Verðskulduðu þakkarlag.

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu verðskuldaði viðurkenningu fyrir það hve langt það er komið á leiðinni til HM. 

Kærar þakkir, stúlkur!

Síðuhafi vildi tjá þakklæti sitt með því að frumsýna tónlistarmyndband síðdegis á facebook síðu hans undir heitinu "Koma svo!" 

Myndbandið er stutt, 1 mínúta og 52 sekúndur, til að gera það hnitmiðað og fjöldasöngserindin auðsungin og auðlærð. 

Ég vísa í facebook síðuna, en svona er textinn, sem "Stuðgleðin" flytur:  

 

KOMA SVO!

 

Tætum nú og tryllum við að 

taka þennan slag! 

Njótum þess að þrusa hátt 

og þruma þetta lag! 

Gefum okkur öll í þetta´og 

aldrei sláum af! 

Úrtölurnar keyrum við í kaf! 

 

ÁKVEÐNI´OG EINBEITING!  KOMA SVO!

ÁKVEÐNI´OG EINBEITING!  KOMA SVO! 

ÁKVEÐNI´OG EINBEITING1  KOMA SVO! 

ÁFRAM NÚ! KOMA SVO! 

 

ALDREI AÐ GEFAST UP!  KOMA SVO! 

ALDREI AÐ GEFAST UPP!  KOMA SVO! 

ALDREI AÐ GEFAST UPP!  KOMA SVO!

ÁFRAM NÚ! KOMA SVO! 

 

Það er gott að leika sér og láta vaða hér! 

Í lófaklappi´og hörkustuði alveg sleppa sér! 

Því enginn vinnur sigur, sem að ekki tekur þátt. 

Nú eflumst við og sýnum okkar mátt! 

 

TÖKUM NÚ Á ÞESSU!  KOMA SVO! 

TÖKUM NÚ Á ÞESSU! KOMA SVO! 

TÖKUM NÚ Á ÞESSU!  KOMA SVO! 

ÁFRAM NÚ!  KOMA SVO!

 

ÁKVEÐNI´OG EINBEITING!  KOMA SVO! 

ÁKVEÐNI OG EINBEITIN! KOMA SVO! 

ÁKVEÐNI´OG EINBEITING! KOMA SVO! 

ÁFRAM NÚ!  KOMA SVO!  


mbl.is Draumurinn um HM lifir góðu lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt líkt með misstórum þjóðum.

Það kann að virðast ólíklegt að neitt sé líkt jafn misstórum og ólíkum þjóðum og Rússar og Íslendingar eru. 

En í þau tvö skipti sem ég hef komið til landsins, í fyrra skiptið 1978 til Murmansk, og síðara skiptið í febrúar 2006 til Moskvu og smábæjarins Demyansk í Valdaihæðum um 400 kílómetrum fyrir norðvestan Moskvu. 

Þegar komið var til Murmansk 1978 fannst manni maður vera kominn til Reykjavíkur árið 1948. 

Malargötur, iilla kláruð hús, vöruskortur, gamaldags vörubílar með verkakarla á pöllunum að hristast um holóttar göturnar. 

Ég var í reynsluakstursferð hóps norrænna bílablaðamanna á endurbættum Volvo fólksbílum, sem ekið var frá Rovaniemi í Finnlandi um Kolaskaga til Murmansk. 

Í Murmansk fóru Rússarnir með okkur í skoðunarferðir og í þeim fann maður vel svipaða hugsun og þegar við spyrjum: "How do you like Iceland?"

Úr andlitum Rússanna mátti lesa mikla þrá eftir viðurkenningu okkar og hrifningu á því sem þeir væru að sýna okkur. 

Ef við vorum hrifnir brugðust þeir við eins og innilega glöð börn. 

En ef við vorum lítt hrifnir urðu þeir afa sorgmæddir og skildu okkur oftast ekki. 

Þegar við gátum ekki skilið stolt þeirra yfir verksmiðjutogaranum, sem okkur var sýndur, með sinni miklu stéttaskiptingu, lúxus fyrir yfirmennina en hásetarnir tveir og tveir í litlum kytrum, sagði Norðmaðurinn, að enginn landi hans myndi fást til að vera á slíku skipi. 

Rússarnir sögðu að þúsundir manna væru á biðlista eftir því að komast í skipsrúm við þau kjör að kúldrast svona vikum saman úti á reginhafi án þess að komast í land. 

Þá gerði maður sér grein fyrir því hvílíkt risa fangelsi Rússland var. 

Norðmennirnir og Rússarnir rifust út af þessu og það mátti skilja mikla og dapurlega minnimáttarkennd hinnar stóru þjóðar. 

Þetta minnti á viðbrögð okkar Íslendingar þegar Svíi einn lýsti skemmtanalífi og helgardrykkjuskap Íslendinga og við urðum ekki aðeins sorgmæddir, heldur reiðir. 

Bæði hjá okkur og Rússum ræður miklu, að þjóðirnar hafa um aldir verið tortryggnar út í aðrar þjóðir, sem ásælist þessi misstóru lönd og vilji ráðskast með íbúana. 

Hvað segir ekki í textanum?

"...og látum engan yfir okkur ráða,

þótt ýmsir vilji stjórna okkur bæði ljóst og leynt!" 

 

Rússar upplifðu einhverja hroðalegustu reynslu af sviksemi annarra ríkja, sem sagan kann frá að greina, þegar Hitler sveik griðasáttmálann við Stalín og réðist inn í Sovétríkin. 

Þetta, ásamt innrás Napóleons 1809, innrás Þjóðverja 1914 og innrásum hvítliða fyrstu árin eftir stofnun Sovétríkjanna 1917, situr í þeim. 

Bæði Íslendingar og Rússar þrá viðurkenningu umheimsins, eins og augljóslega má lesa út úr því sem Pútin segir og gerir. 


mbl.is Rússarnir hrifnastir af Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandmeðfarið þjóðartákn.

Íslenski fáninn og fánalitirnir í ýmsum útfærslum hafa verið lítt notuð hér á landi miðað við fána ýmissa annarra þjóða. 

Vel má hugsa sér að auka þessa notkun, en stundum getur það hins vegar verið vandmeðfarið. 

Í samkeppnisumhverfi getur það til dæmis verið álitamál, hve langt fyrirtæki geta gengið til að "eigna sér" fánann. 

Nafnið Icelandair nýtir sér orðspor landsins og tengir fyrirtækið við Ísland. 

En það þurfa að vera sem skýrust ákvæði í fánalögum hvernig að því er staðið að nýta sér fánann, en ævinlega geta þó komið upp matsatriði, sem reyna á mismunandi smekk og mat. 

Á sínum tíma gerðist það bara af sjálfu sér að hér urðu til flugfélögin Flugfélag Íslands og Loftleiðir og ekki minnist ég neinna deilna um þær nafngiftir né notkun lita á vélum þessara flugfélaga. 

Mig minnir að bæði félögin hafi nýtt sér fánalitina að einhverju leyti þegar vélar þeirra voru málaðar, en það var samt ekki á eins áberandi og algeran hátt og nú má sjá á einni þotu Icelandair. 


mbl.is Boeing-þota í fánalitunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklar kröfur til nútíma óperusöngfólks.

Það var viss upplifun í því að sjá og heyra óperuna Brothers í Hörpu í gærkvöldi. Hún dró vel fram þá framþróun og auknu kröfur sem eru í gangi á óperusviðinu til allra þátta slíkra verka. 

Óperan er 100 mínútna löng og án hlés, en flæði verksins krafðist slíks. 

Efni óperunnar er nátengt vaxandi grimmd í hernaði, sem sést hefur síðustu árin í Sýrlandi og víðar og höfðar að því leyti afar sterkt til óperugesta, sem lifa við hrylling frásagna og mynda af villimennsku nútíma styrjalda. 

Í sviðsetningu, útfærslu, söng og leik eru gerðar sívaxandi kröfur, sem gerðu það að verkum á sýningunni í gær, að það myndaðis tvöföld spenna í lokin, ekki aðeins varðandi framvindu söguþráðarins, heldur einnig hvernig afar vandasömum og dramatísku lokakafla myndi hreinlega reiða af, svo miklar kröfur sem hann gerði til allra þátta í viðamikilli og fjölmennu óperu. 

Það reyndi til hins ítrasta á færni og leikhæfileika aðal söngfólksins, sem stóðst prófið með mikilli prýði í atriði þar sem minnstu mistök máttu ekki gerast.

Fyrir gamlan leikhúshund eins og mig var þetta upplifun sem færði manni endurnæringu.  


mbl.is Frétti af verðlaununum frá sviðsmanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband