Hvað, ef EPA hefði verið lamað fyrr?

Nú eru þau vatnaskil í Bandarískum stjórnmálum að því er ekki aðeins lýst yfir að fjárframlög til umhverfismála séu óþörf og skaðleg, heldur er þessu fylgt eftir. 

EPA, umhverfisstofnunin er útmáluð sem óþurftarstofnun. 

Ég man þá tíð þegar þessi stofnun var efld á þeim tíma þegar "Americka was great." 

Þá súrnaði manni í augum um amerískum stórborgum, þar sem svonefnd "smog" eða þykk útblástursreykjarþoka lagðist yfir á heitum kyrrum dögum. 

Sterk andstaða var þá gegn því að aðhafast neitt gegn þessum útblæstri. Það var ráðist á ameríska drauminn nema að efla þær framfarir í bílaiðnaðinum að bílarnir yrðu sem allra stærstir og aflmestir svo að Bandaríkjamenn væru "the greatest" í þessum efnum. 

Ef hamlað yrði gegn nauðsynlegum vexti og umfangi bílaiðnaðarins myndi það draga úr hagvexti. 

Bent var á það að ef reynt yrði að minnka útblásturinn myndi það bitna svo stórlega á afli bílanna að þeir yrðu aumkunarverðir sleðar.  

Og þegar bílaframleiðendurnir voru loksins þvingaðir með lagaboði í kringum 1970 til að minnka útblásturinn varð þessi hótun að veruleika. 

Sem dæmi má nefna að 300 kúbiktommu vélar sem áður voru allt að 330 hestöfl, hröpuðu niður í rúmlega 100 hestöfl og hámarks snúningshraðinn úr 5000 snúningum niður í 3000.

Á sömu áratugum og þetta gerðist vestra gátu bílaframleiðendur í Evrópu og Asíu hins vegar haldið aflinu að mestu í sínum bílum, þrátt fyrir auknar mengunarvarnarkröfur, með því að nýta slagrýmið og ventlatæknina miklu betur en bandarísku bílasmiðirnir. 

1985 var til dæmis afl 1600 cc twin-cam vélar Toyota Corolla meira en 4900 cc bandarískrar V-8 vélar og eyðsla og mengun japönsku vélarinnar að sjálfsögðu miklu minni.  

Harðsnúinn hópur andstæðinga hvers kyns umbóta í umhverfismálum voru æfir yfir þessu ástandi hjá "öflugustu bílasmiðum heims" og hrópuðu ákaft um að þessu mengunarkjaftæði hætt og því mætt með kjörorðinu:  "let´s make America great again."

Þessar raddir hafa alltaf átt og eiga sér enn sterkan hljómgrunn hjá þeim valdahópum vestra sem vilja græða sem mest á sem minnstu eftirliti og hömlum í umhverfismálum. 

Þeir sakna þess tíma sem takmarkið var að smíða sem stærsta, flesta og aflmesta bíla og endurnýja módelin helst árlega eða minnsta kosti það mikið og oft, að kaupendur yrðu tilneyddir til að kaupa sér nýja bíla og henda þeim gömlu á nokkurra ára fresti. 

Nú hafa þessu öfl fengið valdamann, sem strax á fyrstu dögum sínum í embætti hefur afnumið ýmsar reglur um mengun, þannig að eigendur orkuvinnslu- og iðnaðarfyrirtækja megi eitra frárennsli og annað umhverfi afskiptalítið eða afskiptalaust.  

Fylgi hans er mest í þeim ríkjum "ryðbeltisins" þar sem langstærstu bílaverkmiðjur heim dældu út af færiböndunum sem allra mestu magni af stáldrekunum og þetta fyrirbæri var talið hryggjarstykkið í því sem gerði Ameríku svo máttuga og mikla.

En það getur verið ágætt að velta því fyrir sér hvernig ástandið væri vestra ef ævinlega hefði verið gefið eftir gagnvart þeim, sem setja skyndigróða byggðan á skammtímasjónarmiðum ofar öllu, þannig að ástand andrúmsloftsins yfir Norður-Ameríku væri jafnvel enn verra en það var orðið 1968.  

Ef EPA hefði aldrei orðið til né fengið að vinna að sannkölluðum þjóðþrifamálum. 


mbl.is Hætt að verja fé til loftslagsmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðrún Á. Símonar smyglaði klósettpappír.

Þegar ég var fenginn til þess að fara vestur til New York og skemmta þar á fullveldisfagnaði Íslendingafélagsins í desember 1963 var mér sagt að einn félagsmaður í Íslendingafélaginu væri góður píanóleikri og gæti leikið undir hjá mér. 

Þegar vestur kom, kom í ljós að þetta var Guðrún Á. Símonar óperusöngkona, sem ég heimsótti þar sem hún bjó í Queens hverfinu og að hún gæti engan veginn leikið neitt á píanó fyrir mig. 

Ég reyndi því að bjarga mér sjálfur eftir skástu getu með því að glamra eitthvað á lítinn skemmtara, sem fannst þarna, og taka undirleikinn fyrirfram upp á segulbandstæki, sem ég hafði meðferðis. 

En heimsóknin til Guðrúnar varð eftirminnileg, því að hún var ekki bara fágætur skörungur og þrumukona, heldur afar fyndin og skemmtileg. 

Meðal þess sem hún sagði mér frá var, að þegar hún fór í langa frægðarför til Sovétríkjanna 1957 að mig minnir, hefði henni verið ráðlagt fyrirfram að hafa helst auka tösku með sér og fylla hana af klósettpappír. 

Hún var treg til að kosta fé til þessa en þegar hún kom síðan til Rússlands áttaði hún sig á því hvers vegna þetta reyndist nauðsynlegt, því að hún hefði aldrei getað ímyndað sér hve lélegur rússneski klósettpappírinn var. 

Lýsing hennar á því var fáránlega fyndin en með þeim eindæmum að því miður er varla hægt að hafa hana eftir hér. Pappírinn var sums staðar svo lélegur og grófur að þegnar hins kommúniska ríkis voru ekki einasta neyddir til að gefa skít í hann, heldur jafnvel blóð. 

Guðrún endaði síðan sögu sína með því að segja frá því, að vegna þess hve hún var heppin með meltingu sína í ferðinni hefði hún grætt heilmikið á því að selja afgangs klósettpappírinn sinn á svarta markaðnum sem var alla tíð eitt af einkennum Sovétríkjanna og í góðum gír í ferð okkar Helgu frá Rovaniemi í Finnlandi til Murmansk. 

En niðurstaða Guðrúnar var einföld: Úr því að Sovétríkin geta ekki gert nothæfan klósettpappír með alla hina miklu skóga Rússlands til afnota, verður þeim ekki viðbjargandi. 

Guðrún átti eftir að reynast sannspá. En nú er spurning hvort klósettpappírsvandræðin í Kína boða eitthvað svipað. 


mbl.is Eftirlit með klósettpappírnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölhæfnin skilar miklu.

Því blandaðri sem bardagaíþróttin er, því meira máli skiptir fjölhæfni. 

Fyrirfram var talað mest um það að Gunnar væri sterkastur í gólfinu og að því lægju möguleikar hans að komast í færi við andstæðinginn þar. 

En að sama skapi reyndu helstu andstæðingar hans að forðast að láta slíkt gerast, héldu sig í hæfilegri fjarlægð og beittu hnefahöggum eða fótaspörkum. 

Í bardaga Gunnars kom hins vegar vel fram, að hann hefur náð góðum tökum á hnefaleikasviðinu, bæði í vörn og sókn. 

Hann sýndi viðbragðsflýti, snerpu og fótafimi þegar hann vék sér eldsnöggt undan höggi Alans Joubans og gaf honum í framhaldinu beint og þungt hægri handar högg sem hitti í mark. 

Gaman væri ef Gunnar þjálfaði upp færni í að gefa svokölluð gagnhögg, sem eru slegin sekúndubroti eftir að mótherjinn slær sín högg. 

Hvað um það, áhrif höggsins voru um sekúndu að komast niður í fæturna á Jouban, sem misstu allan mátt svo að hann féll í strigann. 

Gunnar gaf honum eldsnöggt spark til að búa enn betur í haginn fyrir að gera atlögu í gólfinu þar sem ekki þurfti að spyrja að leikslokum. 

Nú verður æ skemmtilegra og meira spennandi að fylgjast með Gunnari. 

Hann hefur sýnt flesta bestu hæfileika góðs íþróttamanns í undirbúningi sínum, er hugsandi og skynsamur, flottur á skrokkinn og með úthugsaða og þaulæfða bardagaaðferð, sem skilaði sér svo sannarlega. 


mbl.is Gunnar gæti barist við þann næstbesta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband