Löngu tímabært að hætta við að kenna drepsóttir við lönd og staði.

Nafngiftir á sjúkdómum hafa verið í miklu rugli öldum saman. Sumar drepsóttir hafa fengið tilviljanakennd nöfn tengd löndum, sem hafa sum hver ekki einu sinni verið nefnd réttilega.  

Kominn er tími til að fjarlægja staðanöfn úr þessu nafnakerfi og setja tákn, tölur eða bókstafi í staðinn. 

Eitt versta dæmið um arfavitlausa nafngift var spánska veikin, sem kom fyrst upp í Bandaríkjunum þegar Fyrri heimsstyrjöldin stóð sem hæst, en barst með bandarískum hermönnum á vígstöðvarnar i Frakklandi þar sem hermenn frá Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi voru fjölmennastir. 

Óttast var að ef veikin yrði nefnd eftir einhverri styrjaldarþjóð myndi það hafa hættuleg áhrif á baráttuþrek hermannanna. 

Þegar pestin barst til Spánar, sem var hlutlaus, var hún umsvifalaust nefnd eftir landinu og hefur svo verið síðan. 

Á síðustu árum hafa svínaflensa, fuglaflensa, HIV og SARS veira komið til sögunnar, en sem betur fór var HIV ekki kennd við Bandaríkin eða Vestur-Afríku þaðan sem hún mun hafa komið.

Síðan hefur sigið hratt á ógæfuhliðina og heiti eins og kínaveiran, breska afbrigðið og indverska afbrigðið hertekið umræðuna. 

Er mál að linni og vonandi gefast bókstafaheitin vel, sem nú er stungið upp á. 


mbl.is Afbrigðin verði kennd við bókstafi en ekki lönd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1954 börðust "Sannir Vesturbæingar" og "Tigrisklóin" í Reykjavík.

Fátt er nýtt undir sólinni segir máltækið og það virðist eiga við fyrirbærið LARP sem greint frá í viðtengdri frétt á mbl.is.   

Á vordögum 1954 var óróasamt meðal unglinga á femingaraldri í Reykjavík og voru stofnuð bardagasamtök sitt hvorum megin í Reykjavík, Sannir Vestubæingar í Vesturbænum og Tígrisklóin í Austurbænum. 

Þetta voru sjálfsprottin samtök, sem stofnuðu bardagasveitir vopnuðum trésverðum og öðrum bareflum og héldu æfingar síðdegis.  

Strákar í Holtunum hittust á æfingum við Vatnshólinn svonefnda, tyrfðan vatnsgeymi bæjarins skammt frá Sjómannaskólanum, sem á sér merka sögu sem ein og sér ætti að tryggja varðveislu hans.   

Það kom að því að síðuhafi drægist inn í Tígrisklóna, en náði aldrei að fara nema á eina æfingu, sem fór fram uppi á vatnsgeyminum. 

Þar var hann svo óheppinn að lenda á móti einum öflugasta og best búna stráknum, sem sótti svo hratt áfram, að flóttinn afturábak endaði með því að falla aftur á bak út af geyminum alveg upp við steypt suðvesturhorn hans. 

Það var nokkurra metra hátt fall ofan í gaddavírsgirðingu sem særði til blóðs en tók mesta þungann af fallinu. 

Verra var þó, að hægra viðbein brotnaði og lauk þar með örstuttri hernaðarþátttöku hins beinbrotna.  

Við óhappið leystist æfingin upp og ekki fer frekari sögum af átökum Sannra Vesturbæinga og Tígrisklóarinnar hvað Holtabísarana snerti.  

Bæjaryfirvöld í Reykjavík og bæjarbúar höfðu áhyggjur af þeim róstum og óróa sem ríkti hjá unglingum í borginni þessa blíðu vordaga, og næsta vor var reynt að setja undir þennan leka með því að efna til íþróttanámskeiða á Melavellinum, þar sem hægt var að fá leiðsögn í alls kyns íþróttum.

Þar áttu ýmsir íþróttamenn sem stóðu sig vel síðar, sín fyrstu spor á keppnisvellinum, og var ekki ónýtt hjá strákunum að fá smá tilsögn hjá átrúnaðargoðum þeirra tíma, Clausensbræðrum og fleirum. 


mbl.is Vígbúist í Vesturbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýnir hve teflt er á tæpt vað.

Þrátt fyrir þá miklu fjármuni sem fer í heilbrigðis- og velferðarkerfi nútíma þjóðfélags sýna ýmsir flöskuhálsar í flæði þess glögglega, að vegna stærðar þess og fjölbreytileika er víða teflt á afar tæpt vað. 

Einnig kemur í ljós hve furðu lítill munur er á þanþoli kerfisins í heild og einnig á einstökum sviðum þess og á þanþoli hins margfalt einfaldara og ófullkomnara heilbrigðiskerfis fyrri tíma, svo sem í spænsku veikinni fyrir rúmri öld.  


mbl.is Skurðaðgerðum frestað á LSH
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. maí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband