Einn lítill límmiði getur valdið stórslysi.

Sagt er að prófdómari einn í meiraprófi bílstjóra hér margt fyrir löngu, hafi spurt nemendur: 

"Hvað er að þegar ekkert er að en þó er ekki allt í lagi?"

Menn götuðu á þessari spurningu en þá svaraði prófdómarinn sjálfum sér og sagði: 

"Þá er litla gatið á bensínlokinu stíflað."

Meðan bensíngeymirinn var fullur var ekkert að. 

En í löngum samfelldum akstri verður ekki lengur allt í lagi, því að þá minnkar loftþrýstingurinn inni í geyminum þannig að stundum getur bensíndælan ekki haft á móti þessu þrýstingsfalli. 

Já, það eru stundum atriði, sem sýnast svo smá, sem valda svo miklu þegar út af bregður. 

Sem sagt: Lítil þúfa veldur þungu hlassi. 

Á öllum flugvélum af öllu stærðum eru til dæmis tvö smáatriði, sem geta skipt öllu, utan á skrokk vélanna. 

Annars vegar eru það litlar túbur, (pitot tube) sem eru oftast við vængbrúnir vélanna, þar sem loft fer inn í lítið gat og virkar með hraða sínum á mæli í mælaborði sem sýnir hraða vélarinnar í gegnum loftið.  

Hins vegar örlítið gat á skrokki vélarinnar, sem sér um að sami loftþrýstingur sé í þeim hluta mælakerfisins sem sýnir loftþrýstinginn í loftmassanum, sem vélin flýgur í, en af því er lesin flughæð hennar. 

Ef gleymist að setja á sérstakan hitara sem kemur í veg fyrir ísingu í ísingarskilyrðum, eða að þessi hitari bilar, geta þessi örlitlu op stíflast þannig að mælarnir gefa rangar upplýsingar. 

Mannskætt flugslys varð eitt sinn í Suður-Ameríku vegna þess að starfsmaður á flugvelli, sem var að þrífa skrokk vélarinnar fyrir flugtak, límdi fyrst örlítinn límmiða utan um litla gatið á skrokknum til þess að koma í veg fyrir að vatn og hreinsiefni færu inn um gatið. 

Hann gleymdi að taka límmiðann af eftir þrifin, og þegar flugvélinnni var klifrað upp í flughæð sem var með æ þynnra lofti, brenglaði stíflaða gatið virkni mælakerfis vélarinnar svo að flugstjórarnir gátu ekki flogið vélinni í réttri stöðu og hún steyptist í Kyrrhafið.  


mbl.is Ísing á hraðaskynjurum olli slysinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn nýi faraldur, síminn og "ekki missa af" heilkennið.

Eftirtalið samtal var eitt sinn í þætti í Sumargleðinni og rataði síðan í ógleymanlegt atriði hjá Spaugstofunni:  

"Er ekki alltaf eitthvað merkilegt að gerast hér í sveitinni?"

"Nei, ekki svo að við vitum." 

"Jú, það hlýtur að vera eitthvað. Þannig er það alltaf alls staðar. Það væri gaman að heyra eitthvað um slíkt."

"Nei, það hefur ekkert merkilegt gerst hér lengi." 

"Þetta er nú kannski full mikil hógværð hjá ykkur. Þið hljótið að hafa fregnir af ýmsu eins og gengur og gerist alls staðar." 

"Nei við fréttum aldrei neitt." 

"Er ekki oft legið svolítið á línunni í sveitasímanum?"

"Nei, ekki höfum við orðið varir við það."

"Einhverjir hljóta að hringja á milli bæja, er það ekki?"

"Nei það hringir aldrei neinn." 

"Hringir aldrei neinn?"

"Nei það hringir aldrei neinn." 

"Það er skrýtið. Það hljóta nú einhverjir að hringja hér í þessari sveit eins og í öðrum sveitum."

"Nei, það hringir aldrei neinn." 

"Það er ótrúlegt. Hvernig má það vera?" 

"Við höfum engan síma." 

 

Nú er ástandið þveröfugt við það sem var á dögum sveitasímans. Það er enginn maður með mönnum nema að liggja í símanum og á netinu daginn út og daginn inn. 

Ef það er ekki gert er maður að sífellt að missa af einhverju. 

"Ekki missa af því" er síbyljusetning í sífelldum kynningum á næstu dagskrárliðum í sjónvarpi eða öðrum "viðburðum." 

Það er búið að negla það niður, að ef ekki er fylgst stanslaust með símanum, tölvunni og á netinu, séum við að alltaf að missa af einhverju. 

Maður sér flutningabílstjóra á tuga tonna drekum liggja í símanum þegar þeir aka vandkeyrðar leiðir um hringtorg. 

Frænka mín slasaðist alvarlega og beinbrotnaði illa fyrir þremur árum þegar bílstjóri ók  aftan á hana á fullri ferð þar sem hún hafði stöðvað bíl sinn á rauðu umferðarljósi. 

Hún þurfti að berjast lengi við eftirköstin og gott ef hún hefur jafnað sig enn.

Sá, sem ók aftan á hana var upptekinn við að senda smáskilaboð á símanum og sinna "ekki missa af" heilkenninu, sem öllu ræður. 

Margir eru varla lengur viðstaddir eigið líf í raunheimum, heldur fluttir yfir í netheima og heima hins allsráðandi og kröfuharða húsbónda, símans. 

Dæmi eru um að fjölskyldu- og ættarmóti hafi verið aflýst að sumarlagi af því að ljós kom að það var ekki net- eða símasamband á staðnum, þar sem búið var að panta tjaldsvæði og aðra gistingu. 

Stundum er haft á orði að Bakkus sé harður húsbóndi. En síminn er það líka. 


mbl.is Í allt að sex tíma á dag í símanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband