Æskilegt fordæmi og þróun í félagsmálum?

Mál Heiðveigar Maríu Einarsdóttur og stjórnar og trúnaðrmannaráðs Sjómennafélags íslands eru nú að fá á sig mynd eftir því sem rætt er nánar um það. 

Það er hægt að draga upp einfalda mynd af því mynstri sem blasir við og ráðamenn í öðrum félögum geti haft til hliðsjónar og eftirbreytni, ef þeim finnst það nauðsynlegt: 

Ráðamenn félagsins leggja einhliða mat á málflutning væntanlegs frambjóðanda og dómur þeirra er sá, að málflutningur frambjóðandans sé svo skaðlegur fyrir félagið, að hann gjaldi fyrir hann með því að vera rekinn úr félaginu. 

Þar með leysist málið á einfaldan hátt og ráðamennirnir geta setið áfram að völdum án þess að þurfa að hafa áhyggjur af "óæskilegu" mótframboði. 

Í tilfelli Sjómannafélagsins er ekki þörf á að skoða fleiri ástæður til brottreksturins þótt nefndar séu. 

Það liggur fyrir sá einhliða úrskurður stjórnar og trúnaðarmannaráðs að það sé brottrekstrarsök og viðhafa málflutning og skoðanir, sem "skaði hagsmuni félagsins. 

Aðferðin býður upp á geðþótta mat á brottrekstrarsök, því að ráðamennirnir einir ráða því mati, hvað sé brottrekstrarsök og hvað ekki og hvað "skaði hagsmuni" félagsins og hvað ekki. 

Er þetta æskileg aðferð, fordæmi og þróun í félagsmálum?


mbl.is Ásakanir Heiðveigar ekki eina ástæðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það var mikið!" En þetta er í raun gömul "ný þungamiðja."

Á síðustu áratugum hefur þróun byggðar á höfðuborgarsvæðinu markast af því, að byggðin hefur raðast í kringum tvær meginlínur sem mætast í krossgötum á svæðinu frá Elliðavogi til Smárahverfisins. 

En á sama tíma hefur verið í gangi sú hugsun, að þungamiðjan sé við Reykjavíkurtjörn og að þess vegna þurfi að leggja flugvöllinn niður. 

En, viti menn, þegar menn ætla að fara að leggja svonefnda borgarlínu kemur auðvitað í ljós, að það gengur ekki upp að hafa miðju hennar í Vatnsmýrinni, heldur verður Ártúnshöfði fyrir valinu með svonefnt Krossmýrartorg sem miðstöð verslunar og þjónustu,  enda aðeins rúman kílómetra frá þungamiðju byggðainnar, sem er núna austast í Fossvogi, skammt frá Blesugróf og Smiðjuvegarhverfinu. 

Og nú á dögunum datt það út úr einum þeirra sem að þessu verkefni vinna, að þessi breytta staða, sem kölluð er "ný þungamiðja", muni stuðla að því að ekki þurfi að flytja flugvöllinn,  - hann er á besta hugsanlega stað. 

Öfundsverðum stað miðað við erlendar borgir, hvað það snertir, að ef austur-vestur-brautin verður lengd, munu 80 prósent af umferð um völlinn fara um þá braut, sem hefur Skerjafjörð í aðra áttina í aðflugi og fráflugi, en hins vegar autt svæði í Fossvogsdal til austurs. 

Allir, sem hafa ferðast flugleiðis milli borga erlendis, þekkja það hvernig flogið er víðast hvar yfir mikið þéttbýli. 

 


mbl.is Borgarlínustöð ný þungamiðja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðari eða hægari en Eyjafjallajökull?

Það tók Eyjafjallajökul rúman áratuga að "undirbúa" hið sögufræga gos 2010. Það var fyrir aldamótin sem merki fóru að sjást í mælingum um að fjallið væri að komast í gosfasa. 

Síðasta gos í Öræfajökli varð 1727 og því liggja ekki fyrir neinar mælingar varðandi mælanleg gögn um aðdraganda goss í því mikla eldfjalli. Hvannadals-hnjúkur

Hvort aðdragandi goss nú verður jafn stuttur og hefur verið í Bárðarbungu og Grímsvötnum, jafn langur og í Eyjafjallajökli, eða jafnvel enn lengri, veit því enginn með vissu. 

Það var strax byrjað á að gera viðbragðaáætlanir vegna Eyjafjallajökuls áratug fyrir gosið 2010. 

Nú er slíkur undirbúningur líka hafinn varðandi Öræfajökul og eins gott að vera á tánum, því að hann er eitt af allra hættulegustu eldfjöllum landsins. 

En fegurð hans og mikilleiki er grípandi. Myndin hér við hliðina var tekin nú í morgun af Hvannadalshnjúki þarna vinstra megin á myndinni og gnæfir hærra en sýnist á þessari mynd, sem er tekin með aðdrætti frá þjóðveginum, og hnjúkurinn er fjærst á myndinni, þar sem myndavélinni er beint upp á við. 


mbl.is Skjálftavirkni aldrei mælst meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband