Flækjustigið komið einu skrefi of langt?

Það er tímanna tákn að í eftirsókn eftir fjárhagslegum ávinningi eins og í Boeing 737 Max-8 málinu, eða eftir aukinni sjálfvirkni út af fyrir sig, skuli þurfa að setja aukalega viðvörunarljós í Boeing 737 Max-8 til þess að vara við bilun í sjálfvirknikerfi, sem aðeins er í þeim vélum en ekki öðrum. 

Það má nefnilega gagnálykta og segja sem svo, að ef þetta MCAS-kerfi væri ekki í Max-þotunum, gæti það ekki bilað, og þar með má líka segja að ný tegund hættulegra bilana hefði bæst við á þessum annars góðu gripum. 

Sífelld þensla í aukinni notkun sjálfstýringa og tölvustýringa einkennir afar margt í farartækjum, svo sem í bílum. 

Það er að vísu þægilegt að geta opnað læsingar á öllum dyrum bíls með einu handtaki á lykli, en þegar gengið er skrefi lengra og lykillaust kerfi komið til skjalanna, bætist við ný hætta á vandræðum, að hið nýja "fullkomna" kerfi bjóði upp á alveg nýja tegund af bilunum. 

Skyldfólk síðuhafa stóð til dæmis uppi bíllaust í margar klukkustundir nýlega austur í sveitum vegna bilunar á þessu líka fína tölvustýrða ræsingar- og læsingarkerfi bíls þeirra og óskuðu þess innilega að gamla, góða lyklakerfið hefði verið í bílnum. 

Max-málið getur hugsanlega orðið stærra og mikilvægara en það er eem vandamál í flugi, ef það mun leiða til endurmats á öryggisráðstöfunum í notkun fullkomnustu samgöngutækja nútímans.  


mbl.is Viðvörunarljós í vélar Boeing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málið verður verra. Þarf að batna.

Það er hart að það þurfti frumkvæði Kínverja, Breta og loks Evrópu til þess að knýja Boeing og bandarísk flugmálayfirvöld til þess að gera það sem blasti við strax eftir slysið í Eþíópíu, að líkindi til þess að flugvélar af nýrri gerð sem voru innan við 0;05 prósent af flugflota heimsins hröpuðu á svipaðan hátt með stuttu millibili. 

Líkindi til þess að ekkert samband væri þarna á milli voru nánast engin. 

Það er líka hart að aðeins þeir aðilar, sem mestu fjárhagslegu hagsmunina höfðu af því að tregðast við, gerðu það. 

Aðeins tvö ár eru síðan fyrsta árið í flugsögunni var með ekkert stórt banaslys. 

Það tókst aðeins vegna lærdóma, sem menn drógu af áföllum og brugðust við af einbeitni og djörfung. 

Nú verður það vonandi gert að nýju. 


mbl.is Spjót beinast að flugkerfi 737 MAX-8
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband