Hvað næst? Flugliðaafsláttur?

Ef það heitir að "sitja við sama borð og aðrar stéttir" að ríkið borgi sjómönnum ígildi dagpeninga, sem aðrar stéttir fá, gætu flugliðar alveg eins krafist þess að láta ríkissjóð standast straum af "flugliðaafslætti" vegna langrar fjarveru þeirra frá heimilum sínum og vegna gisti- og fæðukostnaðar erlendis. Ef sjómenn væru í vinnu hjá sjávarútvegsfyrirtæki í opinberri eigu ættu þeir að sjálfsögðu kröfu á að fá dagpeninga eða hliðstæða greiðslu hjá viðkomandi fyrirtæki í opinberri eign, ríkis- eða sveitarfélaga og "sitja við sama borð og aðrir ríkis- eða bæjar/borgarstarfsmenn.  

En þeir eru ekki í vinnu hjá hinu opinbera. Þeir eru í vinnu hjá einkafyrirtækjum og ef það á að berja sjómannaafsláttinn gamla í gegn og gera hann að aðalmálinu í vinnudeilunni, sem nú er í gangi, er verið að ríkisvæða sanngjarnar kröfur launþega á hendur einkafyrirtækjum. 

Og ekki bara það. Aðrar hliðstæðar stéttir fengju ekki "að sitja við sama borð", borð ríkissjóðs, nema þær fengu líka samsvarandi "afslátt."  


mbl.is Sjómenn hafna tilboði SFS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan úr Kalda stríðinu endurtekur sig.

Árið 1948 áttu Bandaríkjamenn um 50 kjarnorkusprengjur, einir allra þjóða. 

Ég minnist enn þeirrar undrunar og áfalls, sem fréttin um fyrstu kjarnorkusprengingu Rússa olli hjá vestrænum þjóðum, og áttu margir erfitt með að trúa því hve fljótir Rússar voru að ná tökum á þessari tækni. 

Barn að aldri skynjaði ég þann ótta við þriðju heimsstyrjöldina sem átti eftir að ríkja næstu 43 ár. 

En þarna hófst harðvítugt kjarnorkuvopnakapphlaup sem skilaði að lokum 1500 kjarnorkuvopnum í hlut Bandaríkjamanna og 1500 í hlut Rússa.

Í Kóreustríðinu vakti undrun, að Mig-15 orrustuþota Rússa var miklu liprari en Sabre-þotur Kananna. Það var aðeins miklu betri þjálfun bandarísku flugmannanna, sem gat jafnað metin. 

1957 kom enn stærra áfall fyrir vesturveldin, Sputnik, fyrsti gervihnötturinn, og Rússar höfðu tekið forystu í gerð eldflauga, sem gætu borið kjarnaorkusprengjur um langan veg.  

Á næstu áratugum stóðu sumar orrustuþotur Rússa þeim bandarísku lítt að baki. 

Síðan hrundu Sovétríkin og næsta aldarfjórðung voru Bandaríkin eina risaveldið. 

Í öllu Kalda stríðinu stóðu Sovétríkin langt að baki Bandaríkjunum sem efnahagsveldi. 

Að lokum ofkeyrðu Rússarnir sig og höfðu ekki efnahagslega getu til verja jafn miklum hluta þjóðarframleiðslunnar til vígbúnaðar og þurfti til að standast Könunum snúning. 

En aldarfjórðungi síðar er komið fram kommúnistaríki, að vísu einkavætt í bland, sem er orðið næst stærsta efnahagsveldi veraldar og hefur því miklu meiri möguleika en Sovétríkin höfðu til þess að nálgast vesturveldin á sviði hernaðar og hernaðartækni. 

Það er ekki langt síðan ég sá nokkrar sjónvarpsmyndir sem lýsa því sem er í pípunum hjá Kínverjum og á eftir að velgja vesturveldunum undir uggum. 

Sagan úr Kalda stríðinu endurtekur sig hvað þetta snertir. 


mbl.is Mikil þróun í hernaðarframleiðslu Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Aukning á fjölda."

Með nokkura mínútna millibili er sagt í fréttum nú í kvöld, annars vegar á Stöð 2 og hins vegar á mbl.is að mikil "aukning hafi orðið í fjölda", í þessu tilfelli á málum vegna hælisleitenda. 

Þetta er liður í svonefndri nafnorðasýki, sem líka mætti kalla sagnorðafælni, og tröllríður fjölmiðlum og hvers kyns umræðu. 

Í stað þess að segja á einfaldan hátt að "málum hafi fjölgað" þarf endilega málalengingar, þegar sagt er í staðinn að "aukning hafi orðið á fjölda mála." 

Notuð eru 6 orð í stað 3ja og þykir fínt. 


mbl.is Meirihluti starfsmanna hættir vegna fjárskorts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þyrftu að vera skýrar línur um ábyrgð ráðherra gagnvart stjórnarfrumvörpum.

Fyrirkomulagið varðandi ráðherraábyrgð er ekki eins í öllum löndum. Sums staðar er samábyrgð ráðherra mikil varðandi frumvörp hvers annars, en annars staðar lausari í reipunum. 

Hér á landi hafa ráðherrar oft fengið að valsa ansi frjálslega um í þessu efni og aðrir ráðherrar þá svarið af sér ábyrgð. Þegar þetta er gert sitt á hvað eykur það á ráðríki ráðherra, því að það myndast nokkurs konar samtrygging: Ef þú klórar mér á bakinu skal ég klóra þer. 

Þetta getur gert framkvæmdavaldið býsna ágengt svo að hallist á við aðra valdþætti og gagnrýnt hefur verið að þetta auki líkurnar á svonefndum hrossakaupum. 

Í starfi stjórnlagaráðs var fengist við það viðfangsefni að skýra þessa ábyrgð á þann hátt, að ef ráðherra hreyfði engum andmælum við frumvarpi annars ráðherra, teldist hann samábyrgur honum, og ef engin andmæli væru í ríkisstjórn, bæri öll ríkisstjórnin sameiginlega ábyrgð á frumvarpinu. 

Ráðherrar gæti aðeins losað sig undan samábyrgð með sérstakri bókun þess efnis. 

Í ríkisstjórnum með tæpan meirihluta getur skipt máli hvernig staðið er að svona atriðum í stjórn landsins. 

Síðustu fjögur ár sín á valdastóli hafði Viðreisnarstjórnin aðeins eins atkvæðis meirihluta og mátti því illa við því að einhver ráðherra "hlypi út undan sér". 

Öll þrettán ár stjórnarinnar ríkti eindæma trúnaður innan hennar, enda var margfalt auðveldara þá en nú að halda ágreiningi og trúnaðarumræðum leyndum. 

Aðeins einu sinni brást samheldnin hjá Viðreisnarstjórninni þegar einn ráðherranna, Eggert G. Þorsteinsson, studdi ekki stjórnarfrumvarp. 

Þótti það sæta miklum tíðindum þótt stjórnin héldi samt velli. 

Það ætti að vera til bóta að skýrar reglur séu í stjórnarskrá um ábyrgð ráðherra gagnvart bæði eigin frumvörpum og frumvörpum annarra ráðherra. 

 


mbl.is Bera ábyrgð á stjórnarfrumvörpum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umferðin speglar andlegt ástand þjóðar.

Ef Íslendingar gerðu ekki talsvert af því að fara til útlanda og kynnast umferðarmenningu þar, væri ástandið hér heima enn verra en það er. Áratugum saman kunnu Íslendingar almennt ekki hina einföldu reglu að þar sem umferð fer af tveimur akreinum yfir á eina akrein, gangi hún langfljótast fyrir sig ef menn skiptast á við að búa til það sem kallað hefur verið "rennilás" eða "tannhjól." 

Hversu margir, sem lesa þessi orð, vita um tilvist þessara hugtaka?  Kannski fjölgar þeim hægt og bítandi, en það er eitthvert andlegt ástandi okkar sem þjóðar, sem hefur valdið því hve hægt hefur gengið að innleiða þennan sjálfsagða hlut hér. 

Boðorðin í umferðinni virðast vera að "á Íslandi við getum verið kóngar allri hreint". Við leggjum til dæmis oft bílum okkar þannig í stæði, að þeir standa út fyrir mörk þeirra og riðla öllum möguleikum á að stæðin nýtist sem best.  

Það er engu líkara en að það sé talið brot á friðhelgi einkalífs að láta nokkurn mann vita með stefnuljósagjöf hvað maður ætli að gera.

Í einni ökuferði í gegnum borgina lenda menn ýmist í því að tefjast stórlega af tveimur meginástæðum:

1. Hinir fremstu í biðröð á umferðarljósum taka sér þann tíma, sem þeim sjálfum þóknast, til að drullast af stað, til dæmis af því að þeir eru að nota biðina til að vinna á snjallsímanum sínum, svo að í staðinn fyrir að til dæmis sjö komist yfir á beygjuljósi, eins og gerist erlendis, komist aðeins tveir yfir.  Á næstu gatnamótum lenda þeir svo kannski sjálfir aftar í biðröð og bölva þeim fremstu á undan í sand og ösku fyrir slóðaskap og eigingirni.

2. Menn verða af tækifærum til að halda greiðlega áfram við hringtorg og á gatnamótum, vegna þess að þeir sem eru aðvífandi gefa ekki stefnuljós og taka heilu hringtorgin og T-gatnamótin í gíslingu. Þeir, sem ekki gefa stefnuljós, lenda síðan sjálfir í öfugu hlutverki á næstu gatnamótum og bölva þeim, sem ekki gefa stefnuljós, í sand og ösku.

Eftir eina ferð eftir endilangri borginni verður niðurstaðan stanslaust ergelsi, tafir og togstreita, lýjandi ástand, sem allir tapa á, en flestir stunda samt ákaft í að viðhalda.

Af hverju er ekki frekar hægt að njóta þess að vinna saman að því að gera umferðina greiðari og öruggari?

Varðandi umferðarhraðann er það svo, að eftir að ég byrjaði að ferðast sitt á hvað á rafreiðhjóli og vespuvélhjóli, er maður betur meðvitaður en áður um þau sannindi að "hraðinn drepur", þ.e. að fyrir vélhjólafólk er afleiðing of mikils hraða margfalt alvarlegri en hjá bílstjórum.

Áberandi er hve margir bílstjórar stunda það að vera á 10 til 30 km/klst meiri hraða en hraðatakmörk leyfa. Að aka til dæmis á öðru hundraðinu eftir austanverðri Miklubraut og á 80-90 km hraða um Gullinbrú.   


mbl.is Hugnast ekki virðingarleysið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver maður getur kortlagt hjá sjálfum sér. Þetta er ekki "fórn".

Það er augljóst að í stað þess að allt fram á þetta ár hefur ekkert gerst í þeim efnum að við Íslendingar tökum okkur tak í orkunýtingarmálum og að það er engin afsökun að skýrsla, sem augljóslega myndi leiða þetta í ljós, hafi ekki komið fram fyrr en nú. 

Sem er reyndar alveg forkastanlegt. 

Heyra má ramakvein á blogginu um það að íslenskir bílaeigendur eigi að þurfa að "blæða fyrir" það að 380 þúsund tonnum af kolum verði brennt á ári í nýjustu stóriðjufyrirtækjunum. 

Það er álíka hátt í það jafn mikið magn og stærsta álver landsin framleiðir af áli.Hjól Skóla-vörðustíg 

Hver maður getur vel fundið út hvernig hann persónulega getur minnkað kolefnisfótspor sitt. 

Menn líta hins vegar á slíkt sem "fórn". 

Það var að vísu hálfgerð tilviljun að ég fann leið til að minnka persónulegt kolefnisfótspor mitt um meira en 60% eins og ég hef lýst áður hér á síðunni, meðal annars til að bera af mér ásakanir um hræsni í þessum efnum. DSCN7968

En þetta hefur ekki falið í sér neina fórn, heldur þvert á móti, því að á hálfu ári, sem ég hef notað tvö hjól, rafreiðhjól og vespu-vélhjól til langflestra ferða sem ég þarf að fara bæði í borg og út um land, hef ég sparað um 80 þúsund krónur í eldsneyti og líkast til meira en tvöfalt meira í hlaupandi kostnaði fyrir hvern byrjaðan kílómetra. 


mbl.is Kortleggja kolefnisfótspor Eyjafjarðarsveitar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband