Færsluflokkur: Bloggar

Ekki tilviljun sagan um það hvert þeir lendi?

Spurningin um það hve langt lögmenn megi eða eigi að ganga er líklega ævagömul ef miðað má við það að í hugsanlega málaferlum milli Lykla-Péturs og Kölska yrði Pétur með gjörtapað mál, því að sá í neðra hefði alla bestu lögfræðingana, ef ekki stéttina eins og hún leggur sig. 

Á okkar tímum mætti hugsanlega bæta við fjölmiðlafulltrúum stórra fyrirtækja, samtaka og hópa og varpa upp spurningum um það hve langt megi ganga í erindrekstri fyrir þau þegar málstaðurinn kann að vera hæpiinn.  

Þetta er synd, því að dómstólar og réttarfar byggjast á því að allur málflutningur sé sem vandaðastur á báða bóga.

Á það hefur oft þurft skorta til dæmis í Bandaríkjunum, þar sem litli maðurinn hefur oft á tíðum ekki fengið jafn öfluga málflutningsmenn til að reka sín mál og hinir stóru, valdamiklu og öflugu í þjóðfélaginu.

Síðan má ekki gleyma því að dómarnir eru líka lögfræðingar og þar eru kröfurnar um réttlæti og sanngirini ennþá sterkari.  


mbl.is Lögmenn horfist í augu við sjálfa sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bankarán aldarinnar" í október 2008.

Sigurður Einarsson hefur haft allt aðra sýn á Hrunið og framferði bankanna í aðdraganda þess. 

Þegar bankarnir hrundu viku af október 2008 sagði hann að með falli þeirra hefði verið framið "bankarán aldarinnar", hvorki meira né minna. 

Bankaránið fólst hins vegar ekki í því sem bankastjórarnir höfðu gert, heldur höfðu stjórnvöld og utanaðkomandi öfl rænt bönkunum frá bankastjórunum og eigendum bankanna! 

Sýnt hefur verið fram á að bankarnir voru í raun fallnir í byrjun árs 2007 en orð Sigurðar fela í sér líkan hljóm og niðurstöður af nýjustu rannsókn Hannesar Hómsteins Gissurarsonar þess efnis að erlend öfl og erlendar aðstæður hefðu valdið hruni íslenska bankakerfsins, en ekki það sjálft. 


mbl.is Íslendingar geti fengið gögnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýir tímar í íslenskri tónlist.

"Hver er þessi María Ólafsdóttir? er spurning sem hefur vaknað að undanförnu. Hvaðan kemur þessi kornunga söngkona, sem kom, sá og sigraði í kvöld? 

Svarið liggur í fádæma vel heppnaðri útrás íslenskra tónlistarmanna og kvikmyndagerðarmanna undanfarin ár. 

1500 tónleikar þeirra erlendis á síðasta ári eru nefndir sem dæmi, dæmi um það sem fyrir nokkrum árum var kalla "bara eitthvað annað" (annað en stóriðja) í hæðnistóni þegar velt var upp, í hverju framtíð Íslands fælist.  Sjálfur hef ég fylgst með því hvernig Haukur Heiðar Hauksson og Dikta hafa mátt hafa sig alla við að anna erlendri eftirspurn undanfarin ár. 

María Ólafsdóttir hefur verið önnum kafin erlendis við þessa nýju landvinninga, sem byggjast ekki á klækjum brellum og sápukúlulíkri spilaborg eins og bankaútrásin á sínum tíma, því að enginn nær árangri í krefjandi samkeppninni á þessu sviði nema að hafa eitthvað raunverulega gott fram að færa.

Það eru nýir spennandi tímar runnir upp í íslenskri tónlist og ástæða til að óska þeim, sem þar spretta upp og gera góða hluti, til hamingju.

Einnig Ríkisútvarpinu, sem steig upp um klassa í útsendingunni í kvöld, þannig ýmis vandamál fyrri útsendinga urðu gleymdar og grafnar.

Heyrst hafa raddir um að RUV eigi að hætta við það, eftir 19 ára feril, að taka þátt í Söngvakeppni evrópskrar sjónvarpsstöðva.

Það er sérkennilegt sjónarmið.  


mbl.is María Ólafs fer til Vínarborgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjóta fyrst og spyrja svo?

Óvenju gild og mörg rök eru fyrir því að Hagavatnsvirkjun sé í biðflokki. Leirurnar sem sökkva á eru flatar og Landgræðslustjóri hefur mótmælt því að lónið, sem mynda á til að sökkva leirunum, verði notað sem miðlunarlón vegna þess óhjákvæmilega og nýja leirfoks sem myndi verða nýföllnum leir á hverju vori þegar lítið er í lóninu.

Hvert verður gildi og hagkvæmni virkjunarinnar ef hún verður í lamasessi á veturna? Og útsöluverðið á orkunni?Sandvatn

Og hvaðan eiga gróðurhúsabændurnir, sem sagt er að eigi njóta góðs af virkjuninni að fá orku á veturnar. 

 

Á mynd RAX, sem sýnd er með frétt á mbl.is og er sennilega tekin fyrir nokkrum árum, sést hvernig vatnið er að fyllast upp af framburði Sandár vinstra megin á myndinni, - svonefnd aurkeila, sem gerir ekkert annað en að stækka ár frá ári með nýju sandfoki.

Þá mun þurfa nýja og stærri stíflu til að sökkva enn stærra svæði en gert var um 1990 og svona áfram koll af kolli. 

Sama mun gerast varðandi stækkað Hagavatn. Þarna er skómigustefnan, að það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn, lifandi komin.

En virkjanaákefðin er svo mikil að það á að skjóta fyrst og spyrja svo.  

 


mbl.is Hagavatn fari í nýtingarflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamótasetning Vilmundar: "Löglegt en siðlaust".

Fyrir um fjórum áratugum þegar Vilmundur Gylfason fjallaði um ákveðin álitamál í viðtali í sjónvarpsþætti og viðmælandinn reyndi að réttlæta gerðir sínar með því að segja að þær hefðu allar verið fyllilega löglegar, hraut út úr Vilmundi: "Löglegt en siðlaust", einhver merkilegustu orð síðustu aldar, því að enn í dag, fjórum áratugum síðar, varpa þessi orð ljósi á nýjustu viðfangsefnin í dómsmálum hér á landi og stærsta mál síðustu áratuga, Hrunið. 

Það eitt, að þetta skuli vera í gerjun hér á landi nú, sýnir hve langt Vilmundur var á undan samtíð sinni, ekki aðeins hér á landi, heldur á alheimsvísu. 

Eva Joly nefnir dæmi um alþjóðasamhengið, að í öðrum löndum sé meðferð mála hliðstæðu Al Thani-málinu ekki komin á það stig sem birtist í dómi Hæstaréttar. 

Nýlega var í bandarískum sjóvarpsþætti varpað ljósi á spillt hagsmunatengsl bandarískra bankastofnana og þingmanna og var það rakið í bloggpistli hér á síðunni á dögunum. 

Hinir sakfelldu í Al-Thani-málinu halda fram sakleysi sínu og einn þeirra ætlar að leggja málið fyrir Mannréttindadómsstól Evrópu. 

Þetta er út af fyrir sig rökrétt afstaða hinna sakfelldu, því að allan feril sinn frá síðustu aldamótum réði för hjá þeim ákveðið hugarfar sem strax gekk fram af Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra, sem sýndi álit sitt og hug á táknrænan hátt og tók út allan sparnað sinn hjá Búnaðarbankanum. 

Má það vel vera í minnum haft þótt sá hinn sami Davíð hafi, ásamt Halldóri Ásgrímssyni, staðið á bak við það hvernig þeir Kaupþingsmenn og Landsbankamenn komust upp með klæki sína við kaupin á ríkisbönkunum.  

Margir munu kalla hugarfarið sem Davíð mótmælti, siðblindu, því að hinir ákærðu hafa ekki talið neitt athugavert við gerðir sínar, hvorki lagalega né siðlega og trúa þessu sennilega sjálfir.  

Þess vegna eru orð Vilmundar í fullu gildi í dag sem og viðfangsefnið á alþjóðlegan mælikvarða, að athæfið, sem dæmt hefur verið fyrir, hafi hvorki verið löglegt né siðlegt. 

Eva Joly getur verið stolt af sínu framlagi til málsins, hvernig sem það fer á endanum í Strassborg. 

Á hinn bóginn verður ávallt að vanda til verka þegar um er að ræða það svið lýðræðisins, sem getur brotist út í reiði sem yfirgnæfi sanngirni og réttlæti eins og gerðist í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum á sínum tíma. 

 


mbl.is „Mjög gott fyrir lýðræðið á Íslandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krepputunga, Hvannalindir, Kverkfjöll, Askja og Herðubreiðarlindir "lokuð".

Miklu skiptir varðandi lokanir og öryggisráðstafanir í kringum gosið í Holuhrauni að reynt verði að sýna meiri sveigjanleika en gert var í fyrra.

Svo er að sjá á korti yfir breytt aðgangssvæði við eldgosið að staðirnir, sem taldir eru upp í fyrirsögn þessa pistils séu á því svæði, sem þess vegna getur verið lokað fyrir venjulegri umferð, en hins vegar opnast aðgangur að Dyngjuhálsi og Dyngjufjallaleið þótt á hættusvæði sé.

Heitið "aðgangsstýrt svæði" vekur vonir um að settir verði í það fjármunir og mannskapur að stjórna umferð eftir veðri og aðstæðum með tengslum við þá sem eru á ferðinni því að það er slæmt fyrir ferðaþjónustuna ef ástandið lagast ekkert frá því í fyrrasumar.

Úr sögunni er óþörf lokun, sem var í fyrra á Þríhyrningsleið, Álftadalsleið, Brúardalaleið og fleiri leiðum norðaustan við Arnardalsá.

Eftirsjá er að svæðinu vestan við Dettifoss en huggun að hægt verður áfram að að fara að fossinum austan megin eins og var áður en nýi vegurinn var lagður vestan megin að honum.    

 

 


mbl.is Breytt aðgangssvæði við eldgosið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áður voru það "ónýtir kofar úr fúaspýtum," nú "ónýt steypa".

Torfusamtökin hafa reynslu að því að fást við mat á húsum, þar sem viðkomandi hús hafa verið dæmd einskis virði en annað hefur komið í ljós. 

Í kringum 1970 átti að rífa Bernhöftstorfuna og reisa risastóran glerkassa fyrir stjórnarráð Íslands. Sagt var að húsin í á torfunni væri "ónýtt kofadrasl og fúaspýtur" enda væri timbur þess eðlis að það entist skammt, fúnaði og yrði ónýtt.

Þess vegna þyrfti að ryðja burt þessu timburdrasli svo sem Fjalakettinum og öðrum úreltum timburhúsum og reisa bákn úr steypu og gleri í staðinn. 

Nú myndi engum láta sér detta í hug að hrófla við Bernhöftstofrunni. 

Það nýjasta er þrátt fyrir alla ástina á steinsteypunni er nú er hún allt í einu orðin að ónýtu drasli sem þurfi að fjarlægja og reisa stærri og meiri steinsteypuklumpa í staðinn. 

Að vísu verður byrjunin fólgin í að rífa það gamla og reisa eftirlíkingu í staðinn.

En þegar um er að ræða menningarminjar verður hins vegar að stíga varlega til jarðar og vanda sig. 

Þar sem slíkt hefur verið gert víða á landinu hefur það gefist vel. 

 


mbl.is Niðurrif „menningarlegt slys“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Man nú einhver auglýsinguna um "Kápþinking"?

Kannski mætti kalla málið, sem dæmt var í í gær, Búnaðarbankamálið ef ferill hinna sakfelldu er rakinn aftur í tímann vegna þess að við sölu Búnaðarbankans upp upp úr síðustu aldamótum varð til ákveðinn hugsunarháttur og fjársýsluaðferð, sem gekk eins og rauður þráður í gegnum stofnun Kaupþingsbankans og starfsemi hans allt til Hruns. 

Veifað var sem staðreynd að þýskur banki hefði mikinnn áhuga á sölunni þótt í ljós kæmi að ekki var fótur fyrir því, og kaupendur Landsbankans og Búnaðarbankans stunduðu sameiginlegar og samtvinnaðar bókhaldskúnstir til þess að fóðra kaupin svo að á yfirborðinu liti út fyrir að lagðir væru fram miklir fjármunir þegar þessi fjármunir voru í raun að miklu leyti tölur á pappír.

Þessar aðferðir svínvirkuðu og báru þann tilætlaðan árangur að færa nýjum einkaeigendum þessa tvo ríkisbanka á silfurfati undir stjórn þáverandi landsherra á bak við tjöldin.

Þegar fyrir lá hve árangursríkar svona brellur voru og meira að segja löglegar, þótt Vilmundur Gylfason hefði líklega sagt að þær væru "löglegt en siðlaust" athæfi, varð ekki aftur snúið í því að halda áfram að þróa hinn nýja stíl á viðskiptasviðinu þangað til hann færi með himinskautum.

Hannes Smárason lýsti hliðstæðum hundakúnstum þáverandi fjármálasnillinga á Íslandi þannig í tímaritsviðtali 2007 að "það myndi engum detta í hug að gera það sem við erum að gera nema fólki sem veit engan veginn hvað það er að fara út í." Og svaraði með þessum orðum spurningu undrandi blaðakonu um "innihald íslenska efnahagsundursins" sem lýst var í kosningaauglýsingum með kjörorðunum "traust efnahagssstjórrn" og "árangur áfram,- ekkert stopp." 

Sömu stjórnmálaöfl og höfðu hrint af stað 90% lánshlutfalli á landsvísu og unnið kosningar út á það kjörorð, og höfðu jafnframt staðið að mestu þenslu síðari áratuga gáfu hinum innvígðu og innmúruðu snillingum tækifæri til að færa blekkingakúnstir græðginnar á fjármálasviðinu upp í nýjar hæðir á heimsvísu með stofnun og starfsemi Kaupþings og hinna einkabankanna.  

Óbrotgjarnasti vitnisburðurinn til allrar framtíðar um það hvert menn voru komnir þegar hæst lét var myndband fyrir starfsfólk og viðskiptavini Kaupþingsbanka þar sem fullyrt var að í þeim banka hefði verið fundin upp alveg ný og háþróuð formúla í fjármálaviðskiptum sem hlaut nafnið "Kaupthinking", borið fram "Kápþinking".

Þar með væru Íslendingar orðnir svipaðir brautryðjendur og byltingarfrömuðir í fjármálasnilld á heimsvísu og víkingarnir voru í landafundum fyrir þúsund árum.

Þegar horft er á þetta myndband tekur maður andköf af undrun yfir því hvert þessir menn og þjóð þeirra voru komnin. Og tekur aftur andköf þegar maður heyrir hvaða augum Sigurður Einarsson lítur á dóm Hæstaréttar, því að skoðun hans á dóminum er í rökréttu samhengi við alla atburðarásins, sem hófst með sölu ríkisbankanna fyrir 13 árum, og munurinn á viðhorfum hans og hæstaréttardómaranna er svo yfirgengilega mikill, að maður á ekki orð.

Man nú nokkur "Kápþinking"? Eða er þetta aðferð sem er að stinga upp kollinum á ný hér og þar í nýjum myndum?

Lára Hanna, máttu og geturðu framkallað myndbandið um "Kápþinking" fyrir okkur svo að við getum notið þess að sjá það aftur. Og helst aftur og aftur og aftur? 


mbl.is Mikilvægt að ekki skapist friðhelgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miskunnsami Samverjinn fjarstaddur.

Miskunnsami Samverjinn í dæmisögu Krists kom nauðstöddum manni til hjálpar eftir að góðborgarar og prelátar höfðu gengið fram hjá honum í blóði sínu hver á fætur öðrum án þess að gefa sig að honum eða leggja honum lið.  

Ef Kristur hefði verið að segja þessa dæmisögu á Íslandi á þessum Drottins degi, hefði hann líklega sett prest, þingmann, dómara og vellauðugan framkvæmdastjóra í hlutverk þeirra sem sýndu sinnuleysi en öskukarl í hlutverk miskunnsama Samverjans. 

Munrinn er þó sá, að enginn öskukarl var á ferð þar sem nauðstadda íslenska konan lá með tveggja ára barn við hlið sér.

Hliðstæður þessarar íslensku sögu er reyndar alþekktar víða úr borgarsamfélögum heimsins og eru taldar merki um ákveðna firringu í streitu borgarlífsins, sem svipti okkur samkennd með náunga okkar.

 

 


mbl.is Hunsuðu konu í flogakasti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Man nú nokkur Evu Joly?

Nú eru liðin rúmlega sex ár síðan þau meintu efnahagsbrot voru framin, sem dæmt var loks fyrir í Hæstarétti í dag. Skömmu eftir Hrunið fékk Egill Helgason hina frönsku Evu Joly til þess að koma til Íslands til þess að gefa ráð um það hvernig ætti að fara að við að rannsaka einstök atriði Hrunsins til þess að koma lögum yfir þá, sem kynnu að hafa brotið lög.

Eva lagði til að nota mikla fjármuni og mannafla til þess að rannsaka alla anga málsins og spáði því að það að þetta myndi taka mörg ár.

Það var ekki lítið sett í gang til þess að gera sem minnst úr Evu Joly og tala niður til hennar í hvívetna. Þetta væri bara ein af þessum vinstri sinnuðu kerlingum sem hötuðust við markaðskerfið og stæðu fyrir nornaveiðum.  

Í hönd fór tími sem hefur enst langleiðina til þessa dags, 12. febrúar, þegar fyrstu bankastjórarnir hljóta dóma, að margir hafa orðið til þess mestallan þennan tíma að horfa í þá peninga og vinnu sem málareksturinn hefur tekið.

Björn Bjarnason rifjar það upp á bloggsíðu sinni að þeirr spurningu hafi verið varpað upp eftir Hrunið hvort hægt væri að byggja réttláta og sanngjarna refsidóma á reiði almennings.

Mér finnst vel koma til greina að varpa slíkri spurningu upp, samanber dómana yfir sakborningunum í Geirfinns- og Guðmundarmálum sem voru uppkveðnir undir gríðarlegum þrýstingi frá almenningi og fjölmiðlum.

Þáverandi dómsmálaráðherra orðaði þetta með því að segja opinberlega að með fangelsun og dómstólameðferð væri þungu fargi létt af þjóðinni.

Björn Bjarnason kemst að þeirri niðurstöðu í pistli sínum að kostirnir við málareksturin og dómana vegi þyngra en efasemdir um að fara hefði átt í þessa vegferð Sérstaks saksóknarar.

Séu dómarnir réttir muni það styrkja réttarkerfið og efla traust á fjármálakerfinu og stjórnskipan okkar sem aftur muni verða til þess að skila meiri fjárhagslegum ávinningi en nam þeim kostnaði, sem málareksturinn hefur kostnað. 

Ég held að þessi rök Björns séu gild. 

 

 


mbl.is Kaupþingsmenn sakfelldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband