Tapa repúblikanar jafnmikið á Trump og ekki Trump?

Bæði austan hafs og vestan eru nú nýir pólitískir straumar sem trufla og rugla hina hefðbundnu skiptingu í hægri og vinstri. 

Þetta eru straumar kjósenda, sem eru óánægðir þvert á hina hefðbundnu vinstri-hægri skilgreiningu, óánægðir með dýpkandi gjá á milli annars vegar stjórnmálastéttarinnar og ráðamanna sem eru á spena hjá "kerfinu" og hins vegar almennings. 

Þeir Republikanar sem börðust gegn Trump í forkosningum forsetakosninganna 2016 eru áfram ónægðir með hann, en þeir sem kusu Trump eru líka margir óánægðir með hina linu og kerfisspilltu fulltrúardeildarþingmenn, sem leita endurkjörs. 

Þrír mánuðir eru hins vegar mjög langur tími í pólítik eins og glögglega kom fram 2016, svo að það er ekkert óhugsandi að þegar líkur á kjöri Demókrata aukast, verði það álitinn verri kostur en að kjósa álíka ómögulegan Demókrata.  


mbl.is Repúblikanar halda áfram að missa fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danir varðveittu sína fyrstu flugstöð.

Fyrsta flugstöð Danmerkur stóð við Kastrupflugvöll. Þegar ný flugstöð tók við, var ákveðið að varðveita þetta mannvirki frumherjanna í fluginu með því að flytja hana í heilu lagi á annan stað. 

Íslendingar rífa nú hins vegar fyrstu flugstöðina á Íslandi, sem var sérstaklega og nær eingöngu notuð fyrir millilandaflug. 

Rétt eins og að landrými sé að skornum skammti á Miðnesheiði.  

Til stendur að flugstöðin við Reykjavíkurflugvöll fari sömu leið, - eða er ekki það?

Íslendingar hefðu komið stærsta húsi landsins á sinni tíð, sjóflugskýlinu í Vatnagörðum, fyrir kattarnef ef Egill Ólafsson á Hnjóti hefði ekki fengið að flytja það vestur að Hnjóti í Örlygshöfn og reisa það þar að nýju. 

Talsvert frá sjó og nokkurn veginn eins langt frá eðlilegum stað og hægt var, en þó til sóma fyrir þá sem til þessa örþrifaráðs gripu. 

Á Hnjóti eru líka ýmsir munir frá upphafi Reykjavíkurflugvallar, sem annars hefði verið hent, svo sem olíuluktir, sem notaðar voru sem brautarljós. 

Með naumindum tókst að koma í veg fyrir að fyrsti flugturn landsins færi sömu leið og fyrsta flugskýlið, en í Gamla turninum var í upphafi stríðs stjórnað flugumferð vegna hernaðarins á Norður-Atlantshafinu, sem hefur svipaðan sess í sögubókum um stríðið og Stalingrad, El-Alamein og Normandy. 

Þar var líka aðsetur Veðurstofu Íslands fram undir 1970. 

Öllum minjum hefur verið eytt um þann íslenska flugvöll, sem kom á undan Reykjavíkurflugvelli, þaðan sem flugvél af Hudson-gerð fór og náði fyrsta þýska kafbátnum í hendur Bandamanna. 

Þetta var Kaldaðarnesflugvöllur sem var tekinn í notkun strax síðsumars 1940, en Reykjavíkurflugvöllur var ekki kominn í gagnið fyrr en vorið 1941. 

Ekki einu sinni vatnsturninn, sem þarna stóð lengst, fékk að vera í friði. 

Þegar ferðast er um Noreg má hvarvetna í því langa landi sjá dæmi um ræktarsemi Norðmanna við sögu sína á öllum sviðum, ekki síst söguna í Heimsstyrjöldinni. 

Gömlum vegarköflum er til dæmis víða haldið við, ferðamönnum til ánægju og fræðslu, svo sem veginum um Strynefjellet. 

Hliðstæðar minjar hér á landi eru í Kömbunum, en ekkert með þær gert. 

Undantekning er vegurinn yfir Kattarhrygg í Norðurárdal í Borgarfirði, sem menn geta lesið um á skilti handan við ána!

Upplifunin af þessu einstæða vegarstæði byggist á því að ganga eftir veginum yfir hrygginn, en aðgengi að Kattarhrygg er algerlega vanrækt. 


mbl.is Gamla flugstöðin á Keflavíkurflugvelli rústir einar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðan í keppninni ekki alveg skýr. Nýja mælingu?

Hins sérkennilega keppni í fjallahæð í Svíþjóð milli suður- og norðurtinds Kebnekasie, sem háð upp á sentimetra, snertir Íslendinga að því leyti, að þetta hæsta fjall Svía hefur verið álíka hátt og Hvannadalshnjúkur á Öræfajökli hjá okkur Íslendingum. 

Hann var allt fram á daga Halldórs Ásgrímssonar sem forsætisráðherra auglýstur með 2119 metra hæð yfir sjávarmáli. 

En ef ég man rétt, auglýsti Halldór það á tröppum Stjórnarráðshússins að nýjustu GPS-mælingar sýndu, að hnjúkurinn hefði lækkað um níu metra og væri 2110 metra hár. 

Þessi tilkynning var gefin út fyrir 13 árum, og þegar litið er á myndir af Hvannadalshnjúki sést vel, að kollur hans er snjór en ekki berg, og að þess vegna lækkaði hann með hlýnandi veðurfari. 

Af þessum sökum vaknar spurningin um hvort hnjúkurinn hafi haldið áfram að lækka og sé jafnvel orðinn lægri en Kebnekaise, því að norðurtindur þess fjalls verður ekki bráðnun snævar að bráð í sama mæli og suðurtindurinn. 

Það ruglar dæmið ef til vill lítillega, ef þetta er orðin spurning um sentimetra, að vegna léttingar Vatnajökuls rís land nú á Suðausturlandi, þar með talinn Hvannadalshnjúkur. 

Hvað önnur íslensk fjöll áhrærir, er enginn vafi á ferðum. Bárðarbunga var síðast þegar fréttist 2009 metrar eða um hundrað metrum lægri en Hvannadalshnjúkur og Kverkfjöll 1920 metrar. 

En spurningin er hvort ekki sé komið tilefni til að mæla hæð Hvannadalshnjúks á ný. 

Þetta er aðeins keppni milli Svía og Íslendinga, því að Norðmenn eiga hæstu tindana, Galdhöppingen og Glittertind. 


mbl.is Nýr tindur krýndur hæsta fjall Svíþjóðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fróðleg viðbrögð sumra gagnvart United Silicon.

Fróðlegt er að líta til baka yfir áfallasögu United Silicon og viðbrögð fólks við fréttum af henni. Eftir að stóriðjutrú varð að ríkistrú á Íslandi 1965 var athyglisvert hvernig hinir heittrúuðu neituðu algerlega að horfast í augu við staðreyndirnar. 

Töluðu þeir í upphafi um að um ofsóknir illgjarnra manna og vondra fjölmiðla væri að ræða, og að Umhverfisstofnun legði fyrirtækið í einelti. 

Ekkert væri að marka kjaftasögur sem magnaðar væru upp með því að kvarta yfir ósýnilegum atriðum eins og slæmum fnyk, sem engar mælingar styddu. 

Smám saman fór þó að verða erfiðara að þræta fyrir vandræðin og þegar ljóst var, að þau voru raunveruleg, og að eigendur verksmiðjunnar hefðu komist upp með að sniðganga lög og reglur á margvíslegan hátt,  sneru þessir heittrúuðu gagnrýninni í það að Umhverfisstofnun væri um að kenna, - hún og bæjaryfirvöld hefðu með slælegri frammistöðu sinni skapað vandræðin! 

Næsta skrefið hjá þessum mönnum var síðan það, að krefjast þess að ríkissjóður Íslands keypti verksmiðjuna og ræki hana, þvílíkt þjóðþrifafyrirtæki sem hún væri. 

Nýjustu tölur benda til þess að tvo milljarða minnst vanti upp á í augnablikinu, hvað sem síðar verður, enda verksmiðjan, sem gangsett var sem fullkomin og frábær, í raun að mestu ófrágengin. 


mbl.is Reyna við sölu United Silicon í núverandi mynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband