"Mikil óeining og æsingur vegna afsals ríkisvalds til erlendra alþjóðastofnana."

Íslenska stjórnarskráin er sú eina í okkar heimshluta sem hefur ekkert ákvæði um "afsal ríkisvalds til erlendra alþjóðastofnana í þágu friðar og efnahagssamvinnu" eins og það er orðað í 111. greininni í frumvarpi stjórnlagaráðs. 

Til þess að undirstrika orðin "...friðar og efnahagssamvinnu" er sett hér inn mynd af sólarlaginu í kvöld. Sólarlag 25.júlí 2020

Í greininni er segir í framhaldinu:  "Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft. Með lögum skal afmarka nánar i hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst. 

Samþykki Alþingi fullgildingu samnings, sem felur í sér framsal ríkisvalds, skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi."

Margir íslenskir fræðimenn, svo sem Björg Thorarensen og Ólafur Þ. Harðarson hafa lýst þeirri skoðun sinni, að ekki verði lengur undan því vikist að hafa einhver ákvæði í stjórnarskrá um þetta mál og vísa til erlendra stjórnarskráa í því tilliti. 

Í sjónvarpsviðtali í kvöld sagði Katrín Jakobsdóttir, að svo skiptar skoðanir væru um þetta mál, að ekki yrði hægt að gera í því að svo stöddu. Þetta væri alveg sérstakt mál. 

Þetta er rétt hjá Katrinu og er alveg sérstak hve mikill æsingur og stóryrði hafa verið höfð uppi hér á landi um jafn eðlilegan hlut og að einhver lög um framsal séu í stjórnarskrá okkar eins og stjórnarskrám annarra þjóða.

Björg Thorarensen flutti mjög góða ræðu um þetta á aldarafmæli fullveldisins fyrir tveimur árum, og færði meira að segja að því rök, að ef ákvæði um þetta væru í íslensku stjórnarskránni, væri komið að því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um EES samninginn. 

Heitir andstæðingar hvers kyns afsals ríkisvalds til alþjóðastofnana hafa lýst fulltrúum í stjórnlagaráði og öðrum, sem vilja setja um þetta góð lög sem örgustu landráðamönnum. 

Þeir hafa þó ekki svarað spurningunni um það hvort slíkt alþjóðasamstarf hafi falið í sér landráð í hundruð skipta allar götur frá 1944 þegar við gerðumst aðilar að ICAO, Alþjóðlegu flugmálastofnuninni, og þar á eftir að Sameinuðu þjóðunum og fjölmörgum stofnana þeirra og alþjóðasamningum, Hafréttindasáttmálanum, Mannréttindasáttmálanum, Barnasáttmálanum, EFTA, dómstólnum í Strassborg, Ríó-sáttmálanum, Árósasamningnum o.s.frv. o.s.frv. 

Ef allir þessir sáttmálar og samningar hafa verið landráð og þjóðsvik, og við segðum okkur frá þeim öllum, sést alvarleiki þess mál vel á því hvernig umhorfs væri til dæmis í flugmálum okkar, þar sem við settum okkur sjálfir allar reglur um loftferðir og loftför. 

Það myndi að sjálfsögðu jafngilda því að segja okkur úr lögum við alþjóðasamfélagið og leggja allt flug okkar í rúst.  


mbl.is Hyggst leggja fram stjórnlagabreytingar að hausti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennilegur bílafróðleikur Jónasar Elíassonar.

Í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu er að jafnaði birtur fróðleikur um bíla, sem oft er athyglisverður, eins og tengd frátt á mbl.is ber með sér. Jónas Elíasson bílar

En fróðleikurinn getur einn birst á fleiri stöðum og er lítil en afar athyglisverð klausa í grein Jónasar Elíassonar prófessors í fyrradag gott dæmi um það. 

Jónas hefur ritað áhugaverðar og skemmtilegar greinar um umferðarmálin undanfarnar vikur, en svo kemur allt í einu þetta, sem hann ritar um bílismann:

"...einkabílar í dag vega ekki nema þriðja part og eyða ekki nema fjórða parti af því sem var fyrir 50 árum, ef fólk kaupir sparneytinn bíl."  

Ef þetta væri rétt hjá Jónasi, gæti það orðið forsíðufrétt, slík firn eru fullyrt í þessum orðum hans. 

Í þeim felst að meðal einkabíllinn 1970 hafi verið þrisvar sinnum þyngri en einkabíllinn 2020.  Nú er auðvelt að fletta þessu upp í bílfræðiritum og sjá, að meðal bíllinn 2020 er á bilinu 1200-1500 kíló, og er þessi flokkur bíla af meðalstærð oft kallaður Golf-flokkurinn eftir Volkswagen Golf, sem hefur verið framleiddur síðan 1973.  

Í þessum stærðarflokki eru mest seldu bílar Evrópu og Hyundai Kona, sem tengda fréttin fjallar um, er á þessu róli. Auto Katalog. Golf 2019

Ekki er hægt að fá léttari Golf en 1200 kíló, eins og sést á mynd úr Auto Katalog 2019, og ekki léttari Toyota Yaris en 1000. 

Samkvæmt fróðleik Jónasar voru sambærilegir bílar 3000- 3600 kíló i kringum 1970. 

En fyrsti Golfinn var hins vegar 750 kíló og bílar almennings langflestir léttari um 1970 en 1000 kíló, og yfir línuna er þungaaukningin á bílaflotanum um 40 prósent síðustu 50 ár. 

Ef sambærilegir bílar nú á tímum væru þrefalt léttari en þeir voru 1970, væru þeir á bilinu 250-350 kíló, álíka þungir og meðal vélhjól!

Það er rétt hjá Jónasi að hluta til þetta með sparneytnina, því að á móti þungaaukningunni hefur tekist að auka hana, miðað við þyngd bílanna. 

En hið hlálega er, að umræðuefnið í grein Jónasar er vandinn vegna vaxandi plássleysis fyrir fjölgandi bíla í umferðinni, og þar skipta þyngd og orkueyðsla bílanna engu máli, heldur fyrirferð þeirra; það pláss sem þeir taka á götunum. 

Og þar hefur þróunin síðustu 50 ár verið sú að bílarnir eru að meðaltali mun breiðari en þeir voru og einnig lengri. 

Golf 2020 er hálfum metra lengri en Golf 1973, og 20 sem breiðari. 

Ef bílarnir sem nú streyma eftir Miklubraut yfir Elliðaárnar, væru hálfum metra styttri hver, myndu samtals 50 kíómetrar af malbiki, sem nú eru þakin bíla, verða auðir.  

 


mbl.is Rúmlega 100.000 rafdrifnir Hyundai Kona á götum heimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í Kröflugosunum reis land meira og meira eftir hvert gos.

Í Kröflueldum 1975-1984 reis land alls fjórtán sinnum, en eldgosin urðu níu. Við lok hverrar umbrotahrinu seig land en byrjaði síðan að rísa á ný.

Þegar land var eftir slíkt ris og gos komið í sömu hæð og í síðasta gosi, hélt það áfram að rísa í nokkrar vikur eða mánuði þar til gaus á ný. 

Svona gekk þetta áfram, og gosin urðu smám saman yfirleitt stærri og hið stærsta varð haustið 1984. 

Um 250 ár liðu milli Mývatnselda og Kröfluelda og nokkuð rólegt á þessu tímabili. 

Hugsanlega hófst slíkt tímabil 1984, en hvort það endist í 250 ár, styttra eða lengur, er líklega vissara að spá engu um. 

Gosin í Heklu 1970, 1980, 1991 og 2000 urðu með áratugs millibili, sem var ný hegðun hjá þeirri gömlu, þar sem áður höfðu liðið margfalt lengri tímabil milli gosa. 

Nú eru liðin 20 ár frá gosi, og hún heldur fast að sér spilunum og er raunar til alls líkleg. 

Gæti verið farin að gjósa eftir klukkustund frá því að þessi pistill er skrifaður.  


mbl.is Þrýstingur við Heklu hærri en fyrir eldgosin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. júlí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband