Skondin mótsögn.

Það skiptir líklega oftast ekki miklu máli á hvaða tungumáli dýralæknar tala við dýr eða í návist dýra. Enda geta dýrin engu svarað á móti, hvort eð er. 

Að sama skapi ætti að vera mikilvægara á hvaða tungumáli læknar tala þegar um fólk er að ræða. 

En svo er að sjá af tengdri frétt á mbl.is að í lögum hafi þetta verið öfugt hér á landi:  Mikilvægt að tala íslensku í návíst dýra en alveg öfugt varðandi málnotkun í návist manna. 

Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum, sagði kerlingin víst. Á íslensku. 


mbl.is Þurfi ekki að tala íslensku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg forsaga löngu, löngu tímabærs fréttamyndvers.

Ætli það hafi ekki verið fyrir um 15 árum sem fulltrúar frá BBC komu og skoðuðu Útvarpshúsið. 

Þeir áttu varla orð yfir því bruðli sem þeim sýndist vera í gangi varðandi aðalmyndverið og sögðust ekki vita um aðra sjónvarpsstöð í Evópu þar sem menn teldu sig hafa efni á því að fréttir væru sendar út úr aðalmyndverinu og þar með bruðlað stórlega með jafndýrt fyrirbæri og stórt myndver er. 

Þetta þýddi einfaldlega, eðli málsins samkvæmt, að nýting myndversins fyrir bæði fréttir og annað efni yrði miklu verri en ella. Það yrði að hætta í miðjumm klíðum við venjulegar en dýrar og flóknar upptökur af því að það væru að koma fréttir! 

Og það væri miklu dýrara og erfiðara, ef það væri þá hægt, að senda út fréttir með þyrftu að fara í loftið með mjög stuttum fyrirvara. 

Því að fréttir hafa þann óhentuga eiginleika að taka oft upp á því að gerast þegar þeim sýndist, en ekki þegar það hentaði bókunum á myndverum. 

Þeim var sagt, að allt væri þetta gert vegna sparnaðar og skorts á fjármagni. Aðalmyndverið hefði upphaflega átt að vera hljóðver í útvarpi og að húsið allt hefði upphaflega verið hannað bara fyrir útvarp og skrifstofur en ekki fyrir sjónvarp. 

Tvö önnur hús hefðu átt að rísa við hliðina, annars vegar fyrir sjónvarp og hins vegar fyrir tækjabúnað, en vegna sparnaðar og fjárskorts orðið að hætta við það. 

Sjónvarpið hefði sem sagt átt að vera í öðru sérstöku húsi með myndverum sem væru hönnuð fyrir fréttir annars vegar og annað sjónvarpsefni hins vegar. 

Ekki minnkaði undrun þeirra við að heyra þetta undarlega sparnaðartal notað um eindæma bruðl, og sömuleiðis það, að vegna sparnaðar og fjárskorts hefðu ekki verið til peningar til að hanna nýtt heildar útvarpshús upp á nýtt.

Hinir erlendu gestir hefðu orðið enn meira undrandi ef þeir hefðu vitað, að vegna sparnaðar yrði haldið áfram með þetta bruðl í fimmtán ár í viðbót. 

Og að ef að líkum léti, myndu ýmsir, í ljós fyrri reynslu, verða til að gagnrýna "bruðlið" sem fælist í því að gera sérstakt fréttamyndver eftir að sérstakt rými fyrir lítið hljóðver hafði beðið eftir því að vera gert að myndveri fyrir fréttir árum saman. 

Hvað um það, - nú er þessari stóru og langvinnu áratuga vitleysu lokið að mestu, en eftir stendur, að svonefnd aðalmyndver og fréttamyndver áttu upphaflega að vera hljóðver fyrir útvarp. 

Það verður sennilega ekki að veruleika hjá núlifandi mönnum að komist verði alla leið á þessari vegferð. 

Og öll þessi saga er afleiðing af þeirri ákvörðun fyrir um fjórum áratugum að láta hanna og reisa alltof stórar og dýrar byggingar við Efstaleiti yfir Ríkisútvarpið. 


mbl.is Nýtt myndver RÚV kostar 184 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér."

Þegar móðir mín heitin vann sem ung stúlka hjá tímaritinu Eimreiðinni, nýútskrifuð úr Verslunarskólanum, var helsta þjónustuboðorðið, sem hún lærði: "Viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér."  

Sem þýddi, að leita ætti eftir þeim þörfum og löngunum sem viðskiptavinurinn hefði og gera hann þannig sem ánægðastan, í stað þess að þrasa við hann eða þvinga hann til einhvers annars. 

Ferð sem ég fór á vegum Stöðvar 2 til Írlands 1993, eða fyrir 25 árum, opnaði alveg nýja sýn. 

Írarnir lögðu sig fram um að laða til sín ferðamenn frá Miðjarðarhafslöndunum til þess að uppfylla upplifunarþörf þeirra á einhverju nýju. 

Á vesturströnd Írlands var það hryssingslegt og hvass skúraveðrið, sem stóð af Atlantshafinu, svo að trén á ströndininni voru blaðlaus á þeirri hlið sem sneri að saltrokinu. 

Þessi ferðamenn voru ekki komnir til að upplifa steikjandi sólarhita, logn og heiðskírt veður. 

Þurftu ekki að ferðast til þess. 

Eftir þetta gerðí ég margar fréttir um þetta fyrirbæri, "upplifunarferðamennskuna" og hef sagt frá ýmsu hér á bloggsíðunni. 

2005 opnaði ferð til Lapplands augu mín enn betur. Þar var helsti markhópurinn lokkaður þangað norður í rassgat til að upplifa fernt:  Kulda, myrkur, þögn og ósnortna náttúru.. 

Þetta fernt er nánast allt það sem við höfum talið okkur trú um að sé það mest fráhrindandi sem hugsast gæti. 

2005 komu fleiri ferðamenn til Lapplands að vetrarlagi en komu til Íslands allt árið. 

Eftirtalar vonleysis mótbárur okkar voru léttvægar fundnar í vetrarferðalaginu um Lappland: 

1. Ísland er of langt í burtu.  Svar:   Það er styttra til Íslands frá flestum löndum í vestanverðri Evrópu en til Lapplands. 

2. Það er alltof mikið myrkur:    Svar: Lappland liggur norðar en Ísland og þar er enn meira myrkur.  

3. Það er alltof kalt, já skítakuldi á Íslandi.  Svar: Það er miklu kaldara, fimbulfrost í Lapplandi. 

4. Það er ekki hægt að sýna útlendingum neitt.  Svar: Jú, upp úr stríðinu skrifuðu evrópsk börn bréf til jólasveinsins á Íslandi. Þetta þótti hvimleitt hjá okkur og tómt vesen og urðum við fegin þegar þessu linnti.  En Finnarnir í Rovaniemi sáu hvað var á seyði og lokka hundruð þúsunda til Lapplands ár hvert til að upplifa jólasveininn, af því að hann býr í Lapplandi, ekki á Íslandi. 

5. Ókey, Finnarnir hirtu jólasveininn af okkur og þar með eigum við ekkert.  Svar: Jæja, það er bara einn jólasveinn í Lapplandi en 13 hjá okkur auk Grýlu, Leppaljóða, álfanna og tröllanna.  Finnarnir eiga hreindýr og hreindýrasleða til að bruna á um frosin vötn á heiðum, en við eigum líka hreindyr sem gætu dregið hreindýrasleða til að bruna á um frosin vötn og heiðar, - en þar að auki eigum við stórkostleg eldfjöll og eldfjallanáttúru. 


mbl.is Ferðaþjónustan öflug heilsársgrein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. september 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband