Skotfimi lögreglumanna var atriði í þjálfun þeirra strax fyrir stríð.

Það hefur alla tíð verið stór hluti af þjóðarímynd Íslendinga að við værum vopnlaus þjóð. 

Allt frá fullveldinu 1918 til stríðsbyrjunar 1939 var hlutleysi landsins önnur hlið þessarar hugsunar og sömuleiðis sú trú, að þegar allt væri vegið og metið væri hlutleysið skásti kosturinn fyrir örþjóð eins og okkur; við ættum hvort eð er aldrei möguleika til að verjast erlendu herliði. 

Vitað er að Hermann Jónasson, sem var lögreglustjóri í Reykjavík á tímabili og síðar forsætisráðherra 1934 til 1942, iðkaði skotfimi. 

Var meira að segja sakaður um að hafa skotið friðaða æðikollu við Örfirisey. 

Út af því orti hann: 

Ævi mín er eintóm leit

eftir villtum svani, 

en ég er eins og alþjóð veit

aðeins kollubani.  

Málið lognaðist útaf. 

Liður í þvi að efla getu lögreglunnar þegar ófriðarblikur dró á loft 1939 var að senda Agnar Kofoed-Hansen, þáverandi flnugmálaráðunaut ríkisstjórnarinnar, á sérstakt námskeið fyrir verðandi lögreglustjóra til lögregluyfirvalda erlendis, þar sem þau mál væru sérstaklega vel af hendi leyst. 

Agnar var tregur til, en á móti kom að vegna starfa sinna erlendis sem flugmaður bæði í Noregi, Danmörku og hjá Lufthansa í Þýskalandi, þar sem hann hafði komist í kynni við menn í innsta hring nasista, gat hann aflað sér færni á þessu sviði á besta mögulega stað, hjá Gestapo í Þýskalandi. 

Þetta gerðist beint í kjölfar þess að hann hafði sem flugmálaráðunautur ríkisstjórnarinnar ráðlagt eindregið, að ósk Hitlers um bækistöðvar og aðstöðu Lufthansa hér landi fyrir Atlantshafsflug yrði hafnað. Vakti þessi neitun heimsathygli á þeim tíma sem enginn þorði að standa uppi í hárinu á Hitler.

Agnar var röggsamur lögreglustjóri og skotfimi var greinilega í metum hjá honum þegar hann og lagði mikið upp úr þjálfun íslenskra lögreglumanna. 

Í endurminningum sínum segir Agnar frá því að svo vel hafi hann þekkt til í Þýskalandi, að í samkvæmi hjá mönnum í innsta hring nasista, hafi verið ráðgert að það yrði eins konar skemmtiatriði að hann færi í keppni í skotfimi við sjálfan Heydrich, sem var einn af valdamestu mönnum landsins og dáður sem eins konar módel hins hreina Aría, goðum líkur að útliti og líkamsburðum. 

Heydrich komst ekki til samkvæmisins og ekkert varð af einviginu. 

En það er ljóst að meðferð skotvopna á sér að minnsta kosti meira en 80 ára forsögu hjá lögregluyfirvöldum hér á landi. 

Og einnig það, að Agnar Kofoed-Hansen var framsýnni en aðrir varðandi afstöðuna til Hitlers og gerði þjóð sinni ómælt gagn með þeim ráðleggingum, sem hann gat gefið í krafti mikillar og víðtækrar þekkingar á flugi og flughernaði. 

Þær voru einfaldlega þannig, að ef orðið yrði við kröfum Hitlers, væri það sama og ávísun á það að við drægjumst eins fljótt og hugsanlegt var inn í komandi hernaðarátök á hinn versta hátt.  


mbl.is Aukin umræða um vopnaburð innan lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skógrækt og vindorkuvæðing eru vandasöm stórverkefni og virðingarverð.

Skógrækt og vindorkuvæðing landsins eru hliðstæð fyrirbæri um margt. Hvort tveggja getur leikið stórt hlutverk í andófi gegn of miklum koltvísýringi í lofthjúpnum og súrnun sjávar, og hvort tveggja hefur mikil áhrif ásýnd landsins og samspil við önnur náttúruverðmæti. 

Það að auki innifela þessi stórverkefni gríðarlegt átak, vinnu og fjármagn.  

Stór hluti af því verður að vera sú mikla og nauðsynlega vinna sem leggja þarf í vandað mat á umhverfisáhrifum , svo að þessi verkefni valdi ekki óþörfu tjóni í því efni. 

Við slíku er hætt ef stjórnlaust og fyrirhyggjulaust æði fær að ráða för. 

Eitt lítið dæmi af mörgum í því efni blasir við vegfarendum á Þjóðvegi númer eitt um Stafholtstungur. 

Eitt fegursta fyrirbrigði þessa hluta Borgarfjarðarhéraðs eru klettaröðlar og lág hamrabelti, sem prýða gróið landið umhverfis þá og eru einkar fallegir þegar sól er lágt á lofti síðdegis, einkum á haustin og vorin. 

Þessar hamragirðingar eru nú hver af annarri að sökkva í skóg, sem plantað hefur verið rétt upp við þá, oft með útlendum háum trjám.  

Á þessu svæði má finna stórar lendur sem frekar ætti að rekta skóg á og af nógu að taka. 


mbl.is Segja skógrækt slitna frá landbúnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við erum að sjá aukningu á fjölda þeirra sjúkdómstilfella, sem eru að koma í ljós."..."

Tvenns konar hvimleið árátta herjar á malfar margra og birtist í orðalagi eins og sýnt er hér að ofan. 

Þetta er 15 orða langloka með alls 26 atkvæmum stað þess að nota 2 orð með 5 atkvæðum:

"Við erum að sjá aukningu i fjölda þeirra sjúkdómstilfella, sem eru að koma í ljós"

þýðir á mannamáli:

"Sjúklingum fjölgar". 

Eða: 

Fleiri veikjast. 

Í langhundinum blandast saman tvenns konar hvimleið árátta; nafháttarsýki og nafnorðasýki. 

Algengast er að sjá síendurtekið "...við erum að sjá..."

sem er algerlega óþörf meiningarleysa en sumir virðast ekki geta verið án, heldur tönnlast á henni í tíma og ótíma, ef verið er að spyrja þá um eitthvað, til dæmis í viðtölum. 


Bloggfærslur 16. febrúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband