Færsluflokkur: Bloggar

Vöxtur ferðaþjónustunnar bjargar miklu.

Með gjaldeyrishöftum og öðrum aðgerðum auk vaxandi innstreymis gjaldeyristekna í gegnum ferðaþjónustuna er gengi íslensku krónunnar haldið það hátt, að ekki skapist verðbólga hér innanlands vegna hækkandi innkaupsverðs á erlendum vörum. 

Lítil verðbólga í helstu viðskiptalöndum, sem nálgast verðhjöðnun sums staðar, hjálpar til. Evran er meira en 10 krónum verðminni í krónum en hún var.

Bensínlítrinn helst í rúmlega 240 krónum. Stiginn er viðkvæmur jafnvægisdans til þess að vernda kaupmátt umsamins kaups og hóflegra kauphækkana.

Lítið má út af bregða til að allt fari ekki af stað og verðbólguhjólið fari að snúast hraðar.

Aukin neysla og kaupmáttur skapar hættu á viðskiptahalla við útlönd í stað jákvæðs viðskiptajöfnuðar.

Þess vegna eru of mikil neysluaukning og innflutningur ekki æskileg, heldur hægur vöstur lukkunnar best.

Vöxtur ferðaþjónustunnar, hluti af því sem kallað var í háði "eitthvað annað", hefur skipt sköpum um hæga en jafna endurreisn eftir Hrunið.     


mbl.is Viðskiptajöfnuður óhagstæður um 12 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mörk sveitarfélaga og valdmörk oft til trafala.

Hveragerði var smáþorp þegar það var gert að sérstöku sveitarfélagi 1946, en að öðru leyti var Ölfushreppur dreifbýli, þar með talin Þorlákshöfn. 

Síðan þá hefur orðið gerbreyting á byggðinni í hinum gamla Ölfushreppi og á auðlindum öllum og nýtingu þeirra.

Íbúar Hveragerðis eru fimm sinnum fleiri nú en 1946 og íbúar Þorlákshafnar eru 1489.

1946 var ekkert vitað um það að jarðvarmaorku á Hellisheiði mætti virkja og setja þar upp 303 megavatta stórvirkjun, sem Hveragerði stæði næst og hefði mest áhrif á þá byggð með mestu loftmengun, sem kemur frá nokkru fyrirtæki á landinu og manngerðum jarðskjálftum.

Enn síður var vitað um það að hin nýtta jarðvarmaorka lenti öll í landi Ölfushrepps og þar með tekjurnar af henni.

Sem þýðir að Hvergerðingar hafa ekki fengið og fá ekki enn neinu ráðið um þau mál, þótt næstir búi því svæði, sem þegar hefur verið virkjað og enn nær því svæði, sem sóst er eftir að virkja með Bitruvirkjun og Grændalsvirkjun alveg ofan í þorpinu.

Fyrirkomulag sveitarstjórnarmála hér á landi býður upp á og býr til mörg óþörf vandamál, sem valda illindum og tjóni með asnalegum mörkum sveitarfélaga oft á tíðum og skaðlegum valdmörkum, eins og kristallast vel í deilunum um Reykjavíkurflugvöll og lagningu hringvegarins um styttri leið í Blönduósbyggð en nú er.    

 


mbl.is Hvergerðingar vilja sameiningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"The quickest draw in the west."

Sumir menn hafa þann eiginleika að vera sneggri til snjallra tilsvara en aðrir. Sá snjallasti sem ég man eftir í svipinn var Svavar heitinn Gests. Ekki þarf annað en að hlusta á upptökur af sumum spurninga- og spjallþáttum hans í útvarpinu í gamla daga til að dást að þessu.

Hann hafði þann einstaka hæfileika að geta með eldsnöggum tilsvörum og athugasemdnum gert viðtöl við almúgafólk um hversdagslega hluti að algeru eyrnakonfekti.

Aldrei minnist ég þess að hann hafi sagt upphátt það, sem hann hugsaði, á þann hátt að það væri missheppnað eða gæti hneysklað eða meitt nokkurn mann.

Sumir stjórnmálamenn hafa búið yfir þessari náðargáfu og hún komið sér vel fyrir þá 

Í fljótu bragði koma tveir þeirra helst upp í hugann í þeim efnum, Ólafur Thors og Davíð Oddsson.

Fyrir tilviljun lenti ég í sjónvarpsviðtali við Jeremy Clarkson fyrir 22 árum og kynntist því hve óskaplega snöggur og hnyttinn hann gat orðið, hvenær sem var. Snilli hans byggðist fyrst á fremst á hraðanum, sem oftast er aðalatriðið í þessum efnum, svona líkt og þegar sagt var um snjöllustu byssumenn í villta vestrinu, að þeir hefðu "the quickest draw in the west."  

En hraðanum getur fylgt hræðilegur galli: Að illa ígrundaðar eða öllu heldur alveg óhugsaðar athugasemdir séu látnar vaða með slæmum afleðingum. Að skjóta fyrst og spyrja svo.

Jeramy Clarkson virðist vera einn þeirra, sem oftast lendir í þessu, og því virðast menn nú standa frammi fyrir þremur slæmum kostum:

Að hann fái að njóta sín áfram eins og hann hefur gert, þótt einstaka sinnum sé skotið yfir markið...

...að hann verði rekinn eins og nú er mikil hætta á....

...eða að hann hætti að segja nokkuð nema hugsa sig vel um áður, missa þar með af því höfuðatriði sem hraðinn er,  og verða þar með kannski ekki nema svipur hjá sjón.

Það verður spennandi hvernig þetta fer. En jafnvel þótt ferillinn endi, getur hann huggað sig við það að eiga einstakan sjónvarpsferil að baki.     

 


mbl.is Top Gear-stjóri á gálgafresti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórn féll á hálsbindi, - farði hjálpaði til við stjórnarmyndun.

Ég hef nokkrum sinnum lent í rökræðum vegna fataburðar á opinberum vettvangi, allt frá því er ég kom fyrst í vinnuna á fréttastofu Sjónvarpsins fyrir 45 árum á hvítleitum íþróttaskóm.  Þá var enginn í slíkum skóm og fréttastjórinn harðbannaði mér að vera í slíkum skóm, þótt ég segði, að á skjánum sæi enginn í hverngi skóm ég væri.

Ég keypti mér svarta íþróttaskó í fyrstu utanferð eftir þetta og hef síðan verið í slíkum skóm, en nokkrum árum eftir "hneykslið" 1969 voru langflestir komnir í hvítleita íþróttaskó en ég farinn að skera mig úr á svörtu skónum !

Ég er yfirleitt í svipuðum fötum hvar sem er, líka uppi á jöklum og hálendinu ef svo ber undir. Hef gert þetta svo lengi að það myndi vekja meira umtal ef ég hætti því. En lengi vel vakti þetta vafalaust einhverjar truflandi umræður, sem ég ákvað að láta mig hafa, frekar en að fara að vera eitthvað annað en ég er og held að ég sé fyrir löngu kominn í gegnum þetta.  

Ég reyni alltaf meðferðis þann fatnað og búnað sem þarf þótt ég fari ekki í hann nema ég þurfi. Að öðrum kosti hefði eg varla haft það af að sofa í 20 stiga frosti í bíl einn á öræfunum.  

En það er atvikum og aðstæðum háð hve langt skuli ganga í þessum efnum.

Atvik í þingkosningum í Noregi á áttunda áratugnum var lærdómsríkt. Ríkisstjórnin stóð tæpt en átti góða von. Í lokaumræðum í sjónvarpi var formaður minnsta ríkisstjórnarflokksins með alveg einstaklega skræpótt og skærlitt hálsbindi.

Fylgi flokksins hríðféll daginn eftir, á kjördegi. Ástæða? Jú, á hverju heimili, þar sem verið er að horfa á umræðurnar, eru fleiri en einn áhorfandi, og það þarf aðeins einn áhorfanda til að byrja að tala um klæðaburð til þess að trufla athygli annarra á því sem viðkomandi maður er að segja.

Eftir á fundu menn út að vegna háværra umræðna um hálsbindið hefði boðskapur formannsins farið fyrir ofan garð og neðan hjá sjónvarpsáhorfendum, flokkurinn tapað og ríkisstjórnin fallið.

Ég lenti nýlega í því að gleyma að setja á mig gleraugun í Kastljósviðtali og vildi láta byrja aftur á viðtalinu, - bar það fyrir mig, að það, að ég væri allt í einu ekki með gleraugu í meira en 15 ár, - það myndi trufla viðtalið og beina athygli áhorfenda að því og frá því sem ég væri að segja.

Röksemdir mínar þóttu óvenjulegar og þær og hinn gleraugnalausi hluti viðtalsins var sendur út. Allt í góðu með það og bara skemmtileg uppákoma,  - þetta var nú einu sinni ekki spurning um úrslit í kosningum. 

Ég stend hins vegar við það að jafnvel fólk eins og ég, sem hefur ekki minnsta áhuga á fötum, gefi lítið fyrir fataburð eða taki lítið eftir honum, og að jafnvel þótt maður eigi "að vera maður sjálfur" og standa á sínu, ætti að íhuga vandlega að láta ekki fataburð eða annað, sem kemur sjónvarpsefninu ekki við, hafa að óþörfu truflandi og neikvæð áhrif á það sem koma þarf á framfæri í útsendingunni.

Eysteinn heitinn Jónsson var tileygur en fann það út að það var mismunandi áberandi eftir því hvor vanginn sneri að myndavélinni. Hann brosti þegar hann fór réttilega fram á það að vera myndaður frá þeirri hlið þar sem hann sýndist réttsýnni !  

Ein af ástæðum þess að Gunnari Thoroddsen tókst á ævintýrlegan hátt að mynda ríkisstjórn 1980 var sú að Geir Hallgrímsson átti annríkt og lét taka viðtal við sig í frosti úti undir bláum ljósastaur hjá Alþingishúsinu á örlagastundu fyrir kvöldfréttir.

Rödd hans virtist skjálfandi og titrandi í kuldanum, og í viðtalinu varð hið bogna nef hans blárautt af kulda með sultardropann lekandi. Hann var ófarðaður og útlit hans ömurlegt, svo að orð var á haft þegar viðtalið var sent út.  

Hann virkaði óöruggur og titrandi af geðshræringu yfir tiltæki Gunnars, sem var í rauninni fífldjarft þannig að best hefði verið fyrir Geir að gefa sér tíma til að koma í viðtal innan húss, þar sem hann yrði öryggið uppmálað varðandi vonlausa stöðu Gunnars.  

Á sama tíma gaf Gunnar sér góðan tíma til að koma flottur, fínn, farðaður og afslappaður í viðtal inni í hlýjum sjónvarpssal og brilleraði í beinni útsendingu, - þóttist vera með allt á hreinu varðandi myndun meirihlutastjórnar, þótt í raun væri það alls ekki svo.  

Í viðtölum ættu fréttamenn ætíð að gæta þess að viðmælandinn þurfi ekki að horfa upp á við til spyrjandans. Það er einfaldlega sálfræðileg staðreynd, að við það minnkar myndugleiki (authoritet) þeirra í augum sjónvarpsáhorfenda og að þetta bitnar meira á konum en körlum.

Það er nefnilega sama hvað okkur þykir sum sálfræðilögmál barnaleg, að þau eru staðreyndir og hafa áhrif. Þetta hef ég reynt of oft til að geta neitað því.  


mbl.is „Við erum bara blankir fréttamenn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðveldara að svara í síma en að kjósa á netinu.

Píratar hafa verið sterkastir hjá aldursflokknum 18-28 ára. Á þeim aldri eru netið og samskiptamiðlar þess alls ráðandi, en dagblöðin og ljósvakamiðlarnir miklu minna notaðir en hjá öðrum aldursflokkum.

Í næstu Alþingiskosningum verður þetta aldursflokkurinn 18-31 árs, hópur sem fer sístækkandi.  

Það er nýtt fyrirbæri að niðurstöður skoðanakannana, sem gerðar eru reglulega alveg fram að kjördegi, séu jafn mikið á skjön við úrslitin í kjörklefanum og nú varð.

10% kjósenda, sem féllu út og komu ekki á kjörstað til viðbótar 30% eru hvorki meira né minna en 24 þúsund manns.

Ástæða stóraukins misræmisi á fylginu í skoðankönnunum og fylginu í kjörklefunum hlýtur að vera sú, að það er svo miklu auðveldara að svara spyrjendum í skoðanakönnunum í síma eða á netinu heldur en að hafa fyrir því að fara á kjörstað.

Þeim, sem ekki taka þátt í sveitarstjórnarkosningum hefur fjölgað um næstum helming síðustu árin og við svo búið má ekki standa, úr því að í ljós kemur að stór hluti þessa fólks hafði samt skoðanir, sem það lét uppi skoðanakönnunum.

Sem þýðir að niðurstaða kosninganna voru bjagaðar og skakkar og slíkt er afar hættulegt lýðræðinu.

Píratar fara líklega verr út úr þessu en aðrir vegna þess að kjósendur þeirra lifa meira og hrærast á netinu en aðrir og lætur betur að láta til sín taka þar en með hinum gamla hætti að fara á kjörstað.

Það var áberandi hve þeir fengu yfirleitt minni stuðning nú í kosningunum en í skoðanakönnunum og svipaða bjögun má vafalaust finna á einstökum stöðum hjá öðrum framboðum.

Úr því að tæknin til að gefa fólki kost á að kjósa á netinu, ef það vill, er fyrir hendi, ættu stjórnmálamenn að líta á það sem skyldu sína að ganga í það að bjóða upp á slíkt.

Þetta hefur verið gert í öðrum löndum með góðum árangri.

Ég sé mótbárur þess efnis að einveran og leyndin í kjörklefanum séu nauðsynleg og annað komi ekki til greina.

Þessu er ég ósammála. Að sjálfsögðu á að gefa öllum kjósendum, sem það vilja, kost á að nota gömlu aðferðina og hinir, sem myndu nota netið, ráða því sjálfir hve mikla leynd þeir vilja viðhafa.

Hitt er vantraust á kjósendum að gefa sér það að þeir séu hraktir frá því að kjósa leynilega með því að gefa þeim kost á að kjósa í netkosningu.  Auðvitað ættu þeir að geta það, ef þeir vilja það, eða þá farið á kjörstað með gamla laginu, ef einhverjir á heimilinu eru að ónáða þá. 


mbl.is Vilja endurtalningu í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klókt að tala við bæði Vg og Pírata.

Það er mikið til í því sem skrifað er í leiðara Morgunblaðsins í dag að það sé klókt hjá oddvitum Samfylkingar og Bjartrar framtíðar í Reykjavík að tala við bæði fulltrúa Vg og Pírata.

Ástæðan er sú að með því að það þurfi brottfall bæði Vg og Pírata til að meirihlutinn falli minnka líkurnar á því að samstarfið rofni, jafnvel þótt það kunni að sýnast erfiðara að sætta tvo en einn ef útaf bregður.

Þegar einn fulltrúi hefur algert úrslitavald eins og væri, ef aðeins Sóley eða aðeins Hallór væru í þriggja flokka samstarfi, getur það úrslitavald orðið að ansi beittu vopni.

Slíkt vopn verður hins vegar bitlausara ef það nægir ekki að hlaupast einn undan merkjum.  


mbl.is Munu taka sér tíma í viðræðurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðileg ógn: Dagur ræðir við "umhverfiskommúnista" og "Svarta Pétur".

Það er fróðlegt að sjá viðbrögð sumra hér í borginni við því að Dagur B. Eggertsson ætli að ræða við Vg og Pírata um myndun meirihluta í borginni.

Þessir bloggarar súpa hveljur yfir tilhugsuninni um að "umhverfiskommúnistar" og "Svarti Pétur" muni hafa kverkatak á Degi, setja honum stólinn fyrir dyrnar og leiða þar með hræðilega ógn yfir borgarbúa.

Fyrir rúmum 20 árum fóru nokkrir þáverandi borgarfulltrúar í boðsferð til Parísar til þess að kynna sér borgarmálefnin þar. Þeir fengu meðal annars að kynnast leikskólunum í París og því að þeir voru og eru enn gjaldfrjálsir þar.

Fulltrúarnir supu hveljur yfir þessu og pössuðu sig á því að segja helst engum frá þessum hræðilega kommmúnisma sem þarna hefði verið innleiddur, en hefur nú skotið upp kollinum næstum aldarfjórðungi síðar hér á klakanum, sumum til ósegjanlegrar skelfingar.

"Umhverfiskommúnismi." Ljótara orð finna sumir varla, þar sem tvö hroðaleg hugtök, kommúnismi og umhverfismál eru spyrt saman. 

Vg átti fulltrúa í R-listanum sáluga þar sem halda varð friðinn við Framsóknarmenn, sem öðrum fremur réðu ferðinni þegar ráðist var í einhverja mestu rányrkju í sögu landsins í Hellisheiðarvirkjun, þar sem orkan er þegar byrjuð að dvína, enda var það látið nægja sem forsenda fyrir virkjuninni, að hún entist í í aðeins skitin 50 ár og barnabörn okkar myndu þurfa að ráða fram úr því að við hefðu klárað orkuna á skemmri tíma en líftíma kolanámu eða olíulinda.

Frá henni leggur nú mestu loftmengun nokkurs fyrirtækis á Íslandi, sem hefur fengið undanþágu til að fara yfir heilsuverndarmörk .

Vinstri grænir voru með einhverjar vomur út af þessu í R-listanum en voru ofurliði bornir af Alfredo og kó í byggingu eins stórfenglegasta minnismerkis um bruðl og græðgi sem reist var á leiðinni til hruns OR og bankakerfisins. Vg varð að velja milli þess að halda R-listanum saman og sitja hjá eða að sprengja samstarfið og leiða Sjallana aftur til valda með REI-klúðri sínu fjórum árum fyrr en ella.   

Nú óttast margir að "umhverfiskommúnistarnir" í Vg muni telja sig hafa lært eitthvað af þessu og muni setja skilyrði þess efnis að ekki verði vaðið að nýju af stað í virkjunum, sem sóst er eftir með samfelldu neti jarðvarmavirkjana milli Þingvallavatns og Reykjanestáar.

Bara tilhugsunin um slíkt andóf umhverfiskommúnista vekur hríslandi hroll hjá mörgum, enda ráða kommúnistar nú aðeins yfir Kúbu og Norður-Kóreu og allir vita um ástandið þar. 

Ekki er ógnin minni í augum ofangreindra bloggara varðandi hinn hræðilega Svarta Pétur, Píratann, sem muni setja sem skilyrði skelfilegt netlýðræði, opnari stjórnsýslu og beinni þátttöku almennings.

Slíkt er ekki minni ógn en "umhverfiskommúnisminn", því að hvort tveggja hefur síast inn hjá grandalausum, nytsömum sakleysingjum eins og mér, að ekki sé minnst á þá skelfingu, að varðandi beina lýðræðið hefur hinn "innvígði og innmúraði" Sjálfstæðismaður Styrmir Gunnarsson gengið þessari stórhættulegu villutrú og aðför að þjóðfélaginu á hönd.

Nú eru góð ráð dýr fyrir þá sem spá ofan á allt þetta að stutt sé að Sharía-lög múslima verði innleidd á Íslandi eftir að 220 manna söfnuður múslima hafi náð meirihluta hjá þjóðinni.

Þeir eru ekki að grínast þessir bloggarar, - maður les þetta þessa dagana á samfélagsmiðlunum.  


mbl.is Dagur ræðir við þrjá flokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósamkvæm sjálfri sér. Eru kosningarnar þá ósigur hennar?

Hanna Birna Kristjánsdóttir er heldur betur ósamkvæm sjálfri sér þegar hún segir annars vegar að minna fylgi Bjartrar framtíðar en Besta flokksins séu mikið áfall fyrir Jón Gnarr, en að hins vegar sé metfylgi Samfylkingarinnar eingöngu að þakka miklu fylgi við Dag B. Eggertsson.

Jón Gnarr og Besti flokkurinn voru einfaldlega ekki í framboði í þessum kosningum í borginni og fólk eins og Óttar Proppé er farið af vettvangi.

Þegar Hanna Birna fór sjálf úr embætti borgarstjóra byrjaði fylgi Sjálfstæðisflokksins að dala og eftir að hún fór úr borgarstjórn yfir í landsmálin hefur næstum helmingurinn af fylgi flokksins hrunið af honum og er það lang lægsta sem um getur í borgarstjórnarkosningum.

Ef Hanna Birna væri samkvæm sjálfri sér myndi hún segja að úrslitin væru mikið áfall fyrir hana.

En það segir hún ekki.

Úrslitin núna eru hvorki áfellisdómur um hana né Jón Gnarr í embætti borgarstjóra.

Raunar tel ég að á þeim stutta tíma sem Hanna Birna fékk til að gegna stöðu borgarstjóra hafi hún gert það afar vel við einhverjar erfiðustu aðstæður, sem nokkur borgarstjóri hefur fengið í fangið.

Jón Gnarr fékk síðan hrun OR í fangið og miklar hrakspár um væntanlegar ófarir hans og borgarstjórnarmeirihluta hans gengu ekki eftir.

Jón kom inn í borgarmálin með ferskan og nauðsynlegan gust, sem hristi upp í stöðnuðum stjórnmálum og þarf ekki að kvíða dómi framtíðarinnar um sitt framlag.  

Ég sé þau Hönnu Birnu og Jón Gnarr sem borgarstjórana tvo sem reistu borgarmálin úr rústum á grundvelli hæfileika sinna til að innleiða mannleg samskipti, sem löðuðu fram samstarf og jákvæðni eftir illindi og fádæma ólgu og óreiðu.

Arfleifð þeirra að því leyti eru því báðum til sóma en ekki "áfall" sem þau þurfi að skammast sín fyrir.   


mbl.is Úrslitin mikið áfall fyrir Jón Gnarr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá sem ræður vettvangnum ræður miklu.

Þá virðist það ljóst: Framsókn og Sjallar geta ekki myndað meirihluta í Reykjavík nema að fá Bjarta framtíð yfir til sín því að útilokað er að Vg og Píratar fari með þeim. Samfylkingin mun því líklega mynda meirihlutann og Dagur B. Eggertsson verða borgarstjóri.  

En í annað skiptið með árs millibili tókst Framsóknarflokknum að snúa kosningaúrslitum stórlega sér í hag með því að nýta sér eitt elsta bragð í allri baráttu, hvort sem er í hernaði, deilum, íþróttum eða stjórnmálum, að sá sem ræður vettvangnum / bardagasvæðinu / umræðuefninu, ræður miklu meiru en nemur styrk hans að öðru leyti.

Með valdi yfir vettvangnum og stjórna með því umræðunni, næst oft frumkvæði, að ekki sé minnst á athyglina. Í flokkaíþróttum felst þetta oft í því að ráða bardagaaðferðinni, til dæmis því hvort spilið verði hratt eða hægt, og að geta "spilað sinn leik" en koma í veg fyrir að andstæðingarnar geti spilað sinn leik.  

Framsóknarflokknum tókst að láta Alþingiskosningarnar 2013 snúast nær eingöngu um sitt aðalmál, aðgerðir í skuldavanda heimilanna. Allir þátttakendur í þeirri kosningabaráttu neyddust til að fara inn á þann vettvang og berjast þar og gefa Framsóknarflokknum þar með jafn mikla eða jafnvel meiri athygli en öllum hinum til samans og láta Sigmund Davíð stjórna umræðunni.

Til að þetta væri hægt þurfti málatilbúnaður flokksins að vera svo nýstárlegur, stórtækur og snerta svo marga, að það sætti óhjákvæmilega mestum tíðindum í kosningabaráttunni. Flokkurinn stjórnaði umræðunni.  

Frjálslyndi flokkurinn reyndi að gera svipað haustið og veturinn 2006-2007 með því að setja innflytjendamál á oddinn.

Bragðið hefði heppnast fullkomlega ef flokkurinn hefði ekki gert þau mistök að setja málið of snemma á flot, þannig að enda þótt fylgi hans þrefaldaðist í fyrst í skoðanakönnunum, fjaraði smám saman undan því fram að kosningum, og eftir kosningarnar og í Hruninu hvarf flokkurinn smám saman.

Stundum fær framboð ekki færi á að málefnið, sem vakið geti athygli, beri upp á réttum tíma frá kosningum.

Þannig urðu umhverfismál í brennidepli þjóðfélagsumræunnar vegna íbúakosningar um stækkun álversins í Straumsvík í mars 2007, 10 til 6 vikum fyrir kosnginar, en um  leið og málinu lauk í marslok, var eins og tappað hefði verið af þessum málaflokki og 10 dögum fyrir kosningar gátu stóru flokkarnir slakað á, tekið umhverfsmál algerlega út af dagskrá og sett gamla góða peningaveskið og velferðarmálin á oddinn.

Sveinbjörn Birna Sveinbjörnsdóttir kom til skjalanna algerlega óþekkt hæfilega skömmu fyrir kosningar til þess að hún vekti óhjákvæmilega mesta athygli allra oddvitanna. Áður hafði Guðni Ágústsson ná allri athyglinni með óvæntu og fréttnæmu útspili sínu, þannig að flokkurinn átti umræðuna og athyglina samfellt í meira en tvo mánuði fyrir kjördag. Ekki veitti af, fylgið var komið niður í 2,9 % og flokkurinn langt, langt frá því að koma inn manni.  

Hæfilega skömmu fyrir kjördag kom síðan stóra moskubomban sem varð að aðalmálinu og umræðuefninu í kosningunum og Sveinbjörg Birna hælist nú réttilega um yfir því að það mál hafi fengið mesta athygli í fjölmiðlum hvern einasta dag fram að kjördegi. Í annað sinn á einu ári tókst sama trixið hjá flokki hennar.

Það er óþarfi að þakka fjölmiðlum einum þetta, því að eins og glögglega sást á öllum netmiðlum og almennri umræðu, var þetta lang heitasta umræðuefnið meðal almennings alla þessa daga, - og fyrir þá, sem vilja "kenna fjölmiðlunum um" er það ósanngjarnt, - fjölmiðlar endurspegla aðeins umræðuna í þjóðfélaginu og eiga ekki að þagga hana niður.

Ég birti tvær glannafengnar og hálfkæringslegar limrur hér á bloggsíðunni þegar málið kom upp, en þá var fylgi Framsóknar enn sáralítið og margir búnir að afskrifa hann sem dauðan í borginni. 

Önnur limran var eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson og endurspeglaði vel tilfinningaþrungin viðbrögð margra við mosku-útspili Framsóknar, sem gerðu það eitt að moskumálið varð að heitasta málinu, en það þjónaði Framsókn best:

 

JÁKVÆÐ HEIMSENDASPÁ.

 

Þegar jörðin i sæinn er sokkin

og sólin af standinum hrokkin

þó er þar leið, -

þungbær en greið

til að losna við Framsóknarflokkinn.    

 

Ég svaraði Ragnari í svipuðum hálfkæringi, og efni svarsins reyndist verða spá um það hvernig fór:

 

VANMETUM EKKI FRAMSÓKNARFLOKKINN

 

Við skulum spara að spotta´hann

með spánnýjan oddvita´og flottan.

Þótt leggist gröf í

hann lifnar á ný

og lifir allt af eins og rottan.  

 

Og þannig fór það. Þess ber að geta að ég ber mikla virðingu fyrir rottunni, því að hún er eina spendýr jarðarinnar, annað en maðurinn, sem er að finna hvar sem er á jarðarkringlunni. Alls staðar þar sem maðurinn er, þar er rottan.

 

 

 


mbl.is Sveinbjörg þakkaði fjölmiðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránlegasta talning, sem ég man eftir í 62 ár !

Þegar þetta er skrifað, klukkan 01:53, er ljóst, að maður hefur verið hafður að fífli varðandi úrslitin í Reykjavík það sem af er nóttinni, og að best hefði verið að leggja sig rétt fyrir tólf og vakna aftur einhvern tíma í fyrramálið til að sjá raunhæfar og réttar úrslitatölur.

Sveiflurnar sitt á hvað, til dæmis á fylgi Sjalla og Samfó, eru hrikalegri en ég man nokkur dæmi um í neinni atkvæðatalningu frá því að ég fór að fylgjast með slíku í forsetakosningunum 1952.

Það eina, sem nokkurn veginn var ljóst, var fylgi Framsóknar, sem þó hefur sveiflast upp og niður um þriðjung.

Hvað er eiginlega að gerast niðri í ráðhúsi?  


mbl.is Meirihlutinn fallinn í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband