Það var gert grín að manni.

Farsíminn var dýr, níðþungur og  ómeðfærilegur hlunkur þegar hann kom fyrst á markaðinn hér á landi.

Ég féll samt gersamlega fyrir þessari nýju og dýru tækni og lét mig hafa það að kaupa einn af þeim allra fyrstu og rogaðist með hann hvert sem ég fór svo að maður varð næstum því skakkur í bakinu og bakveikur.

Mikið grín var gert að manni fyrir þessa sérviskulegu nýjunagirni og ég tók að sjálfsögðu þátt í því gríni.

Fyrir mig, sem var mikið á ferð og flugi, ekki síst flugi, var þetta hins vegar bylting og ekki síður mikilsverð tækni heldur en flugið sjálft.

Þar að auki hafði ég sérhæft mig í því að vera tiltækur til fréttaöflunar og flugs allan sólarhringinn hvar sem væri og held enn þessum sið.

Upphaflega númerið mitt valdi ég sjálfur, 852-1414.  VIð náðum vel saman, ég og þáverandi póst- og símamálastjóri og gerðum bæði grín að símadellunni og því að vera báðir nauðasköllóttir.  

Seinna varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að eignast og vígja fyrsta "frjálsa" símanúmerið þegar samkeppni hófst á símamarkaði og frelsi var innleitt í því í stað ríkiseinokunar, 699-1414 hjá fyritæki sem hefur haft 1414 sem upplýsinganúmer.

Um tíma hengu tvær stórar ljósmyndir uppi á vegg í aðalstöðvum Nokia í Finnlandi, annars vegar af Michael Gorbasjof að tala í farsímann, en hins vegar af mér að tala í minn síma uppi á Esjunni með FRÚna strandaða í urð í baksýn eftir nauðlendingu þar.

Myndin af Gorba þótti sýna að þetta væri að ryðja sér til rúms úr því að sjálfur aðalkominn væri með svona síma, en myndin af mér þótti áreiðanlega neyðarleg og fyndin, rétt eins og flestum fannst sams konar þar sem hún var uppi á vegg í Hátækni í Síðumúla.

Það var enn gert grín að manni.

Í kjölfarið komu fyrstu númerin hjá enn nýjum samkeppnisfyrirtækjum, 8-200-600 og 8-200-666 og einnig 892-1414.  

Ég hygg að farsíminn hafi ekki verið síðri tímamót í tækni fyrir mannkynið en fyrsti síminn var hátt í öld fyrr.  

Þess vegna gleður það mig mjög hvernig þetta tákn sérvisku minnar hefur þróast og er enn að þróast.


mbl.is Snjallsíminn ómissandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Enda varla annað hægt en að gera grín að manni sem nennti burðast með heila símstöð með sér hvert sem hann fór.

Hvað var nún þung Ómar þegar verst lét, 20 kg ?

hilmar jónsson, 7.5.2012 kl. 18:54

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nei, ætli þessi fyrsta símstöð hafi ekki frekar verið nálægt tíu kílóum.  En þegar er burðast með þetta daginn út og daginn inn með skökku átaki á hrygginn verðu margfeldið af klukkustundunum og þunganum býsna hátt.

Ómar Ragnarsson, 7.5.2012 kl. 21:28

3 identicon

´´Sumir,,gleymdu símanum þá oft á toppi bíls síns og þó að hann dytti niður að þá svínvirkaði hann.!!

Númi (IP-tala skráð) 7.5.2012 kl. 23:49

4 Smámynd: Gísli Gíslason

Orðið sími er sér íslenskt og ekki veit ég upprunan á orðinu en gamall enskukennari, sem reyndar var breti, var með eftirfarandi kenningu.

Þegar síminn kom fyrst til Seyðisfjarðar þá var fyrsta símtalið á milli Skotlands og Seyðisfjarðar, skoti öðrum meginn á línunni og íslendingur hinum meginn. Þegar þeir voru búnir að heilsast þá átti skotinn að hafa sagt. "you can hear me but you cannot see me" og íslendingurinn skildi þetta ekki alveg en tautaði "see me" eða sí-mi með íslenskum rithætti og úr varð að hann sagði við nærstadda. "Þetta er sími" og benti á tólið sem hann talaði í. Og þannig varð þetta íslenska orð til, skv kenningu míns gamla og ágæta kennara.

Gísli Gíslason, 8.5.2012 kl. 11:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband