Danir varðveittu sína fyrstu flugstöð.

Fyrsta flugstöð Danmerkur stóð við Kastrupflugvöll. Þegar ný flugstöð tók við, var ákveðið að varðveita þetta mannvirki frumherjanna í fluginu með því að flytja hana í heilu lagi á annan stað. 

Íslendingar rífa nú hins vegar fyrstu flugstöðina á Íslandi, sem var sérstaklega og nær eingöngu notuð fyrir millilandaflug. 

Rétt eins og að landrými sé að skornum skammti á Miðnesheiði.  

Til stendur að flugstöðin við Reykjavíkurflugvöll fari sömu leið, - eða er ekki það?

Íslendingar hefðu komið stærsta húsi landsins á sinni tíð, sjóflugskýlinu í Vatnagörðum, fyrir kattarnef ef Egill Ólafsson á Hnjóti hefði ekki fengið að flytja það vestur að Hnjóti í Örlygshöfn og reisa það þar að nýju. 

Talsvert frá sjó og nokkurn veginn eins langt frá eðlilegum stað og hægt var, en þó til sóma fyrir þá sem til þessa örþrifaráðs gripu. 

Á Hnjóti eru líka ýmsir munir frá upphafi Reykjavíkurflugvallar, sem annars hefði verið hent, svo sem olíuluktir, sem notaðar voru sem brautarljós. 

Með naumindum tókst að koma í veg fyrir að fyrsti flugturn landsins færi sömu leið og fyrsta flugskýlið, en í Gamla turninum var í upphafi stríðs stjórnað flugumferð vegna hernaðarins á Norður-Atlantshafinu, sem hefur svipaðan sess í sögubókum um stríðið og Stalingrad, El-Alamein og Normandy. 

Þar var líka aðsetur Veðurstofu Íslands fram undir 1970. 

Öllum minjum hefur verið eytt um þann íslenska flugvöll, sem kom á undan Reykjavíkurflugvelli, þaðan sem flugvél af Hudson-gerð fór og náði fyrsta þýska kafbátnum í hendur Bandamanna. 

Þetta var Kaldaðarnesflugvöllur sem var tekinn í notkun strax síðsumars 1940, en Reykjavíkurflugvöllur var ekki kominn í gagnið fyrr en vorið 1941. 

Ekki einu sinni vatnsturninn, sem þarna stóð lengst, fékk að vera í friði. 

Þegar ferðast er um Noreg má hvarvetna í því langa landi sjá dæmi um ræktarsemi Norðmanna við sögu sína á öllum sviðum, ekki síst söguna í Heimsstyrjöldinni. 

Gömlum vegarköflum er til dæmis víða haldið við, ferðamönnum til ánægju og fræðslu, svo sem veginum um Strynefjellet. 

Hliðstæðar minjar hér á landi eru í Kömbunum, en ekkert með þær gert. 

Undantekning er vegurinn yfir Kattarhrygg í Norðurárdal í Borgarfirði, sem menn geta lesið um á skilti handan við ána!

Upplifunin af þessu einstæða vegarstæði byggist á því að ganga eftir veginum yfir hrygginn, en aðgengi að Kattarhrygg er algerlega vanrækt. 


mbl.is Gamla flugstöðin á Keflavíkurflugvelli rústir einar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki réttast að taka Hótel Loftleiðir í verndarnýtingu?

Þorsteinn Jónsson (IP-tala skráð) 8.8.2018 kl. 14:12

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Spurningin er hvort ekki var flugvallarhótel á Vellinum í tengslum við rifnu flugstöðina. 

Ómar Ragnarsson, 8.8.2018 kl. 14:21

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

 Ekki er að sjá að nokkrum hafi dottið í hug að hægt væri að gera skemmtilegt safn um forna tíð á Vellinum í þessu húsnæði, sem sjálfkrafa bauð upp á veitingaaðstöðu fyrir gesti. 

Ómar Ragnarsson, 8.8.2018 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband