Færsluflokkur: Bloggar

Svæði sem kallar á algert endurmat.

Ártúnshöfði er eitthvert verðmætasta svæðið á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að það liggur að stærstu krossgötum landsins aðeins um einn kílómetra frá þungamiðju íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins.

Það þarf að huga vel að því hvort það geti gengið til lengdar að stór hluti Ártúnshöfðans sé malargryfjur og stórir sandhaugar þar sem augljóslega ættu að vera stór fyrirtæki og stofnanir sem njóta sín og þjóna borgarbúum best.

Hins vegar þarf að finna staði, þar sem hentar vel að hafa þá starfsemi, sem nú er kvartað yfir, og að tryggja, að fyrirtækin, sem hana stunda, geti þrifist vel.

Endurskipulagning þessa mikilvæga svæðis gæti kallað á að breyta samsetningunni á notkun þess og jafnvel rífa niður hús og byggja önnur í staðinn. Til dæmis hefði alveg verið hægt að skoða á sínum tíma hvort aðal sjúkrahús landsins ætti að vera þarna, nú, eða endurbyggt Þjóðleikhús, sem hefði líklegra verið ódýrara að reisa en að lappa upp á núverandi Þjóðleikhús.

 

 


mbl.is Kvartað yfir sandfoki og mengun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helst í gær !

Sú var tíðin að því var haldið fast að landsmönnum, að í tengslum við álverið í Straumsvík myndi rísa með hraði þvílík áliðnaðarmiðstöð, að þar myndi rísa tugþúsunda mann iðnaðarbær þar sem stunduð væri smíði á hvers kyns plötum og varningi úr áli.

Jafnvel voru notuð orð eins og "forystuþjóð" um þessa stórfelldu iðnaðarframleiðslu.

Á þessum tíma þótti Rjukan og verksmiðjurnar þar helsta aðdráttarafl til skoðunar fyrir þá Íslendinga sem ferðuðust til Noregs.  

Síðan eru liðin 50 ár og enn bólar ekki á öllum þessum ósköpum, en samt er þessi söngur upp hafinn enn með reglulegu millibili.

Í verksmiðjubænum Rjukan í Noregi hefur síðustu áratugi verið glímt við mikinn flótta ungs fólks úr byggðinni vegna einhæfs atvinnulífs. Það eina, sem fundist hefur síðustu ár er "eitthvað annað" eins og uppbygging ferðaþjónustu allt árið í grennd við fjallið Gausta, en "eitthvað annað en stóriðja" er eitthvað sem Íslendingar mega helst ekki heyra nefnt nema nefna grasatínslu og labb inn í torfkofana sem það eina "eitthvað annað" sem komi til greina.

Nú sýnist nánast vera risin stærri umskipunar- og olíuhöfn í Finnafirði og allar Faxaflóahafnir til samans. Keppinautar hennar í Evrópu, svo sem Rotterdamhöfn, hafa þegar lotið í lægra haldi í samkeppninni.

Finnafjörður er eins langt frá þjónustu og þéttri byggð og hugsast getur á Íslandi og í allri Evrópu. Samt eiga aðrir staðir á Íslandi og í Evrópu ekki möguleika til samkeppni við hana um vinnuafl og umsvif. Nei, þetta er ekki aðeins borðliggjandi helst núna, heldur strax í gær.

Raunar átti Finnafjörður harðan keppinaut fyrir þremur árum, en það var eini eyðifjörðurinn á hálfu landinu, sem því miður var ekki búið að taka í nefið, Loðmundarfjörður.

Þá lá strax fyrir risahöfn þar með jarðgöng í gegnum öll fjöll í nágrenninu og beina hraðbraut um endilangt hálendið til Reykavíkur !

Fyrir nokkrum árum var gefin út sú yfirlýsing að það væri 99,9% pottþétt að risa olíhreinsistöð risi í Hvestudal í Arnarfirði, fegursta dal þess fjarðar með 500 manns í vinnu.

Bóndinn sagðist í sjónvarpi í hitteðfyrra vera búinn að leggja allar aðrar hugmyndir um uppbyggingu í dalnum á hilluna, af því að olíuhreinstöðin væri að koma ! Hann hefur síðan verið í biðstöðu og dettur ekki í hug að hún gæti orðið ævilöng.

Og engin furða, því að engin olíuhreinsistöð hefur verið reist á Vesturlöndum í aldarfjórðung, vegna þess að enginn vill hafa slíkt skrímsli nálægt sér.   

 


mbl.is Viðlegukantur hafnarinnar yrði 5 km
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfti enga rannsókn, - sykur og fita eru fíkniefni.

Guðmundur "jaki" Guðmundsson sagðist á sínum tíma efast um að allar rándýrar rannsóknir háskólamenntaðs fólks þyrfti til þess að komast að niðurstöðum sem lægju í augum uppi.

Oreo-kex er bara dæmi um ávanabindandi fíkn sykraðra, feitra og hitaeiningaríkra efna.

Nefna má fleiri vörur eins og til dæmis Werthers Original, en ég hef marg staðið mig að því að eftir að ég er búinn með fyrsta molann, fylgja hinir allir óviðráðanlega á eftir, hver á eftir öðrum.

Virðist litlu skipta þótt heitstrengingar séu viðhafðar varðandi það að bragða aðeins á tveimur til þremur.

Nú er sennilega liðið vel á annað ár síðan ég hef keypt og étið þetta góðgæti, því að reynsla mín kenndi mér að það eina sem dugði gegn fíkninni var algert bindindi.  


mbl.is Oreo-kex jafn ávanabindandi og kókaín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bók um hamingjuna, sem var rænt.

Það, að missa barn í fæðingu, getur verið slík ógæfa, að líf viðkomandi konu og hennar nánustu sé eyðilagt fyrir lífstíð.

Þegar ég var í sveit fyrir 60 árum kynntist ég lífshlaupi einnar slíkrar og auk þess örlögum fleiri, sem höfðu orðið undir í lífsbaráttu þess tíma og hlotið allt önnur örlög en það hefði hlotið á okkar tímum.

Ég skrifaði bókina "Manga með svartan vanga" sem var gefin út 1993, seldist upp fyrir Þorláksmessu og hefur verið ófáanleg síðan.

Eftir að ég skrifaði bókina hef ég fengið svo margar nýjar upplýsingar um fólkið, sem þar er fjallað um, að nú er, á 20 ára afmæli hinnar gömlu bókar,  að koma út bókin "Manga með svartan vanga - sagan öll" sem varpar alveg nýju ljósi á viðfangsefni fyrri bókarinnar, en eins og hin fyrri skiptast þar á kátína og sorg, gleði og harmur og með dýrri dýpt og vídd. IMG_1524

Um þriðjungur hinnar nýju bókar er nýsmíð.

Undir lok bókarinnar er einn hinna nýju bókarkafla með heitinu "Það er ekki lengra síðan", nokkurs konar samantekt og nýtt uppgjör.

Mér fannst ég skulda öllu því fólki sem kom fram í bókinni auk hinna nýju persóna, sem nú bætast við, að skila af mér þessu nýja verki og klára þetta mál eftir því sem unnt er, miðað við allt það nýja, sem rak á fjörur mínar eftir 1993.   


mbl.is Syrgja framtíð sem aldrei varð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eina skýjaða kvöldið valið?

Það var heiðskírt í gærkvöldi. Það var alskýjað og lágskýjað í kvöld. Annað kvöld er spáð heiðskíru.

Hvert þessara kvölda skyldi nú hafa verið valið til að myrkva götuljósin svo að norðurljósin sæust betur.

Kvöldið í kvöld !


mbl.is „Stórfengleg norðurljós - eða þannig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt er verra en súkkulaðiþurrð.

Súkkulaði er lymskuleg neysluvara. Ástæðan er sú að yfirgnæfandi hluti neyslu þess helgast af því að hvítasykur er með í neyslunni, en hann er eitt af varasömustu fíkniefnum heims, vegna þess að hann er ekki skilgreindur sem slíkur.

Sjálfur viðurkenni ég að vera haldinn súkkulaðifíkn og ekki minnkaði ástæðan fyrir henni við það að pabbi og afi voru bakarameistarar þannig að maður komst snemma upp á hvítasykurs- og súkkulaðibragðið.

Ég fann út fyrir nokkrum árum að ég hefði innbyrt 50 þúsund Prins póló súkkulaðikex frá árinu 1957, en það gerir heilt tonn af fitu og litlu minna af hvítasykri.

Súkkulaðivörur eru nefnilega með eitthvert hæsta hlutfall fitu, sem hægt er að finna í neysluvöru og þegar henni er bætt við hvítasykurinn er útkoman ekki gæfuleg hvað snertir offituvanda nútímafólks.

Þótt súkkulaði njóti sívaxandi vinsælda held ég því að það sé ekkert slæmt, ef skortur verður á því.

Þvert á móti mun það hjálpa uppvaxandi kynslóð við að varast það að lenda í viðjum fíknar í það.

Það er mun meiri ástæða til að óttast þurrð á öðrum neysluvörum en súkkulaði.


mbl.is Súkkulaðiskortur yfirvofandi í heiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verri bílar til.

Við Íslendingar höfum kynnst sumum af þeim bílum, sem í tengdri frétt á mbl.is eru taldir vera verstu bílar sem framleiddir hafa verið. Við þekkjum líka bíla, sem ekki eru á listanum, en geta talist verstu bílar sem fluttir hafa verið inn til Íslands.

Í einni af mörgum stórum bókum um bíla, sem mér hafa áskotnast um ævina, er fyrsta gerðin af russneska Zahphorochets rassvélarbílnum, sem var grunsamlega líkur Fiat 600 en bara miklu ljótari.

Einn eða tveir slíkir bílar voru fluttir til Íslands og reyndust herfilega. Í stóru bílabókinni var staðhæft að þessi bíll væri versta bílahönnun allra tíma, enda ekki furða, því að hann væri svo hræðilegur, að stórlega mætti efast um að hann hefði yfirleitt verið hannaður!

Austur-Þýski sendibílinn Garant var jafnvel enn lakari bíll, að ekki sé minnst á P-70, fyrirrennara Traband, sem var úr pappaplasti vegna skorts á stáli, og ýmsir hlutar bílsins, þar á meðal gólfið í farangursgeymslunni, úr lélegum krossviði.

Í sumum bókum eru Skodabifreiðar sem hannaðar voru eftir 1960 hafa verið svo lélegar, að orðspor frameiðandans, sem hafði verið sæmilegt fram að því, breyttist í það að vera "international joke".

Ég notaði Skoda 120 í tvö ár við Kárahnjúka og einhvern veginn hékk hann saman og var hægt að skrönglast ótrúlega erfiðar slóðir, enda vélin fyrir aftan afturhjólin, sem drifið var á.

Bíllinn lak miklu vatni og það var enginn bakkgír, en það er nú reyndar ekki skylda samkvæmt íslenskum birfreiðalögum, ótrúlegt en satt.

Þegar hann átti að fara í skoðun eitt síðsumar bað ég verkstæðismann um að skoða hann og setja á blað þau atriði sem þyrfti til að koma honum í gegnum skoðun.

Ég fékk tveimur vikum síðar afhentan við hátíðlega athofn þennan lista innan í nokkurs konar Óskarsveeðlaunasumslagi, sem ég opnaði og las.

"Að þessum bíl er....allt !"

Ég skrönglaðist með hann í Ystafell og þar er hann nú á bílasafninu mikla

Ýmsir bresir bílar frá áttunda og níunda áratugnum hafa verið á lista yfir verstu bíla heims, svo sem Austrin Allegro, og jafnvel lúxus- tækniundrið Aston Martin Lagonda.

Ágætis bílar eins og Alfa Romeo Alfasud og Renault Dauphine hrundu niður vegna ryðs.  .

 

 

 


mbl.is Verstu bílar allra tíma?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúran getur verið án mannsins.

Náttúran getur verið án mannsins en maðurinn getur ekki verið án náttúrunnar. Þannig hefur það oft verið orðað sem Kumi Naidoo alþjóðaframkvæmdastjóri Greenpeace segir í viðtali.

Enn og aftur kemur það upp að orsakasambandið í upphafi ljóðs Snorra Hjartarsonar er rétt:  "Land, þjóð og tunga." 

Landið getur vel verið án þjóðarinnar og tungunnar en forsendan fyrir þjóð og tungu er landið.

Það er oft tíðkað að væna náttúruverndar- og umhverfisverndarfólk um að hugsa bara um náttúruna en ekki fólk. Líka sagt að dýraverndunarfólk hugsi bara um dýrin en ekki fólkið.

Svona áróður ristir afar grunnt því að án lands eða náttúru þrífst ekkert fólk. Náttúruverndar- og umhverfisverndarstefna snýst um hagsmuni fólks.  

Og í dýraverndunarlögum er talað um að fara "mannúðlega" með dýr. Það þýðir fólki sé ekki misboðið, sem þykir vænt um dýr og vill ekki að þau þjáist að óþörfu.

 


mbl.is Mannkynið í hættu en ekki Jörðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yoko og Vigdís, þetta er lagið!

Yoko Ono og Vigdís Finnbogadóttir eiga margt sameiginlegt fyrir utan það að vera þekktar á heimsvísu.

Þær sýna, að sé heilsan í lagi og henni viðhaldið með því að halda áfram skapandi starfi og brýndum huga er fjarri því að níræðisaldurinn sé eitthvað, sem þurfi að óttast út af fyrir sig.

Þannig skapa þær fordæmi fyrir aðra, sem annars myndu kannski láta undan óhjákvæmilegum fylgifiskum hás aldurs, fordæmi, sem er afar gefandi og dýrmætt.


mbl.is Óttist ekki aldurinn!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlagavaldur Skaftfellinga um aldir.

Eldgos og óáran hafa verið örlagavöldur Skaftfellinga allt frá landnámstíð þótt sjaldnast hafi það verið fest á bókfell, svo sem Eldgjárgosið mikla 934, sem er stærsta hraungos sem komið hefur á sögulegum tíma mannkyns, stærra en sjálfir Skaftáreldarnir.

 Kötlugosið 1918 kom miklu róti á mannlíf í nærsveitum þess á sínum tíma og sömuleiðis stríðsárin og kreppan 1917, sem varð dýpri en nokkur kreppa hefur orðið hér á landi í meira en heila öld.

Meðal þeirra sem fóru að austan til Reykjavíkur var Þorfinnur Guðbrandsson frá Hörgslandi og Síðu og Ólöf Runólfsdóttir frá Hólmi í Landbroti, sem hafði verið í fóstri í Svínafelli í Öræfum.

Hann var fæddur 1890 en hún 1896 og ég hef áður sagt frá kjörum þeirra, sem mótuðu lífshlaup þeirra og lífsviðhorf.

Þau felldu hugi saman og eignuðust tvö börn, annað þeirra síðar móðir mín. Ég minnist þess í æsku hve mikið mark Kötlugos og ekki síður Móðurharðindin settu á Skaftfellinga og viðhorf þeirra.  

Ég rek þetta meðal annars nánar þessar vikur í Landnámssetrinu í Borgarnesi þar sem ég reyni að leiða fram sérstætt fólk sem ég kynntist ungur bæði beint og í gegnum ættmenni mín og foreldri, fólk sem ég hefði, ef ég hefði verið 30-40 árum eldri þá, gert að viðfangsefni í sjónvarpi ef það hefði þá verið komið til skjalanna.

Þetta fólk hafði að sjálfsögðu afar mikil áhrif á mig á þessum uppvaxtar- og mótunarárum og ég lærði mikið af því.

 

 


mbl.is 95 ár frá síðasta Kötlugosi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband