Ógleymanleg lyftufesta.

Sagan af konunni sem var föst í lyftu í átta daga minnir mig á að fyrstu búskaparár okkar Helgu bjuggum við á tólftu hæð að Austurbrún 2.

Húsið reisti samvinnubyggingarfélag sem ég var félagi í og hafði ég unnið við byggingu þess frá 17 ára aldri og gjörþekkti það, ekki bara að utan og innan, heldur líka hvað var inni í veggjum þess, því að ég var járnamaður. 

Eitt sinn heimsótti okkur kona frá Ísafirði sem hafði staðið fyrir því að ég kæmi vestur á Ísafjörð að skemmta þar og þekkti Helgu mjög vel frá fornu fari þegar hún hafði verið á Patreksfirði. 

Konan sagðist vera sjúklega hrædd við lyftur og vildi frekar ganga.

Hún sagði, að ef lyftan stöðvaðist og kæmist ekki aftur að stað myndi hún gjörsamlega ganga af göflunum.  

Þegar hún kvaddi okkur bauðst ég til að verða henni samferða niður í lyftunni til þess að sýna henni að þetta væru öruggustu farartæki í heimi, enda hefði ég kynnt mér rækilega öll gögn um fáanlegar tegundir af lyftum áður en þessi tegund var valin. 

Konan vildi frekar fara í stóru lyftunni en þeirri litlu, af því að í þeirri litlu myndi hún bugast af innilokunarkennd.

Mér tókst samt að lokka hana til að fara með litlu lyftunni með hástemmdum lýsingum á því að ekkert gæti farið úrskeiðis. 

Á leiðinni niður vildi ég sýna henni fram á að það hefði verið rétt sem ég hefði sagt henni að útilokað væri að klemmast á milli á leiðinni niður, því að sérstakur þröskuldur kæmi í veg fyrir slíkt.

Hún átti erfitt með að trúa því svo að til að sanna þetta og árétta fullyrðingu mína steig ég á þröskuldinn og þetta gekk eftir, - lyftan stöðvaðist.

Síðan ýtti ég á hnapp til að fara aftur af stað en þá gerðust ósköpin: Lyftan haggaðist ekki.

Í hönd fór einhver skelfilegasta stund ævi minnar því að blessuð konan trompaðist alveg.

Og það sem verra var, á þessum tíma voru engir farsímar og langan tíma tók með hrópum og köllum og barsmíðum að láta vita af því hvernig komið væri.

Þessi hróp og köll og læti espuðu konuna að sjálfsögðu svo hún veinaði og grét og það þurfti ekki meiri hávaða en það. 

Að lokum kom svo húsvörður til hjálpar og af því að lyftan stóð föst á milli hæða, varð draga konuna með miklum erfiðismunum upp og út um rifu sem myndaðist þegar næstu dyr fyrir ofan lyftuna voru opnaðar.

Þetta var mikil þrautastund og konan hefur áreiðanlega verið margar vikur að jafna sig eftir þessa algerlega misheppnuðu tilraun mína til þess að lækna hana af lyftuhræðslunni.  


mbl.is Var föst í lyftu í átta daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband