Myndrænar stórbreytingar í náttúru landsins.

Því var lofað í gær að birta myndir úr ferð eftir endilöngu landinu í gær, og kæmu sumar á óvart. Bárðarbunga. Köldukvíslarjökull

Óvæntustu myndirnar birtust raunar að hluta til í kvöldfréttum Sjónvarpsins nú áðan.

Fyrst sást mynd af Köldukvíslarjökli í forgrunni og Bárðarbungu fjær. 

 

En í gær gat að líta tvo sigkatla í suðurbarmi Bárðarbungu, sem hefur að vísu grillt lítillega í fram að þessu.Sigkatlar á Bárðarbungu

En á flugi yfir svæðið í gær kom í ljós að þeir hafa stækkað það mikið, að nú er hægt í fyrsta sinn að horfa lóðrétt í gegnum ísbreiðu Vatnajökuls þar sem jarðhiti undir jöklinum hefur brætt hann ofan af sér.

Á myndinni sjást Grímsvötn í baksýn, efst til vinstri. 

Fréttina með myndunum er að sjálfsögðu hægt að sjá á Sarpinum í Sjónvarpinu. 

Að horfa beint niður í gegnum þetta ísaða svarthol var líkt og að horfa inn í dyr Vítis. Sigketill í Bárðarbungu

Í viðtali við Þórdísi Arnljótsdóttur minnti Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur á það, að aukin eldvirkni og jarðhitavirkni í Bárðarbunguöskjunni skapaði vaxandi hættu á hamförum. 

Í upphafi fréttar sáust, eins og áður sagði, Köldukvíslarjökull nær en Bárðarbunga fjær, en úr Köldukvíslarjökli, Rjúpnabrekkujökli og Dyngjujökli geta hlaupið stórflóð í Köldukvísl niður í vatnasvæði Tungnaár og Þjórsar og í Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum. 

En áhrifasvæði Bárðarbungu er slíkt, að hið mikla hamfaraflóð niður Skeiðarársand 1996 má skrifa á hennar reikning, þótt gosið kæmi úr Gjálp. 

Innan við ákvörðunarstaðinn Sauðárflugvöll sést vel hvernig hinn mikli listasmiður náttúrunnar Brúarjökull hefur látið stórlega á sjá. Brúarjökull, hopsvæði

Nær allt svæðið næst okkur á mynd hér á síðunni var áður undir þessum stærsta skriðjökli landsins, sem hefur hörfað um meira en 10 kílómetra. 

Í baksýn má sjá Hálslón, Snæfell og Eyjabakkajökul. BISA 1.sept 2017

Og 20 stiga hitinn í 660 metra hæð á Sauðárflugvelli í gær var hluti af örsökum þeirra gríðarlegu breytinga sem hafa orðið og halda áfram að verða á íslensku jöklunum.

Snæfell, hæsta fjallið utan jökla á Íslandi, setur mark sitt á útsýni á þessum hluta hálendisins, 


mbl.is Lengsta brú landsins tekin úr notkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafn mörg stig úr tveimur leikjum við Finna ekki óeðlileg.

Íslendingar máttu prísa sig sæla í fyrri leiknum við Finna að skora tvö mörk á allra síðustu mínútum hans og "stela" þremur stigum af norrænu vinaþjóðinni. 

Í leiknum í Finnlandi í dag var ekki hægt að ætlast til að þetta endurtæki sig, - eins og þulurinn á RÚV orðaði það, álíka eins og að ætla sér að vinna fimm tölur í lóttói. 

Knattspyrna byggist, eins og flestar ef ekki allar óþróttir, ekki síður á vörn en sókn, og sigur Finna byggðist á þéttri vörn og því að fá ekki síður ágæt færi á að skora en Íslendingar. 

Sóknarleikur Íslendinga reyndist ekki nógu hugmyndaríkur gegn vel úthugsaðri vörn Finna og því fór sem fór. 

En margt getur gerst enn í leikjunum í þessum riðli og það verður ekki fyrr en í kvöld sem hægt verður að leggja fyrir sig þá nýju stöðu sem þessi leikur og hinar leiða af sér. 


mbl.is Sárt tap gegn Finnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein verslunarbyltingin.

Þróun verslunar á Ísandi hefur verið í skrefum á síðustu öldum. Fyrst þegar hún var gefin frjáls um miðja 19. öld, síðan með stofnun kaupfélaganna fyrir rúmri öld, þá með tilkomu Hagkaupa og Bónuss í lok síðustu aldar, og síðan er verslunin í hraðri og fjölþættri umbreytingu einmitt núna. 

Yfirleitt hafa þessi skref verið framfaraskref að miklu leyti, þótt tilhneigingin til fákeppni sé ævinlega fyrir hendi vegna smæðar markaðarins. 

Vonandi leiða fjölþættar sviptingar, sem nú eru í gangi, til framfara og kjarabóta almennings.


mbl.is Netverslun margfaldast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftið hlýtt í 3000 metra hæð. Óvæntar myndir koma á morgun.

Það var með ólíkindablæ að fljúga frá Mosfellsbæ austur að Þórisvatni og þaðan sem leið lá á Sauðárflugvöll í dag. Heitt loftið yfir landinu náði hátt upp fyrir jöklana og heiðríkja var yfir austurhluta landsins.

Þótt loftmassinn kæmi af hafi úr suðvestri þéttist hann að vísu í lágskýjabreiðu, sem náði austur undir Vatnajökul og að Suðurjöklum, en samt var ekki eins svalt og oft er í þessari vindátt. 

Það var að vísu svolitið mistur yfir austanverðu hálendinu en samt sólbaðsveður á Brúaröræfum, lofthitinn vel yfir frostmarki í 3000 metra hæð og 20 stiga hiti á Sauðárflugvekkum sen er í 660 metra hæð yfir sjávarmáli.

Í svona skilyrðum tekur maður margar myndir, en ég er kominn með afar litla og handhæga tölvu, sem samt er með nógu stórgerðu hnappaborði til þess að hægt sé að beita blindandi fingrasetningu á því 

En þegar ég ætlaði að fara að setja inn sédeilis magnaðar myndir, sem komu mér mjög á óvart, kom í ljós að eitt atriðið til að smækka tölvuna felst í því að ekki er hægt að setja ljósmynda eða kvikmyndakort beint í hana. 

Verður því að nægja að gefa það loforð að áður en dagur er runninn á morgun, komi þessar óvæntu myndir fyrir augu fólks. 

Sem dæmi um bliðuna má nefna, að ég stend við þessa tölvu liggjandi í heitu myrkri á stélfleti TF-ROS sem ég lenti þar fyrir myrkur í kvöld, af því að nyndatökurnar urðu svo tímafrekar að mér seinkaði.

Hér er 12 stiga hiti um miðja myrka nótt og náttúran á erfitt með að hemja sig, því að nú verð ég að fara að hætta að pikka þetta, því að húsflugur þyrpast á bjartan skjáinn á tölvunni hér í logninu. 


mbl.is Heitasti dagur september frá upphafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband