Hræðileg ógn: Dagur ræðir við "umhverfiskommúnista" og "Svarta Pétur".

Það er fróðlegt að sjá viðbrögð sumra hér í borginni við því að Dagur B. Eggertsson ætli að ræða við Vg og Pírata um myndun meirihluta í borginni.

Þessir bloggarar súpa hveljur yfir tilhugsuninni um að "umhverfiskommúnistar" og "Svarti Pétur" muni hafa kverkatak á Degi, setja honum stólinn fyrir dyrnar og leiða þar með hræðilega ógn yfir borgarbúa.

Fyrir rúmum 20 árum fóru nokkrir þáverandi borgarfulltrúar í boðsferð til Parísar til þess að kynna sér borgarmálefnin þar. Þeir fengu meðal annars að kynnast leikskólunum í París og því að þeir voru og eru enn gjaldfrjálsir þar.

Fulltrúarnir supu hveljur yfir þessu og pössuðu sig á því að segja helst engum frá þessum hræðilega kommmúnisma sem þarna hefði verið innleiddur, en hefur nú skotið upp kollinum næstum aldarfjórðungi síðar hér á klakanum, sumum til ósegjanlegrar skelfingar.

"Umhverfiskommúnismi." Ljótara orð finna sumir varla, þar sem tvö hroðaleg hugtök, kommúnismi og umhverfismál eru spyrt saman. 

Vg átti fulltrúa í R-listanum sáluga þar sem halda varð friðinn við Framsóknarmenn, sem öðrum fremur réðu ferðinni þegar ráðist var í einhverja mestu rányrkju í sögu landsins í Hellisheiðarvirkjun, þar sem orkan er þegar byrjuð að dvína, enda var það látið nægja sem forsenda fyrir virkjuninni, að hún entist í í aðeins skitin 50 ár og barnabörn okkar myndu þurfa að ráða fram úr því að við hefðu klárað orkuna á skemmri tíma en líftíma kolanámu eða olíulinda.

Frá henni leggur nú mestu loftmengun nokkurs fyrirtækis á Íslandi, sem hefur fengið undanþágu til að fara yfir heilsuverndarmörk .

Vinstri grænir voru með einhverjar vomur út af þessu í R-listanum en voru ofurliði bornir af Alfredo og kó í byggingu eins stórfenglegasta minnismerkis um bruðl og græðgi sem reist var á leiðinni til hruns OR og bankakerfisins. Vg varð að velja milli þess að halda R-listanum saman og sitja hjá eða að sprengja samstarfið og leiða Sjallana aftur til valda með REI-klúðri sínu fjórum árum fyrr en ella.   

Nú óttast margir að "umhverfiskommúnistarnir" í Vg muni telja sig hafa lært eitthvað af þessu og muni setja skilyrði þess efnis að ekki verði vaðið að nýju af stað í virkjunum, sem sóst er eftir með samfelldu neti jarðvarmavirkjana milli Þingvallavatns og Reykjanestáar.

Bara tilhugsunin um slíkt andóf umhverfiskommúnista vekur hríslandi hroll hjá mörgum, enda ráða kommúnistar nú aðeins yfir Kúbu og Norður-Kóreu og allir vita um ástandið þar. 

Ekki er ógnin minni í augum ofangreindra bloggara varðandi hinn hræðilega Svarta Pétur, Píratann, sem muni setja sem skilyrði skelfilegt netlýðræði, opnari stjórnsýslu og beinni þátttöku almennings.

Slíkt er ekki minni ógn en "umhverfiskommúnisminn", því að hvort tveggja hefur síast inn hjá grandalausum, nytsömum sakleysingjum eins og mér, að ekki sé minnst á þá skelfingu, að varðandi beina lýðræðið hefur hinn "innvígði og innmúraði" Sjálfstæðismaður Styrmir Gunnarsson gengið þessari stórhættulegu villutrú og aðför að þjóðfélaginu á hönd.

Nú eru góð ráð dýr fyrir þá sem spá ofan á allt þetta að stutt sé að Sharía-lög múslima verði innleidd á Íslandi eftir að 220 manna söfnuður múslima hafi náð meirihluta hjá þjóðinni.

Þeir eru ekki að grínast þessir bloggarar, - maður les þetta þessa dagana á samfélagsmiðlunum.  


mbl.is Dagur ræðir við þrjá flokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur pistill hjá Páli Vilhjálmssyni. Vinstri fasismi skilgreindur.

http://pallvil.blog.is/blog/pall_vilhjalmsson/entry/1393946/

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 2.6.2014 kl. 10:13

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Við öllu þessu hugur hrís,
honum þar á Mogga,
Framsóknar nú flokkinn kýs,
og fimm af þeim sem blogga.

Þorsteinn Briem, 2.6.2014 kl. 10:27

3 identicon

Með þessum meirihluta missir þú flugvöllinn Ómar.

Innanlandsflug leggst varanlega niður og þú á Selfossi með hinum strákunum og allir í sárum ?  Engin veit hvað verður um sjúkraflug og björgunarbáturinn (neyðarflugbrautin) fer á þessu ári ?  Fyrir utan alla eyðileggingu gamla bæjarins og hann verður enn mikið meir síldartunna þar sem fáum sem engum líður vel.

Haraldur Gudbjartsson (IP-tala skráð) 2.6.2014 kl. 10:34

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Skelfilegt fyrir Ómar Ragnarsson að vera á Selfossi.

Þorsteinn Briem, 2.6.2014 kl. 10:41

5 identicon

Takk Ómar, -það er alltaf gott að álpast inn á þessa síðu tilþess að sækja sér jarðtengingu og heilbrigða skynsemi.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 2.6.2014 kl. 10:41

6 identicon

Sammála Ómari. Það er eitt sem alþýðufólki finnst standa upp úr núna þegar rykið er að setjast eftir kosningastormana. Það er sú staðreynd, að héðan í frá munu flest heiðvirt fólk í pólitík hugsa sig a.m.k. tvisvar um áður en það fer í samstarf við framsóknarbófaflokkinn.

E (IP-tala skráð) 2.6.2014 kl. 11:04

7 identicon

Sæll Ómar.

Að drekka fíflamjólk á borgarstjórnarfundum ætti ekki
að drepa nokkurn mann!

Annars finnst mér að sá fugl sé betri í hendi, sigurvegari
kosninganna, Framsóknarflokkurinn, heldur en þeir tveir
fuglar í skógi sem nú eru inní myndinni.

Húsari. (IP-tala skráð) 2.6.2014 kl. 11:41

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hrjósa, hraus, hrusum, hrosið:

Við öllu þessu hugur hrýs,
honum þar á Mogga,
Framsóknar nú flokkinn kýs,
og fimm af þeim sem blogga.

Þorsteinn Briem, 2.6.2014 kl. 13:18

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Framsóknarflokkurinn fékk í þessum sveitarstjórnarkosningum einungis níu fulltrúa af 97, um 9%, í níu fjölmennustu sveitarfélögum landsins, þar sem um 80% landsmanna búa.

Í alþingiskosningunum
í fyrra fékk Framsóknarflokkurinn hins vegar um 24% atkvæða á öllu landinu.

Þorsteinn Briem, 2.6.2014 kl. 13:21

13 identicon

Ok. þú villt hafa þetta svona:" listanum sáluga þar sem halda varð friðinn við Framsóknarmenn, sem öðrum fremur réðu ferðinni þegar ráðist var í einhverja mestu rányrkju í sögu landsins í Hellisheiðarvirkjun"                          (kanski komin þarna hluti skýringarinnar á framsóknarfóbíu Ómars)

Svo má bæta við að VG studdu Samfylkinguna sem öðrum fremur réði ferðinni þegar þjóðin var næstum sett í pant til næstu áratuga fyrir skuldum innlendra og erlendra óreiðumanna svo V.G. gæti svikið sitt stærsta kosningaloforð og hjálpað S.F. við að þvæla þjóðinni í ESB. 

Núna er útlit fyrir að VG styðji Samf. og systurflokkinn í að leggja niður Reykjavíkurflugvöll, varla er það hrósvert heldur eða hvað?

Hef ekki lesið þessi ógurlegu blogg sem þú vitnar í en greinilega þá er VG alltaf tilbúið að leggja vondum málum lið þegar á reynir. Man ekki betur enn að þeir hafi meira að segja einir og óstuddir gefið út rannsóknarleifi fyrir olíuleit á Drekasvæðinu, undanfara nýtingar ef eitthvað finnst. Skítt með loftslagsbreytingarnar!

ps. Varðandi gjaldfrjálsan leikskóla, verður þá ekki annaðhvort að skylda alla foreldra til að setja börnin sín í leikskóla (sem er vægast sagt umdeilanleg forræðishyggja) eða að greiða þeim foreldrum fyrir sem hafa börnin heima svo jafnræðis sé gætt, annars væru þeir bæði að bera kostnaðinn af því að passa börnin sín sjálfir og svo líka að greiða fyrir pössun í gegnum útsvarið? 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 2.6.2014 kl. 14:13

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Cry me a river.

Þorsteinn Briem, 2.6.2014 kl. 14:28

15 identicon

Ef einhver tapaði kosningum til borgarstjórnar, þá var það Framsókn.

Rétt drullaðist yfir 10% eftir að hafa tekið lokið af öskju Pandoru til að sækja atkvæði til mesta úrhraks samfélagsins; rasista. 

Disgusting, sickening!

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 2.6.2014 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband