Bættur Reykjavíkurflugvöllur er samt skásti kosturinn.

Þegar talað er um að ekki sé vænlegt að endurbæta Reykjavíkurflugvöll verður að gæta þess, Ð þrátt fyrir það eru aðrir kostir mun verri og seinlegri.

Með lengingu austur-vestur brautarinnar þarf ekki að gera neinar veðurfræðilegar athuganir, því að miðað við algengustu hvassviðraáttina er þetta langbesta flugbrautarstæðið á sunnan- og vestanverðu landinu og með aðflug yfir sjó í aðra áttina en yfir opið svæði í Fossvogsdal í hina áttina. 

Flugvöllur með sama notagildi í Hvassahrauni yrði margfalt dýrari og á svæði með nun verri flugskilyrði, auk þess sem undir honum er dýrmætt vatnsverndarsvæði.  

Þráhyggjan um  það endilega þurfi að byggja íbúðabyggð í Vatnsmýri vegna þess hve það svæði liggi vel við slíku byggist á því að leggja allt annan mælikvarða á flugmannvirki en siglingamannvirki og vegamannvirki. 

Ef flugmannvirki skulu ætíð víkja fyrir íbúðabyggð ætti hið sama að gilda um Reykjavíkurhöfn, sem tekur jafn mikið pláss í borgarlandinu og er nær þungamiðju þess. 

Vatnsmýri lá fram yfir miðja síðustu öld nálægt þungamiðju höfuðborgarsvæðsins, en það hefur gerbreyst; slík þungamiðja liggur nú á mörkum Elliðaárdals og Fossvogsdals. 

Furðulegt er að sjá enn þá röksemd gerða að fyrstu frétt i fjölmiðli, að ef flugvðllur hefði ekki verið gerður í Vatnsmýri/Skildinganesi hefði engin byggð risið austan Elliðaáa. 

Austan Elliðaáa og sunnan Fossvogsdals búa nú um eða yfir 100 þúsund manns, og það blasir við hvílík fjarstæða það er, að 100 þúsund manns hefðu geta komist fyrir í Vatnsmýri.   

 

 


mbl.is Ekki vænlegt að endurnýja Reykjavíkurflugvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistök eins flugstjóra breyttu gangi stríðsins.

Þegar Göring ákvað og lofaði Hitler því að eyða breska flughernum og aðstöðu hans áður en gerð yrði innrás í Bretland, beindust árásir Luftvaffe, sem mörkuðu upphaf orrustunnar um Bretland í júlí 1940, einkum að flugvöllum og hernaðarmannvirkjum, sem gögnuðust breska flughernum. 

Áætlunin gekk ágætlega þótt draga yrði Stuka-vélarnar út úr henni, og sagnfræðingar hafa síðan velt vöngum yfir því hvort hún hefði heppnast, ef henni hefði verið fylgt fram af einbeitni og fullum þunga. 

En þá gerðist atvik, sem virtist ekki mikilvægt í sjálfu sér, að áhöfn einnar af sprengjuflugvélum Þjóðverja villtist, og flugstjórinn ákvað, frekar en að fljúga með sprengjurnar til baka, að varpa þeim á byggð, sem birtist fyrir neðan vélina. 

Byggðin reyndist vera hluti af London, og Churchill varð bæði sleginn og reiður og valdi það sem hefndaraðgerð að senda flota sprengjuflugvéla til þess að varpa sprengjum á Berlín. 

Göring hafði lofað Hitler því í upphafi að engin flugvél Breta myndi komast til Berlínar, en þegar það brást, varð Hitler ævareiður og skipaði svo fyrir, að breytt skyldi um áætlun og ráðist af öllum þunga Luftvaffe á London og aðrar breskar borgir. 

Með því yrði hægt að valda svo miklum usla, að breskur almenningur og stjórn landsins myndu gefast upp. 

Annað kom á daginn, því að hinar illræmdu árásir stöppuðu stálinu í Breta, sem efldust við að hlusta á hinar mergjuðu og mögnuðu hvatningarræður Churchills. 

Ein þeirra hlaut heitið "The few" og fjallaði um dáðir bresku flugmannanna,  það að aldrei fyrr í átakasögu mannkynsins hefðu jafn margir átt jafn mikið að þakka jafn fáum. 

Enn í dag velta menn vöngum yfir því hvort það hefði fært Þjóðverjum sigur í lofthernaðinum að flugstjóri einnar árásarvélar hefði ekki sleppt sprengjum vélarinnar fyrir mistök yfir byggð í útjaðri London. 

Bent hefur verið á að ratsjár Breta, færir orrustuflugmenn og hagræði þeirra af því að verjast á heimavelli af stuttu færi flugvélum, sem komu það langt að, að drægi þeirra var illilega takmarkað, hefðu hvort eð er reynst Þjóðverjum dýrkeypt og óvænt óhagræði, auk þess sem hægt hefði verið að berjast frá breskum flugvöllum, sem lágu lengra inni í landi. 

Þegar Þjóðverjar gerðu örvæntingarfulla stórárás 15. september og misstu miklu fleiri flugvélar en þeir áttu von á, varð niðurstaðan sú, að fresta innrásinni Sæljón um óákveðinn tíma og draga innrásarflotana í höfnum á meginlandinu til baka og dreifa honum. 


Gott væri að leita ráða hjá stofnendum þjóðgarða erlendis.

Við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands er í flestum grundvallaratriðum verið að fást við svipuð úrlausnarefni og marga merka þjóðgarða erlendis. 

Meðal þeirra er Jóstedalsjökulsþjóðgarðurinn í Noregi, sem nær yfir þennan stærsta jökul á meginlandi Evrópu og næsta nágrenni hans. 

Þjóðgarðurinn er frekar ungur, og við stofun hans fyrir síðustu aldamót þurfti að leysa úr ýmsum álitaefnum, vegna þeirra mismunandi hagsmuna, sem þar rákust á. Erik_Solheim_(1947-)

Á þeim tíma kom Erik Solheim formaður Norsku náttúruverndarsamtakanna mjög við sögu þessa mikla úrlausnarefnis og deilumála, sem tókst síðan að leysa farsællega, og varð Solheim síðar stjórnarformaður þjóðgarðsins. 

Solheim kom tvívegis til Íslands og kynnti sér íslensk álitaefni, meðal annars Kárahnjúkavirkjum, og í síðari ferð sinni hélt hann fróðlegan og eftirminnilegan fyrirlestur á málþingi, sem haldið var á vegum Landverndar um stofnun Jóstedalsþjóðgarðsins. 

Solheim er enn á lífi, 72ja ára gamall, og væri áreiðanlega gagnlegt að leita í smiðju hans og jefnvel fleiri erlendis, sem hafa reynslu af svona málum.  

 


mbl.is Frumvarp um þjóðgarð á miðhálendinu lagt fram í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband