1979 og 2009.

Það kemur í ljós sem ég ræddi um í bloggpistli eftir fund Samfylkingarfélagsins í Reykjavík að hann væri nákvæmlega sams konar fundur og yrði líklega með sömu afleiðingum og fundur krata í Reykjavík fyrir stjórnarslitin haustið 1979.

Í bæði skiptin var formaður kratanna erlendis og órólega deildin fór þá svo sannarlega á kreik og skóp atburðarás sem ekki var hægt að snúa við.


mbl.is Baksvið: Þingvallastjórnina þraut örendið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðstjórnarhugmynd Davíðs.

Steingrímur J. Sigfússon minntist á það áðan hverju það hefði hugsanlega breytt ef skipuð hefði verið þjóðstjórn strax í haust. Þá orðaði Davíð Oddsson þessa hugmynd en fékk fyrir það ákúrur hjá Þorgerði Katrínu og fleirum.

ÞJóðstjórn í fyrrahaust hefði átt sér fordæmi frá 1939 þegar heimskreppan þá hafði skapað svo viðsjárvert ástand, til dæmis vegna geigvænlegra erlendra skulda.

Ef þessi þjóðstjórn hefði tekið við hefði það vafalaust minnkað ástæðurnar til mótmæla og ef henni hefði tekist skár en þessari stjórn hefði Sjálfstæðisflokkurinn getað verið enn með forystu fyrir þeirri stjórn.

Já, Davíð setti fram áhugaverða hugmynd sem nú er aðeins efni í vangaveltur um það sem hefði getað gerst en gerðist ekki.


mbl.is Ásaka hvert annað um hroka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það verður að taka þetta almennilegum vettlingatökum."

Enn eitt gullkorn stjórnmálamanna datt óvart út úr Höskuldi Þórhallssyni nú á þingi þegar hann mismælti sig og sagði: "Það verður að taka þetta almennilegum vettlingatökum." !

Vonandi verða þessi orð ekki að áhrínsorðum varðandi þau tök sem stjórnmálamenn þurfa að taka hinum stórfelldu vandamálum sem við þeim blasa. Vonandi verða það engin vettlingatök.


mbl.is Fundað um framhaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vissi Steingrímur J. um Jóhönnu ?

Stjórnmálaflokkar nota oft þá aðferð í viðræðum sínum að haga þeim þannig að þær fari ekki fram beint á milli formanna flokkanna, heldur í gegnum milliliði svo að þeir geti sagt án þess að skrökva að hafa ekki hist, samanber ummæli Steingríms J. í dag um að hann hefði ekki talaði við Ingibjörgu Sólrúnu síðan hún fór til Svíþjóðar.

Skyldi Steingrímur hafa frétt af útspili Ingbjargar Sólrúnar hvað snertir Jóhönnu Sigurðardóttir eftir leynilegum leiðum?

Eða þurfti Ingibjörg þess ekki við að neinn vissi af þessu vegna þess hve þetta var snjall leikur ?

En nú kemur endanlega í ljós að það var ekki tilviljun að varaformaður Samfylkingarinnar tók ekki þátt í fjögurra manna viðræðum stjórnarflokkanna í gær. Ingibjörg segir beinum orðum að Jóhanna sé forsætisráðherraefni flokksins að sér frátaldri, - ekki varaformaðurinn.


mbl.is Jóhanna næsti forsætisráðherra?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hennar tími að koma ?

"Minn tími mun koma!" Þetta er ein af fáum setningum stjórnmálamanna sem hafa lifað allt frá því þau voru sögð þegar Jóhanna Sigurðardóttir varð að lúta í lægra haldi fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyn í togstreitu þerra um völd í Alþýðuflokksins.

Nú er ljóst hvaða spilum Ingibjörg Sólrún hefur spilað úr til hægri og vinstri.

Háspil hennar að eigin sögn er eftir allt konan sem mælti hin fleygu orð: "Minn tími mun koma !" Konan sem nú virðist eiga möguleika á að verða fyrsta konan sem gegnir embætti forsætisráðherra Íslands.

Snjall leikur hjá Ingibjörgu Sólrúnu. Steingrímur J. Sigfússon á erfitt með að heimta forsætisráðherrastólinn í þessari stöðu og með því að stíga til hliðar auðveldar Ingibjörg Sólrún myndun vinstri stjórnar.


Strandaði ekki á Seðlabankanum, sagði Geir.

Geir H. Haarde sagði nú rétt í þessu að ekki hefði strandað á málefnum Seðlabankans í viðræðum stjórnarflokkanna, sem nú var að ljúka með stjórnarslitum. Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað sætt sig við að Þorgerður Katrín tæki við af Geir en Samfylkingin hefði ekki samþykkt það.

Það er ljóst að Samfylkingin hefur spilað mjög ákveðið varðandi ríkisstjórnarforystuna og líklega í skjóli þess að fyrir liggi að vinstri stjórn eða minnihlutastjórn vinstri flokkanna með hlutleysi Framsóknarflokksins komist á.

Líklegast var þetta var það skásta sem gat gerst. Allt var í upplausn í stjórnarflokkunum. Af síðustu orðum Geirs var að skilja að hann kenndi Ingibjörgu Sólrúnu ekki um þetta heldur upplausninni í Samfylkingunni.

Nú hafa hann og Sjálfstæðisflokkurinn losnað við þann kross að reka Davíð, sem var eitt skærasta ljósið í sögu flokksins á meðan allt lék í lyndi.

Líklegast hefur útspil Framsóknarflokksins varðandi stuðning við minnihlutastjórn og þá líkast til undir forystu Ingibjargar Sólrunar, ráðið úrslitum um þessi málalok.


mbl.is Stjórnarsamstarfi lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða Steingrímur Steinþórsson er í spilunum ?

Tvennt athyglisvert gerðist eftir Alþingiskosningarnar haustið 1949. Þegar stjórnarmyndunarviðræður höfðu dregist á langinn og Ólafur Thors, forsætisráðherra starfsstjórnar sem var minnihlutastjórn flokksins, vildi rjúfa þing, neitaði forseti því.

Líklegast var það vegna þess að svo stutt var frá síðustu kosningum og ekki var hægt að sjá að neitt myndi breytast með nýjum kosningum. Sveinn Björnsson lét því Ólaf reyna til þrautar að ná lendingu um ríkisstjórn með hótun um utanþingsstjórn ella, og með því var settiur mikill þrýstingu á Ólaf sem var ávallt ósáttur við það að Sveinn Björnsson skyldi mynda utanþingsstjórn 1942.
Nðurstaðan varð myndun sterkrar ríkisstjórnar, og hvorki Ólafur né Hermann Jónasson leiddu þá stjórn, heldur Steingrímur Steinþórsson þingmaður og búnaðarmálastjóri.

Nú er því hægt að spyrja: Hver er sá Steingrímur Steinþórsson sem leynist úti í bæ og gæti hoggið á hnútinn nú ?
Er það Jón Baldvin? Varla.

Þingrofin 1931 og 1974 voru framkvæmd eftir að lengri tími hafði liðið heldur en leið 1949 á milli kosninga.

Þessi þingrof voru í raun brot á þingræðinu vegna þess að hugsanlega var hægt að mynda ríkistjórn sem hefði meirihluta þings á bak við sig, einkum 1974. Í fyrsta sinn á forsetaferli sínum þarf Ólafur Ragnar nú að nota alla sína miklu menntun og reynslu í stjórnmálum til þess að vera tilbúinn til þeirra réttustu aðgerða, sem hægt er af hans hálfu að grípa til.

Ásgeir Ásgeirsson réði miklu um myndun minnihlutastjórnar Alþýðuflokksins í desember 1958. Forsetinn getur ráðið býsna miklu ef svo ber undir.

P.S. Nú gerast atburðir svo hratt að þessi bloggpistill er að mestu orðinn úreltur á aðeins tíu mínútum. Og nú kemur í ljós að Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið þessi Steingrímur Steinþórsson.


mbl.is „Þurfum öfluga starfsstjórn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vafasamur "heiður" fyrir Geir.

Það er afar sjaldgæft að Íslendingar komist í fremstu röð á einhverju sviði í heiminum. Það fór um mann straumur þegar Kári Stefánsson var talinn einn af hundrað áhrifamestu mönnum í heiminum í læknavísindum.

Nú hefur Geir H. Haarde náð lengra en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður á sviði heimsstjórnmála og raunar er það með ólíkindum að Íslendingur kæmist þar í hópi hinna 25 ábyrgðarmestu ásamt forsetum Bandaríkjanna, forsætisráðherra Breta og helstu áhrifamanna í fjármálum heimsins.

Í ljósi þessa er beinlínis hlægilegt þegar maður sem er talinn vera í hópi þeirra sem bera ábyrgð á heilu heimshruni fjármála tregðast við að axla ábyrgð af þessu hér heima.

Meðal 25 helstu áhrifavalda sem ollu efnahagshruni heimsins er bandaríska þjóðin vegna lánafíkni hennar og er lánafíkn Breta líka nefnd í því samhengi.

Ætlli það verði ekki að teljast heppilegt að blaðamenn Guardian vissu ekki um það að íslenska þjóðin hefur sett heimsmet í lánafíkn undanfarin ár með fjórföldun skulda heimilanna í "gróðærinu" og þreföldun skulda fyrirtækjanna.

Það hefði líka verið ósanngjarnt að öll íslenska þjóðin fengi slíkan stimpil því að tugþúsundir Íslendinga ýmist gátu ekki eða vildu ekki taka þátt í dansinum um gullkálfinn.


mbl.is Geir Haarde sagður ábyrgur fyrir hruninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjartar sumarnætur aftur á Íslandi.

Ég átti fund með nokkrum málsmetandi útlendingum um daginn og fór með þeim yfir sérstöðu Íslands gagnvart öllum öðrum löndum heims.

Ósnortin náttúruverðmæti Íslands skipa hinum eldvirka hluta landsins á bekk með 40 mestu náttúruundrum veraldar í vandaðri bók ferðamálasérfræðinga um 100 undur veraldar.

Í þeirri bók kemst Yellowstone þjóðgarðurinn í Bandaríkjum með sína tvær milljónir ferðamanna á ári ekki á blað, - Ísland er merkilegra.

Þetta vel menntaða háskólafólk hafði aldrei gert sér grein fyrir þessu né heldur að hvers kyns verðmætum hefði þegar verið fórnað og stæði til að fórna fyrir skammtímagróða á kostnað komandi kynslóða.

Ég var að heyra frá þeim aftur í gær og niðurstaða þeirra var einróma um björtustu vonina á Íslandi. Á ensku heitir það ecotourism, náttúruferðamennska.

Ef tilvera okkar snýst öll um peninga getum við á veturna selt það sama og Lapplendingar, sem fá fleiri ferðamenn til sín yfir veturinn en Íslendingar allt árið.
Lapplendingar selja fjögur atriði: Kulda, myrkur, þögn og ósnortna náttúru. Okkar náttúra tekur náttúru Lapplands langt fram.

Á sumrin seljum við þetta allt, nema að í staðinn fyrir myrkur koma bjartar sumarnætur. Það er í hendi okkar sjálfra hvort aftur verða bjartar sumarnætur á öllum sviðum á Íslandi.


mbl.is Bjartar sumarnætur að baki á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhugsandi að Davíð fari út ?

Engum íslenskum stjórnmálaflokki hefur tekist að lyfta helstu foringjum sínum, þeim sem lengst ríktu, í þvílíkar dýrðarhæðir í augum fylgismanna sinna en Sjálfstæðisflokkurinn. Þeir hafa verið nánast í guða tölu, Jón Þorláksson, Ólafur Thors, Bjarni Benediktsson og Davíð Oddsson.

Framsóknarmenn spörkuðu til dæmis úr formannssæti Jónasi frá Hriflu, stjórnmálamanni aldarinnar að mínu mati, stofnanda flokksins og helsta hugmyndasmiðinn að íslensku flokkakerfi.

Engum foringja flokksins var haldið annað eins afmæli og Davíð þegar hann var fimmtugur og stóð á hátindi ferils síns. Flugeldasýning við Perluna, eitt helsta merkinu um dýrðardaga hans í borgarstjórn.

Engu virðist nú skipta þótt kerfið sem hann kom á hér á landi í anda Thatcher og Reagans hafi sprungið í loft upp.
Það virðist óhugsandi að flokkurinn geti horfst í augu við þá staðreynd að tími Davíðs er liðinn, rétt eins og tími Jónasar frá Hriflu var liðinn 1944.

Í raun færist Samfylkingin mikið í fang ef hún ætlast til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sparki manninum sem var dýrkaður eins og guð í flokknum. Ég á eftir að sjá að Geir Haarde fari þannig með læriföður sinn og átrúnaðargoð.

Ég nota orðið pólitík því að í Seðlabankanum hefur Davíð í raun verið í bullandi pólitík.

Davíð gaf í skyn í haust að hann "hefði eitthvað á" ráðamenn svo að ég noti algengt orðalag sem þrífst í kringum hann. Hann hefur kannski eitthvað á Geir eða Þorgerði, svipað og sagt er að hann hafi látið Jón Sigurðsson vita af í fyrra.

Hann vísaði í slíkt í frægri ræðu hjá Viðskiptaráði og gaf í skyn í dönsku blaði að hann myndi bara hella sér á fullu í pólitíkina ef hreyft yrði við honum í Seðlabankanum.

Ég veðja frekar á að Sjálfstæðisflokkurinn vilji sökkva með fyrrum guði sínum en rísa gegn honum. Slík meðferð á einu af goðum flokksins yrði dæmalaus. Ég óttast ég að þetta sé svona, því miður. Ekki bætir úr skák að Ingbjörg Sólrún vann sér til ævarandi óhelgi hjá Davíð fyrir að taka borgina og halda henni.

Er líklegt að sjálfstæðismenn láti eftir henni slíkan sigur yfir höfuðandstæðingi hennar ?

Ef þett er svona í pottinn búið og úrslitaatriði hjá Samfylkingunni að Davíð, víki mun stjórnin falla á næstu dögum.


Næsta síða »

Bloggfærslur 26. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband