ANDRI SNÆR - TIL HAMINGJU!

Andri Snær Magnason hlaut verðskulduð verðlaun í gær og mjög verðmæt fyrir umhverfisumræðuna vegna þess að maður hefur heyrt á útvarpsrásum hjá fólki, sem hringir inn, einkum á Útvarpi Sögu, að það sem ég hef haldið fram að undanförnu og er í algeru samræmi við efni þessarar tímamóta- metsölubókar sé til merkis um að ég sé að tapa glórunni.

Þar með hefur umræðan komist niður á það stig að dómnefnd íslensku bókmenntaverðlaunanna sé klikkuð, og þá væntanlega líka Jón Baldvin, Vigdís, Guðmundur Páll (verðlaunahöfundur) o.s.frv....

Hér eiga við fleyg orð Nóbelskáldsins: "Er ekki hægt að lyfta þessu upp á örlítið hærra plan?"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Við skulum óska Andra Snæ innilega til hamingju og Ómar - haltu þínu striki. Baráttukveðjur.

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 4.2.2007 kl. 04:55

2 identicon

Það hlustar enginn á Útvarp Sögu, nema Jónína Ben. Hafðu ekki áhyggjur af því.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 07:25

3 identicon

Andri Snær er klár strákur með fallega áru og á allt gott skilið.

Eiríkur Kjögx, ríkasti fátæklingurinn (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 07:33

4 identicon

Ég vildi að það væru fleiri eins og þú Ómar.  Alltof fáir af eldri kynslóðunum meðvitaðar um mikilvægi umhverfisverndunnar.

-og til hamingju Andri Snær

Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 08:33

5 identicon

Hvað á að koma í staðinn fyrir stóriðjustefnuna eða á eitthvað að koma í staðinn fyrir hana? Og getið þið boðið fram með lífeyrisþegum eða hafið þið engan áhuga á því, Ómar?

Eiríkur Kjögx, ríkasti fátæklingurinn (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 10:59

6 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Alltaf gott þegar góðum verkum er veitt mikil eftirtekt. Til hamingju ísland með Ómar og Andra og raddir þeirra.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 4.2.2007 kl. 11:24

7 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

Loftslagsskýrsla: Stofnun vill greiða fyrir gagnrýni

Bandaríska stofnunin "American Enterprise Institute " hefur boðið vísindamönnum allt að 10.000 dollara fyrir að gagnrýna skýrslu vísindamanna um loftslagsbreytingar sem birt var í París í fyrradag.

Í skýrslunni segir að ef ekki verði dregið úr mengun, útsleppi gróðurhúsalofttegunda þá muni meðalhiti á jörðinni hækka um allt að 4 gráður með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir lífríkið á jörðinni.

Stofnunin "American Enterprise Institute" tengist náið stjórn Bush forseta og hefur fengið styrk frá olíufyrirtækinu Exxon Mobil sem nemur einni miljón og 600.000 dollurum.

Þetta er á textavarpi RÚV. Það hlustar ekki nokkur maður á ruglið á útvarp Sögu. Við þurfum mun frekar að hafa áhyggjur af Bush og hans hyski. Þeir njóta ekki stuðnings nema rúmlega 20% bandaríkjamanna og örfárra frjálshyggjugaura á Íslandi  

Guðmundur Gunnarsson, 4.2.2007 kl. 11:50

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef stóriðju- og virkjanaframkvæmdunum linnir hverfa ruðningsáhrif þeirra sem hafa hamlað öllum öðrum sviðum þjóðlífsins, t.d. í frestun vegaframkvæmda og erfiðleikum útrásarfyrirtækja og ferðaþjónustu vegna sveiflna í gengiskráninngu (of hátt skráð króna) okurvaxta o.s.frv.

Þetta aukna rými má nota til vegaframkvæmda og framkvæmda vegna útrásarinnar og fyrirtækjananna og stofnananna sem risið geta.

Norðan Vatnajökuls er hægt að koma á fót stærsta og frægasta eldfjallaþjóðgarði jarðar. 220 milljörðum var eytt í Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði og aðeins brot af því til þjóðgarðsins og uppbyggingar í tengslum við hann myndi skila mun fleiri störfum og tekjum. Í núverandi frægasta eldfjallaþjóðgarð heims á Hawai koma 2,5 milljónir manna á ári.

Á Reykjanaesfjallgarðinum má gera næst frægasta og flottasta eldfjallaþjóðgarð jarðar í hlaðvarpa Reykjavíkursvæðisins.

Straumar og áherslur umhverfisverndarfólks fara ekki saman við þær hjá öldruðum og öryrkjum. Ég hygg að umhverfisverndarfólk geti nær undantekningarlaust tekið undir sjónarmið aldraðra og öryrkja en aldraðir skiptast í umhverfisverndarfólk og virkjanasinna og straumarnir liggja því ekki saman.

En þetta er nú allt í deiglunni og kannski gætu þeir aldraðir, sem vilja stöðva stóriðjuna, átt sinn fulltrúa á lista umhverfisverndarfólks. Sjáum til.  

Ómar Ragnarsson, 4.2.2007 kl. 19:56

9 Smámynd: Kristján Pétursson

Bók Andra Snæ sú besta sem ég hef lesið.Hann verðskuldaði verðlaunin.Hamingjuóskir og von um fleiri gimsteina frá honum.

Kristján Pétursson, 4.2.2007 kl. 22:59

10 identicon

Sæll Ómar

Ef marka má Guðmund Ólafsson og Illuga Gunnarsson eru þensluáhrif stóriðju ofmetin.

Og ekki veit ég hvað hefur haldið öllum þessum ferðamönnum sem þú trúir á að komi,  frá því að koma til landsins til að sjá það sem við höfum uppá að bjóða. 

2,5 milljón ferðamenn geta kostað 1,5-2 milljón af co2 vægt reiknað og þá er ótalið allt raskiðsem fylgir innanlands.  Svo það er bísna vandlifað, líka fyrir svonefnda náttúruverndarsinna.

Hófleg nýting vatns-og gufuorku til stóriðju er ekkert umhverfisslys.  Álver er langtíma fjárfesting og verður ekki stungið í tösku og hlaupið með í burtu með stuttum fyrirvara.  Er kjölfesta á skrikkjóttum tímum.

Við getum byggt grænustu og umhverfisvænustu álver í heimi.  Ferðamenn gætu haft áhuga á að sjá svoleiðis, að lokinni göngu um Reykjanesfjallgarðinn, áður en þeir skella sér í Bláa lónið. 

Kveðja Tryggvi L. Skjaldarson

Starfsmaður Alcan. 

Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 23:10

11 identicon

Framtíðarlandið Íslands er svona: Öll uppbygging og þróun á að vera á Höfuðborgarsvæðinu, þannig eignumst við okkar fyrsta alvöru stórborgarumhverfi.  Restina af landinu á að gera að einum allsherjar þjóðgarði og útivistarsvæði fyrir Höfuðborgarfólkið, m.a. á að gera Landsbyggðina að einu allsherjar byggðasafni sem einungis er opið 3 mánuði á ári.  Þannig er hægt að tryggja að engar stórframkvæmdir verði á Landsbyggðinni um alla framtíð.  Forsvarsmenn Framtíðarlandsins ætla þannig að taka landsbyggðina í gíslingu með stofnum þjóðgarða.  Þegar fólk hefur flosnað upp á landsbyggðinni, geta nýríkir höfuðborgarbúar keypt húsin þeirra á gjafverði og notað þau sem frístundarhús eða selt þau til annarra nýríkra manna á uppsprengdu verði.

Þetta eru hin raunverulegu áform Framtíðarlandsins um Ísland, lagskipt þjóð; ríkir höfuðborgarbúar vs. fátækir landsbyggðamenn. 

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 13:56

12 identicon

Vilja bændur stórvirkjanir og raflínur þvers og kruss í sínum byggðarlögum og ætla þeir að vinna í álverunum, Örn? Vildu þeir það fyrir austan? Ég held ekki. Það er nóga vinnu að hafa í frystihúsunum í sjávarplássum allt í kringum landið og hingað hafa flust þúsundir Pólverja til að vinna í þeim. Nítján milljarðar fara í sauðfjárræktina á næstu árum og verið er að bæta vegi og gera jarðgöng fyrir marga milljarða á ári. Samt er kvartað, enda enginn bóndi nema hann kunni að barma sér.

Eiríkur Kjögx, ríkasti fátæklingurinn (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 18:51

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Órn Jónasson, þessu er alveg öfugt farið. Draumsýn stóriðjusinna er að skipta þjóðinni í tvennt: Annars vegar landsbyggðina þar sem burðarásinn yrðu stórverksmiðjur og hins vegar suðvesturhornið sem fleytti rjómann ofan af miklu betur launuðum störfum sem sprotafyrirtækin, útrásarfyrirtækin, þekkingariðnaðurinn og ferðaþjónustan gefa.

Nú er mest rætt um álver á Húsavík með tilheyrandi stórvirkjunum fyrir norðan og norðaustan Mývatn sem hugsanlega munu valda fimmfalt meiri umhverfisröskun en djúpboranir gætu gert eftir 6-15 ár. Frá Vatnajökli norður undir Húsavík væri hægt að setja á stofn stærsta, besta og frægasta eldfjallaþjóðgarð heims.

Minni og ekki eins merkilegur þjóðgarður á Hawai fær 2,5 milljónir gesta á ári. Nú er  nýbúið að eyða 220 milljörðum króna í að skapa 450 störf á Reyðarfirði og er hvert starf 50 sinnum dýrara en nýtt starf í Leifsstöð.

Hvernig væri nú að athuga hvort með broti af þessari óheyrilegu fjárfestingu sé hægt að setja á stofn eldfjallaþjóðgarð í Þingeyjarsýslum sem krefðist fjölbreyttrar menntunar þeirra sem þar fengju störf, kunnáttu í tungumálum, jarðfræði, sögu og rekstri farartækja og þjónustu.

Það hefur sýnt sig í norrænum jaðarbyggðum að þeim byggðum vegnar best þar sem störf og menning eru sem fjölbreyttust, líkt og að á skipi þarf skipshöfn með hásetum, bátsmanni, kokki, léttadreng, stýrimönnum og skipstjóra.

Ruðningsáhrif, sveiflur og þensla vegna stóriðju- og álversframkvæmdanna hafa haldið aftur af samgönguframkvæmdum og skapað vandræði fyrir þá íslenska starfsemi sem mest getur gefið íslensku þjóðabúi í tekjur.

Stefna Framtíðarlandsins gerir ráð fyrir stórauknum samgönguframkvæmdum og eflingu annarrar starfsemi á landsbyggðinni en stóriðju sem getur hleypt lífi í kjör fólksins.

Dæmi um það er stórverksmiðjubærinn Rjukan í Noregi þar sem allt var að drabbast niður fyrir átta árum þegar ég kom þangað en allt er á uppleið núna, jafnvel frekar á veturnar en sumrin eftir að farið var í að nýta möguleikana til útivistar og ferðamennsku sem umhverfið gefur tækifæri til.  

Ómar Ragnarsson, 5.2.2007 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband