirði og einhverjir hlekkjuðu sig við vinnuvélar við Kárahnjúka. Það var nú öll hin "umfangsmikla árás sem ógnaði Íslandi."
Sá gríðarlegi viðbúnaður sem hafður var vegna þess, sem menn töldu vera mestu hættuna, sem steðjaði að Íslandi var úr öllu samræmi við aðgerðir mótmælendanna sem eiga sér mörg fordæmi í nágrannalöndum okkar á þess að það kalli á nánast hernaðaraðgerðir og símahleranir í stórum stíl.
Þessir tjaldbúar fyrir austan voru teknir í bakaríið á sama tíma sem ekkert var gert þá eða hefur verið gert í líkingu við þetta varðandi hugsanlega hryðjuverkaárás Al Qaeda.
![]() |
FBI rannsakaði tölvuárás á Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
4.2.2013 | 16:02
Síldarmannagötur. Af hverju?
Til norðurs upp hlíðina, rétt utan við botn úr Botnsvogs í Hvalfirði, liggja gamlar göngugötur sem heita Síldarmannagötur. Allt fram til ársins 1948 fannst mörgum þetta örnefni ekki liggja í augum uppi.
En það ár fylltist Hvalfjörður af síld svo að bátar og skip mokuðu henni upp og var meira að segja talsvert umstang við að ráða við þennan síldarafla. Sumt af síldinni var breitt á óbyggt svæði við Sjómannaskólann.
Vegna þessarar síldveiði og annarrar á þessum árum var keypt til landsins gamalt og lúið bræðsluskip, sem hlaut nafnið "Hæringur" og lá ónotað næstu árin við Ægisgarð í Reykjavíkurhöfnum og varð að athlægi fyrir bragðið. Svolítill 2007 bragur á því.
En nú lá ljóst fyrir hvers vegna Síldarmannagötur fengu það nafn.
Ég hef ekki séð eða heyrt haldbærar skýringar á því af hverju Hvalfjörður fylltist af síld 1948.
Margir kenna þverun Kolgrafafjarðar um það að milljarða virði af síld hafa farið þar forgörðum, en mig grunar að ekki sé auðvelt að finna skýringu á því af hverju hún leitar inn í þann fjörð öðrum fremur eða af hverju hún leitar ekki alveg eins inn á Faxaflóa og inn í Hvalfjörð.
Og spurningin er sú, hvort síldargöngurnar við norðavert Snæfellsnes verði jafn skammvinnar og síldarvöðurnar inn í Hvalfjörð 1948.
Munurinn á síldveiðinni þá og nú er sá, að þá var enginn kvóti og það var bara veitt eins mikið og mögulegt var.
![]() |
Setja upp vöktun í Kolgrafafirði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)