Hata Bandaríkjamenn rafmagn af því þeir vilja ekki virkja í Yellowstone?

Bandarískur sérfræðingur í nýtingu jarðvarma sýndi kort af Bandaríkjunum á 10 ára afmæli Ísor þar sem margir ljósrauðir blettir voru dreifðir um landið og táknuðu þau jarðvarmasvæði, sem mönnum þar í landi sýndist álitleg við jarðvarmavinnslu. 

Í Klettafjöllunum mátti hins vegar sjá svæði á kortinu, sem var eldrautt og ógnarstórt miðað við hin. "Þetta er Yellowstone, lang, lang öflugasta orkusvæði Bandaríkjanna, en heilög jörð sem aldrei verður snert" sagði Kaninn.

"Heilög jörð." Mesta orkubúnt Norður-Ameríku. Samt er Yellowstone ekki jafnoki hins eldvirka hluta Íslands hvað snertir gildi sem náttúruverðmæti, og hið íslenska einstætt á heimsvísu. En við höfum tekið að okkur að rústa íslenskum náttúruverðmætum svo að Kanar geti varðveitt sín. 

Guðni Jóhannesson hefur sjálfsagt verið viðstaddur þetta erindi, en ekki hrópaði hann upp yfir sig að bandaríski gesturinn hataði rafmagn. 

Það hryggir mig að jafn góður og gegn maður og orkumálastjóri skuli leggjast niður á plan með þeim sem hafa sungið síbylju um það í áratugi að náttúruverndar- og umhverfisverndarfólk á Íslandi "hati rafmagn", "hati atvinnuuppbyggingu og mannlíf" og "vilji fara aftur inn í torfkofana." 

Öll þessi stóryrði hafa verið höfð uppi vegna þess eins, að hér á landi er til fólk, sem dirfist, eftir að búið er að virkja fimm sinnum meiri orku en við þurfum fyrir okkar eigin heimili og fyrirtæki, að andæfa þeirri einbeittu ætlun ráðamanna að á aðeins áratug verði virkjanaæðið tvöfaldað og þá búið að virkja tíu sinnum meiri orku en þarf fyrir okkur eigin heimili og fyrirtæki. 


mbl.is „Fólk sem hatar rafmagn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítilsvirðing við sögu, menningu og ginnheilagan helgistað frá landnámi.

Myndin sem fylgir þessum pistli er táknræn fyrir efni hans. Hún er af menningarverðmæti, sem hefur verið kastað fyrir róða. Nánar um það í lok pistilsins. Flugmála stjórn

Fátítt er að fornsögur okkar tilgreini hvar ákveðnir gripir eða minjar séu niðurkomnar nokkrum öldum eftir að þeir komu til Íslands við landnám. 

En enda þótt kristni hafi verið lögvernduð trú landsmanna í meira en öld, þegar sagan er skrifuð, þykir ástæða til þess að greina frá því að öndvegissúlur Ingólfs Arnarsonar séu enn í eldhúsi á landnámsbænum Reykjavík. 

Sagan af súlunum og þætti þeirra í landnáminu og þar með sögu þjóðarinnar er í hávegum höfð í Landnámu, enda þótt þær hafi verið heiðin tákn ca 125 árum fyrir kristnitökuna og haldið við lýði þremur öldum eftir landnámið. 

Ástæðan er ginnhelgin, sem landnám Ingólfs er umvafin, og nær út yfir þröng mörk einstakra trúarbragða og skammgræðgissjónarmið hótelbyggjenda. 

Einnig dramatíkin í sambandi við dráp hins trúlausa Hjörleifs Hróðmarssonar, sem trúmaðurinn Ingólfur taldi hafa sprottið af því að hann hafi ekki viljað friðmælast við landvætti landsins. 

Sjálfur lagði Ingólfur svo mikið upp úr þessari vættatrú, sem átti sér samsvörun hjá Indíánaþjóðflokkum í Ameríku og er meira að segja í gildi á Grænlandi, þar sem eignarhald einstaklinga á landi er ekki viðurkennd enn þann dag í ag, að hann hafði ekki einasta heimilisguði sína, súlurnar, meðferðis til landsins, heldur útbjó sérstaka helgi- og fórnarathöfn við landtöku þar sem heimilisguðirnir voru fulltrúar Ingólfs gagnvart landvættunum. 

Þessi staður var helgaður og varð helgur 46 árum á undan stofnun Alþingis og það sýnir hörmulegt virðingarleysi fyrir sögu og menningu þjóðarinnar hvernig á að hrauna yfir hana á "einum merkasta minjastað Íslands". 

Dæmin um smekkleysi og vanvirðingu vaða uppi eins og ónefnið Air Iceland connect í stað Flugfélags Íslands er dæmi um. Isavia. Logo

Á sviði flugsins má nefna lýsandi dæmi, hvernig hið flotta merki Flugmálastjórnar Íslands var eytt þegar rekstrinum var skipt í tvö svið, en í staðinn tekið upp merki Isavia fyrir annað sviðið, sem í fyrstu gat alveg eins verið merki fyrir fiskbúð en síðar tók við merki, sem virtist líkjast merki raftækjabúðar, nema að heiti Isavia er að vísu í því og veitir ekki af til þess að vitað sé, fyrir hvað það stendur. 

Þess þurfti hins vegar ekki varðandi gamla merkið. 

Gætum að gildi gamla merksins fyrir unnendur flugsins. Það líkist fugli á flugi, séðum framan frá, og á því eru tveir vængir, - flugmaður getur varla beðið um meira. 

En vængirnir í merkinu bera hins vegar í stað höfuðs fuglsins, þjóðartáknin á glæsilegan hátt, landvættina fjóra, íslenska fánann, - sjálft skjaldarmerki íslenska ríkisins. 

Þess vegna tekur síðuhafi það fram yfir önnur merki til að hafa í húfu sinni, þótt einhverjir kunni að telja menn með svona merki gamaldags og púkalega kverúlanta fyrir vikið. 

En þessu merki hefur nú verið kastað fyrir róða, líkast til af því að það hafi þótt svo hallærislegt og púkó, en nýja "raftækjabúðar"táknið svo nútímalegt. 

Í svona meðferð stórra og smárra menningarverðmæta felst ekki aðeins virðingarleysi og lítilsvirðing, heldur yfirsést hinum framkvæmdaglöðu, að það er hægt að meta menningarverðmæti til fjár varðandi ferðafólk, ef menn vilja endilega meta alla hluti til beinna peninga. 

Fórnar- og helgiathöfn Ingólfs Arnarsonar hefur langlíklegast farið fram við verðandi landnámsbæ, sem síðan var reistur yfir öndvegissúlurnar, og er steinsnar frá Víkurkirkjugarði, sem getur enn orðið fallegur og friðsæll griðastaður og eftirlæti gesta og gangandi í hjarta gamla miðbæjarins.  


mbl.is Einn merkasti minjastaður Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"What goes up must come down".

Ofangreint lögmál á bókstaflega við í fluginu. Enginn hefur sig til flugs nema að koma niður aftur, fyrr eða síðar. 

Kjör flugfarþega hafa farið með himinskautum það lengi, að það hlaut að koma að því að þau misstu flugið. 

Flugfélögin geta ekki viðhaldið fáránlega lágum fargjöldum nema í takmarkaðan tíma. 

Nú hefur Wow-air lækkað flugið og enn ekki útséð um hvernig hinn háfleygi ferill fyrirtækisins endar. 

Almennt séð er vandi að sjá hvernig áframhaldandi lággjöld geta haldist áfram í sama mæli og verið hefur. 

Eldsneytisverðið hefur margsinnis sveiflast í gegnum tíðina af ófyrirsjáanlegum ástæðum og allt er í heiminum hverfult eins og hrakspár um alþjóðlegt efnahags- og fjármálalíf bera með sér. 


mbl.is Flugmiðaverðið hækkaði um 27%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband