Færsluflokkur: Bloggar
12.2.2015 | 09:48
Útþensla veldur oftast óróa og tortryggni.
Mannkynssagan greinir frá ótal dæmum um það að útþensla á ýmsum sviðum veldur oftast óróa og tortryggni. Þetta átti við um útþenslu stórvelda fyrri tíma svo sem Persa, Rómaveldis og Múslimatrúarinnar.
Útþensla verður oftast á kostnað einhverra, sem telja sig verða að veita andóf.
Í öllum svona tilfellum hafði útþenslan styrjaldir í för með sér, jafnvel þótt tilgangurinn væri ekki alltaf svo slæmur, svo sem í Krossferðunum, þar sem hugsjónin var að breiða út friðarboðskap og fagnaðarerindi Kristindómsins, en notað vopnavald til þess.
Á Stiklastöðum í Noregi er stór stytta af Ólafi helga Haraldssyni sitjandi á hesti með Biblíuna í annarri hendi og veifandi sverði í hinni.
Útþensla frönsku byltingarinnar sem varð fljótt að hernaðarlegri sigurfíkn Napóleons, kostaði svonefndar Napóleonsstyrjaldir í tvo áratugi.
Útþensla Prússlands og síðar Þýskalands olli styrjöldum í meira en eina og hálfa öld og urðu styrjaldirnar æ skelfilegri eftir því sem á leið.
Útþensla Bandaríkjanna og heimsvelda nýlenduveldanna kostuðu styrjaldir, ekki aðeins við að þenja út þessi nýlenduveldi, heldur líka vegna þess að þjóðir eins og Þýskaland, Ítalía og Japan töldu sig vera afskipt, og útþensla japanska veldisins ár árunum 1905-45 kostaði hrikalegar stríðsfórnir.
Hitler stefndi með einbeittum brotavilja að útþenslu Þriðja ríkisins og í kjölfar Seinni heimsstyrjaldarinnar var útþensla á vegum tveggja risavelda, Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, efni í kalt stríð með ýmsum styrjöldum svo sem í Kóreu og Víetnam.
Þegar Kalda stríðinu lauk hófst útþensla NATO og ESB til austurs og var með furðu friðsamlegu yfirbragði lengi vel. En þegar lagt er upp í ferðalag verður að hyggja að ferðalokum, hvenær, hvar og hvernig þau geti orðið, en það var ekki gert.
Í bjartsýni héldu menn að þessi útþensla gæti orðið friðsamleg þótt hún fælist í því að þenja út hernaðarbandalag, bara vegna þess að hernaðarbandalagið var skilgreint sem varnarbandalag.
Þá gleymdu menn því að "varnarbandalögin" sem stofnað var til á báða bóga í aðdraganda tveggja heimsstyrjalda urðu til þess að þau stríð urðu þeim mun vítækari og skelfilegri sem bandalögin voru stærri og öflugri og svardagar bandalagsþjóðanna meiri, og að hugsjónin um fælingarmátt hernaðarbandalaga getur oft fætt af sér andhverfu þess sem í orði kveðnu er stefnt að.
Öllum mátti verða ljóst að þegar farið var í útþensluleiðangurinn til austurs í Evrópu eftir fall Berlínarmúrsins 1989 myndi koma að því að komið yrði að endamörkum útþenslunnar og að nauðsynlegt væri að gaumgæfa vel fyrirfram hvar þau leiðarlok kynnu að verða, jafnvel þótt menn vonuðu að í lokin yrðu allar þjóðir frá Atlantshafi til Úralfjalla eitt samfellt sæluríki lýðræðis og mannúðlegrar markaðsvæðingar.
Menn gleymdu særðu stolti fyrrum risaveldis, gleymdu því, að svonefndir öryggishagsmunir vega ávallt þyngst í huga þjóðanna og að það er erfitt fyrir utanaðkomandi að ráða því hvernig hver þjóð lítur á sína hagsmuni.
Þess vegna rambar Evrópa "óvænt" á barmi stórstyrjaldar rétt eins og menn hafi ekkert lært af því sem gerðist fyrir rúmri öld. Og þegar grannt er skoða sést, að það er ekki svo "óvænt".
Allri útþenslu, hversu jákvæðum augum sem menn líta á hana, linnir við einhver endamörk, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.
![]() |
Skilyrði Rússa óásættanleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.2.2015 | 01:32
Þarf stærri ramma fyrir svona ferðir.
Þessar dagana og vikurnar er langalgengasta vindáttin suðvestanátt með éljagangi eða snjókomu.
Á sama tíma er bjart að mestu á norðausturhluta landsins. Gosstöðvarnar í Holuhrauni hafa verið sjáanlegar á mila.is á sama tíma sem dimmviðri hefur verið hérna megin á landinu.
Í kvöld var rakastigið aðeins rúmlega 60% á þessum slóðum sem þýðir þurrviðri.
Ef Norðurljósaferðir eiga að heppnast betur en nú er, þyrfti að hugsa sér stærri ramma fyrir þær, þar sem gert væri ráð fyrir frávikum og auknum kostnaði í hluta þeirra vegna þess að fara þyrfti hinum megin á landið til að uppfylla væntingar.
Meðalverðið fyrir ferðirnar yrði þá haft nógu hátt til þess að dekka þennan aukakostnað þegar hann kæmi upp.
Fyrir 30 árum athugaði ég þá hugmynd að bjóða ríkum útlendingum upp á ævintýraferð á Íslandi, þar sem verðið yrði haft nógu hátt til þess að geta séð við skakkaföllum vegna veðurs og farið á einstökum dögum hinum megin á landið.
Ég fékk mér firmanafnið Hugmyndaflug af því að flug átti að vera aðalatriðið í einstæðri upplifun sem í boði væri.
Sá sem keypti sér svona ferð fengi loforð um að lenda á innan við viku á einhverjum einum af fjórum eftirtöldum stöðum: Við Látrabjarg (Hvallátur), í Hornvík, í Herðubreiðarlindum og í Kverkfjöllum þar sem skíðaflugvél yrði notuð til að lenda bæði niðri við skálann og uppi á toppnum.
Sú ferð yrði lang mögnuðust af þeim öllum, ef aðstæður leyfðu.
Ef ekki yrði hægt að fara á neinn ofangreindra staða, yrði hluti af verði ferðarinnar endurgreiddur, enda jafnaðarverðið miðað við að þola áætluð frávik vegna veðurs og annars.
Ég viðraði hugmyndina við Pétur Einarsson, þáverandi flugmálastjóra, og honum leist vel á.
En skrifræðið felldi hana, enda næstum því eins og að fara að reka British Airways hvað það varðaði, auk þess sem ég hafði nóg annað að sýsla.
![]() |
1.200 skoðuðu norðurljós í gær |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.2.2015 | 00:02
Bættur öryggisbúnaður hefur bjargað tugum mannslífa.
Ekkert eitt atriði hefur átt stærri þátt í stórfækkun banaslysa í umferðinni hér á landi en stórbættur öryggisbúnaður bíla. Það sem af er þessari öld er hægt að fullyrða að öryggisbúnaðurinn hafi bjargað mörgum tugum mannslífa.
Með svonefndum EPA og NCAP mælingum og kröfum í Bandaríkjunum og Evrópu hafa bílaframleiðendur neyðst til taka alla hönnun bíla til endurskoðunar og styrkja og hanna bílana þannig að þeir þoli árekstra sem best.
Þar ræður stærð bílanna ekki mestu eins og sést á því að fyrir nokkrum árum kom ameríski Ford pallbíllinn herfilega út úr árekstrarprófi en núna skarta sumir af minnstu bílunum fimm stjörnum í evrópska prófinu.
Nú er jafnvel Toyota iQ með hæstu einkunn, en sá bíll er aðeins 2,99 metra langur, eða einum og hálfum metra styttri en bílar í millistærðarflokki. Enda er hann víst með eina níu líknarbelgi sem raðað er í kringum farþegana.
En aldrei verður nógsamlega áréttað, að án notkunar bílbelta er gildi og getu þessa búnaðar og annarra öryggisatriða í byggingu bílsins stórlega skert, því að öllum þessum öryggisatriðum er komið fyrir með tilliti til þess að fólk noti bílbeltin.
![]() |
Tveir fluttir á slysadeild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.2.2015 | 16:03
Ólíkt Carlsen skipstjóra á Flying Enterprise.
Það er aldagömul eða jafnvel árþúsunda hefð fyrir því hvernig rýma skuli skip, flugvélar og landfarartæki. Konur og börn fyrst og skipstjórinn eða yfirstjórnandinn síðastur.
Sagan geymir mörg dramatísk atvik þar sem skipstjórar ýmist virtu þessa miklu kröfu að vettugi eða hlýddu henni út í ystu æsar af miklu hugrekki.
Ég minnist enn þeirra fjórtán daga um áramótin 1951 til 52 sem liðu eftir að fragtskipið Flying Enterprise hafði sent út neyðarkall vestur af Ermasundi.
Það hafði fengið á sig 45 gráðu halla í miklu óveðri 28. desember og var öllum bjargað frá borði nema hinum danska Kurt Carlsen skipstjóra.
Heimsbyggðin fylgist með öndina í hálsinum næstu tvær vikurnar, allt til 10. janúar, með erfiðum björgunartilraunum í foráttuveðri og allan tímann þraukaði Carlsen á þann hátt í skipinu sem var síðustu dagana liggjandi í 60 gráðu halla í haugasjó, án þess að karlinn léti sér bregða.
Að lokum var útséð um björgun skipsins og þá fyrst tók Carlsen í mál að láta bjarga sér.
Þegar hann kom til New York viku síðar var farin ein af þessum stórfenglegu "miðaregns" skrúðgöngum (ticker-tape parade) til heiðurs Carlsen, og nöfn hans og Flying Enterprise voru þar með skráð gullnu letri í sögubækurnar.
Það er langur vegur frá afreki Carlsens til örlaga skipstjórans á Costa Concordia.
![]() |
Hann hafi dottið í björgunarbátinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.2.2015 | 08:54
Dauðarefsingar, ýmist réttlættar eða fordæmdar.
Dauðarefsningar viðgangast ennþá hjá þjóðum sem telja sig í framvarðasveit mannrétttinda, mannúðar, réttlætis og lýðræðis eins og Bandaríkjamenn gera.
Hjá lýðræðisþjóðum hljóta aftökur að teljast á ábyrgð þjóðanna sjálfra. Vitað er að meðan þær eru við lýði munu verða framin dómsmorð eins og dæmin sanna og að margar aftökurnar eru í raun villimannlegar hvað snertir dauðastríð hinna dæmdu.
Aftaka er óafturkræf, - hinn dauði verður aldrei vakinn aftur til lífsins þótt í ljós komi að vegna mistaka hafi hann verið dæmdur saklaus.
Sömu lýðræðisþjóðir og leyfa aftökur fordæma hins vegar réttilega villimannlegar aftökur hjá þeim þjóðum eða hópum sem hafa önnur trúarbrögð eða meta ýmis afbrot öðruvísi en tíðkast á Vesturlöndum.
Í tengdri frétt kemur fram að í aftökunni í St. Louis hafi dauðastríð fangans tekið níu mínútur.
Margsinnis hafa fangarnir vestra kvalist mun meira og miklu lengur.
Þegar það er borið saman við að hálshöggva menn í öðrum löndum, eins og réttilega er fordæmt, er erfitt að sjá hvernig hægt er að réttlæta hið kvalafulla dauðastríð oft á tíðum, sem aftökuaðferðir í Bandaríkjunum hafa oft í för með sér.
Eða að réttlæta manndráð, þar með talda aftökur, yfirleitt.
![]() |
Fyrsta aftakan í Missouri í ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.2.2015 | 01:19
Dæmi um gildi mannauðsins, - "eitthvað annað".
Mannauðurinn og einstæð íslensk náttúra eru mestu verðmæti Íslands. CCP var upphaflega hugmynd örfárra manna og eina "hráefnið" sem hægt var að vinna úr, var hugsun og menntun þeirra.
Fyrirtækið óx smám saman upp í það að veita meiri atvinnu og gjaldeyristekjur en heilt álver.
Og þetta gerðist á sama tíma og á því var hamrað að eina von Íslands, það eina sem gæti "bjargað þjóðinni" væri stóriðja sem þyrfti alla orku landsins og fórn allra helstu náttúruverðmæta þess , því að að "eitthvað annað" sem "lattelepjandi kaffihúsalýður í 101 Reykjavík" stæði fyrir, væri einskis virði.
Nú er íslenskur mannauður á hraðri uppleið og nautn af upplifun af íslenskri náttúru orðin að burðarási helsta atvinnuvegar og gjaldeyrissköpun þjóðarinnar þrátt fyrir allt háðið og spottið um "fjallagrös og lopa" sem væru það eina sem andófsmenn við stóriðjustefnuna hefðu fram að færa.
![]() |
CCP tilnefnt til BAFTA-verðlauna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
10.2.2015 | 22:45
Vandræðin aftur að byrja varðandi ferðaþjónustuna?
Lánið er valt hjá vinum,
vandræðin aftur að byrja,
og hvor ætti að aka hinum
held ég að verði að spyrja.
![]() |
Skilinn eftir á röngum stað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.2.2015 | 12:51
Jökulsá á Brú var afkastameiri.
Þegar Jack D´Ives sérfræðingur í fjallalandslagi, sem verið hefur einn af ráðgjöfum vegna Heimsminjaskrár UNESCO, kvað skýrt upp úr með það fyrir 16 árum, að á landssvæðinu norðan Vatnajökuls væru efni til skráningar á Heimsminjaskrána, lögðu Íslendingar kollhúfur.
Enda var það aðaláhugaefni stjórnvalda og ráðandi afla að virkja allar ár á svæðinu, taka afl af fossum og sökkva helstu dölum og gróðurvinjum.
Þótt æ betur sé að koma í ljós hve sköpunarkraftur Jökulsár á Fljöllum hefur verið magnaður, var hinn stanslausi mótunarkraftur Jöklu (Jökulsár á Brú eða Jökulsár á Dal) jafnvel enn meiri.
Það verður víst að skrifa um Jöklu í þátíð, því að með því að sökkva innsta hluta hennar í Hjalladal, voru endanlega eyðilögð þau náttúrudjásn sem hún var í óða önn að móta í dalnum, tekið fyrir mátt hennar til að viðhalda Hafrahvammagljúfrum og ströndinni við Héraðsflóa.
Sköpunarmáttur Jöklu var frábrugðinn getu nöfnu hennar vestar á hálendinu hvað það varðar, að framburður Jöklu var og er miklu jafnari og afkastameiri til þess að sverfa berg eða fylla upp lægðir og meðan áin var í farvegi til þess að sverfa berg, voru þessi afköst miklu meiri en menn gerðu sér grein fyrir fyrr en um það leyti sem henni var sökkt í Hálslón.
Þannig var hún í miðjum klíðum við að búa til nýtt litfagurt gljúfur á botni Hjalladals, og hafði skapað svonefnda Stapa, Rauðuflúð og Rauðagólf á aðeins rúmri hálfri öld.
Og Hafrahvammagljúfur hafði hún að mestu skapað á aðeins um 700 árum.
Nú verður aðeins hægt að tala um þessi afrek hennar í þátíð, en hins vegar að horfa upp á það að hún muni fylla Hjalladal af auri á næstu öldum.
Spurningin er hvort kynslóðir framtíðarinnar muni dást að hinum flötu sandleirum árinnar þegar þar að kemur, vitandi um þau sköpunarverk hennar sem verða þá á 150 metra dýpi í sandi og auri.
Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig þverá Jöklu, Kringilsá, ekki síður öflugur liðsmaður sköpunarinnar á svæðinu, hafði árið 2010 fyllt upp gljúfrið Stuðlagátt af sandi á aðeins þremur árum og drekkt tveimur fossum og fallegu stuðlabergi.
![]() |
Ýtti Dettifossi upp ána |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.2.2015 | 06:31
"Margt er á huldu..." eða hvað?
Stundum verða einföld atriði, sem engin sérstök hugsun um hrekk var á bakvið, óvart að hrekk.
Þannig varð lítil staka, sem hrökk upp á óþægilegum tíma, óvart að hrekk sem truflaði upphaf fréttatíma á Stöð 2 fyrir um 25 árum.
Fréttastjórinn hafði fengið sérstakan litgreiningarsérfræðing til þess að taka alla fréttaþulina í litgreiningu og breyta útliti þeirra stórum ef honum sýndist það verða nauðsynlegt.
Útlit margra fréttaþula breyttist talsvert við þetta og vakti athygli.
Kvöld eitt þegar við Hulda Styrmisdóttir vorum þulir, tók sérfræðingurinn heldur betur til hendinni hvað hana snerti.
Sérfræðingurinn lét mig að mestu vera, enda hafði ég fyrir á litanámskeið mikið þegar Sjónvarpið skipti algerlega yfir í litasjónvarp árið 1977.
Þar voru svonefndir "komplimenter-færger" hafðir í hávegum, svipað og Rembrandt og fleiri málararar notuðu á sinni tíð, þar sem blátt og ljósrautt spiluðu saman.
Ég var rauðhærður og bláeygur og jakki, skyrta og bindi voru í þessum elskuðu litum.
En sérfræðingurinn sneri Huldu Styrmisdóttur nánast á hvolf með gerbreyttri hárgreiðslu, förðun og fatnaði.
Þetta voru það tímafrekar breytingar að hún kom í settið á síðustu stundu.
Mér fannst svo mikið til breytinganna koma, að í þann mund, sem hún átti að hefja lestur fréttatímans, hvíslaði ég að henni eftirfarandi vísu, og nýtti mér í vísunni að eitt orðið í henni breytti alveg um merkingu við það hvort það var skrifað með stórum staf eða litlum.
Þess vegna fer það eftir hugarfari hvers og eins, sem heyrir vísuna, hvernig hann skilur hana og hvort hann hneykslast á henni, hlær eða lætur sér fátt um finnast.
En svona er vísan skrifuð, þótt það heyrist alls ekki við flutning hennar:
Litbrigðin fallegu ljúft er að sjá.
Löngum það hugann vill erta.
Margt er á huldu sem mér líst vel á
en má bara alls ekki snerta.
Skemmst er frá því að segja að Hulda átti í mestu erfiðleikum með að lesa fréttina sem dundi yfir beint á eftir vísunni og var hvað eftir annað við það að skella upp úr. Skal engan undra.
![]() |
Logi Bergmann tekinn í bakaríið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2015 | 21:31
Af hverju eru dimmir morgnar svona langt fram í febrúar?
Í skammmdeginu á enginn að verða hissa þótt veður séu válynd á alla mögulega vegu, með öllum tilbrigðum fimbulkulda og mikilla hlýinda.
En hvers vegna eru vetrarmorgnarnir dimmir svona lengi eftir jól, alveg langt fram í febrúar?
Ástæðan er einföld: Hádegið færist vegna gangs sólar og jarðar til um hálftíma á tímabilinu frá byrjun nóvember til byrjunar febrúar, þannig að það er hádegi klukkan 13:11 í nóvemberbyrjun, en hefur færst aftur til 13:42 í kringum 10. febrúar.
Það þýðir að klukkan er næstum tveimur stundum of sein á þessum árstíma á vesturhluta landsins og það munar um minna.
Staðreyndin er sú að vesturhluti Íslands þar sem meginhluti þjóðarinnar býr, er frá náttúrunnar hendi með skakka klukku upp á hálftíma miðað við það að 0 baugurinni liggi um London, og það að seinka klukkunni í klukkustund í viðbót, færir lífsklukkuna svokölluðu enn lengra frá klukkunni, sem farið er eftir, eða langleiðina að tveimur klukkustundum.
![]() |
Skíðagöngumennirnir fundnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)