Barðist Sigríður í Brattholti "gegn mannlífi og framförum?"

Þegar Sigríður í Brattholti barðist gegn því fyrir réttri öld að Gullfoss yrði virkjaður, áttu Íslendingar enn nær ekkert rafmagn í vegalausu landi. 

Þá voru röksemdirnar fyrir virkjuninni kunnuglegar: Nauðsynleg atvinnuuppbygging og atvinnusköpun auk samgöngubóta og gnægðar af raforku. Ef ekki yrði virkjað, væri voði fyrir höndum. Ekkert gæti komið í staðinn. 

Þó eru ekki til gögn um það að skrifað hafi verið um baráttu Sigríðar: "...hefur um langan aldur barist með öllum tiltækum ráðum gegn mannlífi og framförum..." 

En það gera menn hikstalaust núna í umræðum um virkjanamál á Vestfjörðum. 

Á tímum Sigríðar vantaði rafmagn, en nú framleiðum við Íslendingar fimm sinnum meira rafmagn en ef við þurfum til eigin fyrirtækja og heimila og erum á meðal tekjuhæstu þjóða heims. 

Ef Gullfoss hefði verið virkjaður hefði líklega farið fyrir honum líkt og frægasta fossi Noregs, Rjukan, sem þjóðhöfðingjum annarra landa var sýndur meðan hans naut við, svo sem Lúðvíki Frakkakeisara. 

Það er athyglisverð tilviljun að Rjukan er sama nafn og Rjúkandi í Hvalá.  

Eftir virkjun hins norska Rjúkanda kemur þar varla nokkur maður til þess að horfa á bert bergið þar sem fossinn naut krafta sína fyrrum. 

Að því leyti til malar fossinn ekki sama gull og Gullfoss gerir með því að vera mjög mikilvægur hluti í aðdráttarafli fjölsóttustu ferðaleiðar Íslands. 

Þegar Rjúkandi og Drynjandi hafa hlotið sömu örlög og norski Rjúkandi verðu kippt fótum undan því að syðri hluti Drangajökulshálendisins fái að mala gull af sama toga og Gullfoss. 

Þessi syðsti hluti mögulegs þjóðgarðs á milli Djúps og Stranda allt norður um Hornstrandir verður sviptur þeirri sérstöðu sem felst í fossa- og smávatnalandslagi Ófeigsfjarðarheiðar, sem kallast á við Drangajökul. 


mbl.is Foss í oss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óraunsæ afstaða, - og til eilífðarnóns?

Sovétríkin færðu alla Austur-Evrópu í raun undir hervald sitt eftir Seinni heimsstyrjöldina í krafti samninga við Vesturveldin sem Stalín túlkaði á annan veg en Roosevelt og Stalín. 

Kalda stríðið stóð næstu rúma fjóra áratugi en samt var haldið sambandi við Sovétrikin á marga lund, meðal annars með ýmsum samningum um kjarnorkubúnað risaveldanna. 

Rússland hefur um langa hríð verið í hópi stærstu iðnríkja heims en nú er hernám Krímskagans látið ráða því að Evrópuríkin haldi Rússum fyrir utan G7 hópinn. 

Ef ætlunin með þessu er að fá Rússa til að sleppa völdum á Krimskaga virðist það vera algerlega óraunsætt. 

Rússar réðu yfir skaganum til ársins 1964 og fórnuðu meira en 50 þúsund hermönnum í Krímstríðinu um miðja 19. öld til þess að viðhalda völdum sínum þar. 

Samningar Bandamanna um skipan mála eftir Seinni heimsstyrjöldinni voru gerðir i Jalta, og það var varla tilviljun. 

Þegar Krústjoff stóð fyrir því að færa skagann undir Ukraínu voru forsendur allt aðrar en síðar varð, - Úkraína var hluti af sambandsríki þar sem Rússar báru ægishjálp yfir aðrar þjóðir og ríkinu var miðstýrt frá Kreml. 

Færsla skagans yfir til Ukraínu breytti engu um hernaðarlega stöðu á skaganum með herskipahöfnina Sevastopol sem þungamiðju. 

Þegar komið var fram á annan áratug þessarar aldar var staðan gerbreytt, - hörð átök voru í Ukraínu þegar sókn ESB og NATO til austurs virtist vera farin að teygja sig inn í landið sem er álíka mikilvægt fyrir öryggishagsmuni Rússa og Kanada eða Mexíkó eru fyrir Bandaríkjamnn. 

Eða eigum við að segja suðausturríki Bandaríkjanna frá Floridaskaga norður fyrir herskipahöfnina Norfolk. 

Það virðist fullkomlega óraunsætt að ætla, að Rússar muni sleppa tökum á Krímskaganum og vaxandi ýfingar út af honum eru einungis til hins verra. 

Ekki hefur verið að sjá merkjanlega andstöðu íbúa Krímskaga við endurheimt yfirráða Rússa yfir skaganum, og í austasta hluta Ukraínu eru afar mikilvæg iðnaðarsvæði. 


mbl.is Á móti endurkomu Rússlands í G7-hópinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar heildin er betri en summan af einingunum.

Íslenska knattspyrnulandsliðið er gott dæmi um það þegar einingum, í þessu tilfelli mönnum, er raðað saman í heild, sem verður betri en summan af einstaklingum í því. 

Þetta getur raunar átt við mörg fyrirbæri.  

Annað gott dæmi eru kórar og sönghópar. 

Bestu söngkvartettar Íslands voru ekki skipaðir bestu söngvurum þjóðarinnar heldur jafnvel alveg ólærðum mönnum. 

MA-kvartettinn naut þess til dæmis að Jón frá Ljárskógum var með einstaklega mjúka og þýða bassarödd sem myndaði mjúkan botn, sem "klæddi" og "límdi hinar raddirnar saman. 

Kvartettinn dó þegar Jón dó, kornungur. 

Einu sinni fengu menn þá frábæru hugmynd að búa til afburðasöngkvartett með því að raða í hann fremstu óperusöngvurum þjóðarinnar. 

Hann hét auðvitað einsöngvarakvartettinn sem var réttnefndi, - því miður, ef svo má orða það. 

Það mistókst hefnilega að gera þennan kvartett að því sem til stóð, þótt hann fengi afburða stjórnanda og útsetjara. 

Raddirnar runnu ekki seman í mjúka heild og blönduðust saman í einn fjórradda hljóm, heldur heyrðust raddir hvers um sig langar leiðir, - að þetta voru einfaldlega fjórir einsöngvarar. 

Jafnvel var haft á orði að þetta væri einhver slakasti kvartett landsins. 

Mörg fleiri dæmi má nefna um að heildarútkoman verði stærri en summan af einstökum atriðum. 

Cessna 172 Skyhawk er mest selda flugvél heims og með minnstu slysatíðni lítilla véla. 

Samt er hún ekki hraðskreiðust, aflmest, rúmbest, klifrar best, burðarmest, sparneytnust eða lætur best að stjórn. 

En þegar öllu atriðin eru lögð saman kemur samt út flugvél, sem hefur sannað gildi sitt með vinsældum sínum, ekki síst fyrir það hve "fyrirgefandi" (forgiving) hún er gagnvart mistökum flugmanna við stjórn hennar. 

Hönnuðurinn, Clyde Cessna, hafði engin vindgöng, tölvur eða önnur tækniundur nútímans þegar hann hannaði 2ja sæta vélina Cessna 140 og 4ra sæta vélina Cessna 170, sem eru grunnurinn að Cessna 150, 152, 172, 182, 206, 207-8 og 210. 

Þrjár þessara véla eru mest seldu flugvélar sögunnar. 

Beechcraft gerði atlögu að Skyhawk með Beechcraft 123 Musketeer/Sundowner sem var með nýtísku "laminar flow" vænglagi á litlum vængjum, sem áttu að auka hraðann. 

En út úr þessu kom vél, sem var hægfleygari, með mun meiri ofrishraða og leiðinlegri að fljúga en Skyhawk og atlagan mistókst herfilega. 

Svipað gerðist með tvöfaldri atlögu Beechcraft og Piper með tveggja sæta vélum gegn Cessna 152. 

Vængirnir á þessum splunkunýju vélum voru með NASA vænglagi (supercritical) og breiðari sætum. 

Samt afkastaði gamla 150/152 betur að öllu leyti, var þar að auki öruggari og stóð uppi sem sigurvegari.  


mbl.is Ekkert lið eins og Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband