Hörð barátta Tesla. Tröllasögur um áhrif kulda á rafbíla

Þegar rafbílar brutust út úr prísundinni sem ríkjandi orkuframleiðendur höfðu komið þeim í með því að seinkað tilkomu þeirra um tvo áratugi með alls kyns bolabrögðum, tókst alveg nýju fyrirtæki, Tesla, að taka tæknilega forystu með því að hanna hönnun nýs bíls þanning, að hægt yrði að dreifa rafhlöðum um bílinn með tilliti til þess hvar þær yrðu til mest gagns hvað varðaði rými og þyngd. 

Því að jafnvel þótt lithium kæmi til sögunnar sem tvöfalt öflugri orkuberi en blý, nikkel og silisíum, var þyngd og rými allt að tíu sinnum meiri en af jafnmikilli orku í bensíni eða olíu. 

Tesla nýtti sér þá tækni, sem hafði þegar verið nýtt í farsímum, en með því móti mátti dreifa rafsellunum af einstakri hagkæmni í hönnun, sem var löðuð að þessum eiginleikum. 

En keppinautar Tesla eru stórir og skæðir, og samkeppnin gríðarleg. Tesla rataði því í vandræði fjárhagslega, og vegna þess að enn er í gangi framför í gerð rafhlaðna, geta léttari rafhlöður miðað við orkugeymd, ráðið úrslitum um gengi rafbílanna, sem eru í mikilli og hraðri þróun á tiltölulega nýju sviði. 

Barátta Tesla er því upp á líf og dauða.  

Þyngdin ein er ekki eini ókostur rafhlaðna, heldur líka áhrif kulda á geymslu orkunnar. 

Í handbók hins mjög svo smáa Tazzari rafbíl, "rafbíl litla mannsins", langminnsta og ódýrasta rafbíl á Íslandi, er það upplýst, að tölur um 100 km drægni og 12,8 kwst orkuinnihald væru miðaðar við 20 stiga lofthita. 

Fyrir hvert stig, sem hitinn lækkaði, minnkaði drægnin og orkuinnihaldið um 1 prósent. Það sýnist ekki mikið en þýðir í raun, að við 10 stiga sumarhita hefur drægnin minnkað um 10 prósent og í 0 stiga meðalhita um háveturinn um 20 prósent. 

Nú berast um netmiðla miklar tröllasögur af stórfelldu orkufalli í vetrarhörkumm, sem gengið hafa yfir í Ameríku. 

Þá er dæmið samkvæmt upplýsingum Tazzari-handbókarinnar ljóst. Þegar komið er 30 stiga frost hefur drægnin fallið um helming, úr 100 kílómetrum niður í 50. 

Ef miðstöðin er notuð mikið er þar annar ókostur: Upphitun rafbíls krefst mikillar umframorku, gagnstætt því sem er um eldsneytisknúna hreyfla. 

Orðið eldsneyti segir það sem segja þarf: Hreyfillinn gengur einfaldlega fyrir eldi, en það gerir rafhreyfillinn ekki. 

Drægnin á Tazzari bílnum getur minnkað aukalega um 10-20 kílómetra ef hún er höfð á allan aksturstímann. Tazzari Zero, framan

Það þýðir að  sé til dæmis 10 stiga frost og miðstöðin höfð í gangi allan akstustímann, getur drægnin fallið úr 80 kílómetrum niður í 60 kílómetra og ef ekið er með því að gefa alltaf hressilega í, niður í 50 kílómetra. 

En það er engin frágangssök á bíl, sem er að mestu hannaður til innanbæjaraksturs, því að daglegur akstur í innanbæjarsnatti er að meðaltali rúmlega 30 kílómetrar. 

Tölur um drægni eru byggðar á akstri síðuhafa 4000 km síðan í nóvember á þessum bíl innanbæjar auk ferða upp á Akranes, upp í Borgarfjörð og austur í Ölfus. 


mbl.is Tesla kaupir rafhlöðuframleiðanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrkeyptara að aðhafast ekkert. Auðhumla.

Þegar rætt er um rányrkju auðlinda jarðar og loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra mikla úrtölumenn ævinlega fyrir sér kostnaðinn við að gera ráðstafanir til að koma böndum á hömlulaust bruðl jarðarbúa. 

Tengd frétt á mbl.is er þarft lesefni til að varpa ljósi á hinn stórfenglega vatnabúskap Himalayafjallanna, sem snertir lífsskilyrði tveggja milljarða manna allt frá Afganistan til Burma, meðal annars vegna stórfljótanna sem renna úr fjöllunum. 

Andri Snær Magnason hitti Dalai Lama á sínum tíma og hefur haldið merkilega myndskreytta fyrirlestra um þetta mál, sem meira að segja rataði til Vesturlanda allt til Íslands í myndgerði þjóðsögu um kúna Auðhumlu, þar sem spenar hennar voru í sagnageymd sunnanverðrar Asíu stórfljótin sem ráða svo miklu um lífsskilyrði meira en fjórðungs mannkyns. 

Mun dýrkeyptara verður að fást við afleiðingar hvarfs jökla og breytts vatnabúskapar heldur en ef gripið hefði verið strax til ráða til að afstýra hruni þeirra hagkerfa, sem bruðldýrkendur bera svo mjög fyrir brjósti.  


mbl.is „Loftslagskrísan sem enginn heyrði af“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tregða og ótti gagnvart beinu lýðræði.

Þegar litið er yfir feril stjórnmálaflokka landsins síðustu áratugi og ummæli forsætisráðherra skoðuð kemur berlega í ljós vantraust stjórnmálamanna á kjósendum. 

Og þess vegna er ekki undarlegt hve lítils trausts Alþingi nýtur. 

Vinstri grænir lögðu fram tillögu um að samhliða Alþingiskosningunum 2003 yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um Kárahnjúkavirkjun. 

Þingmenn hinna flokkanna felldu hana. 

Í kringum aðildarviðræður að ESB hringsnerust flokkarnir eftir því hvort þeir voru í stjórn eða stjórnarandstöðu og fleiri dæmi eru um að flokkar hafa látið aðild að ríkisstjórn ráða því hvort þeir væru með eða á móti þjóðaratkvæðagreiðslum. 

Ótti þingmanna við beint vald kjósenda skín í gegn gagnvart tillögum Stjórnlagaráðs um beinar persónukosningar og jafnt vægi atkvæða, enda þótt kjósendur sýndu hug sinn greinilega í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. 

Það hefur nefnilega lengi verið þverpólitískur meirihluti á Alþingi, sem þorir ekki að horfast beint í augu við þá sem kjósa þá beint: 

Þessi meirihluti í hverjum kosningum er skipaður þeim þingmönnum, sem geta setið rólegir á kosninganóttina með glas í hendi, af því að "þeir eru í öruggum sætum."

Þessu þarf að breyta  

Beinar persónukosningar hafa reynst ágætlega í þeim löndum nálægt okkur sem nota þær. 

 


mbl.is Hefðu átt að halda þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband